Í byggingu 303 er bara eitt klósett. Og til þess að komast þangað þarf maður að vaða eld og brennistein, því leiðin er löng og hlykkjótt. Svo eru líka draugar sem fela sig inni á því, sem gerir leiðina jafnvel enn lengri. Þetta er frekar ömurlegt, nema hvað að í gær gerði ég stórkostlega uppgötvun. Ég prófaði að opna leyndardómsfullu dyrnar á einum vegg tölvuversins og viti menn, þar var annað klósett. Og ofan á allt saman, var líka rúm í herberginu við hliðina á því. Þannig að nú á ég svefnaðstöðu hérna í skólanum og einkakamar - sem er ekki amalegt.
Reyndar fann ég annað svona töfraherbergi fyrir nokkrum mánuðum. Það var nánast tómt, fyrir utan einhverja stóla, blaðarekka og rúm. Ég var pínu þreyttur og fór úr skónum og ákvað að fá mér smá lúr. Eftir dágóða stund varð ég var við raddir. Ég ákvað að opna ekki augun og hlusta á aðkomumennina. Þeir voru a.m.k. fjórir og ég gat ekki betur heyrt en að þeir væru að tala um mig. Ég þagði þunnu hljóði og þóttist áfram vera sofandi. Loksins, þegar ég heyrði að þeir sneru baki í mig, reis ég hljóðlega upp, klæddi mig í skóna og laumaðist út úr herberginu án frekari málalenginga. Ég hef ekki hugmynd um hvaða menn þetta voru, en svona, ef grunur minn reynist réttur, að þá hefur þetta vafalaust verið danska konungsfjölskyldan.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home