þriðjudagur

Sæll Gummi, takk fyrir síðast

Ég hef verið að brjóta heilann um kenningu þína um samfélag stólpípunnar og hvernig það endurspeglar samfélag kristinna manna.  Ég verð að segja, að mér finnst þær ekki sannfærandi.  Mæli alla vega með því að þú sleppir Moggagreininni, eða breytir alla vega fyrirsögninni í eitthvað annað en Kristindómurinn á tímum stólpípunnar - trúarbrögð á krossgötum?

Kveðja, Jói

miðvikudagur

Hvert skal halda?

Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að gera við þessa síðu.  Hún er svo gott sem dauð, en ég vil samt ekki lýsa yfir ósigri.  Ég er að hugsa um að breyta henni í prívatsíðu fyrir eina lesandann, Guðmund Jón.  Mætti líta á hana sem eins konar framlengingu af samtölum okkar og bréfskriftum.

Ég held að það sé málið.

mánudagur

Tvífarar

Ég rakst eitt sinn á tvífara minn á kaffihúsi úti í Danmörku. Hann stóð þarna, linur í baki, með hendur í vösum og beið þess að vera afgreiddur. Nákvæmlega jafnstór, grannvaxinn og dökkhærður. Grænn jakkinn og pokaleg húfan rímaði fullkomlega við einkennisklæðnað minn það misserið. Að einu leyti virtumst við þó vera ólíkir, því tilsýndar beið hans fönguleg yngismær, á meðan tannlaus gömul kona, sem ég hafði pikkað upp í sundhöllinni dönsku, sat til borðs með mér. 

Hvað er ég að gera rangt? hugsaði ég með mér. Við erum augljóslega með sömu upphafshönd, hvernig fór hann að því að spila svona vel úr sinni?

Gildir hér hið forkveðna, um misskipti á mannanna láni Eða hefur hann eitthvað sem mig skortir? Er hann kannski eins og Harvey Dent? Fullkominn. – Sjálfumglaða fífl, hugsaði ég með mér og gnísti tönnum.

Þankar mínir voru rofnir skyndilega. Hið ljósa man greip óvænt í öxl mína og sagði „Skal vi gå nu?“ Án þess að hugsa, klæddi ég mig í jakkann og fylgdi henni út. Við gengum meðfram dönsku síkjunum og röbbuðum um pláneturnar í sólkerfi okkar og hvort að það væru geimverur á þeim.  Hún tók ekki eftir skiptunum.

Þegar ég skilaði henni heim, tilkynnti hún mér þó að sambandi okkar væri lokið. Hún hefði ekki áttað sig á því fyrr en nú, hvað ég væri í raun glataður. Ég ætti aldrei að tala við hana aftur.

Hvað var málið með hana?

Jæja, hvað um það. Ég ætlaði að tína til nokkra tvífara, sem aðrir hafa bendlað mig við.


Paul McCartney
Ég hef oftar en einu sinni heyrt þetta. Fyrst þegar ég var sautján ára og nú síðast fyrir nokkrum árum, þegar jakkafatablók gekk upp að mér á knæpu og líkti mér saman við Macca og fór síðan jafnóðum.

Harry Potter

Ellert líkti mér einhvern tímann við Harry Potter og skal hann brenna í helvíti fyrir það, því að ef einhver er meiri lúði en Macca, er það Harry Potter.

Viggó viðutan

Palli líkti mér einhvern tímann við Viggó viðutan. Mér þykir pínu vænt um þann samanburð, sérstaklega vegna þess að mér finnst Viggó svo skemmtilegur.

Edgar Allan Poe

Hildur Steinþórs sendi mér einhvern tímann myndina hér til hliðar og lýsti því yfir, að við værum alveg eins. Ég ætla ekki að taka svo djúpt í árinni, en gat þó séð svipinn með okkur.


Last King of Scotland strákurinn

Mér var einhvern tímann líkt við þennan gæja. Mjög ánægður með það, enda er hann, eins og ég, sjóðandi heitur gæi.

Aðrir tvífarar:  Hössi í Quarashi og Vilhjálmur Goði (húrra fyrir því).  Við þennan lista má endilega bæta í kommentakerfið.

föstudagur

Skuldir

Mikið er að tala um að niðurgreiða eigi skuldir hins og þessa.  Framsóknarmenn vilja gefa 20% afslátt jafnt á alla skuldara.   Niðurgreiðsla af þessu tagi myndi falla á ríkissjóð og dreifast að lokum á skattgreiðendur.  Gagnvart skuldlausum er þetta ekki sanngjarnt. 
Dæmi:
Jói pípari er 28 ára og skuldar 40 milljónir.  Hann eyddi úr hófi fram; keypti sér stórt hús og sportbíl fyrir peninginn.  Framsóknarmenn vilja breyta þessari skuld í 32 milljónir, þannig myndu 8 milljónir falla á ríkissjóð. Þeir vilja m.ö.o. gefa Jóa pípara 8 milljónir.
Gummi Ben skuldar hins vegar ekki neitt.  Hann var skynsamur, tók engin lán og lifði knappt.  Hann fær ekki krónu frá framsóknarmönnum (en hefði þó ekkert á móti því að fá frá þeim 8 milljónir).
Báðir greiða sömu upphæð í skatt.
Hvers vegna í veröldinni ætti sá ráðvandi maður, Gummi Ben, að greiða niður skuldir þeirra sem eyddu úr hófi fram.  Ekki bjó hann í stóra húsinu.  Ekki fékk hann að keyra sportbílinn.  - En nú þarf hann skyndilega að greiða niður húsið og sportbílinn hans Jóa.  Það er ekki sanngjarnt.
Réttara væri, að skuldarar greiði niður skuldir sínar sjálfir.  Jói gæti t.d. minnkað við sig, selt bílinn og húsið og leigt pínulitla kytru á Týsgötunni, eins og Gummi gerði.  Skuldin sem eftir stæði myndi dreifast yfir langan tíma.  Og ef hann gæti ekki staðið í skilum, myndi ríkið að sjálfsögðu sjá honum aumur með sínum aðferðum.
Þetta er auðvitað sárt.  Menn sem hafa lifað eins og kóngar eiga erfitt með að kyngja Týsgötunni.  En áttu þeir hvort eð er nokkuð í gamla lífstílnum?  Er Jói pípari ekki bara kominn á þann stað í lífinu, sem eðlilegt er að 28 ára menn séu á?  Ég held það.

þriðjudagur

Svar við myndagátu:

1. Jóhanna situr í forsætisráðherrastólnum - hahaha, hverju finna þeir upp á næst!
2. Það að er píanó í herberginu.
3. Katrín Jakobsdóttir er í fötum.
4. Kolbrún Halldórsdóttir er ekki í kraftgalla.
5. Líkamsstelling Gylfa er fullkomlega óviðeigandi.

Sá sem komst næst þessu, var Lúlli Baukur.  Hann fær ókeypis í bíó.  Til hamingju með það, Lúlli minn.

laugardagur

Áherslubreyting

Stundum fæ ég það á tilfinninguna, að lesendur þessarar síðu séu verr gefnir en almennt gengur og gerist. Þeir virðast oft ekkert botna í stórsnjöllum vangaveltum mínum. Ég sé þá fyrir mér, sljóa til augnanna, lesa línu eftir línu með puttann á skjánum til að tapa ekki þræðinum. Endrum og sinnum grípa þeir í orðabók til að fletta upp á flóknustu orðunum, en það er til lítils gagns, enda hefur stafrófið alltaf vafist fyrir þeim.

Þegar þetta rann upp fyrir mér, ákvað ég að hugsa dæmið upp á nýtt. Ég verð að miða skrifin við vitsmunastig lesenda þessarar síðu. Setningarnar verða hér eftir stuttar. Orðin líka. Löng orð (fleiri en þrjú atkvæði), verða hlutuð í sundur með þankastriki. Áhersluatriði verða feitletruð. Litir verða óspart notaði til að gera textann líflegan. Upphrópanir verða ritaðar með hástöfun og upphrópunarmerkjum fjölgað úr einu í nokkur.

Það sem skiptir mestu máli, er að breyta áherslunni. Hér eftir verða efnistökin ævinlega léttvæg. Líklega er best að helga síðuna dýrum, þá með sérstaka áherslu á hunda, ketti og páfagauka. Myndum mun fjölga talsvert.

Til þess að ákvarða hve djúpt ég þarf að kafa, langar mig að leggja fyrir lesendur þessarar síðu gáfnapróf.

Finnur þú fimm villur?

Og ennfremur er hér greindarvísitölupróf [1] sem ég myndi vilja að lesendur tækju. Niðurstöðum skal skila í kommentakerfið.


[1]
Ath! Að prófi loknu biðja þeir um email addressu og falast síðan eftir greiðslukortanúmerinu.  Ekki gefa það upp. Niðurstöðurnar fáiði síðan sendar til ykkar í tölvupósti

fimmtudagur

Stutt færsla

DV ætlar að skrifa um Woody Allen síðuna í dag eða á morgun. Allir að kíkja á það.

þriðjudagur

Póker

Ég er alltaf að hugsa um póker.  Í lestinni á leiðinni niður í bæ marinera ég hugann upp úr heppilegustu nálguninni á hinar og þessar ,,hendur", velti fyrir mér líkunum og hvort að einhver sálfræði sé til staðar.  Eftir nokkra klukkutíma hrekk ég aftur inn í raunheima, örþreyttur af áreynslu.

Stundum gerist það að ég næ ekki að stilla mig úr póker-gírnum.  Þá stend ég sjálfan mig að því, að vega og meta hin og þessi atriði á mælikvarða sem bara er notaður í póker.  Umhverfið verður lævi blandið og ég tortrygginn eftir því.  Þá velti ég mikið fyrir mér sambandi umbúða og innihalds.  - Ósköp er þessi maður rogginn, ætli það sé innistæða fyrir því?  Eða er hann kannski bara að blöffa?  Svo fer heilmikill tími í að greina hann.

Þrír möguleikar.  Hann er með góða hönd, tvo kónga.  Það er völlur á kappanum, vegna þess að hann er aðalmaðurinn og um það er ekki deilt.  Annar möguleiki gæti verið, að hann sé í grunninn til með slæma hönd, 5 og 9, en nái að blöffa sig í bílstjórasætið.  Það er svosem í lagi á meðan enginn ,,sér hann" (þ.e. sér í gegn um hann).  Svo er það þriðji möguleikinn:  Maðurinn er með frekar slæma hönd, en heldur að hún sé góð.  Gæti verið samlita 7 og 8.  Stundum gengur hún upp, en þegar á reynir tapar hann eiginlega alltaf.

Svo er það náttúrulega aðalspurningin, eru mín eigin spil betri en þessara sjálfumglöðu spraðabassa?

Hér var ég búinn að skrifa upp heilmikið dæmi, þar sem Davíð og Jóhanna voru greind í upphafshandir og borðföstu spilin táknuðu Seðlabankadeiluna.  En ég var búinn að ákveða að hætta að skrifa um pólitík, þannig að ég tók þetta út.