þriðjudagur

Ég og Job erum eins, svona hérumbil

Í Biblíunni segir frá því þegar Satan kemur fyrir Himnaföður, eftir að hafa verið á ferðalagi um heim manna. Guð spyr út í Job, sem hann segir vera ráðvandan, réttlátan, guðhræddan og grandvaran.
Satan segir trúna ekki einlæga, og að Job muni láta af henni ef hann mæti mótlæti. Þetta fer þannig, að til þess að sanna mál sitt, drepur Guð fjölskyldu Jobs og búfénað.

Job heldur sínu jafnaðargeði og segir eitthvað á þá lund, að ef þetta er það sem Guð vill, sé þetta honum líklega fyrir bestu.

Satan freistar

Satan heldur áfram að nauða í Guði og segir að þetta hafi ekki verið nóg. Á endanum gefur Guð eftir og lætur Job fá svo skæða kýlapest að hann verður óþekkjanlegur.

Enn heldur Job sínu jafnaðargeði og færir rök fyrir því, að þetta sé honum fyrir bestu.

Guði líkar þessi trúfesta og gerir vel við hann það sem eftir lifir, öll 140 árin.


Tilgangurinn með sögunni? Erfitt að segja. Kannski sá, að það er erfitt fyrir okkur að treysta því að Guð taki réttar ákvarðanir.


Ég er svoldið eins og Job þessa dagana. Alsettur kaunum og roða, vegna þess að Guð er að reyna sanna eitthvað fyrir Satan. Það eða ofnæmi. - 78 útbrot fyrir ofan kúluna á vinstri handlegg.

mánudagur

Upphafið á fallegum vinskap?

Þó að ég hafi ekki búið hér lengi, hef ég háð þónokkrar hildir við manninn í næstu íbúð. Þær fara þannig fram:

Jói: Talar í netsímann. Á höfðinu eru heyrnatól, þannig að hann heyrir ekki hversu hátt honum liggur rómurinn.
Granni: Bankar þungt og ákaf í vegginn. 40 – 70 sekúndur líða.
Jói: Bankar þungt á móti eða byrstir sig á annan hátt.
Granni: Þegir þunnu hljóði, á meðan JB klárar símtalið.
Granni (eftir miðnætti): Byrjar að ryksuga íbúðina eða blása á sér hárið.
Jói: Þegir þunnu hljóði, en þó aðallega vegna þess að þetta truflar hann ekki neitt.

Svona hafði hver og einn einasti dagur liðið, þangað til í fyrradag. Þá vaknaði ég um hádegisbilið og setti Chopin á fóninn (en ég er á leiðinni á píanótónleika með verkum hans seinna í vikunni). Nokkrar klukkustundir líða og síðasti Chopin-diskurinn, af tíu, rennur sitt skeið. Ekkert heyrist í grannanum. Undarlegt.

Skýringin kom í gær: Ég ligg upp í rúmi og heyri hvernig nágranni minn byrja að glamra á píanóið. En hvílík innlifun! Og hvílík snilld! Öll aðaltónverk Chopins renna fallega úr fingurgómunum hans á næsta klukkutímanum. Og þegar hann hafði lokið dagskránni, langði mig að standa upp og klappa. En ég gerði það ekki. Það hefði verið of skrítið.

Nú er komin upp furðuleg staða. Granninn hefur ekkert bankað í dag og ég held að hann muni ekki gera það framar. Auðmýkt hefur leyst ruddaskapinn af hólmi. Hann veit, að ég er Chopin-aðdáandi og þeir fá sérmeðferð. - Ég ætti kannski að bjóða honum með á tónleikana? Það gæti markað upphafið að fallegum vinskap.

föstudagur

Um forsetakappræðurnar

Í nótt dreymdi mig furðulega. Tveir páfagaukar sátu á sitt hvorri öxlinni og hvísluðu einhverju í eyru mín. Ég man ekki hvað það var, en ég man hins vegar að ég áleit þessa fugla vera vini mína. Svo skyndilega taka þeir upp á því að narta í
bartana svarta. Þetta kitlaði í fyrstu, en svo áttaði ég mig á því að þeir voru að borða bartanna. Um þetta leyti vaknaði ég, öskrandi.

En nóg um drauma, þeir eru fyrir stelpur. Ég ætlaði að skrifa um kappræðurnar á morgun.

Mér finnst tillaga John McCain, að fresta kappræðunum, áhugaverð. Ástæðan sem hann gaf, var að aðstæður á peningamörkuðum væru mjög eldfimar um þessar mundir og því ekki rétt fyrir kandídatana að gaspra mikið um þessi mál.

En, bíddu við. Þetta hljómar ekki rétt. Ég myndi halda að það væri gott fyrir fjárfesta að vita nákvæmlega hvaða skoðun og stefnu forsetaframbjóðendurnir hafa. Þannig stroka þeir út óvissu varðandi framtíðina, sem annars gæti skaðað fjármálamarkaði mikið.

Ég held að þetta sé bara fyrirsláttur hjá McCain. Hann er ekki nógu vel undirbúinn fyrir erfiðar spurningar sem tengjast efnahagsmálum. Erfið spurning gæti gert út af við hann. Hann veit það. Og hann veit líka, að kappræðurnar munu hafa slagsíðu efnahags. Auðvitað. Annað kemur ekki til greina á þessum tímum.

Nú man ég ekki hvar ég las það, mig minnti að það hefði verið í Mogganum, en það hafði að gera með forsetafund McCain og Obama. Á þessum fundi ætlaði Bush að rabba við þá um efnahagsmálin og fara fram á að þeir ræði ekki um þessi eldfimu mál í kappræðunum. En heppilegt fyrir McCain.

Annars held ég að Obama og félagar séu búnir að fatta þetta. Ég held að kappræðurnar á morgun verði eins og hnefaleikakeppni, þar sem annar boxarinn er rifbeinsbrotinn. Hinn boxarinn dælir að sjálfsögðu út þungum rifbeins-höggum. Það verður athyglisvert að sjá hvernig Obama tæklar málið.

Guðmundur Jón kom með ágætan punkt í dag: McCain var stríðsfangi í fimm ár og pyndaður sem slíkur. Myndi stórt fyrirtæki treysta manni, með þess háttar ör á sálinni, fyrir rekstrinum? Það myndi alla vega hugsa sig tvisvar um.

Og svo er alltaf talað um hann sem stríðshetju. Hvaða rugl er það? Hann gerði ekkert, nema láta óvininn ná sér. Það er ekki afrek. Það er klúður.

Þrír linkar að lokum:

Mynd sem mér fannst svo fyndin að ég grenjaði.
Próf sem kannar hversu sleipur þú er að greina liti. Ég fékk 78 stig.
Kappræður á milli varaforsetaefnanna, líklega 1988. Dan Quale ber sig saman við JFK og uppsker diss.

þriðjudagur

Fyrstu dagarnir í Berlín

Nú er ég búinn að vera í Berlín í eina viku. Langar til þess að rita nokkrar línur um borgina. Ég skipti hugrenningunum upp í nokkra flokka til þess að auðvelda frásögnina.

Fyrstu kynni
Ég vissi eiginlega ekkert hvað tæki við, þegar ég flutti út. Til öryggis, hafði ég meðferðis nýjustu bók Þorgríms Þráinssonar, Hvernig gerirðu konuna þína hamingjusama, ef ske kynni að örlögin skyldu leiða mig á bókbrennu. En svo var ekki, því miður. Ég kveikti engu að síður í bókinni, en það er önnur saga.

Fyrstu andartökin ollu vonbrigðum. Berlín var kaldari en ég hafði gert ráð fyrir. Hafði ég tekið ranga ákvörðun með því að flytja út? Nokkur andartök liðu í angist og pínu. Þá skyndilega stoppaði gullfalleg stelpa hjólið sitt og býðst til að segja mér til vegar. Ég tók Berlín í sátt á staðnum.

Þetta atvik finnst mér samt lýsa Þjóðverjum nokkuð vel. Þeir eru allir af vilja gerðir og vinalegir.

Húsnæði
Fyrstu fjóra dagana var ég í góðu yfirlæti hjá Stebba og Rut og litla skæruliðanum þeirra, honum Úlfi. Á fimmta degi hentu þau mér öfugum út um gluggann, en þá var ég búinn að borða allan matinn úr ísskápnum þeirra og eyða öllu sparifénu þeirra í kaup á leikfangaþyrlum handa sjálfum mér.

Næst (fyrir þremur dögum) flutti ég inn til ~35 ára kólombískrar listakonu. Voða indæl og þægileg í umgengni. Íbúðin er á 5. hæð í blokk og upp í hana liggjur 66 þrepa hringstigi, þ.e. hann akkúrat nógu langur til þess að ringla mann.

Fyrsta daginn minn í íbúðinni ræddum við fyrirkomulagið. Eina vikuna þrífur hún og ég þá næstu. – Hljómaði sanngjarnt, ég samþykkti. Næst benti hún mér réttilega á, að hún hefði sjálf þrifið íbúðina fyrir viku síðan og því ætti ég að þrífa íbúðina næst. Helst á morgun. Nú stóð aðeins á samþykkinu hjá mér og ég held að hún hafi skynjað það, því að, af mikilli fórnfýsi, bauðst hún til að taka að sér næstu þrif líka. Ég þakkaði henni fyrir, auðmjúkur á brá og brún, en hugsaði: Ísland 1 – Kólombía 0.

Annars líst mér ágætlega á þessa íbúð. Hún er í góðu hverfi og nálægt greiðum samgöngum.

Næstu skref
Furðulega einföld sannindi ljómuðust upp fyrir mér um daginn: Lykilinn að þjóðfélaginu, er tungumálið. Ef ég læri þýsku, opnast allar dyr. Það er ekki flóknara en það. Þess vegna er ég búinn að skrá mig í þýskunám hérna úti, fjórir tímar á dag í tíu vikur. Þetta er átakanlega langbesti leikurinn í stöðunni.

Svo er ég með fleiri járn í eldinum, sem ég mun segja frá á næstunni. Ég ætlaði að hafa þetta aðeins lengra, en núna er kominn háttatími.

mánudagur

Ætla að skrifa smá samantekt um Berlín seinna í dag. Það verður komið á morgun.