föstudagur



Líf mitt er fullt af gömlum konum. Ein þeirra sefur undir rúminu mínu, önnur býr í næsta húsi og þriðja er á fjórum fótum í stofunni, en hana nota ég fyrir borð. Allar eiga þær það sameiginlegt að vera yndislegar manneskjur og mér finnst ég vera heppinn að hafa kynnst þeim. Fyrir hálfu ári skrifaði ég ágæta smásögu sem lýsir vel hug mínu til eldri kvenna. En sagan hét einmitt Eldri konur og hana má nálgast
hér. Ég mæli með því að fólk prenti hana út og lesi hana rétt fyrir svefninn. Hún er mjög góð. Svo getur fólk líka lesið hana hvort fyrir annað. Eða sungið hana hvort fyrir annað. Eða sungið hana saman í kór. Já, möguleikarnir eru endalausir. En fyrsta skrefið er samt að prenta. Prenta.

miðvikudagur



Um daginn endurnýjaði ég kynni mín við Glám og Skrám [1]. Ég veit ekki hvort ég sé eitthvað ruglaður, en mér fannst þeir bæði mjög fyndnir og svo fannst mér tónlistin líka vera góð. Mjög góð. Í alvöru. Ég mæli með þeim.

Fjaðrafokið í kring um Baugsmiðlana virðist vera að sjatna. Niðurlæging þeirra er alger og ég held að þeir skammist sín bara hálfpartinn. Og það mega þeir líka alveg gera. Ég las það á mbl.is að Baugur vill opinbera rannsókn. Já, hvers vegna ekki? Segi ég. Ef hægt er að smala saman hlutlausum aðilum, er þá ekki tilvalið að fara bara almennilega í saumana á þessu máli. Í tilkynningunni svara þeir líka ásökunum. Mér fannst það frekar þunnt og bara hálf asnalegt. Þeir snúa meðal annars út úr, og segja að Mogginn sé að gagnrýna réttarfar í Bandaríkjunum með því að setja út á einkaspæjarann [2]. Hvílík della. Og hvar eru þungavigtarmennirnir núna? Þeir sem stukku fram á sjónarsviðið um helgina og fögnuðu frumkvæði Fréttablaðsins. Af hverju þegja þeir? Og hvar er vindbelgurinn Ágúst Ólafur? Er hann ennþá í stuði?

Baugsmiðlarnir munu, held ég, smám saman hljóðna. Í fréttum stöðvar 2 var augljóst hvert átti að beina umræðunni. Jónína vildi Jeppa var fyrsta frétt. Íslendingar leiðir á þessu máli önnur frétt. Enginn vandi að komast í tölvupóst hjá öðrum þriðja frétt, en hún er líklega gerð til þess að dreifa umræðunni frá því að um innanhúsmál sé að ræða hjá OgVodafone (annars er það bara ágiskun, þeir hafa örugglega hreinan skjöld) [3].

Ég keypti mér buxur í dag. Einhver myndi segja að ég væri með buxurnar á hælunum þessa dagana. Einhver annar myndi segja að ég væri með hjartað í buxunum. Enn einhver myndi segja að ég væri með hjartað í buxunum og buxurnar á hælunum. Ég klæddi mig í þær í búðinni og gekk heim. Á leiðinni var brosað svo fallega til mín. Það veit á gott. Því eins og segir í gamalli skruddu: Broslaus brók, veit á vá.

Annars er ég búinn að vera sloj undanfarna daga og ekki skilað miklu í vinnu (en hins vegar hef ég fylgst alveg helling með íslenskum fréttum). Í dag varð ég öllu hressari og byrjaði eiginlega upp á nýtt. Maður á bara að hvíla sig þegar maður er veikur, allt sem maður skrifar þá er drasl.

Jæja, þetta er ágætt. Ætla að kyssa gömlu konuna sem sefur undir rúminu mínu góða nótt og detta í háttinn.


[1]
Fyrir þá sem ekki þekkja Glám og Skrám, eru þeir aðalsöguhetjurnar á barnaplötu sem var gefin út líklega einhvern tímann um 1986.

[2]
Ég væri til í að vera einkaspæjari.

[3]
Svo var reyndar frétt um brotthvarf Davíðs Oddsonar úr stjórnmálum. Og sagt að hann hafði kvatt með fjölmiðlafrumvarpið á vörunum, og þarmeð ýjað að því að það hafi haft eitthvað með brotthvarf hans að gera. Frekar ósmekklegt, svona í ljósi þess að þetta á bara að vera létt frétt. Það hefði ekki kostað þá neitt að segja bara að hann hafi hætt með bros á vör. Ég meina, hann var forsætisráðherra í 14 ár. Er ekki rétt að klappa honum aðeins á bakið fyrir það?

þriðjudagur



Skrímsli. Þetta orð. Skrímsli. Lýsir einhverjum alveg voðalegum óskapnaði. Nánari einkenni þeirra eru samt óljós. Hvað veit maður um persónuleika skrímsla? Frekar lítið. Samt veit maður að innræti þeirra er vont. Ásetningurinn er líka vondur, en hann er að hræða aðra. Hræða aðra með viðbjóði sínum og óhugnaði. Böö... ég er skrííímsli! Sérðu ekki hvað ég er ljótt? Ertu ekki hræddur? Segja þau og gretta sig. En... Æ, ég veit ekki. Ég skil þau ekki alveg. Jú, þau hræða, en hvers vegna? Hvað vakir eiginlega fyrir þeim? Hver er þeirra akkur?

Sum skrímsli fela sig undir rúmum (innsk: hvernig nenna þau því?). Og þegar tekur að dimma fara þau á kreik. Þá skríða þau undan rúminu í þeim tilgangi að hræða. Böö... ég er skrííímsli! Sérðu ekki hvað ég er ljótt? Ertu ekki hræddur? - Æ, ég veit ekki. Ég get ekki sagt að ég sé neitt svakalega hræddur. Maður veit alveg hvar maður hefur þau. Mér þætti það óþægilegra, ef einhver maður sem ég þekkti ekki neitt svæfi undir rúminu mínu. Eða einhver gömul kona. Þá fyrst liði mér illa. Hver er ásetningur þeirra? Og af hverju gömul kona? Myndi ég spyrja mig í hvívetna. Ef þau eru nógu klikkuð til þess að sofa undir rúminu mínu, get ég ekkert sagt til um hvernig þau hugsa.


Jæja. Nóg af Baugi.

Einu sinni hélt ég að ég væri búinn að finna upp andþyngdaraflsvél. Hún var frekar kúl. Egill vinur minn varð fyrir barðinu á því að hlusta að ,,lausnina". Hann hafði litla trú á þessu. Ég man ekki nákvæmlega hvernig lausnin var, en hún innihélt þrjár gjarðir, sem raðað var upp í þríhyrning, og snerust á fullri ferð. En, já. Það var aldrei lagt í prótótýpuna, þannig að enn um sinn þarf heimsbyggðin að lúta reglum þyngdaraflsins.

mánudagur



Það er allt að verða vitlaust á Íslandi! Ritstjóri Morgunblaðsins
svarar fyrir sig í Mogganum í dag. Auðvitað er hann í svakalegri stöðu til að svara fyrir sig. Hvernig datt Fréttablaðinu í hug að stela og birta tölvupósta hjá þessum manni? Á sama hátt og þjófstolið efni berst upp á borð hjá Fréttablaðinu, berst það líka upp á borð hjá Mogganum. Hann hlýtur að eiga fulla kistu af óþægilegum sögum af Baugsfeðgum. Hvað eru þeir að spá?

Þetta svar er svo svakalegt, að ég hugsa að hér eftir steinhaldi Fréttablaðið kjafti og skammist sín. Eða, sem gæti líka gerst, að það reyni að svara Styrmi með ennfrekari rógburði og undirstiki þarmeð ómerkingsháttinn sem hefur verið þar í gangi undanfarna daga.

Ég skil bara ekkert í ritstjórn Fréttablaðsins að sökkva sér niður á þetta plan. Annað hvort hafa þeir neyðst til þess að birta þetta efni, vegna þess að eigendurnir hafa skipað þeim að gera það. Eða hafa bara svona ógurlega slaka dómgreind. Ég gæti trúað hvoru tveggja.

[Svo þarf ég að fara að læra. Er ekki enn búinn að skila, og mun ekki gera það á allra næstu dögum. En annar leiðbeinandinn gaf mér ótakmarkaðan frest, eins óheppilegt og það nú er, til þess að klára ritgerðina. Hver getur unnuð undir slíku pressuleysi?]


Flestir forsvarsmenn stjórnarandstöðunnar hafa stigið varlega til jarðar og passað sig að vera ekki of fljótir á sér að fella dóma í Baugsmálinu. Í kvöldfréttunum var talað við Steingrím J. um málið. Honum fannst augljóslega ekki leiðinlegt að tala um spillingu og Sjálfsstæðisflokkinn í sömu setningu, en hann steig varlega til jarðar.

Svo horfi ég á
Kastljósið í gær, þar sem Birgir Ármannsson og Ágúst Ólafur Ágústsson takast á um málið. Fyrir þáttinn hafði ég ágætt álit á þeim báðum, en það átti eftir að breytast. Ágúst, varaformaður Samfylkingunnar, kom mér fyrir sjónir sem yfirgangssamur vitleysingur og fauti, sem virtist vaða á bulli og skvetti því í kring um sig með tilheyrandi gassalátum. Hann var frekar illa máli farinn og vafðist oftar en ekki tunga um tönn. Á einhver hátt minnti hann mig á Össur Skarphéðinsson (sem ég hef ágætt álit á, að öllu öðru leyti en sem stjórnmálamanni) eða vorn heittelskaða forseta Ólaf Ragnar, sem bulla og bulla, en tekst oft að fela það á bak við málskrúð og ruglanda. Ágústi tókst ekki að fela það. Hins vega kom Birgir ágætlega út. Hann beitti fyrir sig staðreyndum og lét vitleysuna í Ágústi ekki slá sig út af laginu.

Ágúst segir: Þeir voru þarna á einhverjum mjög skrýtnum plott-fundi, ef svo mætti segja, og það er eins og þeir haldi að Íslendingar viti ekki sínu viti. Og ég tel að firringin í þessu máli sé alveg alger - og við þurfum auðvitað að skoða þetta mjög vel í því samhengi sem þetta mál er. Hvers konar bull er þetta? Sundurlausar setningar með mjög neikvæðum tóni. Hann byrjar á því að slengja fram því sem staðreynd að Styrmir, Jón Steinar og Kjartan hafi hittst á plott-fundi. Þeir hafa nú margsinnis gert grein fyrir efni fundarins, og það var að ræða hæfi Jóns í þessu máli. Það hlýtur að mega. Svo segir hann að þeir haldi að Íslendingar viti ekki sínu viti. Firringin í þessu máli er alger (í mínum eyrum hljómar þetta sem innantómt orðaskrum). Og við þurfum auðvitað að skoða þetta mjög vel í því samhengi sem þetta mál er. Jú, því er ég sammála. En mér sýnist Ágúst ekki gera það sjálfur. Hann drekkur í sig samsæriskenningar í blindni og lítur á þær sem heilagan sannleik.

Jæja jæja. Áfram heldur bullið. Birgir kemur einstaka sinnum inn með góða punkta. Að málið verði sótt og varið á lögfræðilegum forsendum. Að menn hafi talað saman, og bent Sullenberger að leita til lögmanns. Snertir það með einhverjum hætti rannsókn lögreglu? Ágúst skellir skollaeyrunum við því eins og sannur þöngulhaus og hverfur aftur til spýju sinnar. Ég held að Samfylkingin sé ekki vel sett með þennan mann í frontinum.

Og svo er það lausn Ágústs: Setjum þetta bara í opinbera rannsóknarnefnd, setjum þetta í pólitíska nefnd sem stjórnarskráin gerir ráð fyrir og rannsökum þetta. Birgir spyr: Hvað er að rannsaka? Að einhverjir menn hafi hittst og bent manni á góðan lögfræðing? - En Birgir er kaffærður um leið með orðagjálfri og yfirgangi.

Æ, þetta er bara ekki alveg nógu töff.

Updeit: Kenning mín, að um fléttu væri að ræða af hálfu Fréttablaðsins virðist hafa verið rétt, því að í dag koma þeir með nýjar upplýsingar um að Jón Steinar hafi sent Styrmi ritstjóra Morgunblaðsins tölvupóst með gögnum í málinu. Með þessu segja þeir að Jón Steinar hafi brotið ,,Hippókratesareið" lögfræðinga og því eigi að svipta hann lögfræðiréttindum. Já, ég á hreinlega ekki orð núna. Hafi þeir verið ómerkilegir áður, að birta tölvupósta Jónínu, er það ekkert miðað við þetta. Tilgangur þessa nýju uppljóstrana virðist eingöngu vera að vega að Jóni Steinari sem lögmanni. Draga hann í svaðið. Og, já. Hvernig í ósköpunum hefur Fréttablaðið allt í einu aðgang að tölvupóstsendingum á milli Jóns Steinars og Styrmis? Má þetta? Hnýsast í bréf annarra og birta þau á síðum blaðanna. Er þeim ekkert heilagt? Það verður gaman að sjá hvernig þeir gera grein fyrir þessu. Annars, ef rétt reynist, lítur þetta ekki vel út fyrir Jón Steinar. Ég held samt að það hljóti að vera eðlileg skýring á þessu, sem Fréttablaðið hefur kosið að líta framhjá.

sunnudagur



Verður athyglisvert að fylgjast með fléttunni sem er í gangi hjá Fréttablaðinu núna. Í gær birtu þeir búta úr bréfum á milli Styrmis ritstjóra Moggans og Jónínu Ben þar sem látið er skína í eitt og annað. Þar var talað um að ,,fingraför Morgunblaðsins" þyrfti að afmá í þessu máli, og að tryggð Jóns Steinars við ,,ónefndan mann" væri meitluð í stein. Án skýringa hljómar þetta frekar illa og eins og að um einhvers konar samsæri sé að ræða. En þegar maður les
skýringar Styrmis, sem ég held að sé mætur og heiðarlegur maður, kemur annað í ljós. Auðvitað kemur fyrir, að maður í hans stöðu leiki hlutverk í atburðarrás eins og þeirri sem leiddi að Baugsrannsókninni. Sullenberger og Jónína leita til hans með glæpamál og vilja að hann fjalli um það í Mogganum, og vilja þannig hefna sín á Baugsmönnum. Styrmir segir einfaldlega, nei, þetta er glæpamál, farið þið frekar með það til lögreglunnar. Og hvernig gerum við það? spyrja Sulli og Nína á móti. Og Styrmir bendir þeim á Jón Steinar, sem ég held líka að sé ágætur maður. Þar með lýkur þætti Styrmis. Þetta finnst mér hljóma eðlilega.

En þá kemur að því sem ég var að hugsa. Ok. Fréttablaðið birtir búta úr bréfum sem augljóslega eru stolin. Það er mjög rætið og rotið, og ber ekki vott um góðan karakter. Þeir myndu líklega ekki leggjast svo lágt, nema vera vissir um að þetta komi þeim til góða. Í gær birtu þeir ,,fingraförin" og ,,ónefnda manninn". Í dag hafa þeir birt aðra búta úr bréfinu, og hafa eftir Styrmi að hann geti með engu móti gert grein fyrir þeim (sem ég held að hljóti að vera slitið úr samhengi). Ég spái því að þetta sé flétta hjá Fréttablaðinu. Þeir vita alveg hvað þeir eru að gera. Það hlýtur að vera. Bomban kom í gær. Þeir bíða þess að henni verði svarað. Þá koma þeir með eitthvað annað skúbb til að vega að trúverðugleika þeirra sem stóðu fyrir svörum. Þannig vinnur Fréttablaðið. Og máli mínu til stuðnings vísa ég í Fréttablaðið næstu daga. Þeir hljóta að hafa geymt eitthvað bitastætt fyrir mánudaginn. Eitthvað sem hægt er að rabba um í kaffipásunni.

laugardagur



Ég gluggaði í gamla kennslubók um Java-forritið áðan. Neðst á eina síðuna var ég búinn að skrifa: Líkamlegt - kveikir ekkert í hausnum. Ég man ekki hvað var að naga mig þarna, en það hefur vonandi ekki verið forritun. Pínu fyndið.

fimmtudagur



Að skreyta sig með stolnum fjöðrum. Þórbergur lýsir tunglinu þannig, og mér finnst hann eins og venjulega hitta naglann á höfuðið. En, það er samt eitt við þetta máltak: Að skreyta sig með fjöðrum. Er það ekki pínu hommalegt? Nei, bara að spá.


Þetta er nú aldeilis hressandi. Að renna í gegn forriti og skrá niður niðurstöðuna. Ég gæti hugsað mér að gera þetta alltaf.

287
293
269 (ég hrópa upphátt: vá!)
288
279
301
... o.s.frv.

Ef það er einhver í Kaupmannahöfn sem hefur ekki neitt að gera og gæti alveg hugsað sér að vera meðhjálpari minn, endilega láttu í þér heyra. Síminn er 222 68 200. - Kannski betra að hafa þetta líka á dönsku. Vis der er nogen i Köbenhavn som intresser sig i data-samling, ring til mig (ja, jeg mener dig Stripe stripeline). Telefonen er: 222 68 200.

miðvikudagur



Í næsta húsi býr dásamleg stelpa sem ég kalla Strípu strípilínu. Hún gengur yfirleitt um nakin eða mjög fáklædd. Og ekki er það nú ónýtt svona á þessum síðustu og verstu tímum (leiðbeinendurnir eru farnir að senda handrukkara til að innheimta ritgerðina mína). Ég reyndi að fanga athygli hennar um daginn með því að veifa, en hún brást illa við. Kannski er henni illa við fólk í fötum. Næst prófa ég ekki í fötum. Nei, ég veit ekki. Og svo getur það líka vel verið að hún eigi bara ekki föt. Að fátæktar sinnar vegna gangi hún um nakin.
Þá er þetta nú frekar leiðinlegt mál. Ég ætti kannski að fara yfir til hennar með fatapoka úr Hjálpræðishernum og leyfa henni að velja sér einhverja tötra. Mmm... Nei, ég held ég geri það ekki. Ekki strax alla vega.

þriðjudagur



Þjófurinn svaraði! Og svarið olli ekki vonbrigðum:

köttur + hundakex = tóm della

Auðvitað. Auðvitað! Hvað annað? Auðvitað er þetta tóm della. Af hverju ætti köttur að borða hundakex? Það er bara rugl.

mánudagur



Undanfarna tvo daga hefur stærðfræðijafnan sem þjófurinn skrifaði í ritgerðina mína verið að brjótast um í kollinum. Hún er eitthvað svo einföld, en segir samt svo mikið. Hvaða hundur yrði ekki ánægður með smá hundakex? Þessar hugsanir hafa verið mér slíkur hausbítur, að ég var hættur að geta einbeitt mér að ritgerðinni. Og hvað ef settur yrði köttur inn í jöfnuna í staðinn fyrir hund? Hvað þá?

Ég var orðinn svo forvitinn, að fyrr í kvöld bjó ég til gildru fyrir þjófinn. Ég límdi svona þjófa-nammi við gluggann minn, og við hliðina á því skildi ég eftir miða með eftirfarandi jöfnu: Köttur + hundakex = ?

Það verður gaman að vakna á morgun og sjá hverju hann svarar.

föstudagur



Ég trúi þessu ekki! Það var brotist inn til mín í nótt. Þjófurinn stal ekki neinu, heldur settist hann við tölvuna og fiktaði í ritgerðinni minni. Margt var strokað út og skrifað upp á nýtt og miklu bætt við. Skýrslan er svo að segja tilbúin. Nema hvað, að þessar endurbætur eru alveg glataðar. Það er ekkert vit í þeim. Sem dæmi um breytingu, setti hann á einn stað inn jöfnuna:

Hundakex + hundur = mikil gleði (2.11)

Hvaða vit er í því? Eða, jú, það er svosem smá vit í því, en það kemur samnýtingu leigubíla ekkert við. Ohh... nú þarf ég að skrifa þetta allt upp á nýtt.


Mikil sorg. Ég átti að skila í dag, en næ ekki því marki. Því græt ég og orga, leggst flatur á magann og lem og sparka með höndum og fótum í gólfið. Þetta er fúlt. Alveg glatað. Hvílík sorg! Hvílíkur harmur!

Núna ætla ég í háttinn og þegar ég vakna á morgun, verður einhver óprúttinn innbrotsþjófur búinn að brjótast inn og klárað fyrir mig verkefnið. Hmm... það er kannski betra að hafa þessi skilaboð líka á dönsku. Og så skal jeg i sengen nu, og håber at nogen (Ja, jeg mener i to, Jesper og Rene) brækker ind og arbejder på mit projekt så det bliver færdig når jeg vågner.

fimmtudagur



Að samnýta leigubíla. Um það snýst verkefnið mitt. En er ekki hægt að samnýta meira. Mér datt í hug kerfi þar sem eiginlega allt er samnýtt.

Ok. Í grófum dráttum er sólarhringurinn svona: 8 tímar af svefni + 8 tímar í vinnu + 8 tímar af leikjum. Væri ekki hægt að skipta fólki niður í þrjá hópa, nr. 1, 2 og 3, sem myndu skiptast á að gera þessa hluti. Þannig að þegar hópur 1 fer á fætur, fer hópur 3 að sofa, og þegar hópur 3 fer á fætur, fer hópur 2 að sofa. Þetta myndi allt gerast í sama húsinu í sama rúminu. Þeir gætu meira að segja deilt náttfötum. Svo, þegar einn hópur fer á fætur, myndu þeir að sjálfsögðu samnýta leigubíl á leið í vinnuna og tala um hvað þetta er sniðugur ferðamáti. Einn hringur yrði tekinn í kringum styttuna af mér, sem stendur á miðju frelsistorginu, og svo yrði haldið áfram til vinnu þar sem hópurinn á undan er leystur af hólmi.

Og svo er önnur pæling, ætti maður að skipta fólki í hópa eftir litarhætti. Hvítir ynnu á daginn, svartir á nóttunni og gulir í morgunsárið þegar sólin brosir sínu ylhýra ljósgula brosi. Eða skipta eftir kynjum. Karlar verðu deginum í skipulagningu og konurnar gengju svo til starfans á nóttunni. Eða öfugt. Konur gengju til starfans á nóttunni og karlar verðu deginum í skipulagningu. Þetta er ekkert óvitlaus hugmynd.

þriðjudagur



Smá updeit á færsluna í fyrradag. Í gær hitti ég leiðbeinendurna mína á fundi og fór yfir skýrsluna, eða það sem búið er af henni. Þeir voru búnir að strika yfir alla þá staði sem innihéldu myndlíkingar eða frumlegt orðalag. Til dæmis þótti the ball didn't start rolling og since then the business has blossomed vera óviðeigandi málnotkun í svona alvarlegri skýrslu. Svo þótti textinn á stökum stað vera of frjálslegur.

Þegar þeir voru búnir að strika yfir hálfa skýrsluna, sprakk ég og sagði:
- Hvað eruð þið að gera! Þið... þið eruð að ræna skýrsluna sálinni.
Þeir svöruðu einni röddu:
- Svona skýrslur eiga að vera alvarlegar. Þær mega ekki vera skemmtilegar.
Ég setti þá hnefann í borðið og sagði:
- Nei, það er ekki rétt hjá ykkur! Markmið mitt er ekki að drepa lesandann. Markmið mitt er að gera innihald skýrslunnar aðgengilegt lesandanum. Ekki drepa.
Aftur svöruðu þeir, undarlega samrýmdum rómi:
- Svona skýrslur eiga að vera alvarlegar. Þær mega ekki vera skemmtilegar.
Og þá tók ég eftir nokkru sem fékk hárin til að rísa á hnakkanum. Þeir voru ekki að drekka kaffi. Þetta var smurolía. Loksins skildi ég alla þessa umræðu um batterí og hvernig Kasparov hafði tapað fyrir Deep blue á sínum tíma. Þeir voru ekki menn, heldur vélmenni. Ó, Guð, nei!! Ég er að vinna fyrir vélmenni! Það hlaut að koma að því. - Ég gerði mér upp bros, tók skýrsluna og sagðist myndu leiðrétta hana heima. Þeir stigu upp og hömluðu því að ég kæmist út.
- Hvert ertu að fara, Jóhannes?
Ég heyrði það núna. Rómurinn var ómanneskjulega vélrænn. Annar þeirra dró upp einhvers konar tölvukubb og sagði:
- Við erum ekki búnir að framkvæma aðgerðina.
- Aðgerðina...?
Svaraði ég í hræðslublendnum aumingjatóni.
- Já, aðgerðina... Ef þú ætlar þér að verða master í verkfræði, verðum við að græða þennan tölvukubb í hausinn á þér. Lastu ekki smáa letrið?
Þeir réttu fram samkomulagið okkar. Þarna stóð það skýrum stöfum: To become a master of science you must first be transformed to a robot. Ég trúði ekki mínum eigin augum. Hvernig gat ég skrifað undir þennan samning, án þess að lesa smá letrið...

Jæja, til þess að gera langa sögu stutta (ég þarf að fara að læra), gekkst ég undir þessa aðgerð og sýti það ekki. Það er furðulega þægilegt að vera vélmenni. Ég hefði nú samt kosið sjálfur að þurfa ekki að líta út eins og samkynhneigða vélmennið í StarWars myndunum. En, jamm. Svona er það nú bara. Ég sakna R2D2.

sunnudagur



Jæja, nú ætla ég að skrifa um eitthvað annað en mastersritgerðina mína.

Í menntaskóla átti ég alltaf frekar erfitt með að skrifa ritgerðir. Ég held að fyrst um sinn hafi ég ekki fattað út á hvað þetta gekk. Ragnheiður heitin Briem sagði á fyrsta tímastílnum mínum að ég væri villimaður sem þyrfti að temja. Ég greip hrottalega í hálsmálið á henni og svaraði því til, að þessi villimaður hér yrði sko ekki taminn - og sérstaklega ekki af einhverri gamalli dollu. Nei. Það er lygi. En, jæja. Ég held að ég hafi ekki fengið skrifvitund fyrr en ég byrjaði í ritstjórn eins skólablaðsins. Þá hætti mér að vera sama hvernig ég reiddi efnið fram. Og eftir það varð ég mun meðvitaðri um eigin skrif og að sama skapi gagnrýnni á þau.

Þó að ég væri kominn með nýtt og betra hugarfar, hélt ég áfram að fá 7,5 fyrir tímastílana mína, en nú var það Ólafur Oddsson sem var dómarinn. Hann hafði líka lúmskan húmor fyrir bullinu í mér. Ég man einhvern tímann þegar hann var að útdeila ritgerðum sem átti að vera um siðferði í vísindum hvernig hann glotti þegar kom að mér. Mín ritgerð fjallaði að mestu leyti um einhvern mann sem hafði breyst í flugu með tilheyrandi siðferðisvangaveltum. Í horninu stóð 7,5 eins og venjulega og þar sem fluguævintýrið byrjaði var hann búinn að gera plús.

Núna... Ohh... núna er þetta ekki alveg svona einfalt. Ég er ekki viss um að prófdómararnir hefðu húmor fyrir mann-flugu nálguninni á The intelligent dial-a-ride verkefnið. Þeir myndu örugglega senda mig einn hring í putta-yddarann ef ég tæki upp óhefðbundinn skrifmáta. Það villtasta sem ég hef þorað að láta út úr mér í þessari guðsvoluðu ritgerð, er eftirfarandi setning: The most insistent questions burning in curious minds, are how TIDAR works and why the customer should use TIDAR. Núna, þegar ég horfi á þessa aumu, aumu setningu, verð ég pínulítið dapur. Ég er kominn í sama mót og allir aðrir. Engar mann-flugur lengur. Bara þurrar staðreyndir og ferkantaðar röksemdafærslur. Það er búið að temja villimanninn. Búhúhúú...

laugardagur



Í dag fór ég á mastersvörn hjá ágætum vini mínum. Ég mætti að sjálfsögðu aðeins of seint og í öllum asanum fór ég á stofuvillt. Í þeirri stofu sem ég hafði óvart ratað í var önnur mastersvörn í gangi. Og þar sem ég var á annað borð mættur, og þar að auki of seinn, varð ég náttúrulega að setjast niður eins og að ég hafi ætlað mér að fara á þessa vörn. Strákurinn sem var að verja var stór og luralegur, og hafði óvenju þumbalega rödd. Hann leit reglulega út um gluggann, flóttalegur til augnanna. Ég sá það strax að hann var ekki í góðum málum.

Eftir 20 mínútur af þunglammalegu þöngulhausarausi stoppaði kennarinn hann. Greyið strákurinn vissi upp á sig skömmina og reyndi að forðast beint augnsamband við áhorfendur. Kennarinn tók til máls og var myrkur í máli. Hann sagði að sér þætti leitt að þurfa taka þessa ákvörðun, en að hún hefði engu að síður verið tekin. Það næsta sem gerist, er að kennarinn gengur til mastersnemans með svartan borða í höndunum og bindur fyrir augun á honum. Hinir prófdómararnir rísa á fætur og draga upp byssur. Aðalkennarinn telur niður frá þremur, og aumingja mastersneminn lá steinkaldur á gólfinu. Salurinn þagði á meðan aftöku stóð. Svo pískruðu prófdómararnir eitthvað sín á milli og mér heyrðist þeir vera að deila um hver ætti að fela líkið. Til þess að gera langa sögu stutta, bauðst ég til að fela það fyrir þá. Ég veit ekki afhverju ég gerði það, ætli ég hafi ekki bara gleymt mér í hita leiksins. En jæja. Þeir láta mig fá skóflu og poka og ég kveð samkomuna, með drumbinn í eftirdragi.

Ég gekk framhjá vörn vinar míns og gægðist inn. Honum virtist ganga vel, því prófdómararnir voru að tollera hann. Ég hélt áfram og heyrði sönginn: he's a jolly good fellow and he's a jolly good fellow... að baki mér. Til þess að gera langa sögu stutta aftur, nennti ég ekki að grafa líkið og faldi það inni í sængurverinu hjá einum félaga mínum og fór heim.

Núna er ég pínu stressaður. Jú, ég var búinn að undirbúa mig andlega fyrir líkamlega refsingu. En ekkert í líkingu við þetta. Ég verð bara að leggja enn harðar að mér ef ég á að sleppa við aftöku. Og ætla að byrja.... núna.

fimmtudagur



Mér hefur verið tíðrætt um mastersverkefnið mitt undanfarna daga, enda eru áætluð skil eftir viku. Ég á eftir að skrifa mjög mikið á þessum tíma, og er ekki viss um að ég nái deadlæninu. Þess vegna ákvað ég að svindla pínulítið um daginn. Það hefði ég ekki átt að gera.

Þannig var, að ég var á gangi í kínahverfinu hérna á Amager og datt inn á flóamarkað. Þar voru alls konar skransalar að pranga út vörum sínum auk ýmissa listamanna, eins og til dæmis eldgleypir, slöngutemjari og tveir pokémon-þjálfarar að láta dýrin sín slást. Einn listamaðurinn fangaði athygli mína sérstaklega. Töframaðurinn. Hann var í svörtum kjólfötum með pípuhatt og stóð við hliðina á litlum trékistli, sem var alsettur glimmeri. Ég fór til hans og spurði um kassann. Hann svaraði því til að þetta væri töfrakassi sem gæti látið óskir rætast. Maður þyrfti bara að setja einhvern hlut í kassann sem tengdist óskinni, loka honum, loka augunum og óska. Og þegar kassinn er opnaður aftur er óskin búin að rætast. Ég var ekki lengi að láta hann fá smá aur, leggja ritgerðina mína í kassann (eða það sem búið er af henni) og óskaði mér: Ég óska þess að þegar kassinn opnast aftur, verði ritgerðin fullkláruð. En, þá gerðist það. Þegar töframaðurinn opnaði kassann var ritgerðin horfin og kominn blómvöndur í staðinn. Hann rétti mér blómin og sagði að ósk mín hefði verið uppfyllt. Ég varð alveg brjálaður og heimtaði endurgreiðslu, en þá sveiflaði maðurinn einhverjum sprota og breyttist í tíu hvítar dúfur sem flugu hver í sína áttina.

Og nú er ég í pínu klípu. Á ég að byrja aftur að skrifa, eða á ég bara að skila vendinum? Gæti kannski skorað stig út á hugrekki, eins og strákurinn í Harvard sem átti að svara spurningunni um hvað hugrekki væri. Hann skrifaði ,,þetta" og skilaði. Hann fékk tíu. Nei, ég veit ekki. Ég hefði átt að taka afrit.

miðvikudagur



Eru orð sáraukafyllri en líkamlegur sársauki? Nei. Þau eru það ekki. Ekki nema að þau séu sögð svo hátt að það sprengi hljóðhimnuna. En ef það er ekki tilfellið, er svarið nei.

Eftir hálft misseri af japli, jamli og fuðri, áttuðu leiðbeinendurnir mínir sig á því, að andlegar refsingar bíta ekki á mig. Ég heyrði annan þeirra hvísla að hinum, að það væri eins og ég hefði enga samvisku, því ég fengi aldrei samviskubit. En það er ekki rétt. Ég hef samvisku og hún er bara nokkuð góð. En ég get svæft hana þegar ég vil, og það geri ég alltaf þegar þeir byrja að tala um fátæku börnin í Afríku. Samviskan er eins og áhyggjur, maður getur ráðið hversu mikil áhrif hún hefur á mann.

Það var ekki fyrr en þeir byrjuðu á líkamlegu refsingunum að ég byrjaði að að hlusta á þá. Hver hefur heyrt um svona lagað? Risastórt hamstrahjól, sem ég þurfti að hlaupa í ef ég náði ekki settum markmiðum. Múrsteinaburðurinn, þar sem ég var barinn áfram með svipu ef ég hvíldi mig. Höndin látin kremjast á milli tannhjóla í gamalli klukku. Algjört rugl. En... þetta virkaði. Á endanum settist ég við skrifborðið og opnaði bók.

Þangað til um daginn. Þá náði ég svipunni af þeim, og komst að því að þetta var ekki sársaukafyllra fyrir þá en mig, eins og þeir höfðu alltaf haldið fram. Og núna er ég bara í fínum málum. Þeir vinna verkefnið fyrir mig, og það eina sem ég þarf að gera er að haga mér eins og fantur og gefa þeim mat endrum og sinnum. Gott mál. Súrt kál.

sunnudagur



Jæja, það fór eins og ég hafði vonað. Torben var slátrað þetta árið. En þetta er ekki búið. Það er víst líka hefð hérna í DTU að mastersneminn sem skilar inn þynnstu ritgerðinni er látinn éta hana (og sá sem skilar inn þykkustu er rassskelldur með henni). Jú, sko, venjulega hefði ég ekki áhyggjur af þessu. En einhverra hluta vegna er kominn saltstaukur á borðið hjá öðrum leiðbeinandanum mínu. Ég veit ekki. Og alltaf þegar ég hitti hann og gef honum stöðu mála, rennir hann augunum í áttina að stauknum. Getur verið að þeir séu búnir að sjá það út að ég verði rýrastur þetta árið? Æ, ég veit ekki. Til öryggis ætla ég að stækka letrið í 16, hafa línubilið tvöfalt og setja inn nokkrar myndir af Eyjafjallajökli. Verð samt að passa mig. Má ekki hafa hana of þykka.

föstudagur



Það er víst hefð hér í DTU, að í upphafi hverrar annar er einum mastersnema fórnað til dýrðar menntagyðjunnar. Athöfnin fer fram í byggingu 101 og eftir hana er fórnarlambið matreitt og kennurum skólans þjónað til borðs. Þetta á víst að tákna, að vegurinn að heiman er vegurinn heim, og að allt sé í heimi hverfult hér. Jæja, hvað um það. Hefðir eru hefðir. Nema hvað, að núna, eftir að ég heyrði af þessari athöfn, er ég byrjaður að sjá leiðbeinendurna mína í nýju ljósi. Þeir eru með einhvern undarlegan glampa í augunum, og ég get svo svarið það að annar þeirra sleikti út um um daginn. Það má vera að þetta sé bara ímyndun, ég á það til að mála skrattann á vegginn. En, samt. Það er eitthvað bogið við þetta. Ég veit ekki.

(Svona til öryggis, ef grunur minn reynist réttur, er ég búinn að koma af stað þeim orðrómi að Torben, feiti strákurinn sem er alltaf að sjúga upp í nefið, sé orðinn þreyttur á lífinu. Kannski verður það til þess að honum verður fórnað þetta árið. Vonandi.)