þriðjudagur



Smá updeit á færsluna í fyrradag. Í gær hitti ég leiðbeinendurna mína á fundi og fór yfir skýrsluna, eða það sem búið er af henni. Þeir voru búnir að strika yfir alla þá staði sem innihéldu myndlíkingar eða frumlegt orðalag. Til dæmis þótti the ball didn't start rolling og since then the business has blossomed vera óviðeigandi málnotkun í svona alvarlegri skýrslu. Svo þótti textinn á stökum stað vera of frjálslegur.

Þegar þeir voru búnir að strika yfir hálfa skýrsluna, sprakk ég og sagði:
- Hvað eruð þið að gera! Þið... þið eruð að ræna skýrsluna sálinni.
Þeir svöruðu einni röddu:
- Svona skýrslur eiga að vera alvarlegar. Þær mega ekki vera skemmtilegar.
Ég setti þá hnefann í borðið og sagði:
- Nei, það er ekki rétt hjá ykkur! Markmið mitt er ekki að drepa lesandann. Markmið mitt er að gera innihald skýrslunnar aðgengilegt lesandanum. Ekki drepa.
Aftur svöruðu þeir, undarlega samrýmdum rómi:
- Svona skýrslur eiga að vera alvarlegar. Þær mega ekki vera skemmtilegar.
Og þá tók ég eftir nokkru sem fékk hárin til að rísa á hnakkanum. Þeir voru ekki að drekka kaffi. Þetta var smurolía. Loksins skildi ég alla þessa umræðu um batterí og hvernig Kasparov hafði tapað fyrir Deep blue á sínum tíma. Þeir voru ekki menn, heldur vélmenni. Ó, Guð, nei!! Ég er að vinna fyrir vélmenni! Það hlaut að koma að því. - Ég gerði mér upp bros, tók skýrsluna og sagðist myndu leiðrétta hana heima. Þeir stigu upp og hömluðu því að ég kæmist út.
- Hvert ertu að fara, Jóhannes?
Ég heyrði það núna. Rómurinn var ómanneskjulega vélrænn. Annar þeirra dró upp einhvers konar tölvukubb og sagði:
- Við erum ekki búnir að framkvæma aðgerðina.
- Aðgerðina...?
Svaraði ég í hræðslublendnum aumingjatóni.
- Já, aðgerðina... Ef þú ætlar þér að verða master í verkfræði, verðum við að græða þennan tölvukubb í hausinn á þér. Lastu ekki smáa letrið?
Þeir réttu fram samkomulagið okkar. Þarna stóð það skýrum stöfum: To become a master of science you must first be transformed to a robot. Ég trúði ekki mínum eigin augum. Hvernig gat ég skrifað undir þennan samning, án þess að lesa smá letrið...

Jæja, til þess að gera langa sögu stutta (ég þarf að fara að læra), gekkst ég undir þessa aðgerð og sýti það ekki. Það er furðulega þægilegt að vera vélmenni. Ég hefði nú samt kosið sjálfur að þurfa ekki að líta út eins og samkynhneigða vélmennið í StarWars myndunum. En, jamm. Svona er það nú bara. Ég sakna R2D2.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home