þriðjudagur



Í gær varði ég mastersverkefnið mitt. Ég var fínn í tauinu, í jakkafötum með hatt og eldrauðan mittislynda vafinn um mig þveran. Einhverra hluta vegna hélt ég að það væri sniðugt að hafa spænskan undirtón í fyrirlestrinum, þannig að alltaf þegar ég gat reyndi ég að sletta á spænsku. Er ekki viss um hversu sniðugt það var.

Ég kynnti mig í upphafi fyrir prófdómurunum, sem voru þrír talsins. Olé! Jeg habla senjor Jóhannẽz. Þeir kinkuðu kolli á móti og sögðu fátt. Og ég byrjaði fyrirlesturinn.

Á mínum vegum voru fáir. Ein stelpa og einn strákur. Þau léku hlutverk sín vel, og var stelpan klædd léttúðlega, en strákurinn í teinótt pótintátaföt - var meira að segja með einglyrni og kúluhatt. Vinkona mín flissaði glyðrulega á réttum augnablikum og vinur minn kinkaði kolli þegar ég sagði eitthvað gáfulegt. Þau fá eitt kúlstig frá mér.

Ég talaði hratt og örugglega. Glæru eftir glæru gekk fyrirlesturinn, og spænski hreimurinn virtist vera að virka. En fyrirlesturinn var of langur, og þegar 45 mínútur voru liðnar var mér tilkynnt að nú yrði ég að ljúka máli mínu, ellegar hlyti ég refsingu. Og einn prófdómarinn át þessi orð eftir sessunauti sínum: Refsingu... Líííkamlega refsingu... Og lét skína í putta-yddarann. Ég hrópaði: Æ, Caaaramba! Og lauk máli mínu á stundinni (sem var allt í lagi, því ég var hvort eð er að vera búið).

Eftir kynninguna var kaffi. Ég kvaddi vini mína með tárum og trega, og undirbjó mig fyrir seinni hálfleik: Vörnina sjálfa.

Ég hafði brugðið mér á klósettið og áður en ég kom inn hleraði ég prófdómarana í gegn um hurðina. Þeim lá þungt rómurinn. Einn kvartaði yfir því að putta-yddarinn væri ekki nógu beittur, annar svaraði því til að það væri bara betra. Og þriðji muldraði einhver torkennileg orð, að því er virtist vera á latínu. Þetta leit ekki vel út.

Ég gekk inn.

Spurningarnar voru þungar. Alveg hræðilegar. Dæmi um spurningu frá Jesper: Segðu mér, Jóhannes. Hvað er ég að hugsa... núna? Hvernig er hægt að svara þessu? Ég skaut á túnfífil, en hann sagðist vera að hugsa um fjallasóley, og páraði eitthvað niður í minnisbókina sína. Eftir mikið japl, jaml og fuður barði einn þeirra í borðið. Nú er nóg komið! Komdu með vísifingur! Hann dró fram yddarann. Hinir prófdómararnir, reyndu að róa hann og sögðu sefandi röddu að ég ætti skilið að fá séns, rétt eins og allir aðrir. Að hann mætti ydda mig eftir vörnina, en ekki núna. Hann settist aftur í sætið sitt niður með skeifu á túllanum.

Þá datt mér nokkuð sniðugt í hug. Að svara öllum spurningum sem þeir spurðu, með spurningu. Þannig að í staðinn fyrir að svara, tókst mér að plata þá til að svara öllum spurningunum sjálfir. Til dæmis spurði Lars: Þú segir hér að harðar skorður geri vandamálið að LP-erfiðu vandamáli. Er það rétt? Þá svaraði ég: Já, sko, mig langar að svara þessari spurningu með spurningu. Er rétt, að harðar skorður geri vandamálið LP-erfitt? (notaði spurnartón) Og þá svaraði Lars: Nei! Hvernig spyrðu? Hvílík fásinna! Heldurðu að ég sé algjör bjáni? Ég hristi höfuðið og sagði honum að hann stæði sig vel.

Þessa brellu notaði ég í gegn um alla vörnina, og þegar henni lauk hafði ég svarað öllum spurningunum rétt. Mér var létt þegar ég sá Jesper fjarlægja putta-yddarann. Ég var hólpinn.

Þeir sendu mig út á meðan þeir réðu ráðum sínum. Ég heyrði þá hjala í gegn um hurðina. Eftir þónokkra stund kölluðu þeir á mig. Það var René sem talaði: Þú stóðst þig með sóma. Hér er heiðursmedalía skólans. Lifðu í lukku. Og Lars bætti við í spaugilegum grínaratóni: En ekki í krukku! Og við gerðum okkur upp hlátur. Að svo búnu tókumst við í hendur og kvöddumst.

En þannig var það. Nú er ég orðinn verkfræðingur. Já, skólaárin, ég man eftir þeim eins og gærdeginum. Já, það voru góðir tímar.

Og hvað svo?

föstudagur


Á mánudaginn næsta á ég að verja mastersritgerðina mína. Fólk má mæta ef það vill, en þó með nokkrum skilyrðum.

Stelpur eiga helst að mæta fáklæddar og sitja nálægt prófdómurunum. Og ef ég segi eitthvað fyndið, þá skulu þær flissa stelpulega og reyna að smita útfrá sér. Hann-er-nú-meiri-karlinn olnbogaskot í prófdómara er góð hugmynd.

Strákar skulu klæða sig upp sem gáfumenni, og alltaf þegar ég segi eitthvað gáfulegt eiga þeir að kinnka kollinum gáfulega. Og ef ég segi eitthvað mjög gáfulegt, er leyfilegt að segja: Umm... athyglisvert, einkar athyglisvert. Það er greinilega töggur í guttanum. Hann kallar ekki allt ömmu sína þessi fýr - jahh, fyrir utan kannski ömmu sína. Þetta verður að segja svo hátt að það læðist inn í undirmeðvitund prófdómara. Samt ekki of hátt.

Í lok fyrirlestursins á lófaklapp vel við. Bravó er kannski of mikið, en hægt er að hátta lófaklappinu þannig að það hljómi hlýlega. Að áheyrendur hafi ekki einungis fengið andlegt kikk, heldur líka pínu líkamlegt. Sem sagt, og þessu er sérstaklega beint til stelpnanna, að lófatakið á að vera blandið losta og munúð.

Ég fer ekki fram á neinar spurningar, nema þær upphefji mig á mjög afdráttarlausan hátt. Til dæmis: Af hverju ertu svona frábær Jói? Og þá myndi ég svara: Ég veit það ekki, ég er bara svona. Mmm... Svona þegar ég hugsa um það, að þá er kannski ekki viðeigandi að spyrja spurningar sem ég svara með ég veit það ekki. En hægt er að spyrja annarra spurninga sem undirstrika yfirburði mína á fræðisviðinu. Til dæmis: Hver er kvaðratrótin af þrettán? Þetta er hneykslanlega þung spurning, sérstaklega í ljósi þess að útkoman er óræð tala, en ég mun vera búinn að undirbúa fyrstu 33 aukastafina, og þá mun sá sem spurði stoppa mig. Þetta mun sannfæra prófdómarana um ágæti mitt.

Eins og ég sagði áðan, að þá má fólk mæta ef það vill, en þá bara ef það vill. Það gæti stressað mig pínulítið að einhverjir verði til vitnis um það, þegar prófdómararnir ganga í skrokk á mér að lokinni kynningu (þ.e. ef ég klúðra henni algjörlega - sem ég mun að sjálfsögðu ekki gera). Á móti kemur að þetta er opinn viðburður, og vafalaust munu einhverjir afglapar frá deildinni mæta. Þannig að, mæti hver sem vill. Þetta er auglýst nánar hér.

miðvikudagur



Það er eitt við Svarthöfða sem ég hef aldrei skilið almennilega. Af hverju er hann með þessa takka á maganum? Og hvað gerist ef maður ýtir á þá? Og nú sér ég annað. Er hann með buxnaklauf á þessum búningi sínum? Og eru þetta legghlífar? Og er búningurinn að öðru leyti búinn til úr svörtu einangrunarplasti? Og er þetta herðaslá innundir skikkjunni? Hver sagði aftur að Svarthöfði væri töff? Hann er það nefnilega ekki. Og eiginlega er hann bara frekar glataður.


Átta vopnaðir hrottar. Hljómar ekki vel. DV segir að Ástþór Magnússon hafi sent þá á leigjanda sinn. Ég sé þetta alveg fyrir mér. Gamall trékofi og hrottarnir sitja í hring um meistara sinn. Ástþór stendur í miðjunni og þrumar yfir ókvæðisorð. Hann fer mikinn og öskrar og öskrar. Hrottarnir glotta. Einn gerir sér það að leik að beygja járnstöng. Annar gnístir tönnum. Þriðji kreppir hnefana þannig að hnúarnir hvítna. Þegar Ástþór lýkur máli sínu standa hrottarnir upp og berja saman höndunum. Þeir halda af stað út í nóttina, með gömul alþýðulög á vörunum.
Hægt og hljótt er ekki viðeigandi nú, ekki frekar en í Júróvísjon árið 1987. Þeir breyta um lag, og raula framlag Íslendinga frá 1989, Það sem enginn sér. Uss suss suss. Ekki er það nú betra. So so...

sunnudagur

Ég átti nokkra strumpa þegar ég var lítill. Kraftastrumpur var í miklu uppáhaldi, stæltur í sundskýlunni sinni [1]. Stundum kom einhver yfir með strumpana sína, og blásið var til orrustu. Þá var gott að eiga kraftastrump í sínu liði. Einn strákurinn í hverfinu sá þetta frá öðrum vinkli. Hann klæddi sig alltaf upp í svarta sloppinn sinn, sótti háfinn og lék Kjartan galdrakarl - þá var það okkar hlutverk að fela strumpana, ellegar yrðu þeir étnir. Þetta voru skrýtnir tímar.

En mig langaði aðeins að tala um þennan mann, Kjartan galdrakarl. Í Noregi heitir hann ekki Kjartan, heldur er hann kallaður Gargamel. Og það heitir hann líka annars staðar. Gargamel. Mér finnst það ágætt nafn, og hæfir illa innrættum galdrakarli mjög vel. Ég get ekki sagt það sama um Kjartan. Það passar fyrir bóksala og kannski bréfbera, en ekki galdrakarl. Og af hverju gátu þeir ekki bara kallað hann Gargamel, með sömu fallbeygingu og Reynimelur [2]. ,,Hjálp, forðum okkur! Gargamelur ætlar að éééta okkur! [3]" Mér finnst það passa ágætlega.

Og svona, þegar ég hugsa um það, að þá er ekkert galdrakarlalegt við þetta nafn, Kjartan. Það er álíka venjulegt og Sveinn, Bjarni eða Sigurður. Ef þeir hefðu hugsað sig aðeins meira um, hefðu þeir líklega geta fundið betra nafn. Í fljótur bragði detta mér í hug mörg nöfn sem
betur hæfa vondum galdrakarli og skúrki. Glámur, Glúmur eða Starkarður. Öll betri. Og svo er líka alltaf hægt að sækja nöfn í dvergatal Hávamála. Draupnir, Vindálfur eða Dólgþrasir. Ok. Kannski ekki Dólgþrasir, en hin ganga ágætlega. Svo væri líka hægt að búa til nöfn. Bölmóður, Fláráður eða Strumpa-Kjammi. Það er allt betra en Kjartan.


[1]
Og þegar ég hugsa um það, að þá fannst mér He-man líka mjög flottur gæi. Alsettur vöðvum, á loðskýlu með töfrasverðið í lúkunum. Í þokkabót var hann konungson. Já, maður kunni að velja sér fyrirmyndir í gamla daga. Annað en nú: Þórbergur Þórðarson og Woody Allen. Ekki eru það nú miklir jötnar.

[2]
Galdrakvendið Hexía de Trix (stytt í Hexía) fékk að halda sínu útlenda nafni og það gengur bara ágætlega. Og hvílíkt nafn! Ég gæti trúað að það sé fengið úr latínu, hvar það þýðir ,,brögðótt galdranorn". Eitthvað annað en Kjartan, sem þýðir örugglega ,,nálægt Guði" eða eitthvað álíka væskilslegt.

[3]
Ætlaði hann í alvöru að éta þá? Það er frekar brútal markmið.

þriðjudagur


Er i Noregi i heimsokn hja Gudmundi Joni. Harry tydir hallærislegur a norsku. Tannig ad Harry Potter byrjadi ekki ad ganga vel fyrr en teir breyttu øllum nøfnunum i bokinni, sem heitir Cool Potter i norsku utgafunni. Annars kemur Oslo a ovart. Hun er med øllu smekklaus, en er samt a sinn serstaka hatt hlyleg. Minnir a Island ad einhverju leyti, an tess to ad geta bent beint a tad. Kannski seinna.

sunnudagur

Mogginn skrifar um elsta núlifandi Íslendinginn, Guðmund Daðason, fyrrverandi bónda á Ósi á Skógarströnd. Hann er 105 ára í dag. En það er ekki satt. Eftir að hafa grandskoðað myndina sem fylgdi með fréttinni komst ég að þeirri óvefengjanlegu niðurstöðu, að hann er í rauninni ekki lifandi. Augun komu upp um það.


Önnur frétt vakti undrun mína. Al-Qaeda segir Elísabetu drottningu Englands aðalóvin sinn. Þeir vita greinilega alveg hvað þeir eru að gera.

Handbolti bar á góma í gær, og gamlar útvarpslýsingar:
,,Héðinn... Bjarki... Guðmundur... Bjarki... Héðinn... Þorgils... Héðinn...
Bjarki... Guðmundur... Bjarki... Héðinn... Þorgils... Héðinn... Bjarki... Guðmundur... Bjarki... Héðinn... Þorgils... Héðinn... Bjarki... Guðmundur... Bjarki... Héðinn... Þorgils... Héðinn... Bjarki... Guðmundur... Bjarki... Héðinn... Þorgils... Héðinn... Héðinn... Og HÉÐINN...! Og Héðinn skýtur upp í rjáfrið...'' Bjarni Fel kunni þetta.

laugardagur



Um daginn fór ég í kirkju. Það hef ég ekki gert lengi, en hingað til hefur kirkjusókn mín einskorðast við jól og ýmiss konar formlegar kirkjuathafnir. Predikunin var góð, og ég gæti alveg hugsað mér að sækja fleiri messur. En eitt fannst mér undarlegt. Hann talaði um að sonur Guðs almáttugs héti Jesú og að Kristur væri hans titill. Ok. Fyrir það fyrsta hélt ég að Kristur væri hluti af nafninu hans, ekki titill. Og í öðru lagi skil ég ekki hvernig titillinn fúnkerar. Fyrir mér tákna titlar annað hvort starfsheiti, eða þá (virðingar)stöðu sem viðkomandi hefur. Til dæmis málarameistari eða generáll. Hvað gerir maður sem er Kristur? Skal ekki segja.

Já, og svo er það annað. Þegar tognaði úr kauða bar hann nafnið Jesú. En þegar hann var lítill var hann alltaf kallaður Jesúbarnið. Það er alltaf talað um Jesúbarnið í jötunni, aldrei Jesú. Svo varð hann Jesúunglingurinn. Og loks Jesú. Jesú Kristur. Meeerkilegt.

miðvikudagur



Ömm... netið var tekið af mér aftur. Ekki er það nú gott. Þannig, að ef líkum lætur verður ekki mikið um dýrðir hér á næstunni.

Annars var ég að koma upp þessu ágæta kommentakerfi og geri ráð fyrir að þar muni fara fram málefnaleg umræða um helstu þjóðfélagsmeinin. Til þess að varpa fram blóðugri sprengju hér og nú, dettur mér í hug að tala aðeins um dýragarðinn hér á Fredriksberg. Hvað finnst fólki almennt um apana? Eru þeir ekki sætir? Þá er ég ekki að tala um stóru ljótu apana, heldur litlu. Þið vitið. Litlu, sætu... Eða, hvað finnst ykkur? Go craZy.

Og, jú, svo er þetta kommentakerfi kjörinn vettvangur fyrir sætar stelpur að lauma til mín nafnlausum athugasemdum. Geri ráð fyrir að innan skamms muni kerfið hrynja undan álaginu. En það er allt í lagi. Og svo er þetta líka tilvalið fyrir grínkarla að skrifa komment í nafni einhvers annars. Það er alltaf gott grín. Nema þegar skrifað er í mínu nafni. Það er ekki fyndið.

sunnudagur



Gömlu hetjurnar eru ekkert svo flottar lengur. Michael Jackson er löngu búinn að missa kúlið, Maradonna er orðinn feitabolla og Stebbi Hilmarz... jahh, ef hann var þá nokkurn tímann flottur?

Jú, andskotinn hafi það. Stebbi var flottur. Hann var eitt af óskabörnum þjóðarinnar. Hann og Sverrir Stormsker. Hemmi Gunn var líka hluti af óskabörnunum. Alltaf í stuði. Og Spaugstofan var óborganleg - meira að segja Randver var góður. Hvernig læt ég.

Svo voru það Jón Páll og Hófí. Þau voru alveg frábær. Sterkasti maður í heimi og fallegasta kona í heimi. Er hægt að toppa það? Jahh, kannski. Ef fallegasta kona í heimi væri sterkari en sterkasti maður í heimi. Eða ef sterkasti maður í heimi væri fallegri en fallegasta kona í heimi. Annars veit ég ekki hvort að það myndi ganga. Væri frekar bjánalegt.

En hvert er óskabarnið í dag? Björk Guðmundsdóttir? Nei, hún er eiginlega of alþjóðleg. Gísli Marteinn? Gæti verið. Ætli hann sé ekki á svipaðan hátt í eftirlæti hjá Íslendingum, eins og Ómar Ragnarson var á sínum tíma. Ómar Ragnarson, Flosi Ólafsson og Bessi Bjarnason. Æ, ég veit ekki.

miðvikudagur



Við Unnar ætlum að stofna mótorhjólaklíku til mótvægis við Hells Angels. Nema í staðinn fyrir að tala með hnefunum, ætlum við að beita hugvitinu. Og ef til átaka kemur við óvinaklíkuna munum við rugla þá í ríminu með alls konar gátum og brellum. ,,Getur þú teiknað jafnarma hring með sirkli og reglustiku?'' Þessi spurning myndi valda glundroða í þeirra herbúðum. Ég sé fyrir mér hvernig þeir munu reyna að fela óttann á bakvið hörkutólaleg komment: ,,Hey! Hringir sökka!'' Eða: ,,I ride 2 die! Hells Angels 4ever! Peace out!'' En þetta dugir skammt, því við eigum nóg inni. ,,Ef Strikinu er skipt í þrjú strik. Mið-hlutinn er minnstur, en hin tvö jafn stór. Er hægt að leggja þau sama í réttan þríhyrndan þríhyrning? Og ef svo er, hvar væri Jorks Passage?'' Á endanum munu þeir átta sig á því að hér hafa þeir mætt ofjörlum sínum. Þeir panikka, hlaupa hver á annan og hverfa síðan í reykmekki. Obb bobb bobb.