miðvikudagur

Einn ágætur vinur minn segir, að hægt sé að skipta fólki niður í þrjá hópa. Á toppnum tróna yfirburðaeinstaklingar og þeir tala um hugmyndir. Í flokki tvö eru meðal-Jónarnir og þeir tala um hluti. Og á botninum er ómerkilegt fólk, en það talar um hvort annað.

Mér finnst þetta ágæt flokkun hjá honum og fór strax að velta því fyrir mér í hvaða flokk ég færi. Eftir að hafa rennt í gegn um færslurnar á síðunni minni, komst ég að þeirri niðurstöðu að 24% af efninum væri hægt að setja í efsta flokkinn, 42% í flokk tvö og 2% í flokk þrjú (færsla þar sem ég hálft í hvoru baktalaði Osló var hálfómerkileg). Sumar færslur gat ég ekki sett í neinn flokk og þær kallaði ég bara bull. En það er 32% af efninu. Ég þarf að fara að rétta þetta hlutfall.

En, já. Svo ég snúi mér að einhverju allt öðru; einhverju sem gripið er af fullkomnu handahófi. Hmm... Bara eitthvað. Til dæmis: Er einstaklingshyggja orsök eða afleiðing kapítalisma? Eða sitt lítið af hvoru? Eru femínistar fæddir heimskir eða hefur þjóðfélagið alið þetta í þá? Eða er það kannski ég sem er heimskur? Er raunveruleikinn ,,raunverulegur"? Eða er hann afstæður (mín upplifun sú eina sem er raunveruleg, og allt annað verði að skoðast frá þeim vinkli)? Mun einhver nokkurn tímann skilja þessar raunveruleika-hugrenningar? Nei, bara að spá. Mínir venjulegu þankar. Jamm og já. Ósköp venjulegir þankar á venjulegum degi.

þriðjudagur



Gagnrýni a femínista og málfræðing er að finna í kommenta-kerfinu (einhverra hluta vegna vill blogger-kerfið ekki birta þessa færslu).

sunnudagur



Ég kem til Íslands seinna í dag. Geri ráð fyrir því að ég verði ekkert sérstaklega virkur á þessum velli næstu daga. Íslenska númerið mitt er sem fyrr 865 3584.

laugardagur



Ég sá Áramótaskaupið frá 1986 um daginn. Það var uppfullt af gríni tengdu leiðtogafundinum í Höfða. Get ekki sagt að það hafa verið gott grín - enginn Fúsi froskur þar á ferð, ónei. Ég mundi bara eftir einu atriði: Söngatriðinu þegar Karl Ágúst Úlfsson er að verða vitlaus, vegna þess að það eru komnar svo margar sjónvarpsstöðvar í gang (þ.e. Stöð eitt og tvö). Á einum stað í laginu kemur þögn og Laddi birtist á sjónvarpsskjá fyrir aftan Karl Ágúst og segir: Við viljum vekja athygli á því, að það eru atriði í þættinum sem ekki eru við hæfi Bjarna. Og Karl Ágúst lítur í myndavélina og segir: En... það er ég...? Og svo heldur lagið áfram. Gott grín þar á ferð.

En talandi um gott grín. Teiknimyndaserían mín, sú sem stofnuð var til höfuðs Apaútgáfunni, virðist ekki hafa hitt í mark hjá öllum. Einhver sagði að
fyrsta sagan hafi misst marks, og einhver annar sagði að honum hafi þótt sagan endasleppt. Því er ég fullkomlega ósammála. Sagan var bráðfyndin, hittin og gegnheil. Til þess að sanna mál mitt, ætla ég að búa til aðra sögu bráðlega. Þetta verður heil symfónía af gríni og glensi. Ójá.

fimmtudagur



Um daginn gerði Pawel ummæli Guðna Ágústssonar um „feita Bandaríkjamenn“ að efniviði
Deiglupistils síns. Honum finnst óviðeigandi að maður í stöðu Guðna haldi á lofti stöðnuðum hugmyndum manna um ákveðna hópa, eins og til dæmis feita Bandaríkjamenn, gráðuga gyðinga, þjófótta sígauna eða drykkfellda Rússa. Ég er alveg sammála Pawel, þetta er óviðeigandi hjá Guðna. En það er ekki það sem ég ætlaði að tala um, heldur þessar staðalímyndir sem Pawel talar um.

Svíar hafa gott heilbrigðiskerfi og ljóshærðar flugfreyjur, Norðmenn eru leiðinlegir, Finnar þunglyndir, Þjóðverjar duglegir, Frakkar lífskúnstnerar, Ítalir aumar mannleysur og svona mætti lengi telja. En það sem fer pínulítið í taugarnar á mér eru Danirnir. Þeir eru alltaf sagði svo ligeglad. Hvað þýðir það?

Ohh… akkúrat núna virkar tölvuorðabókin ekki. En ég man það greinilega, að í menntaskóla var mér kennt að ligeglad þýddi blátt áfram. Það er tóm della. Eftir því sem ég fæ best skilið, er orðið algjör andstæða „blás áframs“. Ég myndi segja að manneskja sem er ligeglad, láti sér allt í léttu rúmi liggja.

Og það er rétt. Danir láta sér allt í léttu rúmi liggja. Það er grunntónninn í þjóðarsál þeirra. Í kjölfarið verður allt þjóðfélagið afslappaðra, en það er samt á kolröngum forsendum. Ég gleymdi nefnilega að segja frá milliskrefinu:

Fólk lætur sér allt í léttu rúmi liggja -> Enginn axlar neina alvöru ábyrgð -> Þjóðfélagið verður afslappaðra.

Athugið, að ég segi að enginn axli neina alvöru ábyrgð. Það er mikill munur á því og minniháttar ábyrgð, sem Danir virðast finna sig knúna til að fylgja. Þeir elska litlu reglurnar og formsatriðin. Og ef breytt er útaf af þeim, er tuðað og tuðað. Ef hjólað er á móti umferð, er alltaf einhver „ábyrgðarfullur“ Dani tilbúinn að láta mann heyr það. Eins má telja tryggð þeirra við græna karlinn. Enginn gengur nokkurn tímann móti rauða karlinum! Ef boðið er í partý klukkan níu, mæta allir klukkan níu. Uden spørgsmål. Og svo get ég tekið dæmi um íslenska stelpu sem klemmdi sig á formsatriðadýrkun Dananna. Henni var boðið í mat hjá dönsku pari, en var síðan rukkuð um rafmagnið sem ofninn tók í að hita matinn. „Jú, við buðum þér í mat. En við sögðum ekkert um ofninn…“ Og svo þurfti greyið stelpan að leggja út þessa tvær krónur sem hún skuldaði í rafmagn (20 íKr). Það er rugl.

En þetta voru minniháttar mál. Þegar ábyrgðin er alvöru fela Danirnir sig. Ég þekki dæmi þar sem fylliraftur ætlaði að berja eiginkonuna sína í strætóskýli einu. Hann hélt henni upp við vegg með krepptan hnefa reiddan til höggs. Fjórir ungir og fullfrískir karlkyns Danir stóðu hjá og þóttust ekki taka eftir neinu. Það var ekki fyrr en íslensk stelpa hljóp á milli, að róninn tók sönsum. Annað dæmi: Roskinn maður dettur í rúllustiganum á leið í metróið og rotast. Hellingur af fólki horfir á hann færast niður, en enginn gerir neitt. Loksins stekkur íslenskur strákur til, hringir á sjúkrabíl og gerir að manninum. Hver veit hvað hefði gerst hefðu íslendingarnir ekki verið á staðnum. En svona geta Danir stundum verið ligeglad.

Æ, þetta er orðið lengra en ég ætlaði mér. Og ég er ekki einu sinni viss um að minn skilningur á orðinu ligeglad sé réttur. Ef einhver er með betri tillögu, endilega láti hana flakka í kommentakerfið. Í verst falli er þetta ágæt þjóðfélagsádeila.

miðvikudagur



Sá Hotel Rwanda ádan. Mjøg gód mynd og ekki sízt fyrir fródleikssakir. Yfir ein milljón manna var drepin í borgarastyrjøld tar árid 1994. Einu sinni var Rwanda belgízk nýlenda, og teir tóku tann pólinn í hædina ad láta eitt tjódarbrotid tutsi stjórna landinu (sem er samansett af tutsum og huti). Forseti Rwanda var huti madur tegar Belgar létu af vøldum. Einhver ólga blossadi upp milli ættflokka, en tjódarsátt nádist med einhverjum fridarsamningum. Sama dag og skrifad var undir samningana, var flugvél forsetans skotin nidur af uppreisnarmønnum tutsi. Og tá fór allt til fjandans og hutí gerdu hvad teir gátu til ad útrýma tutsum. Tetta gerdist fyrir ~10 árum sídan.

mánudagur

Apaútgáfan hefur eignast keppinaut - Mig. Ég held að ég geti gert betri sögur en þeir, ég er eiginlega viss um það. Mér finnst nefnilega grínið hjá þeim oft missa marks og sögurnar eiga það til að vera endaslepptar. Hér er mitt framlag: Fúsi froskur.



fimmtudagur

Ég mæli með
apaútgáfunni - eina útgáfan sem er kúl. Myndirnar stækka ef klikkað er á þær.





miðvikudagur



Ég setti inn
myndir frá því í sumar þar til nýlega.

Vigdís Finnbogadóttir smalaði saman hópi karlmanna til að leysa launamisrétti kvenna. Að því tilefni datt mér í hug að skrifa aðeins um baráttu þeirra. Gef ekki mikið fyrir hana. Konur ættu nú bara að þakka fyrir að hafa fengið kosningaréttinn, þarna árið 1915. Og hvað svo? Á ekki bara að leyfa dýrum að kjósa næst? Og hverju svo? Plöntum? Bílum? Fatnaði?

Nei nei. Smá grín á fimmtudegi. Það eru bestu dagarnir. En ég ætlaði að rabba aðeins um jafnréttisbaráttuna. Konur fá að staðaldri minni laun en karlar og það er staðreynd. Og konur vilja jafna þennan mun. Ekkert sjálfsagðara. Þá er spurningin: Hvar liggur vandinn? Og hvernig er hægt að laga hann?

Þegar talað er um launamun, geri ég ráð fyrir að verið sé að bera saman kynin á sambærilegum starfsvettvangi. Þannig að karlkyns læknar fá e.t.v. 20% meira að staðaldri en kvenkyns læknar. Ok. Það ætti ekki að vera erfitt að tækla launamisrétti í ríkisrekstri. Þar eru stefnumótanir og reglugerðir í höndum pólitíkusa [1]. En í einkageiranum ríkir frumskógarlögmálið. Þar fá einstaklingar borgað eftir getu. Samt eru konur sjónarmuni lægri. Nú er ég ekki að segja að þær séu getuminni en karlanir og líklega eru bæði kynin jafnhæf. Málið er bara, að vinnuveitendur borga launaþegum sínum eins lítið og þeir mögulega geta. Og ef þeir komast upp með að greiða konum lægri laun, að þá gera þeir það. Að sjálfsögðu.

Ég held, að konur séu að benda í vitlausar áttir. Þær virðast alltaf spyrja: Hvar eru gallarnir í kerfinu og hvernig getum við lagað þá? Sjálfsögð spurning. En á frjálsum markaði eru einstaklingar fyrst og fremst metnir að verðleikum eftir hæfni, ekki kyni. Þess vegna er gallinn ekki í kerfinu, heldur í nálgun kvenna á það. Það hlýtur að vera. Þær ættu frekar að spyrja: Hvernig getum við aðlagað okkur betur að kerfinu?

Ég held að svarið felist í áræðni. Með því að vera seigari, brattari, þrjóskari, frekari og ásælnari yxi þeim örugglega fiskur um hrygg. Er það skrýtið að karlar eru í meirihluta í stjórnunarstöðum, þegar flestir umsækjendur eru karlkyns? Og er það skrýtið að karlar eru í meirihluta í raungreinafögum (sem oft borga vel), þegar flestir raungreinanámsmenn
eru karlkyns? Og loks segir mér svo hugur, án þess að hafa kannað það neitt sérstaklega, að karlmenn geri að staðaldri hærri launakröfur en konur. Og ef það reyndist rétt, væri þá skrýtið að þeir fengju hærra borgað? Nei, ég spyr.

Svona að lokum: Ég nenni ekki að fá einhverja sparðatíninga inn á kommentakerfið um kúgun kvenna. Þannig rökræður eru yfirleitt mjög ómálefnalegar og leiðinlegar
. Auk þess er ég ekki að halda neinu fram, og ætti þ.a.l. ekki að þurfa að svara fyrir neitt. Það eina sem ég er að gera, er að velta upp þeirri spurningu hvar konur ættu að leita vandans. Í kerfinu eða eigin ranni?


[1]
Sem eru meðal annarra kosnir af konum (sbr. skandalinn árið 1915)

föstudagur


Bush Bandaríkjaforseti talar um alnæmivanda Afríku (og svarar gagnrýni heimsins að Bandaríkjamenn hafi meiri áhuga á að græða á vandanum en að leysa hann.):

„Ég trúi því að Bandaríkin hafi yfir að ráða einstökum hæfileikum og fylgi sérstakri köllun í baráttunni gegn þessum sjúkdómi. Við fylgjum þeirri trú að Höfundur lífsins hafi gefið sérhverju lífi virði sem er óviðjafnanlegt.“

Þessi setning er næstum því óskiljanleg fyrir málskrúð. Eftir að hafa lesið setninguna aftur, komst ég að þeirri niðurstöðu að hana mætti endurskrifa á eftirfarandi hátt:

„Bandaríkjamenn geta öðrum fremur barist gegn alnæmi. Ástæðuna má í finna í trúarköllun okkar, en hún segir að hvert líf sé einstakt.

Þetta er mun skýrara. Rökstuðningurinn er veikur, eins og oftast þegar menn leita réttlætinga í trúnni. En ég ætlaði mér samt ekki að tala um inntak setningarinnar, heldur það hvernig hún var upphaflega reidd fram. Inntak hennar kafnar í íburði og orðaskrúð. Og
„inntak“ hennar verður því: Bandaríkjamenn eru göfugir og rávandir. Við öxlum ábyrgð í baráttunni gegn alnæmi. Þetta er það sem 95% fólks heyrir, en það er ekki það sem hann er að segja. Ónei. Okkar ástkæri forseti, Ólafur Ragnar Grímsson, gerir þetta líka. Felur vitleysuna á bak við háfleygt og ruglingslegt orðalag. Maður spyr sig alltaf: Hvað meinar maðurinn?

Ég reyndi einhvern tímann fyrir forvitnissakir að lesa Mein Kampf eftir Hitler. Þar er hann að reyna að réttlæta einhverja tóma dellu, en málið er að það er bara ekkert hægt. Hann beitir akkúrat sömu tækni og Bush. Felur sig í kjarri glæsilegra orða. Þetta er með öllu óþolandi.