þriðjudagur


Spurningin er: Hve margir englar geta staðið á oddi nálar?

Fer allt eftir því hversu þungir þeir eru. En hve þungir eru þeir? Klerkar miðalda sögðu að englar væru massalausir. Gott og vel. Þá snýst þetta um rúmfræði.


Þá er það spurningin:
Hve feitir geta englar orðið?

Fer allt eftir því hvað þeir borða. Ef þeir borða nammi, geta þeir orðið ansi feitir. Og þá er bara pláss fyrir einn engil á nálaroddinum. En ef þeir borða bara ský, haldast þeir slim. Nema þeir borði mjög mikið af skýjum. Þá hljóta þeir að fitna svolítið.


Svarið er því:
Ef hann er feitur: Bara einn. En ef englarnir borða hóflega mikið magn af skýjum er líklegt að það rúmist fleiri en einn á oddi nálarinnar.

mánudagur


Fróðleikur um kíwí


Merkileg staðreynd: Kíwí var ekki uppgötvað af almenningi fyrr en 1974.

Whiteninja lenti einu sinni í vandræðum með kiwi

Afar athyglisvert.

sunnudagur

Ævintýrið um Gosa

Sagan byrjar heima hjá afskaplega einmana trésmiði, sem á sér þá ósk heitasta, að eignast barn. Venjulegir menn myndu reyna að finna sér konu, en klikkhausinn ákvað að smíða sér trédúkku í staðinn. Lítill ljósálfur heyrir óskina og blæs lífsanda í nasir dúkkunnar. Trésmiðurinn kallar dúkkuna Gosa.

Einhvern veginn kemst óprúttinn óþokki yfir Gosa og pínir hann til þess að dansa í brúðuleikhúsinu sínu. Hann kynnir atriði Gosa sem „strengjabrúðu án strengja“. Ok. Það er náttúrulega bara fáránlegt. Hann á lifandi spýtustrák. Af hverju kynnti hann ekki sýninguna á þeim forsendum?

Innskotspæling. Er óprúttinn óþokki það sama og prúttinn þokki? Hvernig er prúttinn maður? E.t.v. dregið af orðinu prúður; sómakær maður með sitt á hreinu? Kannski. En hvað er þá þokki? E.t.v. mjög þokkafullur maður; maður sem ber af sér góðan þokka - sannkallaður þokki.

Önnur pæling. Í gegn um tíðina, hef ég lýst einni og annarri stelpu sem mjög þokkafullri. En gengur þetta ágæta lýsingarorð ekki bara í þá áttina? Gæti maður til dæmis lýst sjálfum sér sem þokkafullum einstaklingi? Í hvers konar hugarástandi þyrfti maður að vera, til þess að

a: Það hljómaði sem rétt lýsing á eigin ástandi.
b: Það hljómaði sem rétt innlegg í samræðuna.

Skal ekki segja..

Aftur að Gosa: Einhvern veginn skolast minningin um ævintýri hans til í höfði mínu. Á einum tímapunkti bjó hann í landi, þar sem allir voru að breytast í asna. Vafalaust hefur verið einhver undirliggjandi boðskapur í þessum hamskiptum, en ég hef verið of ungur til að skilja hann.

Gosi kominn með asnaeyru

Fyrir rest er hann kominn inn í magann á hvali. Af myndunum að dæma, var maginn eyðilegur og fullur af lofti. Eftir á að hyggja, veltir maður því fyrir sér hvernig í ósköpunum dýrið náði að halda sér í kafi. Það hefði náttúrulega bara á að fljóta upp. En jæja. Jæja já.

Sagan endar þannig, að Gosi breytist í alvöru dreng og faðmar trésmiðinn. Þetta er nú meira ævintýrið.

föstudagur



Geir Ágústs benti á alveg hreint ágæta síðu á netinu, þar sem hægt var að horfa á gamla/nýja sjónvarpsþætti. Eitthvað hafa þessir menn verið að gera vitlaust, því síðunni var lokað hálfum mánuði eftir að ég uppgötvaði hana. Það var mikill harmur.

Eftir mikið grúsk, komst ég að því að Seinfeld er enn til á þessum slóðum:

Seinfeld - Season 1


1. The Pilot
2. The Stakeout
3. The Robbery
4. Male Unbonding
5. The Stock Tip
6. The Ex-Girlfriend
7. The Pony Remark
8. The Jacket
9. The Phone Message

Seinfeld - Season 2


5. The Apartment
6. The Statue
7. The Revenge
8. The Heart Attack
9. The Deal
11. The Chinese Restaurant
12. The Baby Shower
13. The Busboy

Seinfeld - Season 3


1. The Note
2. The Truth
3. The Pen
4. The Dog
5. The Library
6. The Parking Garage
7. The Cafe
8. The Tape
9. The Nose Job
10. The Stranded
11. The Alternate Side
12. The Red Dot
13. The Subway
14. The Pez Dispenser
15. The Suicide
16. The Fix-up
17. The Boyfriend (Part 1)

Seinfeld - Season 4


11. The Contest
12. The Airport
15. The Visa
21. The Junior Mint
22. The Smelly Car

Seinfeld - Season 5


1. The Mango
2. The Glasses
3. The Puffy Shirt
4. The Sniffing Accountant
5. The Bris
6. The Lip Reader
8. The Non Fat Yogurt
9. The Masseuse
10. The Cigar Store Indian
12. The Stall
13. The Marine Biologist
14. The Dinner Party
15. The Pie
18. The Fire
19. The Raincoats 1
20. The Raincoats 2
21. The Opposite
22. The Hamptons

Seinfeld - Season 6

15. The Beard
19. The Fusilli Jerry
23. The Face Painter

Seinfeld - Season 7


7x04. The Wink
5. The Hot Tub
15. The Shower Head
16. The Soup Nazi
20. The Calzon

Seinfeld - Season 8

3. The Bizarro Jerry
4. The Little Kicks
9. The Abstinence
11. The Little Jerry
12. The Comeback
14. The Van Buren Boys
16. The Pothole
18. The Nap
21. The Muffin Tops
22. The Summer Of George

Seinfeld - Season 9

1.The Butter Shave
2. The Voice
3. The Serenity Now
7. The Slicer
10. The Strike
12. The Reverse Peephole
14. The Strong Box
18. The Frogger
20. The Puerto Rican Day

fimmtudagur



Palli sagði einhvern tímann að það væri gaman að skrifa nunnumunnur í tengiskrift. Ég get reyndar hugsað mér margt skemmtilegra, en það er önnur saga. Í gær varð mér aftur hugsað til Palla, þegar ég horfði á trúboðana hreyfa mormónamunnana sína. Tengiskrift er kannski ekki svo vitlaus...

miðvikudagur


Mormónar

Í dag spjallaði ég við útlenda trúboða. Þetta voru ungir strákar, sómasamlega til fara og kurteisir. Annar mjög mælskur, en hinn hélt sig til hlés. Þeir höfðu hugsað sér að snúa mér til mormónsku. Við áttum ágætt spjall um mormónatrú og kom margt þar á óvart.

Ég verð eiginlega að taka það fram, að í miðju samtalinu gekk Nick Cave framhjá með fjölskyldu sína. Hann reyndi að ná augnsambandi við mig, en ég faldi mig á bakvið eitursvört sólgleraugun. (Eða var það öfugt? Ég man það ekki.)

Jæja. Mormónarnir héldu áfram og sögðu mér frá uppruna trúarinnar. Ég gat ekki betur skilið, en að spámenn Nýja-testamentisins hefðu lagt land undir fót og flutt til Bandaríkjanna. Þetta gerðist á árunum 600 f.Kr – 400 e.Kr.

Á 19. öld fann síðan Bandaríkjamaður að nafni Joseph Smith nokkrar gull-plötur, faldar í skógi. Þær báru ritningar, sambærilegar þeim sem Biblían kennir. Þetta reyndist vera arfleifð spámanna Norður-Ameríku.

Joseph Smith fær gull-plöturnar afhentar

Jósep þýddi þær yfir á ensku, en sýndi engum gullplöturnar. Reyndar eru „vitnin ellefu“ til vitnis um þær. En þau fengu samt bara að sjá plöturnar svona næstumþví.

Þessi þýðing er hornsteinn mormónatrúar. Hún er Biblía þeirra, eða annað vitni um Jesú Krist, eins og þeir sjálfir segja. Þeir gáfu mér eintak og ég er svona að spá í því hvort ég eigi að lesa það.

Mig langar eiginlega meira til að lemja þessa trúboða í hausinn með bókinni. Lemja vitleysuna úr þeim. En það má maður víst ekki gera.

Ef ég sé þá aftur, gef ég mig örugglega á spjall við þá. Og ef þeir hlusta ekki á mig, prófa ég að hrista þá. Hrista vitleysu úr þeim. En það má maður víst heldur ekki.

Ég enda örugglega á að kitla þá.

Jæja. Hvað sem verður, er eitt víst: Ef ég hitti Nick Cave aftur ætla ég að þykjast ekki þekkja hann. Það ætti að kenna honum lexíu sem hann gleymir seint.

þriðjudagur


Fyrirlestur Gorbatsjovs

Eftir ágætum krókaleiðum nældi ég mér í miða á fyrirlestur Gorbatsjovs nú um daginn. Áður en Gorbatsjov tók til máls, ávarpaði okkar ástkæri forseti, herra Ólafur Ragnar Grímsson, áhorfendur. Hann fullyrti að merkustu menn 20. aldarinnar hafi verið þrír: Winston Churchill, Ronald Reagan og Michail Gorbatsjov.

Hvernig honum datt þessi vitleysa í hug er óljóst. En ef ég ætti að giska, hefur það eitthvað að gera með slæmt mataræði eða ónógt blóðflæði til heilans. Annars hef ég ekki hugmynd.

Svo hélt hann áfram og sagði frá einhverjum vini sínum í MIT, sem hafði víst ágætt álit á leiðtoganum fyrrverandi. Að lokinni ræðu risu áhorfendur úr sætum einn af öðrum og hrópuðu: Bravó! Bravó!

Nei. Það gerðist ekki. Áhorfendur þögðu, holir að innan eftir ræðu forsetans, og biðu eftir næsta ræðumanni.

Dagskráin hélt áfram og Gorbatsjov steig á svið. Fyrirlesturinn var ágætur, en þó illskiljanlegur, þar sem túlkurinn talaði ensku í kross við rússnesku Gorbatsjovs. Að honum loknum var boðið upp á spurningar.

Mér fannst skemmtilegast að heyra, hvað Rússar vissu mikið um Bandaríkjamenn. Þeir öfluðu upplýsinga um innanbúðarmál Bandaríkjanna með „sínum leiðum“.

Blaðamaður frá Fréttablaðinu rændi tíma Gorbatsjovs með óspennandi spurningu um viðhorf hans til rússnesks morðmáls, þar sem fræg blaðakona var myrt. Jújú. Spurning sem „átti rétt á sér“, en það veit Guð að enginn hafði áhuga á skoðun fyrrum leiðtogans á þessu tiltekna máli.

Nokkrar áhugaverðar spurningar fylgdu í kjölfarið, þangað til Guðlaugur Þór biður um orðið. Hann kynnti sig og bar á borð ágætlega metnaðarfulla spurningu. Gorbatsjov svarar í löngu máli. Tíu mínútum síðar, klukkutíma of snemma, yfirgefur Guðlaugur Þór samkomuna, búinn að fá þeirri spurningu svarað sem brann svo heitt í brjósti hans.

En það er bull.

Auðvitað var Guðlaugi sama um svarið. Hann var bara að auglýsa sjálfan sig (og laumaði sér út um leið og hann var búinn að því). Prófkjörið er á næsta leiti og hvert tækifæri gripið til þess að fanga athygli fjöldans. Eins gott að spyrja erfiðrar spurningar til þess að allir sjái hvað hann er klár. Þetta var hallærislegt múv.

Gorbatsjov lauk máli sína á slaginu sjö (sem var reyndar ágætt, umræðurnar hefðu ekki mátt vera lengri) og ég hélt heim á leið. Þrátt fyrir einstaka bakslag, var ég ánægður með fyrirlesturinn. Ég gef honum 9,5 í einkunn.

laugardagur



Ég man eftir því, þegar ég heyrði orðið „ýkt“ notað í fyrsta skiptið. Ég var tíu ára og var að tala við stelpu sem heiti Úlla eða Úffa um nýju Michael Jackson bíómyndina. Hún sagði að atriðið í endann, þar sem hann breytist í geimflaug, hafi verið svolítið ýkt. Og ég var sammála henni. Það var mjög ýkt.

fimmtudagur


Ég var í heimsókn hjá nágranna mínu áðan. Fínn gæi í alla staði, nema hvað að á skrifborðinu hans sá ég spóluna D
ødens erotiske engel og nú veit ég ekki alveg hvað ég á að halda. Hvers konar maður horfir á svona myndir? Hmm...

þriðjudagur


Orðrómurinn segir:
George Clooney er sexý.
Staðreyndin er: George Clooney er bjáni.

Ég er alltaf að lesa á mbl.is að Georg Clooney sé svo mikill grallari. Myndin sem fylgir er yfirleitt af sykursætum grallaraspóa, sem lítur út fyrir að vera nýbúinn að fremja enn eitt grallarastrikið. Skoðum nokkur:


Clooney segist ekki geta boðið sig fram til forseta sökum kynlífsreynslu (
#).
Inntak fréttarinnar: Clooney segist hafa sofið hjá allt of mörgum konum til að geta samviskulaust boðið sig fram til forseta.
(Eina sem hægt er að segja við þessu: Þú ert nú meeeiri karlinn!)


Clooney vill gera Gróu á Leiti ringlaða; stefnumót með Leonardo DiCaprio (#)
Inntak fréttarinnar: George Clooney segist gjarnan vilja fara á stefnumót með karlmanni til að gera sögusmettur ruglaðar í ríminu og koma í veg fyrir að þær viti með hverjum hann raunverulega sé.
(Þú ert nú meeeiri karlinn!)

Clooney laus og liðugur (#)
Inntak fréttarinnar: Clooney lét síðustu kærustu sína róa.
(Þú ert nú meeeiri karlinn!)

Clooney lætur sig dreyma um hina fullkomnu konu (#)
Inntak fréttarinnar: Clooney gerir miklar kröfur í leit sinni að lífsförunaut. Hún þarf að hlæja eins og Nicole Kidman, hafa persónuleika Júlíu Róberts (sem er örugglega mjög leiðinleg), fegurð Michelle Pfeiffer (sjá mynd) og metnaðargirni Jennifer Lopez (hvaða bull er það?).
(Þú ert nú meeeiri karlinn!)

Clooney líkti eftir Marx-bróður með ,,vininum" (#)
Inntak fréttar: Clooney svaf sjálfviljugur hjá Roseanne Barr. Oft. Og mun hann brenna í helvíti fyrir það.

Þú er nú meeeiri kallinn!

miðvikudagur

mánudagur



Ég get ekki sagt að ég skilji þá, sem skrifa um mjög persónuleg mál á netið. Sumir opna algjörlega fyrir einkalífið og reifa jafnvel ástarmálin. Mér finnst það vera til vitnis um brenglun af einhverju tagi og skort á félagslegum skilningi.


Fyrir tveimur árum rambaði ég inn á síðu hjá stelpu sem var að deita tvo gaura í einu. Hún setti fólk inn í málin og bauð síðan upp á skoðanakönnun, hvorn hún ætti að velja. Ég get ekki skilið, hvernig að svona manneskja hugsar. Hvað vakir fyrir henni?

Önnur manneskja, einhver Framsóknarvitleysingur, hafði fíflað einhverja stelpu í bænum. Það fyrsta sem hann gerir, þegar honum gafst tóm til, var að segja frá því á netinu. Hann nefndi engin nöfn, en gaf vísbendingar hér og þar og á endanum var augljóst hvaða stelpa þetta var. Frábært.

Ef ég ætti að reyna að skilja þetta fólk, myndi ég giska á að það sé að grobba sig. Hafði lítið sjálfstraust fyrir og þarf að láta umheiminn vita að það lifir spennandi lífi, eitthvað í líkingu við mysurnar í Sex and the City.

Þessar pælingar, koma í kjölfarið á vangaveltum um það hvernig maður á að nálgast netið. Hvað búast þeir, sem ramba inn á síðuna mína, við að finna? Sundurliðaða greiningu á stefnuræðu forseta Íslands? Ég er nefnilega ekki viss það. Þeir vilja vafalaust heyra eitthvað létt og skemmtilegt og helst eitthvað persónulegt.

Nei. Textinn má ekki vera of alvarlegur. Heldur ekki of þungur í vöfum. Ekki of þurr. Ekki of persónulegur. Það þurfa að vera einhverjar myndir (Palli benti einhvern tímann á það). Hann verður að meika sens; maður þarf að hafa eitthvað að segja og svona mætti lengi telja.

Annars, að öðru. Ég er búinn að þræða youtube og safnaði nokkrum góðum myndböndum.

Hér er Woody Allen í líki þáttarstjórnanda að spyrja sjónvarpspredikara um ýmis mál. Ég hafði gaman að þessu.


Fleiri athygliverð WA myndbönd má finna
hér.


Mick Jagger er mjög svalur maður. Það eru ekki margir menn sem gætu sungið ljúfa ástarballöðu (Angie), klæddir eins og hann.




Þetta myndband er úr einhverju partýi þar sem menn eru að missa sig yfir Jeff Who laginu Barfly.




Morrissey syngur um að hann sé búinn að fyrirgefa Jesú. Myndbandið er reyndar lélegt, en mér finnst lagið gott. Fyrir þá sem ekki þekkja til, flokkast lagið sem nýtt efni frá honum.




Og loks ævintýralegur Michael Jackson. Heeelvíti fönkí.

þriðjudagur


Ég hef alltaf átt erfitt með að skilja Ólaf Ragnar Grímsson. Hann virðist vera ágætlega máli farinn, en eftir 10 mínútna ræðu veit maður ekkert hvað hann var að segja. Ég renndi í gegn um setningarræðu Alþingis og ætla að athuga hvort ekki er hægt að einfalda þennan texta og hvort eitthvað vit er í honum.

Ræða hans er 555 orð. Eftir stutta einföldun tókst mér að ná henni niður í 128 orð. Loks prófaði ég að einfalda styttu ræðuna og sú ræða var 21 orð. Hér ætla ég að að birta stystu og næststystu útgáfuna, en sú lengsta kemur neðst, vegna þess að hún er löng og leiðinleg. Reyndar kommentaði ég á hana, í veikri von að einhver myndi nenna að lesa það, en eftir að hafa lesið textann sjálfur mæli ég ekki með því.

Hér er stysta útgáfa setningarræðu Alþingis (21 orð):

Deilur Kalda stríðsins veiktu Íslendinga. Nú er lag, að taka saman höndum og varast að láta deilur draga úr okkur mátt.

(Innsk. Jóa: Svo má deila um það hvort forsendur ræðunnar séu réttar, þ.e. hvort og hve mikið deilur Kalda stríðsins veiktu Íslendinga.)


Minna stytt útgáfa (128 orð):

Kaldastríðið skipti þjóðinni í tvennt. Það veikti framsækni hennar, samtakamátt og kraftinn til nýsköpunnar. Dáðir Íslendinga hafa aukist, eftir að deilunum lynnti.

Það er gleðiefni að Ísland er hernaðarlega ómikilvægur staður. Íslendingar eiga gott samband við aðrar þjóðir. Það er vel.

Nú er tækifæri að taka höndum saman. Látum deilurnar um Kalda stríðið ekki lama þjóðina aftur. Samstöðu þarf að sýna um stöðu Íslands í heimunum og í sambandi við aðrar þjóðir. Við þurfum að ná þjóðarsátt um grundvöllinn í utanríkisstefnu Íslendinga. Alþingi getur beitt sér betur, sótt fram á öllum sviðum og orðið fyrirmynd annarra þjóða.

Við þurfum að standa saman. Nýtum lýðræðið til þess. Sundrung ríkir um málefni náttúrunnar. Reykvíkingar mótmæla, íbúar Austurlands fagna. Við verðum að varast það, að ágreiningur um náttúruna skapi ekki sundrung.


Loks er það ræðan í heild sinni (555 orð). Orð Ólafs eru rituð með venjulegum texta. Umorðun mín á texta Ólafs er skáletraðar. Og loks eru athugasemdir mínar inni í sviga.


Ekkert stytt ræða, tilvitnun hefst:

„Því er áríðandi að allir sem ábyrgð bera, bæði á Alþingi og í landstjórninni, bæði nú og um alla framtíð, kappkosti af fremsta megni að ná sem mestri sátt um málefnin sem verða munu á verkaskrá íslenskrar þjóðar.

(Augljóst hjal og óþarfi að taka fram.)

Kalda stríðið, deilurnar um hersetuna, veru varnarliðsins, fjandskapurinn sem skipti þjóðinni í stríðandi sveitir dró á margan hátt úr getu okkar til að sækja fram; hjaðningavíg á heimavelli veiktu samtakamátt og kraftinn til nýsköpunar.

Kaldastríðið skipti þjóðinni í tvennt. Það veikti framsækni hennar, samtakamátt og kraftinn til nýsköpunnar.

(Þetta er bull að mestu leyti. Ég sé ekki hvernig Kalda stríðið á að hafa veikt kraftinn til nýsköpunar og latt framsækna þjóð. Annars er hitt augljóst, að deila tveggja aðila veikir samtakamátt þeirra. Hann fær plús fyrir að nota orðið hjarðningavíg, en það þýðir þrálátar deilur á milli aðila sem eiga að standa saman. Merkingarhlaðið orð þar á ferð.)

Aflinu sem hefði mátt verja til framfara á öllum sviðum var beitt í átökum við okkur sjálf. Árangur Íslendinga að undanförnu, útrásin á okkar tímum, blómlegt atvinnulíf og vísindaiðkan, gróskan í menningu og skapandi listum – allt hefur það öðlast aukinn þrótt því þjóðin hefur losnað úr viðjum þessa gamla klofnings.

Deilur Kalda stríðsins drógu úr okkur mátt. Dáðir Íslendinga hafa aukist, eftir að deilunum lynnti.

(Rétt ályktað. En eru forsendurnar réttar? Hafði Kalda stríðið þessi hrikalegu áhrif á Ísland. Ég sé það ekki í hendi mér.)

Það er sannarlega gleðiefni að svo friðsælt sé í okkar heimshluta að mesta herveldi sem veröldin hefur kynnst skuli komast að þeirri niðurstöðu að engum tilgangi þjóni að hafa hér sveitir, að engin þörf sé á vörnum sem áður voru taldar brýnar.

Það er gleðiefni að Ísland er hernaðarlega ómikilvægur staður.

(Ég tek undir þessi orð. En Ólafur lætur þó líta svo út, að Bandaríkjamenn hafi verið hér í þeim tilgangi að verja Íslendinga. Þannig var það ekki. Ísland var hernaðarlega mikilvægur staður[1] fyrir varnir Bandaríkjamanna sjálfra. Rétt eins og Kúba. Það væri ekkert gott ef Sovíetmenn fengju að geyma eldflaugar þar.)

Það er gæfa okkar Íslendinga að eiga nú farsælt samstarf við allar þjóðir á norðurslóðum, að allir vilji vera vinir okkar, að engin hernaðarógn sé í augsýn.

Íslendingar eiga gott samband við aðrar þjóðir. Það er vel.

(Hjal.)

Nú hefur skapast einstakt tækifæri fyrir þing og þjóð að halda til móts við nýja tíma með samstöðuna að leiðarljósi. Áfram verður ágreiningur um ýmis mál, en deilurnar um veru hersins ættu að verða víti til varnaðar um alla framtíð; ávallt verði leiðarljós að samfélag Íslendinga lamist aldrei aftur vegna djúpstæðs þjóðarklofnings.

Nú er tækifæri að taka höndum saman. Látum deilurnar um Kalda stríðið ekki lama þjóðina aftur.

(Aftur: Eru forsendurnar réttar? Er Ólafur ekki að ýkja mátt og gera meira úr áhrifum Kalda stríðsins en efni standa til um?)

Við þurfum öll að standa saman, einkum nú þegar veröldin breytist ört og tækifærin bíða í öllum áttum. Á þessum tímamótum ber ég fram þá einlægu ósk að víðtæk og eindregin samstaða skapist um stöðu Íslands í veröldinni og sambúð okkar við aðrar þjóðir.

Samstöðu þarf að sýna um stöðu Íslands í heimunum og í sambandi við aðrar þjóðir.

(Sámmála. En er þetta eitthvað sem við þurfum að hafa áhyggjur af? Hvað á hann við með stöðu Íslands í heiminumi? Er hún nokkuð breytt nú? Bandaríkjamenn ábyrgjast enn varnir landsins. Og hitt: Er nokkur deila um sambúð okkar við aðrar þjóðir? Ég held ekki.)

Nú þurfum við að ná þjóðarsátt um grundvöllinn í utanríkisstefnu Íslendinga.

Nú þurfum við að ná þjóðarsátt um grundvöllinn í utanríkisstefnu Íslendinga.

(Hér er hann vafalaust að tala um varnarmál, frekar en afstöðu okkar til stríðsreksturs Bandaríkjamanna eða deilu Ísraela og Palestínumanna. Aftur: Er ekki þjóðarsátt um varnarmálið. Bandaríkjamenn verja okkur enn.)

Alþingi hefur hér einstakt hlutverk. Aldrei fyrr frá lýðveldisstofnun hefur aðstaða skapast til að ná svo víðtækri sátt í þessum efnum. Lítil þjóð þarf á því að halda að einhugur ríki um stöðu hennar í veröldinni, að samstaða sé um samskiptin við önnur lönd. Þá getur hún beitt sér af öllu afli til að skapa íbúum hagsæld og velferð; þá getur hún virkjað kraftana til framfara á öllum sviðum; þá getur hún tryggt sér öruggt sæti í fremstu röð og orðið öðrum þjóðum fyrirmynd.

Nú er lag að ná samstöðu. Þannig skýrist utanríkisstefnan og samband við önnur lönd. Alþingi getur beitt sér betur, sótt fram á öllum sviðum og orðið fyrirmynd annarra þjóða.

(Þessi margumræddu sundrung og upplausn sem fylgdi brottför hersins: Er þetta ekki bara bull? Jú, einhver var ósáttur með Bandaríkjamenn. En samningar við þá hafa náðst. Eru ekki allir nokkuð ánægðir með það. Það held ég. – Þó hefði ég ekkert á móti því að sjá nákvæmari útlistun á hvað felst í samkomulaginu. En heildarniðurstaða þess var vænleg.)

Þó að tímarnir kalli áfram á úrlausn flókinna viðfangsefna þurfum við að forðast í lengstu lög að ágreiningurinn fari úr böndum og leiði til álíka klofnings og í áratugi dró úr þjóðinni kraft. Við þurfum öll að vanda okkur og nýta lýðræðið til að efla og styrkja samstöðuna.

Við þurfum að standa saman. Nýtum lýðræðið til þess.

(Hann stikar á því sem hann hefur áður talað um. Þetta er bara fagurgal. Að auki er þetta hræsnaraháttur, þar sem hann, í líki öryggisventils, greip fyrir hendur lýðræðiskjörins þings, að því er virtist í þeim eina tilgangi að koma höggi á Davíð Oddsson. Ég er að tala um fjölmiðlafrumvarpið, mál sem allir helstu leiðtogar stjórnarandstöðunnar höfðu lagt fram á undanförnum árum. Hann lagði þetta meira að segja til sjálfur á sínum tíma.)

Við sjáum ýmis merki þess að afstaðan til náttúrunnar kunni að verða viðlíka hitamál og herinn var fyrrum. Þúsundir mótmæla á götum Reykjavíkur á sama tíma og íbúar Austurlands fagna nýjum áföngum í byggðaþróun," segir Ólafur Ragnar Grímsson.

Sundrung ríkir um málefni náttúrunnar. Reykvíkingar mótmæla, íbúar Austurlands fagna.

(Sammála. Sundrung ríkir um málefni náttúrunnar. Ég er ósammála að hægt sé að segja, að Reykvíkingar séu á móti og Austurland með. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar, að ef ákvörðunin var landi og þjóð fyrir bestu, hvers vegna ekki að grípa tækifærið? Svo er það annað mál, hvort þetta var landi og þjóð fyrir bestu. Annars talaði ég við hóp mótmælenda á Austurvelli í gær. Ég spurði af hverju þeir væru að mótmæla. Það væri búið að byggja stífluna og nú væri lónið að fyllast. Hvað er hægt að gera úr þessu. Útlendur hippabjáni svaraði fyrir hönd hópsins, með vandlætingartóni í röddinni: Við erum að mótmæla næstu stíflu. Döhh…)

Forseti Íslands sagði í ræðu sinni að náttúra Íslands er okkur öllum kær, samofin sjálfstæðisvitund Íslendinga, uppspretta þjóðarauðs og framfara á flestum sviðum.

(Augljóst hjal og óþarfi að taka fram.)

„Þegar ágreiningurinn um veru hersins hefur nú verið til lykta leiddur með brottför varnarliðsins er afar brýnt að deilurnar um nýtingu náttúru Íslands skapi ekki nýja gjá. Þjóðarsátt í erfiðum málum er verðmæt auðlind og með samstöðuna að leiðarljósi eru okkur allir vegir færir. Í anda þeirrar sýnar bið ég alþingismenn að rísa úr sætum og minnast ættjarðarinnar," segir Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.

Við verðum að varast það, að ágreiningur um náttúruna skapi ekki sundrung.


---
Að öðru:

Ég geri ráð fyrir, að þeir sem þraukuð í gegn um ræðu ÓRG hér að ofan séu haldnir óseðjandi kvalarlosta. Því langar mig í leiðinni að lauma inn harðvítugri gagnrýni á fjárlög ríkisstjórnarinnar. Bara svona, til þess að halda partýinu gangandi.

Í Mogganum í dag, stendur að fjárlög Ríkisins fari að miklu leyti í vegaframkvæmdir; mig minnir 55%. Ég spyr: Er ekki í lagi með þá? Ef þeir eiga í erfiðleikum með að ráðstafa peningum ríkissjóðs, af hverju lækka þeir ekki bara skatta í staðinn? Og ég ætla rétt að vona, að vegaframkvæmdirnar gagnist ekki bara íbúum Skreiðadalsvíkur og Kleinugerðis. Ef meirihluti skattborgara býr á suð-vesturlandi, eiga þeir heimtingu á sínum bita af kökunni.


[1]
Stalín sagði einu sinni að Ísland væri eins og fallbyssa, sem beint væri til vesturs.