miðvikudagur


Mormónar

Í dag spjallaði ég við útlenda trúboða. Þetta voru ungir strákar, sómasamlega til fara og kurteisir. Annar mjög mælskur, en hinn hélt sig til hlés. Þeir höfðu hugsað sér að snúa mér til mormónsku. Við áttum ágætt spjall um mormónatrú og kom margt þar á óvart.

Ég verð eiginlega að taka það fram, að í miðju samtalinu gekk Nick Cave framhjá með fjölskyldu sína. Hann reyndi að ná augnsambandi við mig, en ég faldi mig á bakvið eitursvört sólgleraugun. (Eða var það öfugt? Ég man það ekki.)

Jæja. Mormónarnir héldu áfram og sögðu mér frá uppruna trúarinnar. Ég gat ekki betur skilið, en að spámenn Nýja-testamentisins hefðu lagt land undir fót og flutt til Bandaríkjanna. Þetta gerðist á árunum 600 f.Kr – 400 e.Kr.

Á 19. öld fann síðan Bandaríkjamaður að nafni Joseph Smith nokkrar gull-plötur, faldar í skógi. Þær báru ritningar, sambærilegar þeim sem Biblían kennir. Þetta reyndist vera arfleifð spámanna Norður-Ameríku.

Joseph Smith fær gull-plöturnar afhentar

Jósep þýddi þær yfir á ensku, en sýndi engum gullplöturnar. Reyndar eru „vitnin ellefu“ til vitnis um þær. En þau fengu samt bara að sjá plöturnar svona næstumþví.

Þessi þýðing er hornsteinn mormónatrúar. Hún er Biblía þeirra, eða annað vitni um Jesú Krist, eins og þeir sjálfir segja. Þeir gáfu mér eintak og ég er svona að spá í því hvort ég eigi að lesa það.

Mig langar eiginlega meira til að lemja þessa trúboða í hausinn með bókinni. Lemja vitleysuna úr þeim. En það má maður víst ekki gera.

Ef ég sé þá aftur, gef ég mig örugglega á spjall við þá. Og ef þeir hlusta ekki á mig, prófa ég að hrista þá. Hrista vitleysu úr þeim. En það má maður víst heldur ekki.

Ég enda örugglega á að kitla þá.

Jæja. Hvað sem verður, er eitt víst: Ef ég hitti Nick Cave aftur ætla ég að þykjast ekki þekkja hann. Það ætti að kenna honum lexíu sem hann gleymir seint.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home