þriðjudagur


Ég hef alltaf átt erfitt með að skilja Ólaf Ragnar Grímsson. Hann virðist vera ágætlega máli farinn, en eftir 10 mínútna ræðu veit maður ekkert hvað hann var að segja. Ég renndi í gegn um setningarræðu Alþingis og ætla að athuga hvort ekki er hægt að einfalda þennan texta og hvort eitthvað vit er í honum.

Ræða hans er 555 orð. Eftir stutta einföldun tókst mér að ná henni niður í 128 orð. Loks prófaði ég að einfalda styttu ræðuna og sú ræða var 21 orð. Hér ætla ég að að birta stystu og næststystu útgáfuna, en sú lengsta kemur neðst, vegna þess að hún er löng og leiðinleg. Reyndar kommentaði ég á hana, í veikri von að einhver myndi nenna að lesa það, en eftir að hafa lesið textann sjálfur mæli ég ekki með því.

Hér er stysta útgáfa setningarræðu Alþingis (21 orð):

Deilur Kalda stríðsins veiktu Íslendinga. Nú er lag, að taka saman höndum og varast að láta deilur draga úr okkur mátt.

(Innsk. Jóa: Svo má deila um það hvort forsendur ræðunnar séu réttar, þ.e. hvort og hve mikið deilur Kalda stríðsins veiktu Íslendinga.)


Minna stytt útgáfa (128 orð):

Kaldastríðið skipti þjóðinni í tvennt. Það veikti framsækni hennar, samtakamátt og kraftinn til nýsköpunnar. Dáðir Íslendinga hafa aukist, eftir að deilunum lynnti.

Það er gleðiefni að Ísland er hernaðarlega ómikilvægur staður. Íslendingar eiga gott samband við aðrar þjóðir. Það er vel.

Nú er tækifæri að taka höndum saman. Látum deilurnar um Kalda stríðið ekki lama þjóðina aftur. Samstöðu þarf að sýna um stöðu Íslands í heimunum og í sambandi við aðrar þjóðir. Við þurfum að ná þjóðarsátt um grundvöllinn í utanríkisstefnu Íslendinga. Alþingi getur beitt sér betur, sótt fram á öllum sviðum og orðið fyrirmynd annarra þjóða.

Við þurfum að standa saman. Nýtum lýðræðið til þess. Sundrung ríkir um málefni náttúrunnar. Reykvíkingar mótmæla, íbúar Austurlands fagna. Við verðum að varast það, að ágreiningur um náttúruna skapi ekki sundrung.


Loks er það ræðan í heild sinni (555 orð). Orð Ólafs eru rituð með venjulegum texta. Umorðun mín á texta Ólafs er skáletraðar. Og loks eru athugasemdir mínar inni í sviga.


Ekkert stytt ræða, tilvitnun hefst:

„Því er áríðandi að allir sem ábyrgð bera, bæði á Alþingi og í landstjórninni, bæði nú og um alla framtíð, kappkosti af fremsta megni að ná sem mestri sátt um málefnin sem verða munu á verkaskrá íslenskrar þjóðar.

(Augljóst hjal og óþarfi að taka fram.)

Kalda stríðið, deilurnar um hersetuna, veru varnarliðsins, fjandskapurinn sem skipti þjóðinni í stríðandi sveitir dró á margan hátt úr getu okkar til að sækja fram; hjaðningavíg á heimavelli veiktu samtakamátt og kraftinn til nýsköpunar.

Kaldastríðið skipti þjóðinni í tvennt. Það veikti framsækni hennar, samtakamátt og kraftinn til nýsköpunnar.

(Þetta er bull að mestu leyti. Ég sé ekki hvernig Kalda stríðið á að hafa veikt kraftinn til nýsköpunar og latt framsækna þjóð. Annars er hitt augljóst, að deila tveggja aðila veikir samtakamátt þeirra. Hann fær plús fyrir að nota orðið hjarðningavíg, en það þýðir þrálátar deilur á milli aðila sem eiga að standa saman. Merkingarhlaðið orð þar á ferð.)

Aflinu sem hefði mátt verja til framfara á öllum sviðum var beitt í átökum við okkur sjálf. Árangur Íslendinga að undanförnu, útrásin á okkar tímum, blómlegt atvinnulíf og vísindaiðkan, gróskan í menningu og skapandi listum – allt hefur það öðlast aukinn þrótt því þjóðin hefur losnað úr viðjum þessa gamla klofnings.

Deilur Kalda stríðsins drógu úr okkur mátt. Dáðir Íslendinga hafa aukist, eftir að deilunum lynnti.

(Rétt ályktað. En eru forsendurnar réttar? Hafði Kalda stríðið þessi hrikalegu áhrif á Ísland. Ég sé það ekki í hendi mér.)

Það er sannarlega gleðiefni að svo friðsælt sé í okkar heimshluta að mesta herveldi sem veröldin hefur kynnst skuli komast að þeirri niðurstöðu að engum tilgangi þjóni að hafa hér sveitir, að engin þörf sé á vörnum sem áður voru taldar brýnar.

Það er gleðiefni að Ísland er hernaðarlega ómikilvægur staður.

(Ég tek undir þessi orð. En Ólafur lætur þó líta svo út, að Bandaríkjamenn hafi verið hér í þeim tilgangi að verja Íslendinga. Þannig var það ekki. Ísland var hernaðarlega mikilvægur staður[1] fyrir varnir Bandaríkjamanna sjálfra. Rétt eins og Kúba. Það væri ekkert gott ef Sovíetmenn fengju að geyma eldflaugar þar.)

Það er gæfa okkar Íslendinga að eiga nú farsælt samstarf við allar þjóðir á norðurslóðum, að allir vilji vera vinir okkar, að engin hernaðarógn sé í augsýn.

Íslendingar eiga gott samband við aðrar þjóðir. Það er vel.

(Hjal.)

Nú hefur skapast einstakt tækifæri fyrir þing og þjóð að halda til móts við nýja tíma með samstöðuna að leiðarljósi. Áfram verður ágreiningur um ýmis mál, en deilurnar um veru hersins ættu að verða víti til varnaðar um alla framtíð; ávallt verði leiðarljós að samfélag Íslendinga lamist aldrei aftur vegna djúpstæðs þjóðarklofnings.

Nú er tækifæri að taka höndum saman. Látum deilurnar um Kalda stríðið ekki lama þjóðina aftur.

(Aftur: Eru forsendurnar réttar? Er Ólafur ekki að ýkja mátt og gera meira úr áhrifum Kalda stríðsins en efni standa til um?)

Við þurfum öll að standa saman, einkum nú þegar veröldin breytist ört og tækifærin bíða í öllum áttum. Á þessum tímamótum ber ég fram þá einlægu ósk að víðtæk og eindregin samstaða skapist um stöðu Íslands í veröldinni og sambúð okkar við aðrar þjóðir.

Samstöðu þarf að sýna um stöðu Íslands í heimunum og í sambandi við aðrar þjóðir.

(Sámmála. En er þetta eitthvað sem við þurfum að hafa áhyggjur af? Hvað á hann við með stöðu Íslands í heiminumi? Er hún nokkuð breytt nú? Bandaríkjamenn ábyrgjast enn varnir landsins. Og hitt: Er nokkur deila um sambúð okkar við aðrar þjóðir? Ég held ekki.)

Nú þurfum við að ná þjóðarsátt um grundvöllinn í utanríkisstefnu Íslendinga.

Nú þurfum við að ná þjóðarsátt um grundvöllinn í utanríkisstefnu Íslendinga.

(Hér er hann vafalaust að tala um varnarmál, frekar en afstöðu okkar til stríðsreksturs Bandaríkjamanna eða deilu Ísraela og Palestínumanna. Aftur: Er ekki þjóðarsátt um varnarmálið. Bandaríkjamenn verja okkur enn.)

Alþingi hefur hér einstakt hlutverk. Aldrei fyrr frá lýðveldisstofnun hefur aðstaða skapast til að ná svo víðtækri sátt í þessum efnum. Lítil þjóð þarf á því að halda að einhugur ríki um stöðu hennar í veröldinni, að samstaða sé um samskiptin við önnur lönd. Þá getur hún beitt sér af öllu afli til að skapa íbúum hagsæld og velferð; þá getur hún virkjað kraftana til framfara á öllum sviðum; þá getur hún tryggt sér öruggt sæti í fremstu röð og orðið öðrum þjóðum fyrirmynd.

Nú er lag að ná samstöðu. Þannig skýrist utanríkisstefnan og samband við önnur lönd. Alþingi getur beitt sér betur, sótt fram á öllum sviðum og orðið fyrirmynd annarra þjóða.

(Þessi margumræddu sundrung og upplausn sem fylgdi brottför hersins: Er þetta ekki bara bull? Jú, einhver var ósáttur með Bandaríkjamenn. En samningar við þá hafa náðst. Eru ekki allir nokkuð ánægðir með það. Það held ég. – Þó hefði ég ekkert á móti því að sjá nákvæmari útlistun á hvað felst í samkomulaginu. En heildarniðurstaða þess var vænleg.)

Þó að tímarnir kalli áfram á úrlausn flókinna viðfangsefna þurfum við að forðast í lengstu lög að ágreiningurinn fari úr böndum og leiði til álíka klofnings og í áratugi dró úr þjóðinni kraft. Við þurfum öll að vanda okkur og nýta lýðræðið til að efla og styrkja samstöðuna.

Við þurfum að standa saman. Nýtum lýðræðið til þess.

(Hann stikar á því sem hann hefur áður talað um. Þetta er bara fagurgal. Að auki er þetta hræsnaraháttur, þar sem hann, í líki öryggisventils, greip fyrir hendur lýðræðiskjörins þings, að því er virtist í þeim eina tilgangi að koma höggi á Davíð Oddsson. Ég er að tala um fjölmiðlafrumvarpið, mál sem allir helstu leiðtogar stjórnarandstöðunnar höfðu lagt fram á undanförnum árum. Hann lagði þetta meira að segja til sjálfur á sínum tíma.)

Við sjáum ýmis merki þess að afstaðan til náttúrunnar kunni að verða viðlíka hitamál og herinn var fyrrum. Þúsundir mótmæla á götum Reykjavíkur á sama tíma og íbúar Austurlands fagna nýjum áföngum í byggðaþróun," segir Ólafur Ragnar Grímsson.

Sundrung ríkir um málefni náttúrunnar. Reykvíkingar mótmæla, íbúar Austurlands fagna.

(Sammála. Sundrung ríkir um málefni náttúrunnar. Ég er ósammála að hægt sé að segja, að Reykvíkingar séu á móti og Austurland með. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar, að ef ákvörðunin var landi og þjóð fyrir bestu, hvers vegna ekki að grípa tækifærið? Svo er það annað mál, hvort þetta var landi og þjóð fyrir bestu. Annars talaði ég við hóp mótmælenda á Austurvelli í gær. Ég spurði af hverju þeir væru að mótmæla. Það væri búið að byggja stífluna og nú væri lónið að fyllast. Hvað er hægt að gera úr þessu. Útlendur hippabjáni svaraði fyrir hönd hópsins, með vandlætingartóni í röddinni: Við erum að mótmæla næstu stíflu. Döhh…)

Forseti Íslands sagði í ræðu sinni að náttúra Íslands er okkur öllum kær, samofin sjálfstæðisvitund Íslendinga, uppspretta þjóðarauðs og framfara á flestum sviðum.

(Augljóst hjal og óþarfi að taka fram.)

„Þegar ágreiningurinn um veru hersins hefur nú verið til lykta leiddur með brottför varnarliðsins er afar brýnt að deilurnar um nýtingu náttúru Íslands skapi ekki nýja gjá. Þjóðarsátt í erfiðum málum er verðmæt auðlind og með samstöðuna að leiðarljósi eru okkur allir vegir færir. Í anda þeirrar sýnar bið ég alþingismenn að rísa úr sætum og minnast ættjarðarinnar," segir Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.

Við verðum að varast það, að ágreiningur um náttúruna skapi ekki sundrung.


---
Að öðru:

Ég geri ráð fyrir, að þeir sem þraukuð í gegn um ræðu ÓRG hér að ofan séu haldnir óseðjandi kvalarlosta. Því langar mig í leiðinni að lauma inn harðvítugri gagnrýni á fjárlög ríkisstjórnarinnar. Bara svona, til þess að halda partýinu gangandi.

Í Mogganum í dag, stendur að fjárlög Ríkisins fari að miklu leyti í vegaframkvæmdir; mig minnir 55%. Ég spyr: Er ekki í lagi með þá? Ef þeir eiga í erfiðleikum með að ráðstafa peningum ríkissjóðs, af hverju lækka þeir ekki bara skatta í staðinn? Og ég ætla rétt að vona, að vegaframkvæmdirnar gagnist ekki bara íbúum Skreiðadalsvíkur og Kleinugerðis. Ef meirihluti skattborgara býr á suð-vesturlandi, eiga þeir heimtingu á sínum bita af kökunni.


[1]
Stalín sagði einu sinni að Ísland væri eins og fallbyssa, sem beint væri til vesturs.

5 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Það er gott að þú hefur nægan tíma til að fara í saumana á ræðu forsetans.

Ertu annars búinn að koma ábendingum þínum áfram til Ólafs?

Kv.
Bjarni Þór

miðvikudagur, 04 október, 2006  
Blogger Jói Ben said...

Já já já. Ólafur les síðuna mína á hverjum degi.

miðvikudagur, 04 október, 2006  
Anonymous Nafnlaus said...

Þetta er öldingis rétt hjá Jóhannesi, ég les síðuna hans á hverjum degi.

En, Jóhannes. Við skulum ekki gerast sekir um hjarðningavíg. Þú segir að ég tali í belg og biðu, en ég tala ekki í biðu og belg, því ef ég talaði í belg og biðu, sem ég geri ekki, en segjum að ég gerði það, þ.e. að ég myndi tala í belg og biðu, hefði ég aldrei verið kosinn forseti. Þannig hlýt ég tala ekki í belg og biðu, því, eins og ég sagði áðan væri ég ekki hér, ef það væri raunin. Ég veit ekki einu sinni hvað biða er, en hitt veit ég að belgur er eitthvað stórt. Loftbelgir geta ferjað fólk upp í loftið og stundum á milli landa, en ég er ekki viss um að þeir geti borið fólk út fyrir gufuhvolfið. Þó veit maður aldrei. ég hef aldrei heyrt um loftbiðu en það hlýtur að vera andstæðan við loftbelg, þ.e. einhvers konar kafbátur. Kannski getur hann gefuð okkur svarið við leyndarmálum undirdjúpanna, þar sem fiskar sem hafa ljósaperu í staðinn fyrir nef, ráða ríkjum. Hver veit. Það veit ég hins vegar, að ég er ekki málalengingarmaður.

miðvikudagur, 04 október, 2006  
Anonymous Nafnlaus said...

Hef lesið marga leiðinlega pistla en þessi var með leiðinlegasta móti.

Leiðinlegra en vikingalottó!

En jói,þú ert alltaf kúl, heh heh.

miðvikudagur, 04 október, 2006  
Blogger Jói Ben said...

Þú ert maðurinn!

laugardagur, 07 október, 2006  

Skrifa ummæli

<< Home