miðvikudagur



Ég hef heyrt að þegar tveir prestar hittast á almenningssalerni, pissi þeir í kross og kyrji faðirvorið á meðan. Þetta er víst gert í virðingarskyni við himnaföðurinn. Eins með sex rabbína. Þeir lesa upp úr Gamla testamentinu og reyna að pissa í Davíðsstjörnu. Skrítið lið.

sunnudagur


Páskaeyja

Páskaeyja er þekkt fyrir risastórar styttur sem standa þar á víð og dreif. Ég las mér aðeins til um eyjuna um daginn og komst að því að saga hennar er frekar athyglisverð.


Jú, þetta eru risastórar styttur. Og hvað með það? Kynni einhver að spyrja. Og jú, vissulega er ekkert merkilegt við stytturnar sjálfar. Þannig séð. Það sem er merkilegt við Páskaeyjar, er staðsetning þeirra. En ég bjó til skýringarmynd með hjálp frá Google-earth[1] til þess að átta sig á staðsetningunni.




Fræðimenn telja að einhvern tímann um 500 e.Kr. hafi bátur með 20 - 30 manns villst út af leið og ratað á þessa afskekktu eyju. Hún var skógi vaxin og auðvelt að draga þar lífið. Einu skepnurnar sem ferðafólk kom með sér voru hænsnfuglar og rottur. Að öðru leyti var eyjan án dýra.

Smám saman stækkar hópurinn og árið 1500 er áætlað að eyjaskeggjar hafi verið um 7000. Þá höfðu þeir skipst í hópa sem áttu í innbyrðis erjum. Steinhausarnir eru líklega verk þessa manna.

Eftir því sem mannfjöldinn óx, gekk töluvert á trjástofninn. En það var frekar slæmt, því tréin voru undirstaða allra allsnægta. Húsin voru búin til úr viði, laufin voru borðuð og net voru ofin úr rótum. Svo ekki sé minnst á grjótskúlptúrana, sem eru margra mannshæða háir og þungir eftir því. Tréin voru notuð sem hlunnar undir þá, en þeir voru dregnir yfir þvera og endilanga eyjuna, frá klettasvæðinu að flottara svæði. Því fór það þannig á endanum, að tréin kláruðust.

Lífskjörin urðu að engu, fólki fækkaði, flutti í hella og lagðist í mannát. 200 árum síðar kemur, ~árið 1720, villist einhver evrópskur ævintýramaður til eyjarinnar. Honum fannst ekki mikið til hennar koma né aumingjanna sem hana byggðu, en steinhausarnir vöktu athygli hans. Og þegar innfæddir voru spurðir um hvernig þeir hefðu verið búnir til (því augljóslega höfðu þeir verið fluttir þangað og augljóslega áttu þeir engin tól til að flytja þá), svöruðu þeir því til að hausarnir hefðu labbað þangað sjálfir frá klettabeltinu, en saga þeirra var löngu gleymd. Fimmtíu árum seinna kom næsta fley og sótti nokkra þræla.

Nú er eyjan aðallega notuð í beitiland og eru örfáir innfæddir þar eftir, sem halda utan um sauðfjárstofninn - ekki að þeim sé það í blóð borið að halda utan um stofna, en það er annað mál. En, já. Þetta finnst mér mögnuð saga.


[1]
Mjög flott forrit sem allir ættu að tékka á. Þar er hægt að sjá allan heiminn úr lofti. Til dæmis er hægt að telja rúllubaggana á túni
einu hjá bónda í Borgarnesi.

miðvikudagur



Skólinn minn liggur í Lyngby, litlu bæjarfélagi rétt utan við Kaupmannahöfn. Lyngby er voða snotur bær, en ekkert meira en það. Ég var að hugsa um þetta um daginn, það er eins og hann skorti allan persónuleika. Mér datt bara einn staður í hug sem er minna spennandi en Lyngby, en það er Garðabær, sem er
með öllu sálarlaus.

Svo fór ég einhverra hluta vegna að hugsa um rómantísku skáldin (sem mér finnst yfirleitt hundleiðinleg), og þá sérstaklega Jónas Hallgrímsson. Hvað hefði orðið skáldskapinn, ef hann hefði búið í Lyngby? Órómantískari stað er vart hægt að finna[1]. Eitt leiddi af öðru, og allt í einu var ég byrjaður að semja rómantískt ljóð um Lyngby, líklega fyrstur manna. Ljóðið rann úr fingrunum og tók eina og hálfa lestarferð. Það er að sjálfsögðu samið í stíl Eddukvæða og er engu síðra, þó ég segi sjálfur frá
(og ef eitthvað er, talsvert betra). Ljóðið heitir Ó! Lyngby, fagra Lyngby! og er sjö erindi. Ég geri ráð fyrir að íbúar Lyngby taki þessum ættjarðaróði opnum örmum, og geymi það í munnmælum mann fram af manni, þangað til að einn daginn einhverjum dettur í hug að festa það á prennt. Bálkurinn gæti heitað: Sæmundar-Edda in danska. Og hver veit nema að eftir þúsund ár muni ungur stormhugi sækja innblástur í þetta ljóð, og takast á við það ómögulega verkefni að semja ljóð um Garðabæ.

En hér er ljóðið góða (og svo tek ég mér smá pásu í skriferíi næstu daga, enda frekar mikið að gera í skólanum).


Ó! Lyngby, fagra Lyngby!

Leiðat til Lyngby
lest of teinum
rennur.
Úti fyr durum
sól of brennur.
Heiðum himni
fuglar syngja
dirridí.

Lyngbystation,
alda augum,
lágreizt blasir.
Málmjó fnýs
og staðar nemur;
áir sínum innvið;
út vill alda mankind,
grön-at nokkurs spyrja.

Einn þar fann,
grán fyr járnum;
sverði prýddan,
skildi vaxinn.
Illt í hyggju,
gott-at getur.

Einn þar fann
á fleti fyr
er hótat hafði
hjálmaklett
af herðumk sníða.
- Vitið ér enn, eða hvað?

Tösku burt
af baki þeyti.
Og hnúa munda,
hreysti treystir,
hlakkat hróður auka.
- Vitið ér enn, eða hvað?

- Leggur úlf
mig al
á velli. -
Heiðum himni
fuglar syngja
dirridí.

Fótum neppur,
norna dómi
keikur hlýði.
Geiri studdur,
hlæ í hyggju,
níðs ókvíðinn.


[1]
Fyrir utan Garðabæ, að sjálfsögðu. Jafnvel nafnið sjálft er óspennandi. Garða-bær. Svona þegar maður skoðar Lyng-by, að þá hljómar það alls ekki svo illa. Lyngi vaxinn bær. Það er pínu rómantískt.


Er enn að lesa Eddukvæðin. Í Lokasennu blæs Ægir til veislu. Allir eru hæst ánægðir, og þá sérstaklega með þjónustumenn gestgjafans, þá Fimafelg og Eldi. Loki verður eitthvað afbrýðissamur og drepur Fimafelg, sem verður til þess að æsirnir hálfpartinn púa hann burtu. Þegar út er komið, berst Loka það til eyrna að verið sé að baktala hann inni, og er ekkert hress með það. Þannig að hann ryðst aftur inn í veisluna og byrjar dissa viðstadda. Þetta sagði Loki um nokkra æsina:

Óðinn: Er ósanngjarn dómari og gefur lúserum oft sigurinn í bardaga.
Óðinn svarar: Heyrðu vinur, þú ert bara hommi. Enda hefurðu mjólkað kýr og fætt börn eins og kona. Feis!
Loki: Heyrðu nú mig, þú ert bara sjálfur hommi. Manstu ekki þegar þú barðir á trumbu eins og spákona. Er það ekki svoldið gay...?

Njörður: Loki rifjar upp þegar tröllkonurnar pissuðu á hann (hefur eflaust verið frekar neyðarlegt). Auk þess nefnir hann að Njörður hafi átt barn með systur sinni.

Týr: Fyrst gerir Loki grín að því að hann er einhentur (Ha ha ha, en fyndið. Óborganlegt grín!), svo talar hann um það þegar hann lagðist með konu Týs og átti með henni son. Spæló.

Heimdallur: Er bara einhver vaktmaður þarna í Ásgarði.

Þór kemur nú og segir við Loka: Heyrðu vinur, ef þú þegir ekki drep ég þig.
Loki svarar: Þú ert bara gunga, þorir ekki einu sinni að berjast við Fenrisúlfinn.
Þór: Þegiðu, annars...
Loki: Jáhh... ég man nú þegar þú faldir þig þarna í den fyrir einhverju aulum. Það var nú aulalegt, enda ertu þú algjör auli. Auli.
Þór: Þegiðu, annars brýt ég öll beinin í þér með þessum hamri (hefur vafalaust dregið upp Mjölni og sveiflað honum í hringi).
Loki: Jæja, ég held ég fari bara núna (enda er Þór yfirleitt alvara þegar hann hótar).

Að því loknu hreytti Loki einhverjum ónotum í Ægi og stakk sér til sunds í Fránangursfoss, í líki laxs. Þar höfðu goðin síðan upp á honum og reyrðu hann fastan með þörmum sonar hans. Eiturormur var svo látinn dingla fyrir ofan hann, hvaðan úr drupu eiturdropar með reglulegu millibili. Þar þurfti Loki að dúsa fram að Ragnarökum. The end.

mánudagur



Ok. Í gær var ég að amast yfir Þórbergi Þórðarsyni og nálgun hans á raunveruleikann. Ég var aðeins að hugsa um þetta, og ég held að ég hafi verið of fljótur á mér að dæma hann. Málið er, að mín nálgun á það sem er raunverulegt er allt önnur en hans. Fyrir honum er veruleikinn það raunverulega, en hugurinn málsvari þess óraunverulega. Það meikar, þannig séð, alveg ágætan sens. Þannig að þegar hann talar um að vísindi, trú og listir séu óraunverulegar, að þá er það í þeim skilningi, að þetta eru allt huglæg fyrirbæri sem hvergi eru til í veruleikanum [1]. Sækni í þá áttina er því flótti frá raunveruleikanum.

Mér finnst raunveruleikinn endurspeglast miklu frekar í ástandi sálarinnar. Ef veruleikinn er fúll og þreyttur, virkar hann óraunverulegur á mig. Eina sem ég get mögulega fengið út úr lífinu á þeim tímapunkti, er í gegn um drauma eða einhvers konar hugsana-vellu. Og það er afskaplega óraunverulegt. En hins vegar, ef eitthvað í veruleikanum vekur áhuga minn, lifna ég við. Huglægir hlutir geta líka kveikt í mér, svosem eins og vísindi og listir, eða bara innihaldsrík samtöl. Upplifunin sem slík verður raunveruleg, þó að hún sé ekkert endilega áþreifanleg. Og á einhvern hátt, öðlast maður tímabundna lífsfyllingu [2].

Og þar með er það komið á hreint.


[1]
Jú, ég veit vel að listaverk eru áþreifanleg. En list er afstæð. Það er ekki hægt að benda á eitthvað og segja: Þetta er list! Þá getur einhver annars svarað: Nei, Jóhannes. Þetta er ekki list. Þetta er ruslatunna. Og þá myndi ég segja: En sérðu ekki hvað hún er heillandi. Hrein og falleg, og glitrar eins og sjálfur reeegnboginn. En samt svo skítug, ó, svo skítug! Ætli listamaðurinn hafi ætlað að endurspegla flærð mannskepnunnar? Undir lýtalausu yfirborðinu, kraumar sorinn og subbulegar hugsanir... Og þá fengi ég hnefa í andlitið. --- Ok. Ég er kominn af leið. En, já. Það sem ég er að reyna að koma orðum að, er að í rauninni ekki hægt að skilgreina list öðruvísi en sem einstaklingsbundna upplifun. Og sem slík er hún huglæg.

[2]
Sem er einmitt tilgangur lífsins. Að öðlast lífsfyllingu.

sunnudagur



Þórbergur segir, að þegar hann fór á sjóinn hafi grá og dapurleg nálægðin gefið honum bláa fjarlægð, fulla af af glæsilegu lífi. Baráttan gegn veruleikanum varð hlutskipti hans. Svo talar hann um að trú, vísindi og listir séu baráttan gegn skynfærunum. Hann vitnar líka í Maxim Gorkí, sem sagði að trú, vísindi og listir séu baráttan gegn veruleikanum.

Ég er þeim báðum hjartanlega ósammála. Það er ekkert raunverulegra en vísindi og listir (læt trúna liggja á milli hluta, en hún byggir á sjálfsblekkingu, sem getur aldrei verið annað en óraunveruleg). Er nokkuð sem er raunverulegra sannleikurinn? Og er það ekki það sem vísindin snúast um, að finna sannleikann? Og listir. Þegar ég les góða bók, hlusta á góða tónlist eða upplifi eitthvað sem hittir í mark, endurnærist ég allur. Það hitti í mark, vegna þess að fyrir mér var það raunverulegt. Það meikaði sens. Hljómaði rétt. Var ekta. Ef það er eitthvað sem er óraunverulegt, að þá er það vosbúðin og veltingurinn á sjónum. Allir dagar eins, gráir og dapurlegir. Og á endanum flýr maður á náðir drauma. Hvað er óraunverulegra en draumur?

laugardagur



Ísraelar eru að yfirgefa Gaza. Mjög gott mál og greinilegt að þeir ætla sér að fylgja Vegvísinum. Mbl.is segir frá því að meirihluti Ísraela sé hlynntur flutningnum. Aftur: Mjög gott mál. En það er eitt í þessu sem ég skil ekki. Alltaf þegar sýndar eru sjónvarpsmyndir frá rýmingunni, liggur allt liðið í manískum, óstoppanlegum grátkviðum. Og allir virðast gráta. Sjúkraliðar, lögreglumenn og hermennirnir sem eru að framkvæma flutninginn. Meira að segja játaði sjálfur forsætisráðuherrann, herra Aríel Sharon, að hafa fellt tár við að hafa horft á brottflutninginn verða að veruleika - og bætti reyndar við að landtökunni væri sko ekki lokið, og þó síður væri. Svona ímynda ég mér helvíti. Grátur og gnístran tanna. Eymd og volaðsvein. Og á einum hakanum (eru þeir ekki alltaf í einhverri námuvinnu?) heldur Aríel Sharon hágrátandi.

En, jæja. Það er náttúrulega ekki gaman að þurfa að yfirgefa heimili sín. En, það hefur staðið frekar lengi til að þeir yfirgæfu landið. Af hverju þessi móðursýkislegu grátköst nú? Eins og þetta hafi komið þeim á óvart..? Og svo er náttúrulega alltaf hægt að benda á, að þeir voru ekki þarna í góðu. Ísraelar hafa verið mjög yfirgangssamir (sölsuðu undir sig Gaza í Sex daga stríðinu; stríði sem Ísraelar hófu) og ekki borið mikla virðingu fyrir þeim sem fyrir voru.

Já, ég skal ekki segja. Jú, svo held ég að palestínska heimastjórnin mætti alveg mæta Ísraelum í þessu með því að berjast gegn Hamas (og öðrum skæruliðasamtökum). Það þýðir ekkert að hafa svona óstýrláta rugludalla með sér í liði. Ekkert sem þessi skæruliðasamtök taka sér fyrir hendur virðist hjálpa friðarferlinu. Ekkert.

fimmtudagur




Ég gleypti pöddu í dag. Paddi pödduson hét hún. Blessuð sé minning hans.

miðvikudagur



Í gær las ég Hávamál í lestinni til og frá Lyngby. Í grófum dráttum snýst hún um það hvernig menn eigi að bera sig að í lífinu. Þó að vísurnar eigi að vera dregnar saman úr mismunandi áttum, átti ég auðvelt með að ímynda mér að einn maður hafi samið þær. Alla vega svona til að byrja með. Maðurinn er ágætlega þenkjandi, pínulítið vænisjúkur og hégómafullur. Eða, hégómafullur... Það er kannski ekki alveg rétta orðið. Honum er alla vega ekki sama hvernig hann stendur gagnvart öðrum. Og svo kemur það líka skýrt fram að hann þolir ekki bjána.

Ég er ekki alltaf sammála honum, en oft finnst mér hann hitta naglann ágætlega á höfuðið. Ein vísan finnst mér góð:

Vesall maður
og illa skapi
hlær að hvívetna.
Hittki hann veit,
er hann vita þyrfti,
að hann er-a vamma vanr.

Svona fólk þoli ég ekki. Felur sig á bak við fíflslegan hlátur. Sérstaklega fer í taugarnar á mér fólk sem fer að hlæja í staðinn fyrir að svara fyrir sig. Og með því að hlæja, er það að senda út skilaboðin að spurningin sé ekki einu sinni svara verð. Ha ha ha ha haaa... Svona flýr viðmælandinn af hólmi þegar honum berast óþægilegar spurningar. Með yfirlætislegum hlátri. Fullkominn aumingjaháttur. Þetta gerist mjög oft í pólitískum sjónvarpsrökræðum. Takið eftir því.

Jæja, ég ætlaði nú að skrifa eitthvað meira. En, nei.

þriðjudagur



Ég las Völuspá í lestinni til og frá Lyngby í dag. Síðan í menntaskóla hef ég lesið hana nokkrum sinnum og finnst hún alltaf verða betri og betri. Uppáhaldskaflinn minn er þegar örlaganornin lýsir ástandinu eins og það er þá stundina, þegar allir eru að vígbúast og á leið til orrustu. Það er alveg magnaður hluti. Í austri rennur ísköld áin Slíður, en í henni fljóta axir og sverð. Í norðri er salur úr gulli, en þar á dvergurinn Sindri heima. Fjarri sólu , nánar tiltekið á Náströndu, er ískaldur salur, hvers veggirnir eru fléttaðir úr lifandi ormum. Þar hírast morðvargar, eiðbrjótar og hjónadjöflar. Þeir þurfa að díla við úlfa og drekann dimma Niðhögg á hverjum degi. Blóð feigra manna litar himinninn rauðan og sól tekur að sortna. Í austri situr glaður Eggþér (líklega einhver húskarl tröllkonu þar) og glamrar á hörpu. Og fagurrauður hani galar í bakgrunn. Æsir vakna við gal Gullinkamba, en í sölum Heljar ræsir sótrauður hani mannskapinn. Allir eru á leið í bardaga.

En það eru líka kaflar sem fara í taugarnar á mér. Til dæmis finnst mér fall Óðins (sem er nú eiginlega aðalmaðurinn) ekki nógu rismikið, miðað við til dæmis fall Þórs. Um Óðinn segir: ...Óðinn fer við úlf [að] vega [...] þá mun Friggjar falla angan (það er, þá mun Óðinn deyja). Á meðan Þór drepur Miðgarðsorminn af miklum móð, gengur níu skerf aftur á bak og hnígur niður, ,,níðs ókvíðinn".

Svo fór endurkoma Baldurs frekar mikið í taugarnar á mér (en hann fékk einhverra hluta vegna að snúa aftur úr Hel eftir að orrustan hafði verið háð og ný kynslóð ása tekin við). Hann, þessi fallega, flekklausa sál; sá sem allir elskuðu, vegna þess að hann var svo fagur; hinn dæmigerði metróhommi. Af hverju gat hann ekki bara dáið? Þetta er pínulítið eins og amerísk bíómynd. Góður endir. Æ, samt. Af hverju þurfti hann endilega að lifa. Af hverju ekki Óðinn eða Þór?

Ég hefði líka viljað vita meira af afdrifum Loka, en hann var hlekkjaður af ásunum eftir dauða Baldurs. Svo, þegar orrustan hófst, losnaði hann og fylkti liði með jötnum gegn ásum. Dó hann í orrustunni, eða gerðist hann einhvers konar skugga-prins? Ég væri alveg til í að þeir myndu finna eitt eintak í viðbót, svona óstytta útgáfu, með viðaukum og öllu, sem myndi svar þessari spurningu, því Loki er án efa einn af athyglisverðurstu karakterum Ásatrúar. Í grunnskóla átti ég einu sinni að leika hann í einhverju leikriti. Ég hlakkaði mikið til og æfði mig að núa saman höndunum, eins og lævísir og undirförlir menn gera yfirleitt. Svo varð mér það á að spyrja kennarann um einhvern óskilgreindan son Þórs, sem mig minnir að hafi heita Ullur eða eitthvað álíka aulalegt. Sem varð náttúrulega til þess að ég þurfti að leika hann í staðinn fyrir Loka. Skíta Ullur! Ég er eiginlega ennþá fúll.

Og að lokum finnst mér alltaf eins og einhver kristinn maður hafi komist í handritið og laumað inn í einu versi (næstsíðasta vísan, nr. 66), en það fjallar um hinn nýja Guð, þann sem öllu ræður í hinum nýja heimi. Kvæðin eru bókfærð einhvern tímann eftir kristnitökuna og það er eitthvað svo heppilegt að segja: Jæja, nú eru öll goðin dáin og nýr gæi kominn í brúna. Og hann heitir Kristur. Jesú Kristur.

Jæja, svo er það Hávamál á morgun.

sunnudagur



Einn kaflinn í bókinni Gengið á rekann eftir Kristján Eldjárn segir frá silfri Egils Skallagrímssonar. Honum hafði áskotnast tvær kistur fullar af silfri fyrir hetjulega frammistöðu í bardögum fyrir Aðalstein konung. Agli þótti mjög vænt um silfrið og sat á því eins og ormur á gulli. Eftir því sem hann eltist, fór hann að hrylla við að einhvern tímann myndi silfrið lenda í höndum einhvers annars. Þannig að hann ákvað að fela það. Nokkrar sögur eru til um afdrif silfursins sem ég
nenni ekki að tína til hér. Þó er ein saga sem ber af. Og í rauninni er hún svo sannfærandi og styrkt með svo góðum rökum, að ég er ekki í nokkrum vafa um að hún sé rétt. Hún er þannig:

Jón frá Grunnavík (HKL skrifar um hann í Íslandsklukkunni), hjálparhella Árna Magnússonar handritasafnara, hafði gríðarlegan áhuga á alls konar álfa- og tröllasögum, og skráði niður mikið magn af áhugaverðum munnmælasögum. Einu sinni segir hann frá því, að bróðir sinn hafi einhvern tímann heyrt af þremur silfurpeningum sem skaut fram í
miklum vatnavöxtum í Mosfellsdal. Bróðir Jóns hafði séð einn peninginn og rámaði í að hann hafi borið áletrunina ANSLAFR. Þetta er ritað um miðja 18. öld.

Seinna, líklega um miðja síðustu öld, kemur upp úr krafsinu, að aðeins einu sinni hafi mynt með þessari áletrun verið slegin. En það var einmitt árið áður en Egill barðist fyrir hönd Aðalsteins konungs. Óvinur Aðalsteins (sem ég man ekki hvað hét), lét útbúa silfurpeninga með þessari áletrun fyrir sjálfan sig. Og það er auðvelt að leiða getum að því, að þegar Aðalsteinn bar sigur úr bítum, hafi hann að einhverju leyti deilt herfanginu niður á hermenn sína.

Það er ekki möguleiki að Jón, og hvað þá bróðir hans, hafi vitað af þessari áletrun. Og hefði Jón ætlað ljúga til að gera sögu sína trúlegri, hefði hann líklega sagt að áletrunin væri ADALSTEIN eða eitthvað í þá áttina. Nafnið á óvini Aðalsteins kemur ekki fyrir í Egilssögu. Hann getur ekki fræðilega séð hafa vitað nafnið hans (En aðrar heimildir eru til af þessum bardaga þar sem nafnið kemur fram, þær hafa alveg örugglega ekki legið fyrir á tímum Jóns G). Fyrir mér er þetta ekki einu sinni spurning. Silfrið er til og það er falið einhvers staðar þarna í Mosfellsdalnum. Að öllum líkindum er það fast inni í einhverju rofabarðinu. Alveg pottþétt.

Ég hef skoðað Mosfellsdalinn á korti, og mér sýndist sem svo að þar séu fjögur gil sem komi til greina. Í einu þessara gila er silfrið falið, að öllum líkindum einhvers staðar meðfram farvegi lækjarins. Og það hlýtur að liggja neðarlega, þar sem lækurinn hefur náð nægum krafti til að gets rist í sundur nánasta umhverfi sitt. Þannig að leitarsvæðið hefur verið þrengt niður í, jahh, líklega ~ tveggja kílómetra langan göngutúr með málmleitartæki. Og svo er það annað. Egill hefur alveg örugglega valið stað sem ekki liggur á opnu svæði. Hann hefur náttúrulega viljað fá næði til að grafa það (Eða láta grafa það fyrir sig, en þrælarnir hans sáu um það - svo segir sagan að hann hafi drepið þá til þess að búa einn að leyndarmálinu). Þannig að ég held, að maður geti örugglega útilokað einhver gilin. Þannig að, í rauninni þarf maður bara að leita á ~ hálfs kílómetra svæði.

Þetta er ekki lengur spurning um að finna silfrið, ég er löngu búinn að því. Núna snýst þetta bara um að sækja það.

laugardagur



Nú er Baugsmálið aðeins byrjað að skýrast. Ákæruliðir eru 40 talsins og eru af ýmsu tagi. Flestir liðanna snúa að Jóni Ásgeiri og er hann meðal annars sakaður um tugmilljón króna fjárdrátt og umboðssvik. Verði hann fundinn sekur á hann yfir höfði sér allt að sex ára fangelsisdóm.

Á næstu dögum verður athyglivert að fylgjast með Baugsmiðlunum, því þeir munu að öllum líkindum reyna eftir fremsta megni að rétta hlut eiganda síns og að sama skapi sverta hlut ákæruaðila. Ef gripið er inn í einhvern miðilinn af handahófi, virðist þessi Davíð Oddsson vera hinn mesti fauti og níðingur. Og að aðalatriðið í þessu öllu saman, sé að líta á heildarmyndina. Að ekki megi slíta ákæruatriðin úr samhengi við þann hraða sem þurfi að viðhafa í íslensku viðskiptalífi ætli maður sér ekki að verða undir.

Gott og vel. Það má vel vera að íslensk lög sníði bisnissmönnum þröngan stakk. Og það má vel vera að þar þurfi breytinga við. En það á samt að fara eftir lögunum, sama hversu asnaleg þau eru. Og hvað Davíð Oddsson varðar, ætti honum að vera alveg sjálfsagt að beita sér fyrir rannsókn á Baugi. Ef þeir hafa hreinan skjöld, sannast það bara fyrir rétti og þeir koma tvíefldir til baka. Svo einfalt er það.

föstudagur

Karíus og Baktus. Hvílíkir bastarðar! Vinna við að eyðileggja tennurnar í Jens. Af hverju? Hvað græða þeir á því? Af hverju laga þeir ekki tennurnar frekar? Það er uppbyggilegra. Er ekki alveg viss um að Thorbjörn Egner hafi hugsað þetta til enda. Þetta er eins og hryðjuverkamennirnir. Hvað græða þeir á því að sprengja strætisvagna? Jú, þetta er statement. Þeir vilja Bandaríkin burt frá Írak. En hvað? Eru þeir einhverju nær því að hrekja þá burt með því að sprengja upp vagnana? Ég get ekki séð það. Og í rauninni tapa þeir heilmikið á þessu. Þjóðin sem varð fyrir barðina á sprengjunni þjappast saman gegn málstaði hryðjuverkamannanna og þjóðarleiðtoginn fær aukið umboð til að beita sér gegn þeim. Og þeir sem tapa kannski mest á þessu eru aðrir múslimar (eða hvaða nafni hryðjuverkamennirnir töluðu), sem eru bara venjulegir menn, en eru síðan settir undir sama hatt og þessir hugsjónaidjótar.

Já, og svo er það annað. Í Kardimomubænum finna bófarnir ekki neitt, því allt er í rusli heima hjá þeim. Þeir nenna ekki að laga til og ákveða að stela konu til þess að gera það fyrir sig. Enn er Thorbjörn ekki alveg nógu korrekt í hugsun. Er ekki pælingin sú, að þeir stálu konu vegna þess að þær laga til? Konur laga til. Aldrei í lífinu hefðu þeir stolið karlmanni, því ef líku lætur hefði hann bara lagst í sófann og ruslað enn meira til.

Og bjuggu bófarnir ekki með ljóni? Það er álíka furðulegt og að einu sinni hafi bestu vinur Michael Jackson verið api (Bubbles). Ég átta mig ekki einu sinni á því hvernig það fúnkerar. Hvað hefur apinn mögulega getað lagt til málanna? Mér dettur ekkert í hug. En, já. Ég veit svosem ekki hvert ég ætlaði með þessar pælingar. Ég hef áhyggjur af því að ég sé að fá tannpínu, það var kannski bara það.

miðvikudagur


Nokkur ljót dönsk orð:
* 1800-tallet = 19. öld
* Mælkevejen = Vetrarbrautin
* Borte med blæsteren = Á hverfandi hveli (Held að okkar þýðing sé sótt í Völuspá, á meðan þeirra er frekar ódýr og rislítil þýðing á Gone with the winds.)
* Skildpadde = Skjaldbaka (Miklu líkari böku en pöddu - samt er örugglega verið að vísa í að skjöldurinn er á bakinu hennar [update: padde þýðir víst froskdýr af flokknum Amphibia, sem getur aftur á móti líka þýtt farartæki sem er jafnvígt á sjó og landi. Þannig að skildpadde er bara frekar flott orð, þannig séð.])
* Ubåd = Kafbátur
* Komputer = Tölva

Nokkur flott dönsk orð:
* Skraldespande = Ruslatunna (Er ekki réttari íslenska að segja rusltunna í stað ruslatunna?)
* Frikadeller = Kjötbollur (Maður fattar ekki hvað kjötbolla er ljótt orð fyrr en maður þýðir það beint yfir á dönsku: K
ød-bolle.)

þriðjudagur



Í byggingu 303 er bara eitt klósett. Og til þess að komast þangað þarf maður að vaða eld og brennistein, því leiðin er löng og hlykkjótt. Svo eru líka draugar sem fela sig inni á því, sem gerir leiðina jafnvel enn lengri. Þetta er frekar ömurlegt, nema hvað að í gær gerði ég stórkostlega uppgötvun. Ég prófaði að opna leyndardómsfullu dyrnar á einum vegg tölvuversins og viti menn, þar var annað klósett. Og ofan á allt saman, var líka rúm í herberginu við hliðina á því. Þannig að nú á ég svefnaðstöðu hérna í skólanum og einkakamar - sem er ekki amalegt.

Reyndar fann ég annað svona töfraherbergi fyrir nokkrum mánuðum. Það var nánast tómt, fyrir utan einhverja stóla, blaðarekka og rúm. Ég var pínu þreyttur og fór úr skónum og ákvað að fá mér smá lúr. Eftir dágóða stund varð ég var við raddir. Ég ákvað að opna ekki augun og hlusta á aðkomumennina. Þeir voru a.m.k. fjórir og ég gat ekki betur heyrt en að þeir væru að tala um mig. Ég þagði þunnu hljóði og þóttist áfram vera sofandi. Loksins, þegar ég heyrði að þeir sneru baki í mig, reis ég hljóðlega upp, klæddi mig í skóna og laumaðist út úr herberginu án frekari málalenginga. Ég hef ekki hugmynd um hvaða menn þetta voru, en svona, ef grunur minn reynist réttur, að þá hefur þetta vafalaust verið danska konungsfjölskyldan.

mánudagur



Fékk hugmynd að smásögu. Ok. Aðalpersónan vinnur á kafbáti sem sekkur. Þeir eru sjö um borð og eiga súrefnisbirgðir í tvo daga. Forseti Rússlands talar við þá og lofar að bjarga þeim á þessum tveimur dögum. Aðalsöguhetjan hefur nú heyrt hann lofa ýmsu um tíðina og kaupir ekki þetta loforð. Hún hugsar sem svo: Til eru 7 x 2daga súrefnisbirgðir. Það jafngildir 1 x 14 daga súrefnisbirgðum. Þ.e. ef hann drepur hina, á hann sjálfur meiri séns á að lifa. Og er það ekki réttlætanlegt? Annars vegar að einhver lifi, á móti því að allir deyi? Og þar með ákveður söguhetjan að drepa hina. Þegar hann er búinn að því áttar hann sig á því að það er ekki nóg til af mat, þannig að hann afræður að éta þá sem hann var að drepa áður en þeir skemmast. Eftir tvo daga er honum svo bjargað. Þetta er vandræðalegasta mál fyrir söguhetjuna, enda búinn að borða alla vini sína að óþörfu. Hann reynir að ljúga einhverju; að þeir hafi gert þetta við sjálfa sig, en enginn trúir honum. Hans bíður hræðileg refsing. Það á að senda hann aftur niður í kafbátinn og láta hann hugsa um það sem hann gerði. Svo gerist kraftaverk. Fyrir ótrúlega tilviljun, kemur í ljós að þeir voru allir alræmdir glæpamenn, sem átti hvort eð er að kitla til dauða, og því er honum ekki refsað heldur er hann í staðinn sæmdur æðstu heiðursorðu Rússlands. Og hann lifði hamingjusamur til æfiloka. Endir.

(Jæja, jæja. Endirinn er kannski svoldið ódýr, en það má laga hann. Til dæmis með því að þetta hafi allt gerst á fyrsta apríl og þeir hafi ekki dáið ,,í alvörunni". Eða... ég veit ekki...)

sunnudagur







Er að prófa nýtt kerfi. Málið er að ég er frekar bissí þessa dagana og hef ekki fundið tíma til að skrifa neitt á þessa síðu. En, mér datt í hug að svona blogger-kerfi myndi kannski stytta leiðina að tölvunni. Ég er alla vega búinn að setja það upp, sjáum svo hvað setur.