laugardagur



Ísraelar eru að yfirgefa Gaza. Mjög gott mál og greinilegt að þeir ætla sér að fylgja Vegvísinum. Mbl.is segir frá því að meirihluti Ísraela sé hlynntur flutningnum. Aftur: Mjög gott mál. En það er eitt í þessu sem ég skil ekki. Alltaf þegar sýndar eru sjónvarpsmyndir frá rýmingunni, liggur allt liðið í manískum, óstoppanlegum grátkviðum. Og allir virðast gráta. Sjúkraliðar, lögreglumenn og hermennirnir sem eru að framkvæma flutninginn. Meira að segja játaði sjálfur forsætisráðuherrann, herra Aríel Sharon, að hafa fellt tár við að hafa horft á brottflutninginn verða að veruleika - og bætti reyndar við að landtökunni væri sko ekki lokið, og þó síður væri. Svona ímynda ég mér helvíti. Grátur og gnístran tanna. Eymd og volaðsvein. Og á einum hakanum (eru þeir ekki alltaf í einhverri námuvinnu?) heldur Aríel Sharon hágrátandi.

En, jæja. Það er náttúrulega ekki gaman að þurfa að yfirgefa heimili sín. En, það hefur staðið frekar lengi til að þeir yfirgæfu landið. Af hverju þessi móðursýkislegu grátköst nú? Eins og þetta hafi komið þeim á óvart..? Og svo er náttúrulega alltaf hægt að benda á, að þeir voru ekki þarna í góðu. Ísraelar hafa verið mjög yfirgangssamir (sölsuðu undir sig Gaza í Sex daga stríðinu; stríði sem Ísraelar hófu) og ekki borið mikla virðingu fyrir þeim sem fyrir voru.

Já, ég skal ekki segja. Jú, svo held ég að palestínska heimastjórnin mætti alveg mæta Ísraelum í þessu með því að berjast gegn Hamas (og öðrum skæruliðasamtökum). Það þýðir ekkert að hafa svona óstýrláta rugludalla með sér í liði. Ekkert sem þessi skæruliðasamtök taka sér fyrir hendur virðist hjálpa friðarferlinu. Ekkert.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home