mánudagur


Gjörningur Rúrí

Fyrir nokkrum vikum sá ég myndskeið á fréttavef Moggans, hvar listamaður að nafni Rúrí var að fremja gjörning. Hann var einhvern veginn þannig, að listamaðurinn stakk sér til sunds í Drekkingarhyl á Þingvöllum og fann þar á botni nokkrar dularfullar skjóður. Þegar þær voru opnaðar kom í ljós kvenmannsföt og skór, táknrænar líkamsleifar þeirra kvenna sem voru teknar þar af lífi á 17. öld. Að lokum las hún upp nöfn kvennanna. Með gjörningnum vildi hún heiðra minningu þeirra og vonaði að með honum fengju þær uppreisn æru.

Ásetningur Rúrí var fallegur, en ég er ekki ánægður með framgöngu hennar. Ég spyr: Af hverju beitti hún sér ekki öðruvísi? Hún hefði getað skrifað fallega minninga-grein um þessar konur og fengið hana birta í einhverju dagblaði. Þannig er minni fólks yfirleitt haldið á lofti og heiðrað. Eða með því að skora á stjórnvöld að reisa þeim einhvers konar minnisvarða. Til eru fordæmi fyrir því.

En, nei. Ekki Rúrí. Þessi ágæta kona, kaus að heiðra minningu kvennanna, með því að busla þarna í hylnum þar sem þeim var drekkt, og þykjast finna líkamsleifar þeirra. Hvað var hún að spá? Þetta er ekki list/athöfn. Þetta er skrípaleikur og að sama skapi mjög ósmekkleg leið til að heiðra minningu einhvers [1].

Á móti væri hægt að segja, að með gjörningi sínum hafi hún vakið athygli á málstað þessara kvenna. Og það er rétt. Ég hjó eftir þessari frétt og hún hefur dottið inn í hausinn á mér af og til síðan þá. En ekki í eina sekúndu hef ég hugsað um konurnar, sem hún var að heiðra. Neibb. Á engum vakti hún meiri athygli, en sjálfri sér: Listamanninum Rúrí. Hvort það var ætlunin eða ekki, var það engu að síður niðurstaðan: Fullorðin kona buslar í Drekkingarhyl, í nafni listarinnar [2].

Ef hún hefði skrifað fallega grein. Látið hana heita: Konurnar í Drekkingarhyl. Sent á Moggann til birtingar í sunnudagsblaðinu. Rakið sögu þeirra og óréttlætið. Ég hefði lesið hana. Og að öllum líkindum, hefði minning þeirra lifað í hausnum á mér í dágóðan tíma.


[1]

Stundum er heppilegt að heimafæra eitt dæmi upp á aðrar aðstæður og aðrar persónur, til að sýna hversu asnalegt fyrra dæmið var. Hér er dæmi:

Segjum að ég væri dæmdur til dauða, fyrir smávægilegar sakir, grýttur og dysjaður einhvers staðar á Miklatúni. Ok. Eftir 300 ár, stríðir glæpur minn ekki lengur gegn gildum þjóðfélagsins og almennt þykir hann harður og ósanngjarnt. Segjum nú, að listamaður að nafni Xyló vildi taka upp hanskann fyrir mig og sæi þrjár leiðir færar:

1. Að skrifa fallega um mig í Morgunblaðið.

2. Að reisa mér minnisvarða á Miklatúni.

3. Að hann hringdi í alla helstu fjölmiðlana, setti á svið skrípaleik þar sem hann rasaði bjánalega um túnið í leit að einhverju dularfullu. Væri jafnvel með sporhund, eins og um alvöru rannsókn væri að ræða (Rúrí var með kafara). Svo: Aha! Hundurinn fann eitthvað! Nei!? Hvað höfum við hér? Jú, ef þetta eru ekki líkamsleifar Jóa Ben. Leiksýningin heldur áfram og hann lýsir því yfir, að vonandi hafi hann, með þessum gjörningi, reist upp æru mína.

Ég gef grænt ljós á lið eitt og tvö. En liður þjú. Oj! Hvílík smán það yrði fyrir minningu mína, ef Xyló næði að fremja gjörninginn sinn.

[2]
Má gera allt í nafni listarinnar? Hvar eru mörkin dregin? Hefði hún ekki verið handtekin, ef hún hefði gert þetta í frítíma sínum? Ég hef séð menn ávítaða af lögreglunni fyrir að busla í Tjörninni. Mig minnir reyndar að rökin hafi verið: Æ, kommon. Svona gera menn ekki.

Lokapæling: Að fremja gjörning. Það hljómar eins og eitthvað mjög ljótt. Menn fremja glæpi, morð og voðaverk af ýmsu tagi. En gjörning... Ég veit ekki alveg hvort þessir listamenn hafi spáð í þetta. Ætli þeir hafi ekki ákveðið að nota sögnina að fremja vegna þess að það er svo asnalegt að segjast ætla að gera gjörning.

þriðjudagur

Varúð: Skemmtilegur pistill

Það er gaman að fylgjast með málum Orkuveitunnar núna. Guðlaugur Þór situr nú við reinar sem formaður stjórnar, en hann er nýtekinn við af Alfreð Þorsteinssyni. En hinn síðarnefndi hafði þvermóskast við að gefa upp bókhald OR. Hann gaf þó upp árið 2005, að heildarkostnaður við nýjar höfuðstöðvar OR næmi 4,257 milljörðum.

Guðlaugi reiknast svo til, að heildarkostnaður hafi verið 5,9 milljarðir. Það er 1.600.000.000 kr meira en Alfreð gaf upp. Gróflega reiknað, er það 20.000 kr á hvern Reykví
king. Þetta er fjárhæð sem Guðlaugur segir Alfreð hafa verið að leyna.

Ofan á það, fóru framkvæmdir langt framyfir áætlun (um 600 milljónir). Dæmið lítur því svo út: Umframkostnaður + Leynisumma Fredda = 27.500 á hvern Reykvíking. Það má kaupa ýmislegt fyrir þá fjárhæð.

Vígi Alfreðs

Alfreð svarar því til, að ekki sé verið að bera saman sambærilega hluti.
Hann segir deiluna snúst um bygginguna sjálfa. Ekki heildarkostnað höfuðstöðvanna. Inni í kostnaði sjálfrar byggingarinnar er að sjálfsögðu ekki tekið tillit til innréttingar hennar, og í rauninni eru þær ekki einu sinni inni í heildarkostnaðaráætluninni. Enda er það ekki venjan, segir Alfreð. Það er della.

Æ, ég gæti skrifað endalaust um þennan mann. Hann er fullur af bulli og vitleysu, en ég er of þreyttur til að rekja það frekar. Mig langaði bara til að benda fólki á þessa umræðu og hverjar fjárhæðirnar eru. Og svo líka benda á, að Alfreð hefur yfirumsjón með byggingu nýja hátæknisjúkrahússins. En ég hygg það ekki góðan ráðahag.

föstudagur


Árið 2002 byrjaði ég að nota google. Ég man það, vegna þess að ég sá einn kennarann í verkfræðideildinni nota það. Ég hafði ekki mikið álit á þessum manni, hann var gamall og fúll út í lífið. Svo var hann líka lélegur kennari. Algjörlega metnaðarlaus og kalkaður í starfi.

Þetta var í byrjun sumars og ég hafði fengið styrk fyrir verkefnið Vindmælir fyrir húsmæður, og vissi ekkert hvar ég átti að byrja. Því dagaði ég uppi á skrifstofu fúlmennisins. Hann var reyndar ekkert svo slæmur og allur af vilja gerður, og ég sá það strax að ég hafði dæmt hann fullharkalega. Hann gat reyndar ekki hjálpað mér
mikið, en lét mig fá lista af nöfnum sem ég átti að ráðfæra mig við. Svo spurði hann hvort ég væri búinn að leita á netinu. Ég játti því, en hann fór engu að síður inn á google og sló inn: Anonemeter (ísl: vindmælir). Ég hugsaði: Hver notar eiginlega google? Veit hann ekki að altavista og yahoo eru bestu leitarvélarnar?

Núna er google aðalvélin og maður veltir því fyrir sér hvort að henni verði nokkurn tímann velt úr sessi. Það er ekki auðvelt að sjá, en ég ég er með tilgátu. Ég held, að síðunni
Wikipedia.com muni vaxa fiskur um hrygg á næstu misserum. Síðan er að mörgu leyti mun sniðugri en google. Þar getur maður gengið að mjög vandaðri umfjöllun um flest allt sem manni dettur í hug. Það getur google ekki ábyrgst.

Til dæmis, ef ég slæ inn Pol Pot á google fæ ég hrúgu af óvönduðum og vilhöllum greinum um þennan mann. Sumar eru góðar. Aðrar mjög lélegar. Hvað satt er og hvað ekki, hef ég ekki hugmynd um. Eftir 15 mínútna árangurslausa leit, er það eina sem ég veit að þessi maður var vondur og framdi mörg voðaverk. En, kommon! Þetta er ekki svona einfalt.

Hins vegar höfum við wikipediu. Mun skárri kostur. Þar er leitast við að segja söguna á eins sanngjarnan og hlutlausan hátt og hægt er. Á wikipedia kemur skýrt fram, að Pol Pot var mikill harðstjóri og framdi hræðilega glæpi. En þar kemur líka fram, að hann hafði einhverja stefnu. Hann framdi glæpina í nafni einhverrar hugsjónar. Honum gekk gott eitt til. Þannig séð. Hann vissi bara ekki betur.

Jæja. Ég ætlaði bara að negla niður spá mína um sigurgöngu wikipediu: Innan tveggja ára verður hún jafnoki google. Ég held það.

Reyndar ætlaði ég að skrifa um Bono. Ég var að reika um wikipediu og rakst á athyglisverða staðreynd. Bono (eða Bono Vox, eins og hann kallar sig víst) var valinn manneskja ársins árið 2005 hjá Times, ásamt Bill og Melindu Gates. Þeir vita greinilega alveg hvað þeir eru að gera.

Reyndar fór meira í taugarnar á mér við val Times í gegn um tíðina á manni ársins. Árið 2003 var ,,ameríski hermaðurinn" valinn maður ársins. Það er ekki viðeigandi. Fyrir það fyrsta, hefur Íraksstríðið ekki reynt mikið á bandaríska herinn, en ég held að ~3.000 BNA hermenn hafi fallið þar. Samanborið við önnur stríð, er það ekki mikill missir. Það sem mér finnst eiginlega vega þyngra, er ruglið í kring um stríðið sjálft. Eftir að hafa logið til um nauðsyn stríðsreksturs, finnst mér að þessir menn eigi engan heiður skilinn. Þeir eiga helst bara að skammast sín.

Að lokum er það val Times á manni aldarinnar. Þeir völdu Albert Einstein. Ágætt val, þannig séð. En hann er samt ekki maður 20. aldarinnar. Sama hvað hver segir, að þá er Hitler maður 20. aldarinnar. Rétt eins og Napóleon var maður 19. aldarinnar og Jesú maður 1. aldarinnar. Áhrif þessara einstaklinga voru slík, að allur heimurinn var í uppnámi í heilu áratugina vegna gerða þeirra. Allir breyttu þeir heiminum á afgerandi hátt og til frambúðar. Það gerði Albert líka, samt ekki jafnafgerandi og hinir.

Jæja. Þetta er nú meiri textinn. Fullkomlega stefnulaus; úr fúlum kennar í VR2 í ádeilu um val Times á manni ársins. Uss..

sunnudagur



Sumir segjast ekki fíla Woody Allen, segja að hann leiki
alltaf sömu týpuna og að hann fari í taugarnar á sér. Ofan á það bætist, að hann er með stjúpdóttur sinni og það er voða ljótt.

Ég ætla svosem ekki að svara fyrir seinna atriðið, enda á ekki að dæma listamenn af prívatlífi þeirra (Fyrir utan Damonnu (stafarugl), hún er drusla). Hitt er annað, að ég kenni fáfræði þeirra um sem segjast ekki fíla Woody Allen. Ég held að þeir viti hreinlega ekkert hvað þeir eru að tala um. Sáu kannski eina mynd árið 1991 sem þeir skildu ekki bofs í og komust því að þeirri niðurstöðu að Woody Allen sé leiðinlegur gaur. En þannig er það ekki. Ónei. Þannig er það sko ekki.

Mig langar til að gera samkomulag við þetta illa upplýsta fólk: Ef ykkur finnst
þessi stuttmynd (Oedipus Wrecks ~ 40 mín) leiðinleg, skal ég taka mark á dylgjum ykkar og rógburði [1]. Að mínu mati er hún gott dæmi um húmor Woodys.

Hins vegar: Ef ykkur finnst myndin skemmtileg, langar mig að skora á þetta sama fólk að gefa honum ennfrekari séns. Ég tók saman lista, sem væri gott að hafa á bak við eyrað næst þegar kíkt er út á vídjóleigu. Hann er í fimm þrepum, og hef ég þær myndir fremstar sem ég held að séu líklegastar að falla í kramið hjá fólki:

1. Play it again, Sam
Hef hana fyrsta, vegna þess að hún er svo aðgengileg. Söguþráðurinn er léttur og góður húmorinn skín í gegn. Góð fyrsta mynd.

2. Annie Hall
Þetta er líklega frægasta mynd Woody Allen, en hún var valin besta myndin á Óskarsverðlaunahátíðinni 1977. Myndin er fyndin og ekki út í vindinn. En það sem hún hefur fram yfir Play it again, Sam er dýpt. Er samt ekki of þung. Bara voða næs.

3. ???
Ein þessara mynda er hæf sem þriðja mynd:
* Everthing you alway wanted to know about sex* (*But were afraid to ask)
* The purple rose of Cairo
* Bullets over Broadway (Og þó. Kannski betra að geyma hana þangað til seinna.)
* Deconstructing Harry
* Sweet and lowdown
* Love and death (Er ein af mínum uppáhaldsmyndum. Er samt ekki viss um að allir hafi húmor fyrir henni.)
* Zelig

4. Husbands and wives, Manhattan eða Hannah and her sisters
Þessar myndir eru frekar þungar, þannig séð. Woody tekst á meistaralegan hátt að vefja saman snjöllum sögum og góðum húmor. Ég mæli samt ekki með að fólk horfi á þessar myndir fyrr en það er búið að ,,fatta" húmorinn hans.

5. Crimes and misdemeanors.
Og loks er það uppáhalds myndin mín. Hún svipar mjög til myndanna þriggja hér að ofan, snjöll og fyndin. Nema, á einhvern hátt er hún aðeins snjallari. Hefur einhvern veginn allan pakkann, rétt eins og Annie Hall.


Listinn er að sjálfsögðu ekki tæmandi, og kannski nokkrar myndir í viðbót sem ættu heima á þrepi þrjú. Ég skildi viljandi eftir allar drama-myndirnar hans, enda kannski pínulítið úr karakter. En, já. Ég er eiginlega forvitnastur að sjá hvort að einhverjum mislíki stuttmyndin. Ef svo er, endilega kommenta á það (Nema Sæunn Stefáns. Hún má ekki kommenta meira).


[1]
Eða, svona upp að vissu marki. Ég mun náttúrulega aldrei taka mark á því. En ég skal viðurkenna skoðun þessa fólks. Eða, svona upp að vissu marki.

föstudagur

Ég var að uppgötva
youtube. Það er ansi snjallt og þar má finna nánast hvað sem er. Nú er ég búinn að þræða í gegn um flest öll Michael Jackson myndböndin og er búinn að komast að því að hann er snillingur. Til dæmis fann ég þetta myndband af honum 14 ára í sjónvarpsþætti Sonny og Cher. Lagið sem hann flytur heitir Ben og er samið af honum.

Lagið var á toppi bandaríska listans í eina viku, en Chuck Berry stal efsta sætinu með laginu My ding-a-ling [1].

Mér finnst lagið flott. Kannski svoldið væmið, en flott engu að síður. Ég gæti talað í allan dag um Michael, en ætla að skrifa meira um youtube. Það er hægt að finna allt þar.

Árið 1991 hafði ég mikinn áhuga á frjálsum íþróttum. Ég prófaði að fletta upp langstökk-einvígi Mike Powels og Carl Lewis. Auðvitað var hægt að finna það á youtube. Læt það fylgja.

Í einvíginu setti Mike Powel heimsmet, stökk 8.95 metra. Mér fannst það magnað. Carl Lewis var ótrúlega fúll, enda held ég að hann sé algjör dolla.

8.95 metrar. Er hægt að stökkva lengra? Er hann ekki kominn ansi nálægt mörkum mannlegrar getu? Einhvers staðar hljóta þau að liggja. Mun ekki koma sá tími, að menn hætta að setja heimsmet; það er búið að ná þeim öllum. Og helstu afreksmennirnir munu í mesta lagi geta jafnað metin. Það hlýtur að vera.

Smá Whoopi hér í restina. Og ég spyr aftur: Er hægt að toppa þetta? Ég held ekki.



[1]

Hvað er það? My ding-a-ling?

mánudagur



Herra Ísland 2007


Ég er búinn að ákveða að taka þátt í Herra Ísland 2007. Ég vona að ég vinni.

Í keppninni spyrja þeir mig mig um áhugamál og ég mun svara: „Langstökk. Aðallega langstökk. Kannski þrístökk líka, en aðallega langstökk. Hmm... hvað get ég sagt meira?“ held ég áfram. „Jú, útivera! Ég hef mjög gaman að útiveru - sérstaklega löngum ferðalögum um sléttur Ástralíu. Þau eru æði!“ Svo verð ég rekinn úr keppninni fyrir að hafa sömu áhugamál og kengúra.


Hmm... Ég ætla að byrja aftur:

Hvað ætli gusti um höfuð drengjanna sem taka þátt í Herra Ísland? Þeir klæða sig úr buxunum. Fólkið bíður. Þeir maka sig olíu. Fólkið bíður. Þeir blikka spegilinn í síðasta sinn. Einn, tveir og þrír!

Af stað. Skref fyrir skref feta þeir sýningarpallinn. Stoppa. Pósa. Og áfram. Akkúrat þarna, hvað eru þeir að hugsa?

Mér finnst líklegast að þeir séu ekki að hugsa um neitt. Að það eina sem bærist í brjósti þeirra sé einhvers konar örvænting. Engar hugsanir. Bara þessi hreina tilfinning: Að fá viðurkenningu. Þeir þrá það! Ef þeir fá ekki viðurkenninguna, finna þeir til höfnunar. Og það er svo erfitt fyrir svona voðalega litlar sálir.

Einhvern tímann las ég viðtal við Arnar Grant, fitnessmeistara Íslands. Honum var tíðrætt um heiðurinn sem fylgir því að sigra. Hann talaði um hin og þessi keppnismót, innlend og alþjóðleg, og alltaf talaði hann um heiðurinn. Þetta var mikill heiður. Mikill heiður.

Ok. Það er bara bull. Hann er bara bull. Fattar hann ekki að hann er á nærbuxunum fyrir framan helling af fólki? Svo brosir hann eins og fífl í þokkabót. Þetta er líka svo hégómlegt: Að keppa í því að vera sætur. Þannig gera alvöru strákar ekki.



Frá keppninni Herra Ísland 2006.

Annars langaði mig að taka fram, að ég hef ekkert á móti fegurðarsamkeppnum. Þær gleðja mig.