fimmtudagur

Basagrín

Gáta: Hvaða basar eru bestir á bragðið?
Svar: Kökubasar.

Gáta: Hvaða basi er voldugastur allra?
Svar: Túrkmenbasinn - en hann er faðir allra Túrkmena.


Ég veit ekki hversu fyndið þetta er. Líklega ekkert sérstaklega. Mér fannst þetta samt fyndið þegar ég var að skrifa þetta.

- Annars fékk ég sent myndband frá vini mínum Sjeik Abdullah. Hann útskýrir munin á því, hvernig kynin reiða fram mál sitt. Hann er alveg með þetta á hreinu.


Sjeik Abdullah: Þetta er ekki algilt, en á yfirleitt við..

þriðjudagur


Vangaveltur tengdar nýrri ríkisstjórn

Upphafsvangavelta: Hvað skal stjórnin heita?

Guðni Ágústsson stingur upp á Baugsstjórninni.
Ingibjörg Sólrún segir Stjórn hinna miklu og sögulegu sátta.
Einhver dagblöð segja Þingvallastjórnin.

Ég held að það síðastnefnda verði ofan á. Blöðin munu fá bágt fyrir að kenna stjórnina við Baug og byrja örugglega smám saman að tala um Þingvallastjórnina. Með tíð og tíma mun það festast.

Ráðuneytunum verður bróðurlega skipt á milli flokkana, en Sjálfstæðisflokkurinn fær forsætisráðuneytið. Samfylkingin á næsta val, og svo koll af kolli. Það er erfitt að spá nákvæmlega fyrir hvernig ráðuneytunum mun vera deilt á fólk. En þetta er fólkið sem ég held að verði ráðherrar
(þeir sem eru feitletraðir eru öruggir, ég get ekki ábyrgst hina):

Sjálfstæðisflokkurinn:
1. Geir Haarde
2. Þorgerður Katrín
3. Guðlaugur Kysskyss
4. Árni Matt
5. Guðfinna
6. Bjarni Ben/
Kristján Þór/Illugi

Guðlaugur nýtur ekki nægilegrar virðingar innan flokksins, þess vegna gæti verið að hann verði ekki með. Á móti kemur að hann er fyrsti maður á lista í sínu kjördæmi og það verður erfitt fyrir Geir að líta framhjá því. Auk þess, ef maður telur þá saman, eru þeir Geir tveir. Og það rímar. En ég er ekki viss um að það ríði baggamuninn fyrir Gulla. Sjáum til.

Mín skoðun er sú, að Guðlaugur eigi ekki heima í ríkisstjórn. Maður með varir eins og hann, ætti frekar að auglýsa frunsukrem. Annað væri rugl.

Ég held að Guðfinna verði með, vegna tvenns:
1. Hún er kona.
2. Hún hefði ekki sagt upp starfi sínu sem rektor, nema ef gylliboð um enn betra starf lægi fyrir. Ég held að Geir hljóti að hafa tælt hana þannig.

Sem betur fer er ég búinn að taka út kommentakerfið, þannig að fólk getur ekki agnúast út af konu-kommentinu hér að ofan. En, æ, þannig er þetta nú samt. Guðfinna er örugglega vænsta skinn og allt það. En ég held bara að það séu aðrir á listanum sem séu hæfari en hún. En, jæja. Pólitísk rétthugsun mun örugglega sópa henni í stól ráðherra.

Að lokum held ég að styrinn standi á milli Bjarna, Kristjáns og Illuga. Ég hefði ekki haft Illuga með, en maður dregur óneitanlega ályktanir þegar blöðin segja frá því að hann hafi tekið þátt í stjórnarmyndunarviðræðunum. Ég held samt að hann sé sístur þeirra þriggja.

Björn Bjarnson verður örugglega ekki ráðherra. Hann hefur beðið skipbrot hvað eftir annað, auk þess sem veikindi hafa hrjáð hann. Ég myndi skjóta á að hann verði forseti Alþingis.

Ég ætlaði að taka Samfylkinguna fyrir líka, en ég hef eiginlega ekki tíma. Það verður bara að bíða morguns.

föstudagur


Svar við fimmtudagsgátunni

Guðlaugur Þór Þórðarson á þessar varir. Sá sem komst næst því að hitta á rétt svar, er Tommi Haarde; en hann giskaði á Sigurð Kára. Sú ágiskun kemst furðulega nálægt Guðlaugi, en báðir eru þeir ungir plebbar í Sjálfstæðisflokknum.

Ég rak augun í þetta í fyrradag, þegar ég renndi yfir stefnumál flokkana. Guðlaugur Þór Þórðarson er með óhugnanlega munúðarfullar varir. - Ok, ok... Ég veit að þetta hljómar fáránlega, en þannig er það.

Tommi sagði mér hvernig hann komst að þessari niðurstöðu: Hann lokaði augunum og ímyndaði sér hvernig væri að kyssa þessar varir. Hann prófaði meira að segja að kyssa tölvuskjáinn. Og viti menn! Það var ekki um að villast. Þetta voru íhaldsvarir. - Tommi á inni hjá mér hamborgara á American Style.

Guðlaugur Þór: Munúðarfullur að vanda.

Sá sem kom með versta svarið, er Páll Ragnar Pálsson. En hann giskaði á Jesú. Í skammarverðlaun fær hann Gleym mér ei hamborgara frá Vitabarnum, með miklum gráðosti.

Sá sem kom með skrítnasta svarið, var Árni Georgs. Hann giskaði á Amöndu Peet og Lenu Heady, en ég hef ekki hugmynd um hverjir það eru. Önnur góð svör voru Barack Obama og Mikjáll Jackson. En þessir menn hafa ákaflega furðulegar varir.

fimmtudagur

Fimmtudagsgátan

Hver á þessar munúðarfullu varir?


Ég býð þeim sem giskar rétt í hamborgara á American Style. - Eða, höfum það frekar þannig, að sá sem giskar réttast fær hamborgarann.

(Ég virkjaði kommentakerfið fyrir þessa stórskemmtilegu getraun)

mánudagur


Biblían

Vinur minn hitti naglann ágætlega á höfuðið áðan, þegar hann summeraði upp Biblíuna með eftirfarandi setningu: Hún fjallar um smið sem að meikaði það.

Sammála.

Eins væri hægt að taka söguna um Karíus og Baktus saman: Tveir gaurar (námaverkamenn?) að leita sér að íbúð. Móðir núverandi eiganda vill þá feiga.