miðvikudagur


Handbolti

Það vita það fáir, en Valur spilaði einu sinni til úrslita í Evrópukeppni félagsliða í handbolta. Þetta var árið 1980 og mótherjarnir voru þýskir. Ég las um þetta í viðtali, en þar var sagt að Valmenn hefðu unnið fyrri leikinn með átta mörkum. Hann hafi hins vegar verið talinn ólöglegur og því ekki verið tekinn með í reikninginn. Seinni leiknum töpuðu þeir með níu marka muni, en þar þóttu dómararnir draga mjög taum Þjóðverjanna.

Þetta finnst mér nokkuð merkilegt. Samt bara merkilegt á mælistiku handbolta. Sem hefur álíka mikið vægi og mælistika pílukasts. Eiginlega ekkert.

Mér fyndist merkilegra, ef feitasti maður í heimi væri frá Íslandi. Eða sá hæsti. - Við gætum kannski notað þá í handboltalandsliðið. Sá feiti myndi fylla út í markið, en sá stóri myndi gnæfa yfir hinum eins og tröll. Þá myndi ég pottþétt horfa meira á handbolta.

Minnsti maður í heimi ætti kannski ekki mikið erindi í liðið, nema kannski sem einhvers konar lukkutröll. Í leikhléum, myndu leikmenn íslenska liðsins faðma hann og knúsa. Kannski toga í hárið á honum, en það þykir mikið gæfumerki. Jú, það gæti gengið.

Og skeggjaða konan. Hún gæti örugglega hjálpað liðinu heilmikið. Hún mætti samt ekki raka sig, þá kæmist upp um dulargervi hennar. Nei. Hún yrði að hirða vel um skeggið sitt, til þess að rugla andstæðingana í ríminu:
- Hvað er þetta? Kona, eða...? Eða er þetta karlmaður?
- Trauðla get ég svarað spurningu þinni, vinur minn kær. En hitt veit ég, að ég ætla að fela mig.
- Góð hugmynd. Ég líka.

Ojæja. Þessi skrif horfin út í veður og vind. Segjum það.

mánudagur

Tölfræði

Já, sérhver dagur er
ævintýri líkastur. Áðan var ég að leika mér á tölfræðivefi Google:
Google Trends. Þar má skoða niðurstöður leitarvélar Google, eftir dagsetningu, leitarstrengi og þjóðerni. Til dæmis kom upp úr krafsinu, að frændur okkar Norðmenn eru hlutfallslega mest allra þjóða að skoða hommaklám (linkurinn vísar á niðurstöðurnar, ekki á klám). Þeir hljóta að vera ánægðir með það.

Ég er hins vegar ánægður með að sjá niðurstöðuna fyrir Smiths og Morrissey. Þar eru Íslendingar efstir, en Norðmenn númer tvö - hafa líklega mestan áhuga á dufli hljómsveitarmeðlima við samkynhneigð.

Annars er önnur tölfræði sem hefur verið að hrella mig undanfarið. Síðustu tvær vikur hef ég gleymt lyklunum mínum fjórum sinnum í hinum buxunum. Það þýðir, að öllu jöfnu er ég læstur úti 0,29 sinnum á dag. Og, ef að líkum lætur, mun ég vera læstur úti 104 á einu ári. Það er ekki nógu gott.

Ekki veit ég hvort nokkuð er að marka þetta, en samkvæmt Google Trends, eru íbúar Sheffield duglegastir við að týna lyklunum sínum. Manchesterbúar fylgja þeim fast á eftir. Það sem gerir þetta spúkí, er að Reykvíkingar eru ekki einu sinni á listanum...

Spúúúkí...

þriðjudagur


Kominn aftur

Jæja. Loksins fékk ég síðuna aftur. Hún er búin að vera í gíslingu bjána, sem ætlaði sér að stela henni. En ég sá við honum. Þannig að ég er kominn aftur.


Bush með sitt á hreinu
Vandræði með síðuna

Þetta er ekki nógu gott. Einhverra hluta vegna dettur síðan niður annað slagið. Ekki veit ég hvað veldur því, en sjáum hvað setur.

Þeir sárafáu lesendur sem eftir eru, ráku kannski augun í litlu myndina hér í addressu-glugganum. Þetta er tvífari minn, Viggó viðutan, sem er svo aldeilis skemmtilegur. Hinir tvífarar mínir, Paul McCartney og Harry Potter eru frekar miklir aular.

Úff. Nú á ég erfitt með að ákveða hvaða stefnu þessi færsla á að taka. Tíu möguleikar eru fyrir hendi.
  1. Á ég að tala um hvernig ég gerði þessa litlu mynd? - Útskýrt hér.
  2. Á ég að telja upp fleiri tvífara? Það verður í sjálfu sér ekki verra en Paul og Harry.
  3. Á ég að tala um nöfn á teiknimyndahetjum. Viggó viðutan. Já, ég fatta - hann er utan við sig. Sniðugt. Halli hrapalegi. Einmitt. Hann átti það til að hrapa flugvélinni sinni. Mjög snjöll tenging. Georg gírlausi. Ég veit ekki alveg hvað það þýðir, en þetta er tekið úr dönsku. Hefur sjálfsagt svipaða merkingu og að hafa lausa skrúfu.
  4. Á ég að tala um woodyallen síðuna sjálfa, og þau áhrif sem svona bakslag hefur á hana? Við gætum misst stöðu okkar á Google (höfum ýmist verið í 1. eða 2. sæti).
  5. Á ég að segja frá því hvað mér Viggó viðutan sniðugur?
  6. Á ég kannski að skrifa um Morrissey, eins og ég ætlaði að gera.
  7. Eða á tala um málfræði, eins og ég ætlaði kannski líka að gera. Hvaðan kemur orðið kærasta? Er þetta efsta stig lýsingarorðsins: Kær? Sumar stelpur eru mér kærar. Aðrar enn kærari. En bara ein er mér kærust - þ.e. kærasta stelpan. Og þegar út í það er farið, hvaðan kemur orðið maki? Er það virkilega dregið af orðinu mök? Ég trúi því nú tæplega.
En jæja. Hvað um það. Nú er klukkan að verða 22:00, og þá á ég að mæta í fótbolta. Læt þetta bara standa svona.

fimmtudagur


The Perry Bible Fellowship

Þeir sem ekki hafa veitt því eftirtekt, þá er einhver texti hér neðst á síðunni. Þetta eru tilkynningar um það, þegar síður sem eru í uppáhaldi hjá mér breytast. Allt teiknimyndasíður.

White Ninja er eiginlega uppáhalds teiknimyndasagan mín. Hvíta ninjan hefur svo mikla sál.
Wulffmorgenthaler, eru líka góðir, en þessir ágætu menn (Wulff og Morgenthaler) eru danskir.
Og nú var ég að bæta við þeirri þriðju, sem ber nafnið Perry Bible Fellowship (eða PBF til styttingar).

Ég ætlaði að taka fyrir teiknimyndasögu sem PBF birti eitthvert sinnið:

b is for butt-ugly!

Þetta er einhver frumlegasta saga sem ég hef séð, og fyndin ofan á það. Það sem heillar mig hvað mest, er hvað hún er heilsteypt. Hvert og eitt einasta atriði hefur verið hugsað í þaula.

Rammi #1
Stafirnir eru litlir. Takið eftir hvað g-ið er brosandi og fjörmikið. Sama gildir um k-ið, þó það sé ekki jafn áberandi. Svo setur g-ið út á rassinn á b-inu, enda er hann stór með eindæmum. Notar meira að segja orðið ,,butt-ugly" - háð sem gæti átt við í alvöru.

Rammi #2
Tíminn líður og komið er að endurfundum.

Rammi #3
Stafirnir eru orðnir stórir, og B-ið ansi gjafvaxta. Það hefur nælt sér í stóra H, sem er spengilegur og gengur um beinn í baki. Dæmigerð hermannatýpa, sem hefur sitt á hreinu. Takið eftir hvað K-ið er stjarft. Þessu átti það ekki von á. Og G-ið, hvernig það segir ,,Gaaa...", í gapandi undrun yfir því hvernig hefur ræst úr B-inu.

Þetta er ótrúlega vel heppnuð og snjöll saga.

þriðjudagur


Árið gert upp


Árið 2006 var frekar gott. Lífið var þægilegt og flestir dagarnir skemmtilegir. Árið fær 7,7 í einkunn.

Það er eiginlega ekki hægt að gera upp árið, án þess að nálgast það pesónulega. Og það ætla ég ekki gera. Alla vega ekki á svo opnum vettvangi. (Note-to-self: Af hverju byrjaði ég þá að tala um þetta?)

Að öðru: Netsíða þessi hefur legið niðri undanfarna daga. Ástæðan þess er ókunn, en ég held að það hafi eitthvað að gera með hlýnandi veðurfar. Annars veit ég það ekki.
(Note-to-self: Ekki skrifa aftur, nema hafa eitthvað að segja.)

Annars held ég að árið 2007 verði líka gott. Ég er eiginlega alveg viss um það.