miðvikudagur


Handbolti

Það vita það fáir, en Valur spilaði einu sinni til úrslita í Evrópukeppni félagsliða í handbolta. Þetta var árið 1980 og mótherjarnir voru þýskir. Ég las um þetta í viðtali, en þar var sagt að Valmenn hefðu unnið fyrri leikinn með átta mörkum. Hann hafi hins vegar verið talinn ólöglegur og því ekki verið tekinn með í reikninginn. Seinni leiknum töpuðu þeir með níu marka muni, en þar þóttu dómararnir draga mjög taum Þjóðverjanna.

Þetta finnst mér nokkuð merkilegt. Samt bara merkilegt á mælistiku handbolta. Sem hefur álíka mikið vægi og mælistika pílukasts. Eiginlega ekkert.

Mér fyndist merkilegra, ef feitasti maður í heimi væri frá Íslandi. Eða sá hæsti. - Við gætum kannski notað þá í handboltalandsliðið. Sá feiti myndi fylla út í markið, en sá stóri myndi gnæfa yfir hinum eins og tröll. Þá myndi ég pottþétt horfa meira á handbolta.

Minnsti maður í heimi ætti kannski ekki mikið erindi í liðið, nema kannski sem einhvers konar lukkutröll. Í leikhléum, myndu leikmenn íslenska liðsins faðma hann og knúsa. Kannski toga í hárið á honum, en það þykir mikið gæfumerki. Jú, það gæti gengið.

Og skeggjaða konan. Hún gæti örugglega hjálpað liðinu heilmikið. Hún mætti samt ekki raka sig, þá kæmist upp um dulargervi hennar. Nei. Hún yrði að hirða vel um skeggið sitt, til þess að rugla andstæðingana í ríminu:
- Hvað er þetta? Kona, eða...? Eða er þetta karlmaður?
- Trauðla get ég svarað spurningu þinni, vinur minn kær. En hitt veit ég, að ég ætla að fela mig.
- Góð hugmynd. Ég líka.

Ojæja. Þessi skrif horfin út í veður og vind. Segjum það.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home