þriðjudagur

DV – frjálst og óháð
Ég hef á fáum mönnum jafnlítið álit og á ritstjóra DV, Reyni Traustasyni.  Þessa skoðun hef ég haft lengi, en mér hefur aldrei geðjast að þeim atlögum sem hann gerir að mannorði fólks.  Sjálfur segist hann vera málsvari sannleikans og vísar því algjörlega á bug að hann beri út róg um náungann.  Sitt sýnist víst hverjum í þeim efnum.
Ég ímynda mér, að það hlakki í lesendum DV þegar þeir lesa um ógæfu annarra.  Nú hlakkar pínulítið í mér, samt á annan hátt.  Reynir Traustason á vafalaust bágt þessa stundina, en það gleður mig ekki mikið – ég vona bara að hann jafni sig á því.  Ástæðan fyrir því að það hlakkar í mér, tengist geði hans og afhjúpun þess.  Nú vona ég, að þeir sem hafi borið blak af gæsku þessa öðlings og göfgi hugsi sig betur um.
Rekjum þetta mál aðeins.
Blaðamaður skrifar frétt.  Henni er hafnað af ritstjóra, vegna þrýstings utan úr bæ.  Blaðamaðurinn ber málið á borð annarra fjölmiðla.  Ritstjóri hrekur sögu hans og sendir út yfirlýsingu þar sem hann gerir frásögn blaðamannsins tortryggilega.  Blaðamaðurinn færir ótvíræðar sönnur fyrir máli sínu, en hann átti samtalið við ritstjórann á segulbandsupptöku.  Og meira hefur ekki gerst síðan í gær.
Til að byrja með, langar mig að taka fram, að mér finnst upprunalegur glæpur Reynis ekki mikill.  Ég held að flestir myndu velja lifibrauðið[1] fram yfir hugsjónirnar[2], þegar styrinn stendur um ekki merkilegri frétt en raun bar vitni.  Það sem er ámælisvert, er hvað gerist næst.  Yfirlýsing Reynis.
Í yfirlýsingunni var vegið að blaðamanninum [Jóni Bjarka], sem skrifaði greinina, og grafið undan trúverðugleika hans, honum að ósekju.  Þetta finnst mér ljótt.  Og þetta finnst mér vera til vitnis um innræti Reynis.  Þetta er svo ófyrirleitið.
[…]Jón Bjarki segir að stórir aðilar hafi stöðvað frétt DV. Það er alrangt og óskiljanlegt hvernig hann hefur öðlast þann skilning. Hann lét þess ekki getið í yfirlýsingu sinni að síðasta þriðjudag var önnur frétt hans stöðvuð. Þar fjallaði hann um mótmælendur en leitaði ekki sjónarmiða þeirra sem sökum voru bornir. Ábendingar bárust einnig um að hann hefði farið offari gegn lögreglu á vettvangi mótmæla og ekki virt mörk blaðamennsku. Lögreglan er hér með beðin afsökunar á framgöngu hans og skrifum sem birtust.
Hér er fyrst logið, um að þetta sé tilbúningur af hans hálfu blaðamannsins.  Svo eru honum gerð upp skrílslæti við lögregluna, sem hann bar af sér í Kastjósinu í gær, og hann sagður ekki kunna kappi sínu hóf.  Að biðja lögregluna afsökunar er hlægilegt, en vafalaust hefur vakað fyrir Reyni að undirstrika hversu alvarlega blaðamaðurinn braut af sér.
Í næstu efnisgrein segir:
Fyrir tveimur vikum var honum falið að skrifa nærmynd um Jón Ásgeir Jóhannesson.  Hann sinnti því í engu.
Vafalaust vakir tvennt fyrir Reyni.  Annars vegar gerir hann Jóni Bjarka upp leti, sem er þó ekki aðalmarkmið ritstjórans.  Heldur er það hitt, að láta í það skína, að blaðið hafi ætlað að „taka á“ Jóni Ásgeir, sem undirstrikar það, að enginn er undanskilinn í vægðarlausri umfjöllun DV – ekki einu sinni eigandinn![3]  Þessar aðdróttanir hrekur Jón Bjarki í Kastljósinu.  
Fleira má finna athugavert í tilkynningunni, sem öllu er svarað í Kastljósinu og ég ætla ekki að rekja hér.
Og loks er það stóra spurningin, hvort Reynir Traustason eigi að segja af sér eða ekki.  Sjálfur hefur hann verið manna ötulastur að hvetja til þess að menn „axli ábyrgð“, á hinum og þessum afglöpum, með því að segja starfi sínu lausu.  Sjáum til.
Jæja, ég ætla að slá botninn í þetta.  Ég rak augun í eina setningu í yfirlýsingu Reynis, sem mér finnst hafa snúist skemmtilega við í höndum hans.
Hann [Jón Bjarki] réðst gegn eigin blaði með tilhæfulausum ásökunum sem bera vott um afleita blaðamennsku.
Svo mörg voru þau orð.

[1]
Reyni var hótað að DV yrði lagt niður, ef fréttin færi í loftið.
[2]
Inngripið er að vísu til vitnis um hræsni, þar sem DV hefur gengið hvað lengst í að lýsa því yfir að það starfi í nafni sannleika og að hin frjálsa orðræða dafni hvergi jafnvel og einmitt á síðum þess.  
[3]
Þetta er alveg örugglega réttur skilningur sem ég legg í þessa efnisgrein.  Hann hefði aldrei birt hana, hefði hún snúið að einhverjum öðrum.  Dæmi: Fyrir tveimur vikum var honum falið að skrifa nærmynd um litla ísbjarnarhúninn Knút.  Hann sinnti því í engu. 
Ég er hins vegar spenntur að sjá hvort að DV muni taka á Jóni Ásgeir, eins og þeir hafa lýst yfir vilja til.  Þá myndi ég stinga upp á því, að þeir köfuðu ofan í sögusagnirnar um sem voru uppi um Thee Viking partýin.  Þeir gætu líka notað skrif Styrmis Gunnarsonar sér til stuðnings.  

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home