mánudagur



Ef maður fjarlægir einhverja amínósýru úr ávaxtaflugu á fósturstigi, fæðist hún án augna. Ef maður fjarlægir sömu amínósýru úr manni, fæðist hann með ljósan súperman-lokk fremst í hárrótinni. Fyrr í vetur ætlaði ég að skrifa smásögu um vísindamann sem fjarlægir þessa amínósýru úr mús [1], til þess að athuga hvort einhver stökkbreyting yrði. Plottið var eftirfarandi:

Vísindamaðurinn framkvæmir tilraunina, en hún skilar ekki neinni niðurstöðu. Þegar vísindamaðurinn er búinn að gefa upp alla von, byrjar músin að hughreysta hann. Og þannig uppgötvar vísindamaðurinn stökkbreytinguna í músinni: Hún getur talað! Fyrst verður vísindamaðurinn mjög ánægður, en lendir síðan í mikilli sálarkreppu í samræðum við músina. Hann byrjar að segja henni frá æsku sinni og áttar sig á því hvað hann mætti miklu harðræði heimafyrir. Aldrei fyrr hafði vísindamaðurinn opnað sig á annan eins hátt við nokkurn, og þannig verður hann háður músinni. Hún skilur hann. Upp úr krafsinu kemur, að vísindamaðurinn átti alltaf í vandræðum með stelpur og með mikilli kænsku nær músin loks að sannfæra hann að ástæða þessa vandræða sé aðdáun hans og ást á Mínu mús. Eftir mikla sálfræði-leiki nær músin að sannfæra hann. Í rauninni hneigist hann til músa. Og í rauninni er hann ástfanginn að henni sjálfri. Stelpur voru aldrei málið. Þær eru bara heimskar osta-ætur. Og sagan endar á því að músin nær að sannfæra ástblindan vísindamanninn að hleypa sér út, platar hann síðan til að fara inn í búrið og læsir á eftir honum.

Einhverra hluta vegna tóks mér aldrei að skrifa þessa sögu þannig að hún hljómaði rétt, en plottið var ágætt.


[1]
Og reyndar gerði Helgi frændi það einu sinni, en það er annað mál.

þriðjudagur



Ég er búinn að finna ljótasta íslenska orðið:

Næststærsta

Það er st-st-st
sem gerir það einstaklega ljótt. Einnig ósamræmið í æst vs. ærst. Og svo hljómar æ-æ-a ekki vel. Uss...

föstudagur

Ég rambaði á nokkrar fyndnar tilvitnanir úr minningagreinum:

Gönguferðin þeirra varð styttri en menn vonuðu. Banvænn sjúkdómur beið hennar bak við stein og sló hana fljótt til jarðar.
Mjög skáldleg samlíking. Ég sé það fyrir mér hvernig að þessi voðalegi sjúkdómur hefur komið öllum algerlega í opna skjöldu.

Það er löngu vitað mál að bestu og skemmtilegustu vinina eignast maður í lúðrasveitum.
Já, það er löngu vitað mál.

Og má segja að hún setti ekki svo skál af tvíbökum á borð að ekki stafaði af því mýkt og listfengi.
Það er enginn svona fíngerður! Alveg sama hvað ég reyni, ég get ekki ímyndað mér nokkra manneskju leggja skál á borð svo af því stafi listfengi.

Orð þessi eru skrifuð til að bera Sveini (líkinu) kveðju og þakkir frá tengdafólki hans og ekki síður frá tengdamóður hans þótt nú nálgist 20. árið frá fráfalli hennar.
Þetta finnst mér eiginlega besta tilvitnunin. Ok. Að greina þann látna frá öðrum með því að setja ,,líkið" inn í sviga fyrir aftan nafnið hans, er náttúrulega bara fyndið. Svo virðist áhersla þessarar greinar ekki vera að heiðra minningu hins látna (líksins), heldur virðist höfundur meira vera að spá í tengdafólkinu. Æ, þetta er ágætt grín.

miðvikudagur

Jón Ásgeir segir í yfirlýsingu:

,,...Ritstjórar DV fóru hins vegar út af brautinni. Þeir tóku poka sinn og tóku ábyrgð á ritstjórnarstefnu sinni. Aðrir mættu taka ákvörðun þeirra sér til fyrirmyndar."

Fyrr í yfirlýsingunni hafði hann nafngreint tvo menn, þá Ingva Hrafn og Egil Helgason. Einhver myndi álykta sem svo að þeir séu þessir aðrir sem eigi að taka pokann sinn og fara. Ég held samt ekki. Ég held, að Jón Ásgeir hafi ætlað að hrósa fráfarandi ritstjórum DV, að hann hafi ætlað að segja, að ákvörðun þeirra væri til fyrirmyndar. En svo kom þetta bara öfugt út, eins og að hann væri að skora á aðra að fylga fordæmi ritstjóranna.

Annað: Þrír bítast um efsta sæti Framsóknarmanna. Á framboðsfundi sögðust þeir hafa sólundað 2-5 milljónum í kosningabaráttu sína. Eru þeir ekki að varpa þessu fé fyrir róða? Í nýjustu skoðanakönnunum kemur í ljós að Framsókn mun að öllum líkindum ekki ná neinum manni inn, þeir mælast með eitt prósent fylgi. Af hverju er þetta fólk þá að bítast um efsta sætið. Maður spyr.

mánudagur

Æsilegt uppgjör Tarantúlunnar og Köngulóamannsins heldur áfram. ,,Hví reyndir þú að snara mig?" spurði Tarantúlan í fyrradag. ,,Því þú ert fúlmenni," svaraði Köngulóarmaðurinn um hæl. ,,Aha! Enginn nema Rósa hefði geta sagt þér þetta!" segir Tarantúlan þá, og kemst þannig upp um heimildarmann Köngulóarmannsins. Hann er greinilega bráðsnjall og mun vafalaust reynast Köngulóarmanninum óþægur ljár í þúfu.

En við skulum ekki falla í þá gryfju að dæma Tarantúluna fúlmenni, þó að Rósa haldi því fram. Tarantúlan ljóstrar því nefnilega upp í dag, að Rósa er leigumorðingi frá Costa Verde. Og ég verða að viðurkenna, að ég hálft í hvoru trúi honum. Hverjum hefði dottið þetta í hug?

Og hvað svo? Jahh... það er mín spá, að þetta sé einhvers konar samsæri hjá Rósu og Tarantúlunni. Þau eru vafalaust að reyna að rugla Köngulóamanninn, til þess að svipta hann gervinu seinna meir. Það virðist vera draumur allra illmenna.

föstudagur

fimmtudagur


Ég var að horfa á Kastljósið í gær þar sem DV-málið var tekið fyrir.
Rætt var við ritstjóra DV, Jónas Kristjánsson, þar sem hann útskýrði sitt mál og varði stefnu blaðsins. Ég get ekki annað séð en að þessi maður sé hið versta fúlmenni og með öllu siðblindur; hann sýndi enga iðrun og ég gat ekki betur séð en að hann ætlaði sér að rökstyðja mál sitt næstu dögum. Þ.e. að sanna það, að maðurinn sem var að svipta sig lífi, hafi verið í raun verið barnaníðingur og þ.a.l. hafi DV gert rétt að fjalla um hann eins og gert var.

Þannig á ekki að fjalla um nýlátinn mann. En, sjáum hvað setur. Kannski gerir hann það ekki.

Ég skrifaði smápistil um það hver ber ábyrgðina í þessu máli. Blogger-kerfið getur ekki tekið við skrifum sem eru svo og svo löng, þannig að ég set þau í kommenta-kerfið.

miðvikudagur

mánudagur


Tomma tókst að sýna fram á, að Steingrímur J. Sigfússon og Lenín eru í raun og veru einn og sami maðurinn.

laugardagur

Er ekki smá svipur með Steingrími J. og Lenín?
























Eða er kannski bara svipur með öllum sköllóttum mönnum?

föstudagur



Í kommenta-kerfinu má finna dúndur grein um aftökur.

mánudagur

Jæja, nú fer ég alveg að gefast upp á þessu blogger-kerfi. Einhverra hluta vegna er það hætt að birta færslur sem eru lengri en tvær efnisgreinar. Ég setti skrifin mín í kommenta-kerfið. Ef einhver þekkir Guðrúnu Kvaran má hann endilega benda henni á þessi skrif, áður en hún setur sögnina að gúgla í Orðabók Háskólans.