Jæja, nú fer ég alveg að gefast upp á þessu blogger-kerfi. Einhverra hluta vegna er það hætt að birta færslur sem eru lengri en tvær efnisgreinar. Ég setti skrifin mín í kommenta-kerfið. Ef einhver þekkir Guðrúnu Kvaran má hann endilega benda henni á þessi skrif, áður en hún setur sögnina að gúgla í Orðabók Háskólans.
7 Comments:
Að semja orð. Það er starf sem ég væri til í að gegna. Til dæmis hefur einhver upp úr aldamótunum 1900 þurft að finna orð fyrir það sem útlendingar kölluðu automobil. Maðurinn sem þá gegndi þessu starfi, köllum hann bara Orðameistari ríkisins, stakk upp á orðinu sjálfrennireið. Jú, ágætis tillaga í ljósi fyrirmyndarinnar. En orðið er ekki nógu einfalt, fjögur atkvæði og flæðir ekki nógu skemmtilega. Það verður eiginlega hálfgerður tungubrjótur þegar það er sagt hratt. Til dæmis: Svo fór sjálfrennireiðin yfir á rauðu. Maður festist of mikið í r-inu. Hefðu ég verið Orðameistari ríkisins, hefði ég strax stungið upp á orðinu bíll.
Annað dæmi um lélegt orð er veraldarvefurinn. Það er bara allt of þungt í vöfum, alls sex atkvæði. Auk þess finnst mér orðið veröld vera of tilgerðarlegt til þess að nota í daglegu talmáli manna. Þetta er eitt af orðunum sem skáld nota þegar þau rembast við að vera háfleyg. Eina dæmið sem mér finnst líta ágætlega út er hjá Megasi: Fláa veröld. En, jæja. Internetið, eða bara netið, varð ofan á og er notað núna. Hefði ég verið Orðameistari ríkisins hefði ég strax stungið upp á styttu útgáfunni, netinu.
Önnur dæmi um ný orð: GSM-sími, SMS [1], hlaða (load), vista (save) og svona mætti lengi telja. Margar tillögur eru góðar og aðrar aðeins verri. En mig langaði að tala um sögnin að gúgla. Allir vita hvað það þýðir. Orðið sjálf ætti að geta fallið vel í íslensku og mér finnst það vera litríkt. Ef nefna ætti einhvern ókost, væri það kannski líkindi þess við orðið Gúlag. En, jæja. Hvað um það. Spurningin sem ég ætlaði að svara, er hvort þessi sögn stýrir þolfalli eða þágufalli. Það er, hvort er réttara að segja: ,,Ég gúglaði hann" eða ,,ég gúglaði honum"?
Guðrún Kvaran, forstöðumaður Orðabókar Háskólans, segir að réttara sé að segja: ,,Ég gúglaði honum," og rökstyður það með því að segja að þetta sé af svipuðu tagi og sögnin að fletta, sem stýrir þágufalli (þ.e. ég fletti því upp á Google --> Ég gúglaði því). Þetta er ekki rétt.
Ég held að hún hafi komist að þessari niðurstöðu, vegna þess að það er hægt að rökstyðja hana á svipaðan máta og önnur ný íslensk orð. Á sama hátt og automobil varð að bíl og internetið er stundum stytt í netið, á það ,,að fletta einhverju upp á Google" að hafa þróast í að gúgla því. Þetta er einfaldlega ekki rétt. Það varð engin þróun. Að gúgla eitthvað, er tökuorð beint úr ensku og er notað á sama hátt og gert er þar. Dæmi: I tried to google him, but it returned no results at all. Á íslensku myndi þetta útleggjast sem þolfall.
En, jæja. Mig langaði bara aðeins að tala um þetta.
[1]
Hallgrímur Helgason stakk upp á sögninni ,,að smassa" þegar maður sendir SMS. Tillagan er góð, en mér finnst hún hljóma svoldið drasl-lega. ,,Að senda SMS" virkar íslenskara.
Ég kýs þolfall.
ÞF ÞF ÞF
-Palli Þolfall
P.s. ÞF
Þolfall er málið. Ég hef aldrei heyrt nokkurn tala um að gúgla einhverjum eða gúgla sér saman við einhvern. En bíll er bara ljót stytting á átómóbíll. Fallegra er að segja bifreið sem er hinn raunverulegi íslenski arftaki sjálfrennireiðarinnar.
Já. Ég er eiginlega sammála þér. Bifreið er fallegra. Ef þú vilt í framtíðinni starfa sem sérlegur aðstoðarmaður Orðameistara ríkisins, endilega sláðu á þráðinn.
Hér bendi ég á skemmtilega tilviljun. Að gúgla er tengt www.google.com. Hvað með þá sem taka www.altavista.com fram fyrir google. Þeir geta vistað en hafa þeir þá gert, geymt skjal eða fundið það? Mest stemming myndi samt myndast í íslensku og reyndar öllum öðrum málum ef sögnin að yahúa væri notuð í daglegu máli.
Já, þett eru ágætir punktar. Ég hef tekið eftir því með mig, að ég er byrjaður að nota Yahoo leitarvélina miklu meira eftir að sögnin að yahúa kom inn í daglegt mál manna. Það er bara svo gaman að stinga upp á þessari leitarvél. Annars er ég pínu forvitinn að sjá hvað Guðrún Kvaran segir um þessa nýju sögn. Stýrir hún þolfalli eða þágufalli? Eða stýrir hún kannski annars konar föllum? E.t.v. sjávarföllum?
Skrifa ummæli
<< Home