miðvikudagur





mánudagur


Gott grín í boði
Sylvíu:
Hvernig veit ég að Abu Hamza al-Masri er illmenni (Abu var nýlega dæmdur í 7 ára fangelsi fyrir að hvetja til hryðjuverka)? Jú, af því hann er með stóran járnkrók á hendi. Ef maður missir höndina á maður val um það sem maður fær í staðinn. Gott fólk velur huggulegu gervi plasthöndina. Vondir menn velja hins vegar járnkrókinn.
Það er eitthvað svo fyndið við þetta. Og myndin. Þetta er sannarlega vondur maður! Ég get bara ekki hætt að hlæja.

föstudagur

Frétt af mbl.is:
Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, sem hér á árum áður var söngvari á farþegaskipum, hefur tekið sér hlé frá kosningabaráttunni sem nýhafin er á Ítalíu og samið ástarsöng fyrir fyrrverandi fegurðardrottningu Ítalíu, Taniu Zamparo. Berlusconi viðurkennir að lagið, sem heitir Augun fögru, hafi verið samið undir áhrifum frá augum Zamparo, sem hann sagði einkar fögur og líkti við bílljós.
Við bílljós! Kommooon...! Lagið heitir Augun fögru, og hann líkir þeim síðan við bílljós. Hvílíkur auli!

mánudagur



Íslenski þjóðsöngurinn er fallegur. Lagið hljómar vel og ljóðið er gott. En mér hefur samt aldrei þótt það viðeigandi sem þjóðsöngur. Lagið er of hægt og textinn of guðhræddur. Að mínu mati myndi hann sóma sér betur sem kirkjusálmur.

Svo er líka svo erfitt að tengjast honum og syngja hann af innlifun. Það er stór galli á svo mikilvægu lagi. Að þessu leyti er hann eins og Heims um ból; þegar fólk syngur í fullri einlægni og af öllu hjarta um hvernig gjörvöll mankindin lá meinvill í myrkrunum á meðan lifandi brunnur hins andlega seims var borinn í heiminn. Skilur þetta nokkur maður?

Ég held, að flestir læri þjóðsönginn eins og jólalögin; of litlir til þess að skilja bofs í honum. Og svona þylur maður lagið umhugsunarlaust í gegn um árin, án þess að velta því neitt frekar fyrir sér. Í flestra hugum er þetta einfaldlega fallegt lag með boðskap sem ristir ekki dýpra en þessi setning: Ísland þúsund ár! Ísland þúsund ár!

Förum yfir lagið:

Lofsöngur

Ó , guð vors lands! Ó, lands vors guð!
Vér lofum þitt heilaga, heilaga nafn!
Úr sólkerfum himnanna hnýta þér krans
þínir herskarar, tímanna safn.
Fyrir þér er einn dagur sem þúsund ár
og þúsund ár dagur, ei meir:
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.
:; Íslands þúsund ár, ;:
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.


Í fyrstu tveimur línunum er Guð ákallaður og honum sýnd hæfileg lotning. Mér finnst þetta viðeigandi guðhræðsla í sálm, en varla í þjóðsöng. Línur þrjú og fjögur hef ég aldrei skilið almennilega. En ef ég ætti að giska, myndi ég segja að herskarar Drottins, sem hnýta honum krans (úr sólkerfum himnanna), séu stjörnur himinhvolfsins. Þær eru safn tímanna. Jæja jæja. Ef þetta er rétt skilið, finnst mér það nokkuð vel ort og af skáldlegri snilli. En það er ekki möguleiki að hægt sé að syngja þetta af einlægri innlifun og frá hjartanu. Þetta er einfaldlega of flókið. Ofan á það hefur mér alltaf fundist samsetningin „sólkerfi himnanna“ of vísindalega til orða tekið þegar Guð er annars vegar. Við hann má tengja saklaus fyrirbæri eins og ský, stjörnur og himinn. En varla sólkerfi. Mér finnst „sólkerfi“ eiginlega liggja í svipuðum flokki fræðiorða og sporbaugar og stjörnuþokur. En það er annað mál. Fimmta og sjötta línan vitna í það hvað Guð er voldugur, en er ekki síður skírskotun í uppruna lagsins, en það var samið í tilefni þess að þúsund ár voru liðin frá því að land var numið. Sjöunda og áttunda línan eru þversagnakenndar. Þar er talað um smáblóm eilífðar. Í næstu línu deyr það. Og enn þykir mér textinn of guðhræddur. Svo eru línur níu og tíu endurtekning á því sem ég kallaði hér að ofan boðskap þjóðlagsins (og líklega eina setningin sem hefur einhverja merkingu í hugum manna): Ísland þúsund ár! Ísland þúsund ár! Og að lokum eru línur sjö og átta endurteknar á smekklegan hátt.

Ef ég mætti ráða, væri annað lag notað sem þjóðsöngur. Eitthvað hressilegra, sem undirstrikar það hvað Íslendingar mynda vaska þjóð. Og Guði mætti sleppa með öllu. Svo verður lagið að vera þjóðlegt og helst rifja upp reisn landsins á fyrstu öldunum eftir landnám [1]. Eina lagið sem mér dettur í hug, er Öxar við ána. Það er mikil reisn yfir því lagi. Læt það fylgja til gamans:

Öxar við ána

Öxar við ána, árdax í ljóma,
upp rísi þjóðlið og skipist í sveit.
Skjótum upp fána, skært lúðrar hljóma,
skundum á þingvöll og treystum vor heit.
Fram, fram, aldrei að víkja.
Fram, fram, bæði menn og fljóð.
Tengjumst tryggðarböndum,
tökum saman höndum,
stríðum, vinnum vorri þjóð.


Einhverjum finnst lagið Ísland er land þitt fallegt og er Halldór Ásgrímsson einn þeirra, en hann kýs að spila það frekar en Lofsönginn á eftir ávarpi forsætisráðherra á Gamlárskvöld. Ég er algjörlega ósammála. Það er alltof væmið og með öllu smekklaust. Það sem gerir lagið vonlaust að mínu mati, er þessi heimskulega forklifun á „Íslandi“. Þó að það sem eftir fylgir sé oft á köflum ágætt, er ekki hægt að notast við þetta lag. Það virkar á mig eins og skemmdur matur:

Ísland er land þitt

Ísland er land þitt, og ávallt þú geymir
Ísland í huga þér, hvar sem þú ferð.
Ísland er landið sem ungan þig dreymir,
Ísland í vonanna birtu þú sérð,
Ísland í sumarsins algræna skrúði,
Ísland með blikandi norðljósa traf.
Ísland að feðranna afrekum hlúði,
Ísland er foldin, sem lífið þér gaf.

Íslensk er þjóðin sem arfinn þinn geymir
Íslensk er tunga þín skír eins og gull.
Íslensk er sú lind,sem um æðar þér streymir.
Íslensk er vonin, af bjartsýni full.
Íslensk er vornóttin, albjört sem dagur,
Íslensk er lundin með karlmennskuþor.
Íslensk er vísan, hinn íslenski bragur.
Íslensk er trúin á frelsisins vor.

Ísland er land þitt, því aldrei skal gleyma
Íslandi helgar þú krafta og starf
Íslenska þjóð, þér er ætlað að geyma
íslenska tungu, hinn dýrasta arf.
Ísland sé blessað um aldanna raðir,
íslenska moldin, er lífið þér gaf.
Ísland sé falið þér, eilífi faðir.
Ísland sé frjálst, meðan sól gyllir haf.


Jæja, ég ætla nú að fara að hætta þessu þjóðsöngvaspjalli. Mig langar til að láta erindi tvö og þrjú í Lofsöngi Matthíasar Jochumssonar fylgja með, en fáir þekkja þau og þeirra kvak.

Lofsöngur, erindi tvö og þrjú

Ó , guð, ó, guð! Vér föllum fram
og fórnum þér brennandi, brennandi sál,
guð faðir, vor drottinn frá kyni til kyns,
og vér kvökum vort helgasta mál.
Vér kvökum og þökkum í þúsund ár,
því þú ert vort einasta skjól.
Vér kvökum og þökkum með titrandi tár,
því þú tilbjóst vort forlagahjól.
:; Íslands þúsund ár, ;:
voru morgunsins húmköldu, hrynjandi tár,
sem hitna við skínandi sól.

Ó , guð vors lands! Ó, lands vors guð!
Vér lifum sem blaktandi, blaktandi strá.
Vér deyjum, ef þú ert ei ljós það og líf,
sem að lyftir oss duftinu frá.
Ó, vert þú hvern morgun vort ljúfasta líf,
vor leiðtogi í daganna þraut
og á kvöldin vor himneska hvíld og vor hlíf
og vor hertogi á þjóðlífsins braut.
:; Íslands þúsund ár, ;:
verði gróandi þjóðlíf með þverrandi tár,
sem þroskast á guðsríkis braut.


P.s.
Nokkrar ágætar síður:
Gunni og Mæja eru búin að eignast dreng.
Snæbjörn er búinn að safna yfirvaraskeggi.
Guðmundur Jón segir frá lífinu í Osló.


[1]
Mér finnst allt þetta lotningarfulla mal um Guð, í þjóðsönginum nú, minna á niðurlægingartímabil Íslands, þegar þeir hírðust inni í moldarkofunum, sligaðir af fátækt og aumingdómi, og gátu ekki bundið vonir sínar við annað en að Guð yrði þeim miskunnsamur.

miðvikudagur


Þegar maður leitar á Google, er fjöldi blaðsíðna sem innihalda leitarniðurstöðurnar sýndur á eftirfarandi hátt:


Ég ákvað að gera smá tilraun. Hvað ef maður slær inn www.goooooooooogle.com (eins og á myndinni), í staðinn fyrir www.google.com. Ekkert gerðist. Ok. En ef ég set þrjú ,,o"? En fjögur? Og þannig skannaði ég mig í gegn um allar síðurnar, frá núlli upp í hundrað. Hér koma helstu niðurstöðurnar:

0: www.ggle.com
Til sölu. Ekki spennandi

1: www.gogle.com
Aðalsíða Google kemur upp. Hún kemur líka ef maður slær 2, 3 eða 5 ,,o".

4: www.goooogle.com
Önnur leitarvél. Ég er að spá í að skipta.

6: www.goooooogle.com
Einhvers konar tenglasíða með slagorðið: What you need, when you need it. Skíta slagorð. Fimm vinsælustu tenglarnir eru: Breasts, games, penis, The Simpsons og Yu Gi Oh. Verð að prófa að gúgla þetta Yu Gi Oh. En hvort ætti ég að nota www.google.com eða www.goooogle.com? Hmm...

7: www.gooooooogle.com
Vef-froskurinn bloggar. Hann hefur hvorki neitt eiturlyfja né drukkið áfengi í þrjú ár og leiðist þófið (eða, er það ekki nokkuð góð þýðing á Clean, dry and bored since April 2003?). Hann tekur skopmyndadeiluna fyrir í fyrradag, alveg eins og ég gerði.

15: www.gooooooooooooooogle.com
Önnur tenglasíða og leitarvél. Einhverra hluta vegna vísa allir tenglarnir á rapp- og hipp hopp síður. Þar við hliðina á koma sambærilegar síður, en þær vísa á: Sex, Singles Online, Porn, Dating, Cameras, Chat dating og Rich People. Sé ekki alveg tenginguna við músíkina.

21: www.gooooooooooooooooooooogle.com
Leitarvél, og vafalaust verðugur keppinautur við Google.

24: www.goooooooooooooooooooooooogle.com
Enn ein leitarvélin og tenglasíðan. Hvað er með þessa gæja, halda þeir virkilega að nokkur fari að skipta úr tveimur o-um í tuttuguogfjögur? Það er bara vitleysa.

31: www.gooooooooooooooooooooooooooooooogle.com
Mjög dularfull læst síða. Djöfull langar mig að vita hvað er á henni. Þeir hafa meira að segja styrktaraðila. En, bíðum við. Þegar betur er að gáð, er styrktaraðilinn einhver unglingur sem heldur á bikar og vill að fólk greiði atkvæði um hvað þeim finnst um þessa bikar-mynd. Ég er ekki jafn spenntur lengur.

33: www.gooooooooooooooooooooooooooooooooogle.com
Leitarvél og tenglasíða, svona fyrir þá sem vilja ekki nota 2-, 4-, 15-, 21- og 24 o-a síðurnar.

35: www.g
ooooooooooooooooooooooooooooooooooogle.com
Enn einn sigur frjórrar og frumlegrar hugsunar. Leitarvél og tenglasíða. (Þessi yfirferð er nú farin að vera frekar þreytandi).

37: www.gooooooooooooooooooooooooooooooooooooogle.com
Tenglasíða. Mér finnst tenglarnir samt nokkuð góðir. Fyrsti segir einfaldlega: Corey is a looser. Ég er sammála. Næsti tengill: Poison Cakes. Og svo eru gylliboðin freistandi: Earn Big Money Online. Já, hvers vegna ekki?

41: www.gooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooogle.com
Afar óspennandi tenglasíða. Fyrsti tengillinn er einmitt www.google.com. Efst á síðunni er frekar athyglisverð athugasemd: Why am I seeing this page? Og við hliðina á því er tengill sem segir: Learn more. Ég held að það sé ekki til neitt meira óspennandi en akkúrat þessi tengill. Og, hmm... ég mæli ekki með að ýta á hann, tölvan skýtur strax upp vírusa-viðvörun. Getur verið að mennirnir á bak við þessa síðu séu einhverjir hrappar?

42: www.goooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooogle.com
Undarleg síða þar sem manni er boðið að breyta henni.

43: www.goooooooooo
ooooooooooooooooooooooooooooooooogle.com
Þetta er alveg hreint stórkostleg bloggsíða. This webpage gives a shout out to a gang banging playa who aint wit us no more. Nánari rannsóknarvinna leiddi í ljós, að drengirnir á bak við síðunar eru með eindæmum fágaðir einstaklingar og miklir Notorious B.I.G. aðdáendur. En það var feitur rappari sem nú er dáinn. Hann söng um það hvað lífið í fátækrahverfinu var erfitt og hvað hann átti mikið af peningum núna. (Ath! Síða er föl öllum sönnum leikmönnum fyrir 20G).

44. www.g
oooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooogle.com
Leitarvél og tenglasíða. Hún er líka föl fyrir peninga. Samt frekar leiðinleg.

53: www.g
ooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooogle.com
Þetta er athyglisverð síða, en hún virðist að einhverju leyti byggja veldi sitt á að hafa 53 ,,o" í nafninu sínu. Síðan heitir meira að segja 53 o's SUBMIT. Þetta er vefsíða hljómsveitar sem spilar tónlist með hjálp tölvu. Eins undarlegt og það kann að hljóma, finnst mér þetta bara helvíti gott stöff hjá þeim. Eða, eins langt og það nær. Minnir á Beck. Dæmi. Samt hljóma jólalög ekki vel í svona rafrænum búningi.

54: www.goooooooooo
oooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooogle.com
Japanir hafa ákveðið að nýta sér vinsældir Google til að selja tölvur. Síðan er þó enn í vinnslu.

56. www.g
oooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooogle.com
Þetta mjög svo þægilega nafn er til sölu. Maður má hafa samband við þessa menn, ef maður hefur áhuga á ChinoBiz.com. Ég get varla setið á mér.

58. www.goooooooooo
oooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooogle.com
Algjör drasl síða á ensku/kínversku. Hér er verið að selja lén. Efst stendur: Welcome to nanknom's domain world! Eins og þetta sé eitthvað spennandi heimur? Ég sé fyrir mér mýrlendi, brotin tré og draugalega þoku. Einhvers staðar liggur Nanknom sjálfur í felum. Hann er í slitnum fötum og talar eins og vondur karl í He-man teiknimyndunum. Hann reynir að tæla mann með freistandi tilboði: www.2030fifaworldcup.com = 6.750$. En við látum ekki blekkjast. Nei, Nanknom. Ekki í dag.
.. Ekki í dag...

59. www.g
ooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooooogle.com
Síðasta síðan, og það kemur ekkert sérstaklega á óvart að þetta er leitarvél. En þessi er samt öðruvísi. Voða sérstök. Þetta er síða sem reynir að herma algerlega eftir Google, og ef maður notar hana til að leita, fer maður beint inn á www.google.com. Samt selja þeir auglýsingar á síðuna sína og græða þannig á vinnu Google. Klókir menn þar á fer. En sniðug síða engu að síður.

Hér eftir voru ekki fleiri síður sem reyndu að hagnast á Google. Kannski vegna einhverra reglna um hámarksfjölda stafa, ég skal ekki segja. En fyrir áhugasama, að þá var www.goooooooogle.com stysta lénið sem ekki var búið að taka (átta o). Ég ætla að bjóða í það.
Eða, ekki.

mánudagur


Atburðir liðinnar viku hafa breytt viðhorfi mínu til Arabaheims. Maður getur ekki annað en endurskoðað hug sinn.

Ég hafði mikla samúð með Palestínumönnum og þeirra málstað; fannst þeir vera fórnarlömb. Og þeir eru það, upp að vissu marki. En að kjósa Hamas, flokk sem hefur það á stefnuskrá sinni að eyða Ísraelsríki [1], er ekki til vitnis um að Palestínumenn vilji frið. Að mínu mati mjög lélegur leikur af hálfu Palestínumanna.

En hvað um það. Það sem fór fyrir brjóstið á mér, var að sjá viðbrögð fylgismanna Fatah, hreyfingarinnar sem tapaði kosningunni (og eiga að heita góðu gæjarnir): Þeir flykkjast í bræði sinni að húsi forystumannsins, Mahmoud Abbas, og skjóta úr byssum upp í loftið og kalla hann landráðamann. Því næst valsa þeir að næstu opinberu byggingu og kveikja í henni, til þess að leggja áherslu á reiði sína. Ég sá þetta sýnt í beinni útsendingu af CNN. Þeir óðu upp um bygginguna eins og apakettir og reyndu að eyðileggja allt sem þeir gátu hönd á fest. Margir voru með byssur og skutu upp í loftið eins og þeir væru búnir að missa vitið. Nokkrir bílar stóðu við bygginguna og mennirnir kepptust við að skemma þá. Að lokum var kveikt í þessum bílum. Allir virtust taka þátt í þessari eyðileggingu. Og ég sat heima og horfði á þetta. Þeir eru að berjast innbyrðis. Svona láta þeir greinilega alltaf, þegar þeim mislíkar eitthvað. En hvers vegna?

Og ég vil taka það fram aftur, að hingað til hef ég eiginlega alltaf tekið upp hanskann fyrir Palestínumenn. Ég er bara að velta því fyrir mér hvort ég hafi horft rangt á þessa deilu. Kannski hef ég haft of mikla samúð með Palestínumönnum og leyft þeim að njóta vafans, þegar þeir hefðu kannski ekki átt að gera það.

En það sem veldur því að ég er byrjaður að sjá Araba í nýju ljósi, er að sjálfsögðu viðbrögð þeirra við teiknimyndunum um Múhameð spámann sem Jyllands Posten birti fyrir nokkrum mánuðum.

Íranir brenna danska fánann.

Palestínumenn brenna danska fánann.

Pakistanar brenna danska fánann.

Sýrlendingar brenna danska fánann.

Sýrlendingar brenna danska sendiráðið.

Af hverju snýst deilan um Danmörku? Af hverju er verið að brenna danska fánann í gríð og ergju [2]? Það var Jyllands Posten sem birti þessar myndir. Þeir bera ábyrgðina. Og þeir hafa beðist afsökunar [3]. Danska ríkisstjórnin getur ekki beðist afsökunar á þessum teiknimyndum, því hún ber ekki ábyrgð á efni dagblaðanna [4]. Svo einfalt er það.

Og austurlenskir stjórnmálamenn axla ekki ábyrgð sem skyldi. Þeir kalla sendiherra sína heim frá Danmörku, og það sem er sýnu alvarlegra er að þeir láta æstan múg komast upp með að kveikja í dönskum sendiráðum [5]. Hvernig dettur þeim í hug að bregðast svona við? Og hugsa sér, allt út af teikningum í einhverju dagblaði í Danmörku. Mér verður hugsað til skrípalátanna í kring um þingkosningarnar í Palestínu, þar sem öllu var snúið á hvolf - bara af því að þeir voru svo reiðir. Hvílík vitleysa!

Jæja, ég held að ég fari ekki fleiri orðum um Arabaheim. Ég er byrjaður að sjá hann í nýju ljósi, og er ansi hræddur um að hér eftir verði ég seinþreyttari til að taka upp hanskann fyrir þessa menn.


[1]
Ég átta mig ekki á þessu. Hvernig getur aðili, sem vegur jafnþungt og Hamas, haft það á stefnuskrá sinni að eyða Ísraelsríki? Þetta er svo barnalegt.

[2]
Fyrir utan þá staðreynd, að danski fáninn samanstendur af hvítum krossi á rauðan flöt. Að brenna hann ætti ekki síður að vera móðgandi við kristið fólk og skopmyndir við múslimstrúa fólk.

[3]
Það kaldhæðnislega er, að talsmenn danskra múslima, sem hófu þessa umræðu, eru einir um að hafa tekið afsökunarbeiðni Jyllands Postens.

[4]
Og af hverju eru Danir einir kallaðir til ábyrgðar fyrir efni dagblaða sinna? Á sama hátt ættu ríkisstjórnir Noregs, Þýskalands, Frakklands, Spánar, Jórdaníu, Nýja-Sjálands og Íslands (og eflaust fleiri) að vera gerðar ábyrgar.

[5]
Ég sá umræðuþátt á DR1 þar sem staðhæft var, að íkveikjurnar væru vilji þarlendra stjórnvalda. Ef þau hefðu viljað stoppa múginn hefðu þau gert það, enda voru mótmælin skipulögð með góðum fyrirvara. Ég held að þetta sé alveg rétt.

miðvikudagur


Nokkrir punktar:

* Handboltamarkmenn eru hálfvitar. Eða,
það gæti maður ætlað. Hvaða sans meikar það, að breiða út faðminn á móti grjóthörðum bolta sem kastað er á meira en 100 kílómetra hraða? Eina starfið sem mér dettur í hug sem er bjánalegra, er prófun á skotheldum vestum. Eða láta stinga sig endurtekið í líkamann með hárbeittum hnífi. En ég er samt ekki viss um að þau störf séu til.

* Af hverju snýst skopmyndadeilan um Danmörku? Af hverju ætti Anders Fough að biðjast afsökunar á teiknimyndaseríunni? Það var Jyllands posten sem birti þessar sögur. Múslimar eiga heimtingu á afsökun frá þeim. Ekki Danmörku. Þetta eru tveir ólíkir aðilar. Og að segja, að ríkisstjórnin beri ábyrgð á samfélagi sem leyfir blöðum að skrifa hvað sem er, er í rauninni bara árás á tjáningarfrelsið. Ég er sammála því, að blaðið á að biðjast afsökunar á skrifum sínum ef það fer yfir strikið. En að fordæma Danmörk er til marks um þröngsýni arabaheims.

* Hvað er að gerast hjá Köngulóarmanninum? Síðustu sex dagar hafa farið í bílferð Rósu, en hún heldur kærustu Köngulóarmannsins fanginni. Í gær kom í ljós, að Rósa og Tarantúlan eru systkin. Og Köngulóarmaðurinn skynjar á sér að eitthvað slæmt á eftir að gerast. Hvar endar þetta?