mánudagur


Atburðir liðinnar viku hafa breytt viðhorfi mínu til Arabaheims. Maður getur ekki annað en endurskoðað hug sinn.

Ég hafði mikla samúð með Palestínumönnum og þeirra málstað; fannst þeir vera fórnarlömb. Og þeir eru það, upp að vissu marki. En að kjósa Hamas, flokk sem hefur það á stefnuskrá sinni að eyða Ísraelsríki [1], er ekki til vitnis um að Palestínumenn vilji frið. Að mínu mati mjög lélegur leikur af hálfu Palestínumanna.

En hvað um það. Það sem fór fyrir brjóstið á mér, var að sjá viðbrögð fylgismanna Fatah, hreyfingarinnar sem tapaði kosningunni (og eiga að heita góðu gæjarnir): Þeir flykkjast í bræði sinni að húsi forystumannsins, Mahmoud Abbas, og skjóta úr byssum upp í loftið og kalla hann landráðamann. Því næst valsa þeir að næstu opinberu byggingu og kveikja í henni, til þess að leggja áherslu á reiði sína. Ég sá þetta sýnt í beinni útsendingu af CNN. Þeir óðu upp um bygginguna eins og apakettir og reyndu að eyðileggja allt sem þeir gátu hönd á fest. Margir voru með byssur og skutu upp í loftið eins og þeir væru búnir að missa vitið. Nokkrir bílar stóðu við bygginguna og mennirnir kepptust við að skemma þá. Að lokum var kveikt í þessum bílum. Allir virtust taka þátt í þessari eyðileggingu. Og ég sat heima og horfði á þetta. Þeir eru að berjast innbyrðis. Svona láta þeir greinilega alltaf, þegar þeim mislíkar eitthvað. En hvers vegna?

Og ég vil taka það fram aftur, að hingað til hef ég eiginlega alltaf tekið upp hanskann fyrir Palestínumenn. Ég er bara að velta því fyrir mér hvort ég hafi horft rangt á þessa deilu. Kannski hef ég haft of mikla samúð með Palestínumönnum og leyft þeim að njóta vafans, þegar þeir hefðu kannski ekki átt að gera það.

En það sem veldur því að ég er byrjaður að sjá Araba í nýju ljósi, er að sjálfsögðu viðbrögð þeirra við teiknimyndunum um Múhameð spámann sem Jyllands Posten birti fyrir nokkrum mánuðum.

Íranir brenna danska fánann.

Palestínumenn brenna danska fánann.

Pakistanar brenna danska fánann.

Sýrlendingar brenna danska fánann.

Sýrlendingar brenna danska sendiráðið.

Af hverju snýst deilan um Danmörku? Af hverju er verið að brenna danska fánann í gríð og ergju [2]? Það var Jyllands Posten sem birti þessar myndir. Þeir bera ábyrgðina. Og þeir hafa beðist afsökunar [3]. Danska ríkisstjórnin getur ekki beðist afsökunar á þessum teiknimyndum, því hún ber ekki ábyrgð á efni dagblaðanna [4]. Svo einfalt er það.

Og austurlenskir stjórnmálamenn axla ekki ábyrgð sem skyldi. Þeir kalla sendiherra sína heim frá Danmörku, og það sem er sýnu alvarlegra er að þeir láta æstan múg komast upp með að kveikja í dönskum sendiráðum [5]. Hvernig dettur þeim í hug að bregðast svona við? Og hugsa sér, allt út af teikningum í einhverju dagblaði í Danmörku. Mér verður hugsað til skrípalátanna í kring um þingkosningarnar í Palestínu, þar sem öllu var snúið á hvolf - bara af því að þeir voru svo reiðir. Hvílík vitleysa!

Jæja, ég held að ég fari ekki fleiri orðum um Arabaheim. Ég er byrjaður að sjá hann í nýju ljósi, og er ansi hræddur um að hér eftir verði ég seinþreyttari til að taka upp hanskann fyrir þessa menn.


[1]
Ég átta mig ekki á þessu. Hvernig getur aðili, sem vegur jafnþungt og Hamas, haft það á stefnuskrá sinni að eyða Ísraelsríki? Þetta er svo barnalegt.

[2]
Fyrir utan þá staðreynd, að danski fáninn samanstendur af hvítum krossi á rauðan flöt. Að brenna hann ætti ekki síður að vera móðgandi við kristið fólk og skopmyndir við múslimstrúa fólk.

[3]
Það kaldhæðnislega er, að talsmenn danskra múslima, sem hófu þessa umræðu, eru einir um að hafa tekið afsökunarbeiðni Jyllands Postens.

[4]
Og af hverju eru Danir einir kallaðir til ábyrgðar fyrir efni dagblaða sinna? Á sama hátt ættu ríkisstjórnir Noregs, Þýskalands, Frakklands, Spánar, Jórdaníu, Nýja-Sjálands og Íslands (og eflaust fleiri) að vera gerðar ábyrgar.

[5]
Ég sá umræðuþátt á DR1 þar sem staðhæft var, að íkveikjurnar væru vilji þarlendra stjórnvalda. Ef þau hefðu viljað stoppa múginn hefðu þau gert það, enda voru mótmælin skipulögð með góðum fyrirvara. Ég held að þetta sé alveg rétt.

8 Comments:

Blogger Palli said...

Voru myndirnar birtar á Íslandi? Vissi það ekki.

mánudagur, 06 febrúar, 2006  
Blogger Jói Ben said...

Já, þær voru birtar í DV. Tvisvar meira að segja.

mánudagur, 06 febrúar, 2006  
Blogger Björk said...

já veistu ég skil bara ekkert í þessu máli.
ég er nú svo vitlaus að ég vissi ekki einu sinni að það væri svona mikið tabú að birta myndir af Múhamed.
Þessi clausa er úr Times:
“Muslim leaders say the cartoons are not just offensive. They’re blasphemy—the mother of all offenses. That’s because Islam forbids any visual depiction of the Prophet, even benign ones. Should non-Muslims respect this taboo? I see no reason why. You can respect a religion without honoring its taboos. I eat pork, and I’m not an anti-Semite. As a Catholic, I don’t expect atheists to genuflect before an altar. If violating a taboo is necessary to illustrate a political point, then the call is an easy one. Freedom means learning to deal with being offended.”


Finnst þetta mál farið að snúast um eitthvað annað en bara þessar myndir. Finnst einhvern veginn eins og sumir lifi á þessu, að öskra og garga, brenna fána, skjóta úr byssum og kveikja í húsum. Kannski þegar maður er alinn upp við svona þá lætur maður svona.

Maður bara skilur ekki hvernig þetta endar allt saman!

þriðjudagur, 07 febrúar, 2006  
Anonymous Nafnlaus said...

Mér finnst nammi geðveikt gott.

þriðjudagur, 07 febrúar, 2006  
Blogger Jói Ben said...

Þetta er ágætur punktur hjá Times. Ég ætlaði að segja, að þeir tækju samt ekki sambærileg dæmi. En, svona þegar ég hugsa um það, að frá trúarlegu sjónarhorni er þetta sambærilegt. Svínakjöt er bannað vegna þess að það er óhollt, og þess vegna góður siður að borða það ekki. Myndir af Múhameð eru bannaðar á þeim forsendum að þá sé verið að gera dælt við dýrkun skurðgoða. Þó að einhver annar borði svínakjöt, gerist hann ekki sekur um guðlast - því hann er ekki þeirrar trúar. Og að sama skapi með Múhameð. Þó að ég teikni mynd af Múhameð, þýðir það ekki að ég sé að dýrka skurðgoð. Og í raun og veru ætti múslimum að vera alveg sama um það hvort ég hagi mér eftir gildum Kóransins. Ég er ekki þeirrar trúar.

Kriz: Mér finnst nammi líka gott. Og svínakjöt. Best væri að blanda þessu saman. Nammigrís.

miðvikudagur, 08 febrúar, 2006  
Anonymous Nafnlaus said...

Þessar myndir sem þú birtir af nokkrum vinum mínum með danska fánann sýna þá ekki í réttu ljósi. Til þess að varpa birtu á málið mun ég rekja tildrög þess lauslega. Ég var ásamt vinum mínum á gangi niðrí bæ. Eins og venjulega höfðum við dönsku fánana okkar meðferðis. Af tilviljun gengum við framhjá blaðastandi sem selur gömul dönsk dagblöð og tímarit. Við rákum augun í Jyllandsposten frá september í fyrra. Við lesturinn á þeim danska pósti fór heldur að kárna gamanið. Varð okkur nú öllum samtímis ljóst hver stefna danskra yfirvalda í málefnum innflytjenda hefur verið á liðnum misserum. Strengdum við nú heit um að sniðganga danskar vörur sérstaklega Lurpak-smjör. Persónulega ákvað ég að skipta um insúlíntegund mun ekki kaupa insúlínið mitt framar frá Nova Nordisk. Upp úr þessu gerðust svo tíðindin sjálfkrafa. Við skrifuðum slagorð á ensku á fánana og kveiktum svo í þeim og trömpuðum þá í götuna fyrir framan upptökmenn sjónvarpsstöðvarinnar Al Djasíra en þeir voru einmitt staddir þarna af tilviljun að kaupa gömul Alt for Damerne á vægu verði. Þess má svo loks geta að sýrlensk stjórnvöld eiga engan hlut að máli enda útifundir stranglega bannaðir og vel fylgst með einstaklingum og trúarhópum auk þess sem trúarofstæki á opinberum vettvangi er bannað með lögum.

Ps. Mig langar að benda ykkur Íslendingum á að loks hafið þið eignast félaga í aldalangri baráttu ykkar við nýlenduherrana dönsku.

Pps. Í gær fórum við vinirnr svo að sækja um landvistarleyfi í Danmörku en eins og venjulega var okkur neitað á fölskum forsendum. Tylliástæðan í þetta skiptið gekk fram af okkur: Eyðublöðin eru brunnin!!!!

miðvikudagur, 08 febrúar, 2006  
Blogger Geir said...

Einu viðbrögðin sem Vesturlandabúar hafa sýnt er að beygja sig og bugta, biðjast afsökunar og draga sig til baka út í horn. Ég er alls ekki að segja að hart eigi að mæta hörðu, en þessi eftirgefni og auðmýkt er bara að kynda í heitu báli

miðvikudagur, 08 febrúar, 2006  
Blogger Jói Ben said...

Hvað er að heyra, Anonymous? Var þetta allt saman eitt stórt klúður byggt á misskilningi? Ég skal hringja í Anders Fough vin minn og segja honum þessa sögu þína, hann verður ábyggilega bara feginn. Ég mæli samt ekki með að þú snúir bakinu við Lurpak-smjörinu. Ég þekki mann sem gerði það og stuttu seinna hætti kærastan hans með honum, á þeirri forsendu að hann væri ekkert skemmtilegur lengur. Mjög alvarlegt mál.

Geir: Ég er hjartanlega sammála þér. Það á ekki að lúta undan þrýstingi trúarofstækismanna. Og það er einmitt það sem Condolezza Rice er að segja núna, þegar Bandaríkjastjórn er skyndilega búin að ákveða að standa með Dönum í þessu. Reyndar reynir hún að snúa þessu máli upp á Írana og Sýrlendinga, en talar minna um mótmælin í Írak og Afganistan (þar sem tólf menn hafa látist). Þessi afstaða Bandaríkjamanna er alveg ný, þar sem á fimmtudaginn síðasta ákvað ríkisstjórn þeirra að fordæma myndabirtinguna, fyrsta og eina vestræna ríkið að ég tel. Sem var að sjálfsögðu vatn á myllu trúarofstækismannanna sem fóru að brenna hús og bíla - og fána. En, já. Minn punktur var s.s. sá sami og þinn.

fimmtudagur, 09 febrúar, 2006  

Skrifa ummæli

<< Home