mánudagur



Íslenski þjóðsöngurinn er fallegur. Lagið hljómar vel og ljóðið er gott. En mér hefur samt aldrei þótt það viðeigandi sem þjóðsöngur. Lagið er of hægt og textinn of guðhræddur. Að mínu mati myndi hann sóma sér betur sem kirkjusálmur.

Svo er líka svo erfitt að tengjast honum og syngja hann af innlifun. Það er stór galli á svo mikilvægu lagi. Að þessu leyti er hann eins og Heims um ból; þegar fólk syngur í fullri einlægni og af öllu hjarta um hvernig gjörvöll mankindin lá meinvill í myrkrunum á meðan lifandi brunnur hins andlega seims var borinn í heiminn. Skilur þetta nokkur maður?

Ég held, að flestir læri þjóðsönginn eins og jólalögin; of litlir til þess að skilja bofs í honum. Og svona þylur maður lagið umhugsunarlaust í gegn um árin, án þess að velta því neitt frekar fyrir sér. Í flestra hugum er þetta einfaldlega fallegt lag með boðskap sem ristir ekki dýpra en þessi setning: Ísland þúsund ár! Ísland þúsund ár!

Förum yfir lagið:

Lofsöngur

Ó , guð vors lands! Ó, lands vors guð!
Vér lofum þitt heilaga, heilaga nafn!
Úr sólkerfum himnanna hnýta þér krans
þínir herskarar, tímanna safn.
Fyrir þér er einn dagur sem þúsund ár
og þúsund ár dagur, ei meir:
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.
:; Íslands þúsund ár, ;:
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.


Í fyrstu tveimur línunum er Guð ákallaður og honum sýnd hæfileg lotning. Mér finnst þetta viðeigandi guðhræðsla í sálm, en varla í þjóðsöng. Línur þrjú og fjögur hef ég aldrei skilið almennilega. En ef ég ætti að giska, myndi ég segja að herskarar Drottins, sem hnýta honum krans (úr sólkerfum himnanna), séu stjörnur himinhvolfsins. Þær eru safn tímanna. Jæja jæja. Ef þetta er rétt skilið, finnst mér það nokkuð vel ort og af skáldlegri snilli. En það er ekki möguleiki að hægt sé að syngja þetta af einlægri innlifun og frá hjartanu. Þetta er einfaldlega of flókið. Ofan á það hefur mér alltaf fundist samsetningin „sólkerfi himnanna“ of vísindalega til orða tekið þegar Guð er annars vegar. Við hann má tengja saklaus fyrirbæri eins og ský, stjörnur og himinn. En varla sólkerfi. Mér finnst „sólkerfi“ eiginlega liggja í svipuðum flokki fræðiorða og sporbaugar og stjörnuþokur. En það er annað mál. Fimmta og sjötta línan vitna í það hvað Guð er voldugur, en er ekki síður skírskotun í uppruna lagsins, en það var samið í tilefni þess að þúsund ár voru liðin frá því að land var numið. Sjöunda og áttunda línan eru þversagnakenndar. Þar er talað um smáblóm eilífðar. Í næstu línu deyr það. Og enn þykir mér textinn of guðhræddur. Svo eru línur níu og tíu endurtekning á því sem ég kallaði hér að ofan boðskap þjóðlagsins (og líklega eina setningin sem hefur einhverja merkingu í hugum manna): Ísland þúsund ár! Ísland þúsund ár! Og að lokum eru línur sjö og átta endurteknar á smekklegan hátt.

Ef ég mætti ráða, væri annað lag notað sem þjóðsöngur. Eitthvað hressilegra, sem undirstrikar það hvað Íslendingar mynda vaska þjóð. Og Guði mætti sleppa með öllu. Svo verður lagið að vera þjóðlegt og helst rifja upp reisn landsins á fyrstu öldunum eftir landnám [1]. Eina lagið sem mér dettur í hug, er Öxar við ána. Það er mikil reisn yfir því lagi. Læt það fylgja til gamans:

Öxar við ána

Öxar við ána, árdax í ljóma,
upp rísi þjóðlið og skipist í sveit.
Skjótum upp fána, skært lúðrar hljóma,
skundum á þingvöll og treystum vor heit.
Fram, fram, aldrei að víkja.
Fram, fram, bæði menn og fljóð.
Tengjumst tryggðarböndum,
tökum saman höndum,
stríðum, vinnum vorri þjóð.


Einhverjum finnst lagið Ísland er land þitt fallegt og er Halldór Ásgrímsson einn þeirra, en hann kýs að spila það frekar en Lofsönginn á eftir ávarpi forsætisráðherra á Gamlárskvöld. Ég er algjörlega ósammála. Það er alltof væmið og með öllu smekklaust. Það sem gerir lagið vonlaust að mínu mati, er þessi heimskulega forklifun á „Íslandi“. Þó að það sem eftir fylgir sé oft á köflum ágætt, er ekki hægt að notast við þetta lag. Það virkar á mig eins og skemmdur matur:

Ísland er land þitt

Ísland er land þitt, og ávallt þú geymir
Ísland í huga þér, hvar sem þú ferð.
Ísland er landið sem ungan þig dreymir,
Ísland í vonanna birtu þú sérð,
Ísland í sumarsins algræna skrúði,
Ísland með blikandi norðljósa traf.
Ísland að feðranna afrekum hlúði,
Ísland er foldin, sem lífið þér gaf.

Íslensk er þjóðin sem arfinn þinn geymir
Íslensk er tunga þín skír eins og gull.
Íslensk er sú lind,sem um æðar þér streymir.
Íslensk er vonin, af bjartsýni full.
Íslensk er vornóttin, albjört sem dagur,
Íslensk er lundin með karlmennskuþor.
Íslensk er vísan, hinn íslenski bragur.
Íslensk er trúin á frelsisins vor.

Ísland er land þitt, því aldrei skal gleyma
Íslandi helgar þú krafta og starf
Íslenska þjóð, þér er ætlað að geyma
íslenska tungu, hinn dýrasta arf.
Ísland sé blessað um aldanna raðir,
íslenska moldin, er lífið þér gaf.
Ísland sé falið þér, eilífi faðir.
Ísland sé frjálst, meðan sól gyllir haf.


Jæja, ég ætla nú að fara að hætta þessu þjóðsöngvaspjalli. Mig langar til að láta erindi tvö og þrjú í Lofsöngi Matthíasar Jochumssonar fylgja með, en fáir þekkja þau og þeirra kvak.

Lofsöngur, erindi tvö og þrjú

Ó , guð, ó, guð! Vér föllum fram
og fórnum þér brennandi, brennandi sál,
guð faðir, vor drottinn frá kyni til kyns,
og vér kvökum vort helgasta mál.
Vér kvökum og þökkum í þúsund ár,
því þú ert vort einasta skjól.
Vér kvökum og þökkum með titrandi tár,
því þú tilbjóst vort forlagahjól.
:; Íslands þúsund ár, ;:
voru morgunsins húmköldu, hrynjandi tár,
sem hitna við skínandi sól.

Ó , guð vors lands! Ó, lands vors guð!
Vér lifum sem blaktandi, blaktandi strá.
Vér deyjum, ef þú ert ei ljós það og líf,
sem að lyftir oss duftinu frá.
Ó, vert þú hvern morgun vort ljúfasta líf,
vor leiðtogi í daganna þraut
og á kvöldin vor himneska hvíld og vor hlíf
og vor hertogi á þjóðlífsins braut.
:; Íslands þúsund ár, ;:
verði gróandi þjóðlíf með þverrandi tár,
sem þroskast á guðsríkis braut.


P.s.
Nokkrar ágætar síður:
Gunni og Mæja eru búin að eignast dreng.
Snæbjörn er búinn að safna yfirvaraskeggi.
Guðmundur Jón segir frá lífinu í Osló.


[1]
Mér finnst allt þetta lotningarfulla mal um Guð, í þjóðsönginum nú, minna á niðurlægingartímabil Íslands, þegar þeir hírðust inni í moldarkofunum, sligaðir af fátækt og aumingdómi, og gátu ekki bundið vonir sínar við annað en að Guð yrði þeim miskunnsamur.

6 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

"Ef ég mætti ráða, væri annað lag notað sem þjóðsöngur. Eitthvað hressilegra, sem undirstrikar það hvað Íslendingar mynda vaska þjóð. Og Guði mætti sleppa með öllu. Svo verður lagið að vera þjóðlegt og helst rifja upp reisn landsins á fyrstu öldunum eftir landnám"

Sammála.

Viltu ekki bara reyna að klambra einhverju góðu saman?

SG

mánudagur, 13 febrúar, 2006  
Anonymous Nafnlaus said...

Er þetta áskorun? Því ef svo er, tek ég henni!

JB

þriðjudagur, 14 febrúar, 2006  
Anonymous Nafnlaus said...

Mér finnast þetta orð í tíma töluð.
Íslensk þjóð er ekki sú sama nú og hún var fyrir þúsund árum!!

Ég er sammála því að allt kvak um guð og kirkjur á alls ekki heima í þjóðsöngnum. Þjóðsöngurinn í núverandi mynd er áróður fyrir kristinni trú og endurspeglar ekki þann veruleika að við múslímar tilheyrum íslenskri þjóð.

Það mætti athuga hvort íslenska ríkinu bæri að biðjast formlega afsökunar.

Mér finnst "Öxar við ána" koma vel til greina með smávægilegum breytingum sem gera ekkert nema bæta ljóðið.

Ég læt þær fljóta með ásamt útskýringum svona til gamans.

Alla við ána, árdax í ljóma,
upp rísi þjóðlið og skipist í sveit.

(Hér áköllum við hinn sanna guð um leið og við hvetjum alla til að skipa sér í hersveitir.)

Skjótum upp fána, skært lúðrar hljóma,

(Við múslímar elskum fána og kunnum að umgangast þá)

skundum á þingvöll og treystum vor heit.

(þingvellir eru í austurátt og í flúkti við Mekka og því rétt að hafa lítið þ sem dregur úr mikilvægi staðarins)

Fram, fram, aldrei að víkja.
Fram, fram, bæði menn og fljóð.

(það er sjálfsagt að kvenfólk taki þátt í bardögum svo lengi sem þær bera skýluklúta)

Tengjumst tryggðarböndum,
tökum saman höndum,
stríðum, vinnum vorri þjóð.

(Þessar síðustu línur skýra sig nú sjálfar)

Hér er kominn hinn umburðarlyndi og friðelskandi tónn sem einkennir íslenska þjóð.

mánudagur, 20 febrúar, 2006  
Blogger Jói Ben said...

Veistu, mér finnst þessi hugmynd bara nokkuð góð. Auðvitað eiga Íslendingar að sjá sóma sinn í því að breyta þjóðsöngnum eins og þú stingur upp á. Annað er fullkomið virðingarleysi við múslima.

Reyndar eru möguleikarnir fleiri en bara Öxar við ána. Til dæmis væri hægt að nota lag Páls Ísólfssonar Brennið þið vitar, nema textinn yrði auðvitað: Brennið þið fánar.

Eða taka Hljóma-lagið Ég elska alla. Það væri auðveldlega hægt að breyta því í Ég elska Allah. Næsta lína er Og engann þó... Sem er skírskotun í það, að dýrkun skurðgoða er með öllu bönnuð.

Eða framlag Íslendinga árið 1988 í Júróvisjon, Sverri Stormsker lagið Þú og þeir. Fyrsta línan gæti verið: Syngjum öll um Múhameð, sálarinnar blómabeð. En þarna er áhrifum spámannsins á ástand sálarinnar lýst með fallegri myndlíkingu.

Möguleikarnir eru óteljandi.

þriðjudagur, 21 febrúar, 2006  
Anonymous Nafnlaus said...

Þetta eru allt mjög falleg ljóð með myndlíkingum af bestu gerð.

Annars var ég að hugsa að búa bara sjálfur til eitthvað fallegt. Það tekur mig yfirleitt ekki margar vikur að berja saman góðu ljóði. Margir af vinum mínum kalla mig "skáldið" og konan mín segir að henni finnist margt ansi fallegt sem ég geri. Ég fór til útgefanda um daginn. Hann tók mér vel, sagði að ég væri skúffuskáld. Ég sagði að það væri of djúpt róið, ég liti frekar á mig sem skúffuhagyrðing. Ég er að æfa mig í refhvörfum. Nýjasta ljóðið mitt heitir: Bjartamyrkur og er svona

Dauðans elfur við lífsins ós
Árdagshríðar morgunmugga
myrkri hulið ljós
lýsti kvöldsins skæra skugga
hið skamma vasaljós

skáldið

þriðjudagur, 21 febrúar, 2006  
Blogger Jói Ben said...

Þetta er prýðilega vel ort hjá þér og það kemur mér ekki á óvart að vinir þínir kalla þig skáldið.

Sjálfur er ég mikip skáld, en vinir mínir kalla mig enn sem komið er bara Jóa. En mér segir svo hugur að það muni senn breytast.

Dæmi um skáldskap minn, sem vafalaust mun í framtíðinni vera settur í flokk með Hávamálum og Völuspá, er að finna í færslu 24. ágúst 2005. En þá reit ég ódauðlegt ljóð í anda rómantísku skáldanna um bæinn Lyngby. Hef ég heyrt að ungt fólk fari með ljóðið þegar það kemur saman og vill gera sér glaðan dag. Svo ætla ég einnig að verði með Bjartamyrkur.

Á næstu dögum ætla ég að koma með sambærilegt ljóð ort í refhvörfum. Fyrir helgi.

miðvikudagur, 22 febrúar, 2006  

Skrifa ummæli

<< Home