miðvikudagur


Svar:
Ég myndi aldrei lýsa öðrum karlmanni en sjálfum mér sem huggulegum, og því hlýtur huggulegi karlmaðurinn í gátunni að vera ég. Og ég sagði síðan konunni að drepa systur sína, því að ég er svo vondur. Það er rétta lausnin.
Ég bjóst ekki við að svarið myndi koma, en Tomma Haarde tókst að ráða fram úr gátunni. Hann fær því verðlaunin: iPod að eigin vali í Applebúðinni við Gammel Möntergade (segðu bara að Jói hafi sent þig).

Annars er þessi gáta víst notuð af geðlæknum til þess að greina siðblindu. Spurningin er látin flakka, og sjúklingurinn beðinn að svara því fyrsta sem honum dettur í hug. Venjulegt fólk svarar öfundsýki eða út af arfinum. En siðblindir gefa hins vegar það svar, að konan hafi drepið systur sína til þess að hitta huggulega karlmanninn aftur í jarðarförinni. Þessu svara þeir án þess að hugsa.

Það sem veldur mér áhyggjum, er að þetta svar kom í kommenta-kerfinu. Einhver sem notar leyninafnið ,,Krúsa" rataði strax á þessa lausn. Og það sem veldur mér eiginlega mestum áhyggjum er að hún heimtar verðlaun (þó að hún hafi í raun giskað á rangt svart). Ég get ekkert sagt til um hvernig þessi ,,Krúsa" hugsar, en ef grunur minn reynist réttur mun hún beita öllum tiltækum ráðum til að innheimta verðlaunin. Jafnvel halda í fæturna á mér, og láta mig dingla fram af mjög háu húsi, á meðan ég grátbið hana um náð og lofa öllu góðu. Úff... Þetta lítur ekki vel út.

mánudagur


Gáta:
Kona fer í jarðarför móður sinnar og hittir þar huggulegan mann. Viku seinna drepur hún systur sína. Af hverju drap hún systur sína?

fimmtudagur


Ég lenti á skemmtilegu spjalli við nágranna minn í gær. Okkar samskipti höfðu verið á frekar ópersónulegum nótum fram að þessu, en í gær breyttist það.

Við hittumst fyrir utan hjá mér, en ég var á leiðinni út í búð. Upp hefst spjall og eftir einn klukkutíma erum við orðnir bestu vinir. Svo góðir vinir, að hann er byrjaður að segja mér frá einhverjum stelpum sem hann hafði dregið heim með sér. Ég hlustaði af athygli og hló hér og þar. En svo berst talið að kynsjúkdómum. Ég hafði ekki veitt því athygli fyrr, en nú tók ég eftir því hvað hann beitti látbragði óspart fyrir sig. Og einmitt nú, sló það mig óþægilega. Hann lék það, að hann væri að setja smokk á sig. Kannski hljómar þetta ekki óeðlilega. En, ég segi það satt. Þetta var fáránlegt. Af mikilli natni rúllaði hann ósýnilegum smokki upp. Einbeitingin skein úr augunum hans. Það næsta sem gerist, er að hann byrjar að segja frá einhverju klám-sjówi sem hann hafði farið á í Kaupmannahöfn. Og látbragð var óspart notað. Ég ætla ekki að fara í smáatriði, en hann lék hlutverk konunnar. Kommon! Hver gerir það (svona gefið að maður sé að gera þetta á annað borð)? En jæja. Ég man ekki hvernig það kom til, en hann segir í einhverju hugsanaleysi upphátt: En hvað ef hún væri þroskaheft? Og þá byrjarerótískur einleikur nágranna míns, þar sem hann fer með hlutverk þroskaheftrar vændiskonu. Og ég stend þarna á móti honum. Horfi á hann, vandræðalegur með frosið bros á vörunum. Hver gerir svona lagað? Og, það sem mér finnst eiginlega vera meira umhugsunarefni, af hverju lék hann alltaf konuna? Hann var sem sagt alltaf að ímynda sér að hann væri í ástarleik með ósýnilegum karlmanni. Hvers konar maður gerir það?

En, jájájá. Ég er að eignast nýja vini, og get ekki beðið eftir að hitta þennan aftur. Hann er töff.

þriðjudagur


White Ninja er fyndin. Nokkrar góðar sögur (klikkið á þær til að stækka):



















sunnudagur


Hvort er betra, að segja alltaf réttu hlutina með röngu orðunum eða segja alla röngu hlutina með réttu orðunum? Hmm... Hljómar flókið, en er það samt ekki. Tek dæmi.

Aðstæður: Stelpa hefur grennst (rétt atriði til að hafa orð á).
Ef maður notar vitlaus orð, getur maður komið alveg þveröfugt út: ,,Ó, ó...! Hvað er að sjá! Ósköp ert eitthvað horuð! Ertu komin með anorexíu?" Þó að ásetningurinn hafi verið góður, að þá kom þetta ekki vel út.

Aðstæður: Stelpa hefur fitnað (rangt atriði til að tala um).
Með réttu orðunum væri hægt að koma vel út: ,,Mikið líturðu nú vel út, svona blómleg og rjóð! Er bolludagur í dag? (Myndi klípa prakkaralega í spikið). Ha ha ha... En hvað það er gaman að vera til! Heyrðu, við sjáumst!" Þetta er dæmi um vel heppnaða senu.

Aðstæðurnar gætu verið verri, mun verri. Til dæmis, ef ég væri að sækja um vinnu. Eða í yfirheyrslu, grunaður um morð. Ef ég fyndi ekki réttu orðin, væri ég búinn að vera. Ég held það. Það skiptir ekki máli hvað þú segir, heldur hvernig maður segir það.

fimmtudagur


Ég brá mér á skákmót í gær, en það var haldið til minningar um frænda minn Harald Blöndal. Heimsmeistarinn í skák, Anand Mywwyywywyui, mætti, auk nokkurra stórmeistara og alþjóðlegra meistara. Svo lét eitthvað af skyldmennum mínum sjá sig, og reyndist það hin besta skemmtun að rabba við þau á milli skáka.

En um mótið:

Það byrjaði illa. Ég tefldi við einhverja jakkafatablók sem beitti óspart snertur reglunni og ég tapaði í kjölfarið.

Svo tefldi ég við litla stelpu sem beitti óspart slepptur reglunni, og tapaði aftur. Mér til málsbóta skal tekið fram að hún er Íslandsmeistari kvenna [1]. Og það er engin skömm að tapa fyrir Íslandsmeistara.

Því næst tefldi ég við lítinn dreng, íslenska undrabarnið eins og hann er oft kallaður í daglegu tali manna. Skákin var jöfn framan af, en svo náði ég með undursnjöllum klækindum að lokka hann í gildru, sem endaði þannig að ég vann skákina.

Næst tefldi ég við dæmigerðan skáklúða. Til þess að gera langa sögu stutta féll ég á tíma, en hefði auðveldlega geta haft hann undir. Eftir skákina tók hann reyndar í höndina á mér og sagði: ,,Þakka þér fyrir Jóhannes. Þú hefur kennt mér dýrmæta lexíu. Nú veit ég hvernig það er, að tefla við alvöru skákmenn. Ég er reynslunni ríkari
[2]."

Næst átti ég að tefla við firnasterkan öldung, sem hafði auðsjáanlega varið æfinni í lestur skákbóka. Þarna var vafalaust kominn sterkasti ,,óuppgötvaði" leikmaður mótsins. Tvímælalaust. Og skákin hófst. Með snjöllum leikfléttum og sannfærandi sóknarleik náði ég að hafa hann undir og að skák lokinni, fór andstæðingur minn að gráta. Hann spurði: ,,Hvernig getur þú verið svona vondur?
Hvernig getur nokkur maður verið svona vondur?" Ég sló hann utan undir og bað hann þegja. Til þess að vinna skák, þarf maður að vera harður! Og ef maður er það ekki, á maður ekkert erindi á hinn köflótta vígvöll góðs og ills. Ekkert! Eftir þessa skammarræðu, fór andstæðingur minn heim hnípinn á brún og brá og með skottið á milli lappanna.

Jæja. Næstu þrjár skákir voru leiðinlegar, og vann ég ekki eina þeirra (einn andstæðinga minna var Norðurlandameistari [3]). Og ég get upplýst það hér og nú, að í öllum tilvikum var um svindl að ræða. Svindl, svik og prettir.


Ok. Gott og vel. Ég fékk bara tvo vinninga. Tvo vinninga, þrátt fyrir allt svínaríið. Það er bara nokkuð gott. Og í raun er það alveg frábært. Og ég held að flestir taki undir það. En, nei. Ekki alveg allir. Á ferð minni um netið, rakst ég á
eftirfarandi klausu:
Alls komust 64 skákmeistarar í úrslitin og þeir vinningslægstu þeirra voru með 4½ vinning.

Í hópi þeirra sem ekki komust áfram má nefna Guðfríði Lilju, Guðlaugu Þorsteinsdóttur, Lárus Knútsson, Hjörvar Steinn Grétarsson Norðurlandameistari og Benedikt Jóhannesson en þau fengu öll fjóra vinninga og voru því aðeins hálfum vinningi frá því að komast áfram.


Meðal annarra keppenda má nefna að Guðmundur G. Þórarinsson, og Pétur Blöndal, sonur Halldórs fengu 3½ og Hrund Hauksdóttir níu ára og Bjarni Magnússon 84 ára voru með þrjá vinninga, aðeins tveimur vinningum á eftir Helga stórmeistara. Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttardómari, Halldór Blöndal, formaður utanríkisnefndar Alþingis og Jóhannes Benediksson verkfræðingur voru vinningi á eftir Hrund.
Þetta er náttúrulega ekkert nema fölsun. Það sér hver heilvita maður. Og þess má einnig geta, að árangur þess sem skrifar þessa grein (þessi óforskammaði Benedikt), er stórlega ýktur:

Í fyrstu skákinni tefldi hann við svartan mann, sem leit á það sem kynþáttaofsóknir að þurfa að tefla fram svörtu mönnunum á móti ,,Kú-klúx-klan" köllunum (eins og hann sjálfur orðaði það). Hann yfirgaf borðið samstundis.

Því næst tefldi hann við snáða sem byrjaði að leika sé með ,,hestana" og ,,kastalana". En Benedikt tókst að véla sigur í skákinni, út á ólöglegan leik mótherjans (það má víst ekki láta peðið fara á hestbak á riddaranum).

Svo tefldi hann við 1000 ára gamlan mann, sem dó í miðri skák og féll á tíma í kjölfarið.

Þið sjáið hvert þetta stefnir. Það er ekki mikill vandi að fá fjóra vinninga, þegar lukkudísirnar eru manni hliðhollar. Og að sama skapi mikið afrek að fá tvo vinninga, ef maður er beittur svindli og harðræði. En, þannig var það.


[1]
Í flokki 11 - 12 ára.

[2]
Það kann reyndar að vera að þetta hafi verið draumur, en það skiptir ekki máli.

[3]
Í flokki 11 - 12 ára.

þriðjudagur


Ég er kominn aftur til Íslands. Ferðin til Kaupmannahafnar var alveg svakaleg. Sérhver dagur þéttur af góðum og innihaldsríkum samtölum við skemmtilegt fólk. Og kvöldin einkenndust af ævintýrum og vitleysu. Þetta var bara svo gaman. Og ég spyr sjálfan mig: Hvað í andskotanum er ég að gera á Íslandi? Það meikar engan sens.

En, jæja. Jamm og jæja.

Af
markmiðum mínu náði ég flestum. Mér láðist þó að gera eftirfarandi:

* Sækja eintak af mastersritgerðinni minni.

* Smíða skútu og fara í siglingu með Tomma.
* Skoða apana í dýragarðinum.
* Fara út að hlaupa með Rut.

Allt annað náðist, svona, hvert á sinn hátt. En, já. Ég er pínulítið súr að vera kominn aftur heim. Hvílíkt rugl.

miðvikudagur


Nú er ég í Kaupmannahöfn. Mitt fyrsta verk var að heimsækja Apple umboðið, en ég hafði heyrt að þeir væru auðginnanlegir til að skipta út gömlum ónýtum iPodum fyrir nýja. Í röðinni heyrði ég eins árs snáða tala við pabba sinn. Hann benti á tölvu og sagði:

- Far!
Pabbinn svaraði honum ákveðinn.
- Nej, det er en computer. Jeg er far.
Guttinn virtist ekki skilja og endurtók.
- Far!
Pabbinn svaraði aftur.
- Nej. Jeg er din far. Det er kun en computer.
Hann benti á tölvuna og sagði eins skýrt og hann gat.
- Computer.
Strákurinn skildi þetta ekki og þannig hélt það áfram.
- Far!
- Computer!
- Far!
- Computer!

Og þá fór litli strákurinn að gráta. En ég hélt ró minni, enda vel kunnugt um muninn á tölvu og manni (tölvur eru með lyklaborð). En til þess að gera langa sögu stutta, tókst mér ekki að plata þá til að gefa mér nýjan iPod. Og reyndar fór það svo, að þeir plötuðu mig til þess að kaupa nýjan af sér. En það er allt í lagi. Ég á nýjan iPod.

Jæja. Nú er ég búinn að kaupa miða til Kaupmannahafnar og mæti á svæðið miðvikudaginn 8. mars. Tilgangurinn er að sækja búslóðina mína (sófa og fimm kassa), en ekki síður að hitta gott fólk. Ég geri ráð fyrir því, að fólk taki sér frí úr skóla og vinnu til þess að hanga með mér. En öllu mikilvægara er þó, að taka frá föstudags- og laugardagskvöldin. Þau eiga annars vegar að fara í gott grín á La Fontain og hins vegar í ævintýri af einhverju tagi (allar tillögur vel þegnar). Svo held ég aftur til Íslands snemma mánudaginn 13. mars.


Nokkur atriði sem ég ætla mér að gera í þessari ferð:

* Kenna Magga hvernig á að spila f
ußball. Muna eftir að gefa Steinunni plástra og sárabindi fyrir Hannes, ef fer sem horfir.
* Lúskra á Snorra & co. í kirkjugarðinum á Amager.
* Fá mér að borða á Tex Mex.
* Breyta öllum hugmyndum sem Ósk hefur um lífið, í aðrar betri hugmyndir (þ.e. mínar hugmyndir).
* Fara á Beduin bar eða Ali-Baba og de 40 vandpiber. Samt ekki einn. Það er glatað. Tommi og Palli eru hérmeð boðaðir. Líka Björk og Stebbi. (Note: Muna að fá Yahoo-skýrsluna hjá Palla í skiptum við strikamerkja-skýrsluna mína)
* Sækja eintak af mastersritgerðinni minni.
* Halda árshátíð Svöfu-klúbbsins með Ástu. Endurskoða reglurnar. Semja félagssöng.
* Hitta Amagergrúppuna í mat.
* Ræða um ástand kennslu á Íslandi við Pawel. Eða kosningakerfi.
* Taka göngutúr með Einari.
* Lenda í ævintýrum með Geir og Önnu Helgu.
* Fara í dýragarðinn að skoða apana.
* Hlaupa í kring um Söerne með Rut. Borða laufblöð og drekka vatn í hádegismat. Hlaupa síðan aðeins meira. Stoppa fyrir framan vatspípustaði og sveia (Muna: Ræða heimspeki. Það er mikilvægt. Því ef maður ræktar ekki hugann líka, skiptir líkaminn engu máli).

Ömm... Hvað annað? Ég bæti því þá bara á listann um leið og mér dettur það í hug.