miðvikudagur


Nú er ég í Kaupmannahöfn. Mitt fyrsta verk var að heimsækja Apple umboðið, en ég hafði heyrt að þeir væru auðginnanlegir til að skipta út gömlum ónýtum iPodum fyrir nýja. Í röðinni heyrði ég eins árs snáða tala við pabba sinn. Hann benti á tölvu og sagði:

- Far!
Pabbinn svaraði honum ákveðinn.
- Nej, det er en computer. Jeg er far.
Guttinn virtist ekki skilja og endurtók.
- Far!
Pabbinn svaraði aftur.
- Nej. Jeg er din far. Det er kun en computer.
Hann benti á tölvuna og sagði eins skýrt og hann gat.
- Computer.
Strákurinn skildi þetta ekki og þannig hélt það áfram.
- Far!
- Computer!
- Far!
- Computer!

Og þá fór litli strákurinn að gráta. En ég hélt ró minni, enda vel kunnugt um muninn á tölvu og manni (tölvur eru með lyklaborð). En til þess að gera langa sögu stutta, tókst mér ekki að plata þá til að gefa mér nýjan iPod. Og reyndar fór það svo, að þeir plötuðu mig til þess að kaupa nýjan af sér. En það er allt í lagi. Ég á nýjan iPod.

7 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Til hamingju með nýja ipodinn. Mundu eftir tax free nótunni.

En ef þú vilt gera aðra tilraun legg ég til að þú fáir sambýling Bjarkar til að sjá um þetta. Hann kann eitthvað lingó sem bara Baunar kunna... (kannski það sé danska?)

fimmtudagur, 09 mars, 2006  
Blogger Jói Ben said...

Ég er ekki viss að ég þiggi hjálp frá Dönum. Þeir þekkja ekki einu sinni muninn á tölvu og manni (Muna: Trikkið er lyklaborðið). En tax free. Mmm... hljómar vel. En ég er samt ennþá skráður í Danmörku (held ég sé enn skráður á Åboulevard 34E) og ég er ekki viss um að ég fái endurgreiðslu þá.. En hugmyndin er gild og góð. En, samt. Ekki fór það vel í iPod búðinni. Ætli þeir myndu ekki bara plata mig til þess að endurgreiða sér tax free peninga.

fimmtudagur, 09 mars, 2006  
Anonymous Nafnlaus said...

Hvað er þetta?

http://res.sys-con.com/story/sep05/135863/Generic90x90-ManHoldingKeyboard.jpg

föstudagur, 10 mars, 2006  
Blogger Palli said...

Nokkuð viss um þetta sé tölva. Nánar tiltekið PleasureBot X34.

sunnudagur, 12 mars, 2006  
Anonymous Nafnlaus said...

Allar tölvurnar mínar eru pleasure units...

mánudagur, 13 mars, 2006  
Blogger Jói Ben said...

Þetta er tölva. Engin spurning. Tölva og bjáni.

Annars önnur vangavelta (tengd tölvum og mönnum): Hver er munurinn á menni og manni? Hefur þetta eitthvað að gera með sálina? Að menni hafi ekki sál - sbr. illmenni, ómenni og vélmenni. Og menn, að sama skapi, eitthvað með sál. Og hafa hundar sál? En pöddur? Nei, bara að pæla.

Annars væri ég til í að fá úr þessu skorið með mennin og mennina. Hvort á maður að segja að einhver sé mikill karlmaður eða karlmenni, þegar verið er að vísa í karlmennsku viðkomandi? Guðmundur Jón hafði einhvern tímann skoðun á þessu, þannig að ef þú lest þetta, endilega láttu ljós þitt skína.

þriðjudagur, 14 mars, 2006  
Anonymous Nafnlaus said...

Mér finnst einhvern veginn að menni sé eitthvað meira menn. Karlmenni sé meiri en karlmaður og illmenni sé þá sérstaklega illur maður eða eitthvað í þá áttina. Vélmenni væri þá ekki bara gaur að halda á lyklaborði ;)
Annars finnst mér þetta vera mjög athyglisverð pæling...

miðvikudagur, 15 mars, 2006  

Skrifa ummæli

<< Home