fimmtudagur


Ég brá mér á skákmót í gær, en það var haldið til minningar um frænda minn Harald Blöndal. Heimsmeistarinn í skák, Anand Mywwyywywyui, mætti, auk nokkurra stórmeistara og alþjóðlegra meistara. Svo lét eitthvað af skyldmennum mínum sjá sig, og reyndist það hin besta skemmtun að rabba við þau á milli skáka.

En um mótið:

Það byrjaði illa. Ég tefldi við einhverja jakkafatablók sem beitti óspart snertur reglunni og ég tapaði í kjölfarið.

Svo tefldi ég við litla stelpu sem beitti óspart slepptur reglunni, og tapaði aftur. Mér til málsbóta skal tekið fram að hún er Íslandsmeistari kvenna [1]. Og það er engin skömm að tapa fyrir Íslandsmeistara.

Því næst tefldi ég við lítinn dreng, íslenska undrabarnið eins og hann er oft kallaður í daglegu tali manna. Skákin var jöfn framan af, en svo náði ég með undursnjöllum klækindum að lokka hann í gildru, sem endaði þannig að ég vann skákina.

Næst tefldi ég við dæmigerðan skáklúða. Til þess að gera langa sögu stutta féll ég á tíma, en hefði auðveldlega geta haft hann undir. Eftir skákina tók hann reyndar í höndina á mér og sagði: ,,Þakka þér fyrir Jóhannes. Þú hefur kennt mér dýrmæta lexíu. Nú veit ég hvernig það er, að tefla við alvöru skákmenn. Ég er reynslunni ríkari
[2]."

Næst átti ég að tefla við firnasterkan öldung, sem hafði auðsjáanlega varið æfinni í lestur skákbóka. Þarna var vafalaust kominn sterkasti ,,óuppgötvaði" leikmaður mótsins. Tvímælalaust. Og skákin hófst. Með snjöllum leikfléttum og sannfærandi sóknarleik náði ég að hafa hann undir og að skák lokinni, fór andstæðingur minn að gráta. Hann spurði: ,,Hvernig getur þú verið svona vondur?
Hvernig getur nokkur maður verið svona vondur?" Ég sló hann utan undir og bað hann þegja. Til þess að vinna skák, þarf maður að vera harður! Og ef maður er það ekki, á maður ekkert erindi á hinn köflótta vígvöll góðs og ills. Ekkert! Eftir þessa skammarræðu, fór andstæðingur minn heim hnípinn á brún og brá og með skottið á milli lappanna.

Jæja. Næstu þrjár skákir voru leiðinlegar, og vann ég ekki eina þeirra (einn andstæðinga minna var Norðurlandameistari [3]). Og ég get upplýst það hér og nú, að í öllum tilvikum var um svindl að ræða. Svindl, svik og prettir.


Ok. Gott og vel. Ég fékk bara tvo vinninga. Tvo vinninga, þrátt fyrir allt svínaríið. Það er bara nokkuð gott. Og í raun er það alveg frábært. Og ég held að flestir taki undir það. En, nei. Ekki alveg allir. Á ferð minni um netið, rakst ég á
eftirfarandi klausu:
Alls komust 64 skákmeistarar í úrslitin og þeir vinningslægstu þeirra voru með 4½ vinning.

Í hópi þeirra sem ekki komust áfram má nefna Guðfríði Lilju, Guðlaugu Þorsteinsdóttur, Lárus Knútsson, Hjörvar Steinn Grétarsson Norðurlandameistari og Benedikt Jóhannesson en þau fengu öll fjóra vinninga og voru því aðeins hálfum vinningi frá því að komast áfram.


Meðal annarra keppenda má nefna að Guðmundur G. Þórarinsson, og Pétur Blöndal, sonur Halldórs fengu 3½ og Hrund Hauksdóttir níu ára og Bjarni Magnússon 84 ára voru með þrjá vinninga, aðeins tveimur vinningum á eftir Helga stórmeistara. Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttardómari, Halldór Blöndal, formaður utanríkisnefndar Alþingis og Jóhannes Benediksson verkfræðingur voru vinningi á eftir Hrund.
Þetta er náttúrulega ekkert nema fölsun. Það sér hver heilvita maður. Og þess má einnig geta, að árangur þess sem skrifar þessa grein (þessi óforskammaði Benedikt), er stórlega ýktur:

Í fyrstu skákinni tefldi hann við svartan mann, sem leit á það sem kynþáttaofsóknir að þurfa að tefla fram svörtu mönnunum á móti ,,Kú-klúx-klan" köllunum (eins og hann sjálfur orðaði það). Hann yfirgaf borðið samstundis.

Því næst tefldi hann við snáða sem byrjaði að leika sé með ,,hestana" og ,,kastalana". En Benedikt tókst að véla sigur í skákinni, út á ólöglegan leik mótherjans (það má víst ekki láta peðið fara á hestbak á riddaranum).

Svo tefldi hann við 1000 ára gamlan mann, sem dó í miðri skák og féll á tíma í kjölfarið.

Þið sjáið hvert þetta stefnir. Það er ekki mikill vandi að fá fjóra vinninga, þegar lukkudísirnar eru manni hliðhollar. Og að sama skapi mikið afrek að fá tvo vinninga, ef maður er beittur svindli og harðræði. En, þannig var það.


[1]
Í flokki 11 - 12 ára.

[2]
Það kann reyndar að vera að þetta hafi verið draumur, en það skiptir ekki máli.

[3]
Í flokki 11 - 12 ára.

7 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Ég er stolt af þér Jóhannes minn. Þú gerðir þitt besta í ranglátum heimi. Ég vildi alltaf kenna þér mannganginn en pabbi þinn var á móti því. Það kemur þér í koll núna.

Þín mamma

fimmtudagur, 16 mars, 2006  
Blogger Jói Ben said...

Já, ég man svo sannarlega eftir því þegar þú reyndir að kenna mér mannganginn. Og ég man líka eftir því að pabbi var alltaf að trufla. Hvað var hann aftur alltaf að gera? Jú, alveg rétt! Hann lék alltaf það sem hann kallaði ,,Svarta Drauginn" til þess að beina athyglinni frá skákborðinu. Svona, eftir á að hyggja, fattaði ég aldrei þennan Svarta Draug. En, jæja. Það er bara hluti dulúð æskuminninganna. Þær eru hvort heldur í senn leyndardómsfullar og óútskýranlegar. Ahh... minningar, minningar...

Þinn sonur

föstudagur, 17 mars, 2006  
Blogger Palli said...

Eins gott að hann lék ekki svarta skugga úr mikka mús. That guy scared the hell out of me!

föstudagur, 17 mars, 2006  
Blogger Jói Ben said...

Já, ég var alltaf skíthræddur við hann. Það er Svarta skugga. Svarti Draugurinn var samt ekkert skerí. Meira svona furðulegur.

laugardagur, 18 mars, 2006  
Anonymous Nafnlaus said...

Tikk, takk......

Marga góða sögu mAmma sagði mér,
sögu´ um það er hún og aðrir lifðu hér.
Alltaf var hún mAmma mín svo ósköp væn
og í bréfi sendi þessa bæn.

Vonir þínar rætist, kæri vinur minn.
Vertu alltaf sanni, góði drengurinn.
Þó í lífsins straumi bjáti eitthvað á
ákveðinn og sterkur sértu þá.

Allar góðar vættir lýsi veginn þinn
verndi´ og blessi elskulegan drenginn minn.
Gefi lán og yndi hvert ógengið spor,
gæfusömum vini hug og þor.

mánudagur, 20 mars, 2006  
Blogger Jói Ben said...

Ef skjárinn er frosinn þá félaga þarf.
Finndu að hnapparnir létta þér starf
Aðgættu fyrst hvað aflaga fer.
Ýttu svo bæði á RESET og CLEAR.

Veistu um RESET og veistu um CLEAR?
Þú verður að kunna á takkana hér.
Ef skjárinn er frosinn þá félaga þarf.
Finndu að hnapparnir létta þér starf

Aðgættu fyrst hvað aflaga fer.
Ýttu svo bæði á RESET og CLEAR.
Ef staðan ei breytist þá startaðu vél
og styddu í einu á CTRL+ALT+DEL

fimmtudagur, 23 mars, 2006  
Blogger Jói Ben said...

(uppáhalds ljóðið mitt)

fimmtudagur, 23 mars, 2006  

Skrifa ummæli

<< Home