þriðjudagur

DV – frjálst og óháð
Ég hef á fáum mönnum jafnlítið álit og á ritstjóra DV, Reyni Traustasyni.  Þessa skoðun hef ég haft lengi, en mér hefur aldrei geðjast að þeim atlögum sem hann gerir að mannorði fólks.  Sjálfur segist hann vera málsvari sannleikans og vísar því algjörlega á bug að hann beri út róg um náungann.  Sitt sýnist víst hverjum í þeim efnum.
Ég ímynda mér, að það hlakki í lesendum DV þegar þeir lesa um ógæfu annarra.  Nú hlakkar pínulítið í mér, samt á annan hátt.  Reynir Traustason á vafalaust bágt þessa stundina, en það gleður mig ekki mikið – ég vona bara að hann jafni sig á því.  Ástæðan fyrir því að það hlakkar í mér, tengist geði hans og afhjúpun þess.  Nú vona ég, að þeir sem hafi borið blak af gæsku þessa öðlings og göfgi hugsi sig betur um.
Rekjum þetta mál aðeins.
Blaðamaður skrifar frétt.  Henni er hafnað af ritstjóra, vegna þrýstings utan úr bæ.  Blaðamaðurinn ber málið á borð annarra fjölmiðla.  Ritstjóri hrekur sögu hans og sendir út yfirlýsingu þar sem hann gerir frásögn blaðamannsins tortryggilega.  Blaðamaðurinn færir ótvíræðar sönnur fyrir máli sínu, en hann átti samtalið við ritstjórann á segulbandsupptöku.  Og meira hefur ekki gerst síðan í gær.
Til að byrja með, langar mig að taka fram, að mér finnst upprunalegur glæpur Reynis ekki mikill.  Ég held að flestir myndu velja lifibrauðið[1] fram yfir hugsjónirnar[2], þegar styrinn stendur um ekki merkilegri frétt en raun bar vitni.  Það sem er ámælisvert, er hvað gerist næst.  Yfirlýsing Reynis.
Í yfirlýsingunni var vegið að blaðamanninum [Jóni Bjarka], sem skrifaði greinina, og grafið undan trúverðugleika hans, honum að ósekju.  Þetta finnst mér ljótt.  Og þetta finnst mér vera til vitnis um innræti Reynis.  Þetta er svo ófyrirleitið.
[…]Jón Bjarki segir að stórir aðilar hafi stöðvað frétt DV. Það er alrangt og óskiljanlegt hvernig hann hefur öðlast þann skilning. Hann lét þess ekki getið í yfirlýsingu sinni að síðasta þriðjudag var önnur frétt hans stöðvuð. Þar fjallaði hann um mótmælendur en leitaði ekki sjónarmiða þeirra sem sökum voru bornir. Ábendingar bárust einnig um að hann hefði farið offari gegn lögreglu á vettvangi mótmæla og ekki virt mörk blaðamennsku. Lögreglan er hér með beðin afsökunar á framgöngu hans og skrifum sem birtust.
Hér er fyrst logið, um að þetta sé tilbúningur af hans hálfu blaðamannsins.  Svo eru honum gerð upp skrílslæti við lögregluna, sem hann bar af sér í Kastjósinu í gær, og hann sagður ekki kunna kappi sínu hóf.  Að biðja lögregluna afsökunar er hlægilegt, en vafalaust hefur vakað fyrir Reyni að undirstrika hversu alvarlega blaðamaðurinn braut af sér.
Í næstu efnisgrein segir:
Fyrir tveimur vikum var honum falið að skrifa nærmynd um Jón Ásgeir Jóhannesson.  Hann sinnti því í engu.
Vafalaust vakir tvennt fyrir Reyni.  Annars vegar gerir hann Jóni Bjarka upp leti, sem er þó ekki aðalmarkmið ritstjórans.  Heldur er það hitt, að láta í það skína, að blaðið hafi ætlað að „taka á“ Jóni Ásgeir, sem undirstrikar það, að enginn er undanskilinn í vægðarlausri umfjöllun DV – ekki einu sinni eigandinn![3]  Þessar aðdróttanir hrekur Jón Bjarki í Kastljósinu.  
Fleira má finna athugavert í tilkynningunni, sem öllu er svarað í Kastljósinu og ég ætla ekki að rekja hér.
Og loks er það stóra spurningin, hvort Reynir Traustason eigi að segja af sér eða ekki.  Sjálfur hefur hann verið manna ötulastur að hvetja til þess að menn „axli ábyrgð“, á hinum og þessum afglöpum, með því að segja starfi sínu lausu.  Sjáum til.
Jæja, ég ætla að slá botninn í þetta.  Ég rak augun í eina setningu í yfirlýsingu Reynis, sem mér finnst hafa snúist skemmtilega við í höndum hans.
Hann [Jón Bjarki] réðst gegn eigin blaði með tilhæfulausum ásökunum sem bera vott um afleita blaðamennsku.
Svo mörg voru þau orð.

[1]
Reyni var hótað að DV yrði lagt niður, ef fréttin færi í loftið.
[2]
Inngripið er að vísu til vitnis um hræsni, þar sem DV hefur gengið hvað lengst í að lýsa því yfir að það starfi í nafni sannleika og að hin frjálsa orðræða dafni hvergi jafnvel og einmitt á síðum þess.  
[3]
Þetta er alveg örugglega réttur skilningur sem ég legg í þessa efnisgrein.  Hann hefði aldrei birt hana, hefði hún snúið að einhverjum öðrum.  Dæmi: Fyrir tveimur vikum var honum falið að skrifa nærmynd um litla ísbjarnarhúninn Knút.  Hann sinnti því í engu. 
Ég er hins vegar spenntur að sjá hvort að DV muni taka á Jóni Ásgeir, eins og þeir hafa lýst yfir vilja til.  Þá myndi ég stinga upp á því, að þeir köfuðu ofan í sögusagnirnar um sem voru uppi um Thee Viking partýin.  Þeir gætu líka notað skrif Styrmis Gunnarsonar sér til stuðnings.  

mánudagur

Heimskasta setningin

Vísir.is rekur mestu vísindaafrek ársins 2008 að mati Times.  Þar ber hæst öreindahraðall CERN og segir í frétt Vísis:

Sumir óttuðust að við þetta yrði til svarthol sem gleypti jörðina og félli svo saman en það virðist ekki hafa gerst.

Það er ótrúlega margt rangt við þessa setningu.  Án þess að hafa kynnt mér það sérstaklega, hefði ég haldið að það væri ekki góð blaðamennska að tala um hvað sumir óttuðust.  Næst kemur sami setningarhlutinn sagður á þrjá mismunandi vegu.  1. ...yrði til svarthol  2. ...sem gleypti jörðina  3. ...og félli svo saman.  Loks kemur aulabrandari, sem minnir á aulabrandara Paul McCartney, þegar hann talaði um að fréttirnar af andláti sínu væru stórlega ýktar.  Það sem gerir brandara Vísis enn verri, er að tilraunin í CERN hefur ekki enn farið fram og því er eiginlega ekki hægt að djóka með niðurstöðurnar.

Ég er trylltur!

föstudagur

Skemmtileg uppfinning

Var að spjalla við vin minn um daginn á Skæpinu og fékk skemmtilega hugmynd. Þið vitið hvernig flotholt virkar. Það liggur á yfirborði vatnsflatarins og tryggir að öngullinn haldist stöðugur á sama dýpi. Gott og vel, þetta er mjög gegn uppfinning.
Ég er með aðra útfærslu á þessu fyrirbæri.  Hvernig væri að sleppa flotholtinu með öllu og í þess stað nota blöðru, eins og sýnt er á myndinni hér að neðan.  
Rissa af hinni stórkostlegu uppfinningu
Blaðran yrði náttúrulega að vera risastór til þess að það væri eitthvað fútt í þessu.  Eins og sjá má á myndinni, hanga líti ,,lóð" á neðsta hluta bandsins.  Þessi lóð væru þyngri en loft, en léttari en vatn.  Þau eru s.s. til að tryggja það, að blaðran haldist í jafnvægi við vatnsflötinn og að sama skapi að hinn endi línunnar haldist líka nokkurn veginn í jafnvægi við hann; fiskurinn gæti ekki togað öngulinn langt niður, án þess að ,,lóðintoguðu á móti í hina áttina.
Ég sé þetta alveg fyrir mér.  Maður myndi sleppa nokkrum blöðrum - rauðri, blárri og grænni - svo væri hægt að halla sér í árabátnum og fylgjast með blöðrunum hanga í loftinu.  Maður gæti jafnvel mænt á þær úr landi.  Þegar ein blaðran ,,tekur á rás" er ljóst að búið er að bíta á.
Ég sé fyrir mér að þetta gæti orðið sport.  Sérstaklega ef fiskurinn er stór og sterkur og gæti togað blöðruna um hafflötinn af miklu afli.  Hún myndi þá stundum taka miklar dýfur þegar fiskurinn kafar og færi jafnvel stöku sinnum á kaf.  Þá væri stórskemmtilegt að bíða og sjá hvar blaðran dúkkar upp.
Ég ætla að gera þetta í sumar, alveg pottþétt. Panta risastóra blöðrur á netinu, redda helíumi og halda á veiðar.  Nú vantar mig bara tillögur að heppilegu vatni og veiðifélaga sem væri til í svona vitleysu.

þriðjudagur

Skrílslæti á Íslandi

Hópur, sem nefnir sig Aðgerð Aðgerð, ruddist inn í Alþingishúsið í dag og var með skrílslæti. Ég er ansi hræddur um að þarna sé kominn hópur flóna sem gæti reynst erfitt að hemja, ekkert ósvipað þeim sem stóðu að skærum við Kárahnjúkasvæðið. Eða uppsteytið í Ráðhúsinu, þegar einhver kallaði að Ólafi F: „Þú ert ekki fokkings borgarstjóri!“ Ákaflega vönduð mótmæli.

Þetta vafalaust sami hópurinn og var að pukrast við Arnarhól í morgun, sá sem
vefritið Smugan sagði að myndi beita „öðruvísi aðgerðum“. Hópurinn tvístraðist þegar hvítur sendibíll keyrði framhjá, en þá þótti fullvíst að víkingasveitin hefði komist á snoðir um leynimakkið.

Ég efa það stórlega, að hópurinn sé samsettur af fórnarlömbum kreppunnar. Og ef ég ætti að giska, myndi ég segja að hópurinn samanstandi af áhrifagjörnum menntaskólakrökkum. Þeir eiga það sameiginlegt að sækja í hlutverk fórnarlambsins, svona ef því verður við komið - eins brjóstumkennanlegt og það nú er.

Ástæðan fyrir mótmælum krakkanna, er að sjálfsögðu sú að þeir eru (eða telja sér trú um að þeir séu) fórnarlömb kreppunnar. En ástæðan fyrir því að þeir lenda í stappi við löggæslumenn, er sú að þeir vilja vera beittir ranglæti. Þeir nærast á því. Draumurinn er að vera leiddur í járnum út úr Alþingishúsinu.

Vörubílstjórnarnir voru sumir hverjir drifnir áfram af sömu hvötum. Allir heilvita menn hefðu stungið af, þegar lögreglan byrjaði að úða piparúða. En það var ekki að sjá á bílstjórunum að þeir forðuðu sér. Sumir virtust meira að segja sækja í „gasið“. Ég sé það fyrir mér, hvernig þeir hafa notið þess að heyra félagana vorkenna sér daginn eftir. Þeir voru fórnarlömb gærdagsins og hetjur dagsins í dag.

En aftur að atburðum dagsins. Hópurinn, Aðgerð Aðgerð, lýsti yfir ábyrgð, að erlendri fyrirmynd, á áhlaupinu á Alþingishúsið. Í tilkynningunni sagði
„...að fólk á hans vegum hafi farið inn í Alþingishúsið í þeim tilgangi að stöðva starfsemi þingsins. Ástæðan sé sú að Alþingi, eins og það er rekið í dag sé ónýt stofnun. Segist hópurinn jafnframt lýsa vantrausti á ríkisstjórnina og krefjast þess að hún víki. “
Jáhá, það er ekkert annað.

Ég er orðinn þreyttur á þessu liði. Það þarf að herða löggæsluna. Það þýðir ekki að fólk komist upp með það, að ráðast inn í Alþingi Íslendinga og láta eins og skríll án þess að hljóta refsingu. Sama gildir um þá sem réðust inn í lögreglustöðina. Það þarf að draga línuna einhvers staðar.

mánudagur

Rambó og Eiríkur Fjalar

Er til meiri karlmaður en Rambó? Ég efa það. Eini maðurinn sem kemst nálægt honum er Egill Skallagrímsson. Þeir standa þarna tveir á öðrum endanum í litrófi karlmennskunnar. Og hvað um hinn endann? Þar eru menn eins og Birkir Jón Jónsson og Eiríkur Fjalar. Einhverra hluta vegna, er ekkert karlmannlegt við þá.


Rambó, til í tuskið

Undarlegt hvernig að mannshugurinn virkar. Hann vellur áfram, fullkomlega stjórnlaus, eins og maður sem gimpast niður alltof bratta brekku. Guð veit hvar hann endar.

Eiríkur Fjalar gæti aldrei átt kærustu. Ég sé ekki hvernig það gæti virkað. Í öllum aðstæðum, sem lifna við í höfðinu á mér, eyðileggur hann alltaf stemninguna með því að segja við stelpuna að hann sé „...sko alveg æðislega, obboslega hrifinn af henni“. Og svo kemur hann með framstætt einkennis-brosið, svona til þess að setja punktinn yfir i-ið.


Ég held að Eiríkur Fjalar sé sóði. Hann á örugglega heilt fjall af klámblöðum, sem hann skoðar af mikilli áfergju myrkranna á milli. Fyrir utan flissið í Eiríki ríkir fullkomin þögn. Ef hann rekst á eitthvað sérlega spennandi heldur hann niðri í sér andanum. Karlanginn.

Eiríkur Fjalar, alltaf í stuði

Ég held að ég sé með ákveðinn punkt hérna. Getur ekki verið, að einmitt þessi hegðun sé ástæðan fyrir lágri karlmennsku-einkunn Eiríks. Gott ef ekki. Aldrei myndi Rambó flissa yfir klámblaði.

En hvað með Birki Jón? Einhvern veginn finnst mér hann alltaf koma fyrir, eins og hann sé nýkominn úr sælgætisverksmiðjunni. Kryfja hann seinna.