mánudagur

Tvífarar

Ég rakst eitt sinn á tvífara minn á kaffihúsi úti í Danmörku. Hann stóð þarna, linur í baki, með hendur í vösum og beið þess að vera afgreiddur. Nákvæmlega jafnstór, grannvaxinn og dökkhærður. Grænn jakkinn og pokaleg húfan rímaði fullkomlega við einkennisklæðnað minn það misserið. Að einu leyti virtumst við þó vera ólíkir, því tilsýndar beið hans fönguleg yngismær, á meðan tannlaus gömul kona, sem ég hafði pikkað upp í sundhöllinni dönsku, sat til borðs með mér. 

Hvað er ég að gera rangt? hugsaði ég með mér. Við erum augljóslega með sömu upphafshönd, hvernig fór hann að því að spila svona vel úr sinni?

Gildir hér hið forkveðna, um misskipti á mannanna láni Eða hefur hann eitthvað sem mig skortir? Er hann kannski eins og Harvey Dent? Fullkominn. – Sjálfumglaða fífl, hugsaði ég með mér og gnísti tönnum.

Þankar mínir voru rofnir skyndilega. Hið ljósa man greip óvænt í öxl mína og sagði „Skal vi gå nu?“ Án þess að hugsa, klæddi ég mig í jakkann og fylgdi henni út. Við gengum meðfram dönsku síkjunum og röbbuðum um pláneturnar í sólkerfi okkar og hvort að það væru geimverur á þeim.  Hún tók ekki eftir skiptunum.

Þegar ég skilaði henni heim, tilkynnti hún mér þó að sambandi okkar væri lokið. Hún hefði ekki áttað sig á því fyrr en nú, hvað ég væri í raun glataður. Ég ætti aldrei að tala við hana aftur.

Hvað var málið með hana?

Jæja, hvað um það. Ég ætlaði að tína til nokkra tvífara, sem aðrir hafa bendlað mig við.


Paul McCartney
Ég hef oftar en einu sinni heyrt þetta. Fyrst þegar ég var sautján ára og nú síðast fyrir nokkrum árum, þegar jakkafatablók gekk upp að mér á knæpu og líkti mér saman við Macca og fór síðan jafnóðum.

Harry Potter

Ellert líkti mér einhvern tímann við Harry Potter og skal hann brenna í helvíti fyrir það, því að ef einhver er meiri lúði en Macca, er það Harry Potter.

Viggó viðutan

Palli líkti mér einhvern tímann við Viggó viðutan. Mér þykir pínu vænt um þann samanburð, sérstaklega vegna þess að mér finnst Viggó svo skemmtilegur.

Edgar Allan Poe

Hildur Steinþórs sendi mér einhvern tímann myndina hér til hliðar og lýsti því yfir, að við værum alveg eins. Ég ætla ekki að taka svo djúpt í árinni, en gat þó séð svipinn með okkur.


Last King of Scotland strákurinn

Mér var einhvern tímann líkt við þennan gæja. Mjög ánægður með það, enda er hann, eins og ég, sjóðandi heitur gæi.

Aðrir tvífarar:  Hössi í Quarashi og Vilhjálmur Goði (húrra fyrir því).  Við þennan lista má endilega bæta í kommentakerfið.

9 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Gaui litli þegar hann var hvað feitastur.

mánudagur, 06 apríl, 2009  
Anonymous Nafnlaus said...

John Candy

mánudagur, 06 apríl, 2009  
Anonymous Nafnlaus said...

Michael Moore

mánudagur, 06 apríl, 2009  
Anonymous Nafnlaus said...

Amal Rún Qase

fimmtudagur, 09 apríl, 2009  
Blogger Helgi said...

Vigga

fimmtudagur, 09 apríl, 2009  
Blogger Thor said...

Til hamingju með daginn.

Þú ert alveg eins og þessi gaur:
http://www.opera.is/img/articlepics/Benediktvefur.jpg

föstudagur, 10 apríl, 2009  
Blogger Jón said...

Mamma:

http://3.bp.blogspot.com/_4DbtZqQYK0E/Rq_PkdZgxvI/AAAAAAAAAC8/JSV1GKnUHLo/s1600-h/%C3%8D+Flatey+1989.jpg

þriðjudagur, 14 apríl, 2009  
Anonymous KRiZ said...

Mér finnst Viggó viðutan vera líkastur þér.
Samt fannst mér Poe helvíti góður, ég mæli með því að þú safnir þér mottu.

miðvikudagur, 15 apríl, 2009  
Blogger Jói Ben said...

Amal Rún Qase, hahaha...

Er að reyna að finna mynd af henni, en ekkert gengur. Hvað var hún aftur þekkt fyrir? Var það ekki eitthvað svipað og eyðimerkurblómið?

laugardagur, 18 apríl, 2009  

Skrifa ummæli

<< Home