fimmtudagur

Vinsæll hundur

Ég rak augun í frekar
undarlega frétt á mbl.is með fyrirsögnina: Hundrað manns á kertavöku um hundinn Lúkas.

Ok. Kertavaka út af hundi. Þetta hljómar fáránlega. Í fréttinni stendur ekkert af hverju svona margir mættu, en þar kemur reyndar fram að hann hafi verið drepinn á hrottalegan hátt fyrir tveimur vikum. Það stendur ekki hvernig.

Í fyrsta og síðasta skipti á ævinni fer ég á spjallvef Barnalands. Mig langaði að vita um örlög Lúkasar. Á barnalandi fæ ég þau svör, að Lúkas hafi verið drepinn og fólk beðið frá því að ræða þetta mál frekar.

Barnaland vitnar í síðu sem heitir live2cruize.com (líka fyrsta og síðasta skiptið sem ég fer þangað). Þar fer sagan á flug. Hún er einhvern veginn svona:
Hundurinn er geldur af eiganda sínum. Hann gerist órólegur í kjölfarið og strýkur út um gluggann á heimili þeirra á Akureyri. Ekkert spyrst til hans og eigandinn byrjar að leita skinnsins. Þá byrja sögusagnirnar. Hundinum var misþyrmt. Illa lundaður maður setti Lúkas í poka og sparkaði honum til og frá þangað til hann dó. Atvikið náðist á myndbandsupptöku.
Þetta er sagan. Hvort hún er sönn eða ekki, veit enginn. Lögreglunni hefur ekki borist nein upptaka og ég veit ekki til þess að lík hundsins hafi fundist.

En fólkið virðist samt vera búið að fella sinn dóm. Níðingurinn er nafngreindur á þessum síðum og birtar af honum myndir. Hann er kallaður ljótum nöfnum og hótað barsmíðum. Enginn tekur upp hanskann fyrir hann.

Nú veit ég ekki alveg hvernig í pottinn er búið, en ég get ekki betur séð en að heimildarmennirnir séu allir nafnlausir netverjar. Getur ekki verið að þetta sé bara blind múgæsing? Nei, ég veit ekki. Það gæti alveg verið. Mér finnst það frekar hart að veitast svo harkalega að manninum og hafa ekkert fyrir sér nema einhverjar sögusagnir.

Svo getur náttúrulega verið að maðurinn sé sekur. Þá verður hann líka fundinn sekur og fær sinn dóm. Gott og vel. En þangað til verður hann að teljast saklaus.

Hitt er annað, að ég get ekki með nokkru móti skilið af hverju svona margir sækja hugvekju þessa hunds. Líklega er fólkið ekki að heiðra minningu hundsins. Því trúi ég ekki. Ætli það sé ekki frekar að koma saman sem dýravinir til þess að sýna samstöðu gegn illri meðferð á dýrum - og senda dýraníðingum í leiðinni skilaboð.

Jæja. Gott hjá þeim. Mér finnst samt að þeir þurfi að hafa vissu fyrir máli sínu, því mannorðsmorð er ekki síður glæpur og sá glæpur sem þau eru að fordæma.

þriðjudagur


Flottar myndir

Ég teiknaði mynd af Schwarzenegger. Hún er svoldið töff.

Arnold Schwarzenegger

Ég fór í fótbolta í Sporthúsinu áðan. Gillzenegger var þar. Hann var að tala við einhverja stelpu. Það var líka pínu töff. Ég ákvað að teikna mynd af þessu atviki.

Gillzenegger fór með hæku:

Lóðin við fótskör mína,
eins og hundur,
hollur sínum bónda.

Hvað varð annars um Gillz? Og þegar út í það er farið, hvað varð um Emmu Thompson? Getur einhver svarað því? Hvað varð eiginlega um Gillzenegger og Emmu Thompson?

fimmtudagur

Símasölumaðurinn með gullröddina

Simon Cowel byrjaður með enn einn þáttinn. Lítið hellatröll ruddi sér leið upp á svið og söng svona undurfallega. Þetta er lygilegt.




Svo kíkti Michael Jackson með apann. Góð hugmynd, en endist illa. Hefði mátt vera styttra.



Alvöru Jackson í lokin. Hann drakk Pepsí (en grét blóði).



miðvikudagur

Laddi 6-tugur

Ég sá afmælissýningu Ladda um daginn, Laddi 6-tugur. Ég get ekki sagt að hann hafi náð mér. Brandararnir voru flestir á formi útúrsnúninga og andlitsgeiflna. Svo tók hann nokkrar fígúrur. Flestir vita nú hvernig þær eru.

En þetta var ekki alslæm sýning. Stundum söng hann ágæt lög, til dæmis er Austurstræti alls ekki slæmt. Svo lumaði hann á þónokkrum lögum í viðbót sem minntu mann á gamla tíma. Kannski engar perlur, en slá nærri þjóðarsálinni. Lög eins og Valgeir Guðjónsson,
Sverrir Stormsker og Bjartmar Gunnlaugsson sömdu á sínum tíma. Svoldið kjánaleg, en það er eitthvað sem grípur mann.

Aðrir áhorfendur skemmtu sér betur, og reyndar alveg fáránlega vel. Skammarlega vel. Þeir hlógu og hlógu og hlógu. Laddi varð stundum að gera hlé á máli sínu, slíkar voru undirtektirnar. Þá bjó hann til svip og fólk hló enn meira. Þetta var fáránlegt.

Ég hef oft velt því fyrir mér, hvaða fólk það var sem kaus Ólaf Ragnar í forsetakosningunum 1996. Í huga mínum kenndi ég kerlingunum í Breiðholtinu um. Þær hlutu að vera sekar. Annað kom ekki til greina. Ef ekki þær, hver þá? Enginn gat svarað mér.

Núna, mörgum árum seinna, veit ég svarið. Fólkið sem kaus Ólaf 1996, er sama lið og hlær að Ladda. Þetta er fólk sem við verðum ekki vör við dags daglega, en á kvöldin skríður það upp úr jörðinni og gerir furðulega hluti sem við hin skiljum ekki. Hlær að Ladda, hlustar á Bubba Morthens og borðar mold. Frábært.