fimmtudagur

Vinsæll hundur

Ég rak augun í frekar
undarlega frétt á mbl.is með fyrirsögnina: Hundrað manns á kertavöku um hundinn Lúkas.

Ok. Kertavaka út af hundi. Þetta hljómar fáránlega. Í fréttinni stendur ekkert af hverju svona margir mættu, en þar kemur reyndar fram að hann hafi verið drepinn á hrottalegan hátt fyrir tveimur vikum. Það stendur ekki hvernig.

Í fyrsta og síðasta skipti á ævinni fer ég á spjallvef Barnalands. Mig langaði að vita um örlög Lúkasar. Á barnalandi fæ ég þau svör, að Lúkas hafi verið drepinn og fólk beðið frá því að ræða þetta mál frekar.

Barnaland vitnar í síðu sem heitir live2cruize.com (líka fyrsta og síðasta skiptið sem ég fer þangað). Þar fer sagan á flug. Hún er einhvern veginn svona:
Hundurinn er geldur af eiganda sínum. Hann gerist órólegur í kjölfarið og strýkur út um gluggann á heimili þeirra á Akureyri. Ekkert spyrst til hans og eigandinn byrjar að leita skinnsins. Þá byrja sögusagnirnar. Hundinum var misþyrmt. Illa lundaður maður setti Lúkas í poka og sparkaði honum til og frá þangað til hann dó. Atvikið náðist á myndbandsupptöku.
Þetta er sagan. Hvort hún er sönn eða ekki, veit enginn. Lögreglunni hefur ekki borist nein upptaka og ég veit ekki til þess að lík hundsins hafi fundist.

En fólkið virðist samt vera búið að fella sinn dóm. Níðingurinn er nafngreindur á þessum síðum og birtar af honum myndir. Hann er kallaður ljótum nöfnum og hótað barsmíðum. Enginn tekur upp hanskann fyrir hann.

Nú veit ég ekki alveg hvernig í pottinn er búið, en ég get ekki betur séð en að heimildarmennirnir séu allir nafnlausir netverjar. Getur ekki verið að þetta sé bara blind múgæsing? Nei, ég veit ekki. Það gæti alveg verið. Mér finnst það frekar hart að veitast svo harkalega að manninum og hafa ekkert fyrir sér nema einhverjar sögusagnir.

Svo getur náttúrulega verið að maðurinn sé sekur. Þá verður hann líka fundinn sekur og fær sinn dóm. Gott og vel. En þangað til verður hann að teljast saklaus.

Hitt er annað, að ég get ekki með nokkru móti skilið af hverju svona margir sækja hugvekju þessa hunds. Líklega er fólkið ekki að heiðra minningu hundsins. Því trúi ég ekki. Ætli það sé ekki frekar að koma saman sem dýravinir til þess að sýna samstöðu gegn illri meðferð á dýrum - og senda dýraníðingum í leiðinni skilaboð.

Jæja. Gott hjá þeim. Mér finnst samt að þeir þurfi að hafa vissu fyrir máli sínu, því mannorðsmorð er ekki síður glæpur og sá glæpur sem þau eru að fordæma.

1 Comments:

Blogger Palli said...

Allir elska góðan múgæsing!!

mánudagur, 02 júlí, 2007  

Skrifa ummæli

<< Home