miðvikudagur

Laddi 6-tugur

Ég sá afmælissýningu Ladda um daginn, Laddi 6-tugur. Ég get ekki sagt að hann hafi náð mér. Brandararnir voru flestir á formi útúrsnúninga og andlitsgeiflna. Svo tók hann nokkrar fígúrur. Flestir vita nú hvernig þær eru.

En þetta var ekki alslæm sýning. Stundum söng hann ágæt lög, til dæmis er Austurstræti alls ekki slæmt. Svo lumaði hann á þónokkrum lögum í viðbót sem minntu mann á gamla tíma. Kannski engar perlur, en slá nærri þjóðarsálinni. Lög eins og Valgeir Guðjónsson,
Sverrir Stormsker og Bjartmar Gunnlaugsson sömdu á sínum tíma. Svoldið kjánaleg, en það er eitthvað sem grípur mann.

Aðrir áhorfendur skemmtu sér betur, og reyndar alveg fáránlega vel. Skammarlega vel. Þeir hlógu og hlógu og hlógu. Laddi varð stundum að gera hlé á máli sínu, slíkar voru undirtektirnar. Þá bjó hann til svip og fólk hló enn meira. Þetta var fáránlegt.

Ég hef oft velt því fyrir mér, hvaða fólk það var sem kaus Ólaf Ragnar í forsetakosningunum 1996. Í huga mínum kenndi ég kerlingunum í Breiðholtinu um. Þær hlutu að vera sekar. Annað kom ekki til greina. Ef ekki þær, hver þá? Enginn gat svarað mér.

Núna, mörgum árum seinna, veit ég svarið. Fólkið sem kaus Ólaf 1996, er sama lið og hlær að Ladda. Þetta er fólk sem við verðum ekki vör við dags daglega, en á kvöldin skríður það upp úr jörðinni og gerir furðulega hluti sem við hin skiljum ekki. Hlær að Ladda, hlustar á Bubba Morthens og borðar mold. Frábært.

8 Comments:

Blogger Palli said...

Athyglisverð kenning: Fólið sem kaus Ólaf eru ormafólk. Þarf að melta þetta aðeins.

fimmtudagur, 07 júní, 2007  
Anonymous Nafnlaus said...

Þetta minnir mig á það þegar foreldrar mínir og aðrir eldri fjölskyldumeðlimir sögðu að Stella í framboði væri frábær mynd og rosalega fyndin. Ég trúði þeim ekki.

fimmtudagur, 07 júní, 2007  
Anonymous Nafnlaus said...

Hvern átti fólk annars að kjósa? Pétur Kr. Legstein?

fimmtudagur, 07 júní, 2007  
Blogger Palli said...

Málið er að forsetar eiga ekki að vera kosnir heldur er ég með betra plan:

Allir frambjóðendurnir eru settir saman (samt ekki settir saman) á eyju þar sem þeir nöldra og rífast, byggja skýli og keppa í þrautum til að vinna friðhelgi. Síðan kjósa þeir hvorn annan út þar til 2 standa eftir. Þá er hnífabardagi upp á líf og dauða.

Ég meina, við áttum fyrsta kvenforsetann (er það ekki?), þannig að nú gætum við átt fyrsta forsetann sem er kosinn í raunvöruleikaþætti.

föstudagur, 08 júní, 2007  
Anonymous Nafnlaus said...

úúúúú... frábær hugmynd!

föstudagur, 08 júní, 2007  
Blogger Jói Ben said...

Ég er sammála. Þessar hugmyndir hjá Palla eru mjög athyglisverðar. Sérstaklega hnífabardaginn. Ég væri til í að sjá Ástþór og Ólaf í svipuðum bardaga og í West Side story. Reyrðir saman á vinstri með hnífinn í hægri. Ballettinn og óperan myndu ljá þessu uppgjöri listrænan blæ. Þetta væri svakalegt.

Og ormafólkið. Ég held að við séum komnir með frekar athyglisverða pælingu þarna. Ég var að hugsa um það í allan gærdag. Ég held að við séum að varpa ljósi á nýjan þjóðfélagshóp sem hefur ekki verið skilgreindur til þessa. Ég ætla að skrifa ritgerð um þetta fólk í næstu viku.

Ég held að sá nafnlausi hér að ofan sé hluti af ormafólkinu. Það hlýtur að vera. Fjórar ástæður:

1. Hann bregst ókvæða við að verið sé að grínast með Ólaf Ragnar. Ólafur er - og skal vera í ræðu og riti - óaðfinnalegur.

2. Hann skrifar ekki undir nafni (en það er löngu kunn staðreynd að ormafólkið hefur ekki skýr persónueinkenni og lítur á sig sem nafnlausa einstaklinga).

3. Honum finnst útúrsnúninga/rím brandarar fyndnir (sbr. Pétur Kr. Legstein), en það er akkúrat sami húmor og Laddi hefur (sbr. nýi geisladiskurinn hans: Hver er sinnar kæfu smiður). - Meira að segja basabrandararnir eru betri ormagrínið. Og þá er nú mikið sagt.

4. Leynt og ljóst stefnir hann að því að breyta skoðunum okkar hinna í sínar eigin. Breyta okkur í sig. Ormafólkið virkar nefnilega á svipaðan hátt og vampírur og varúlfar: Það ræðst á samborgara sína og gerir eitthvað sem verður til þess að fórnarlömbin breytast í ormafólk.

En nóg um það. Ritgerðin mun afhjúpa þennan hóp manna.

föstudagur, 08 júní, 2007  
Anonymous Nafnlaus said...

Stór hluti þessa huldufólks var kallaður "Rútudagsfólkið" fyrir nokkru síðan. Enginn reiknaði með að "rútudagurinn" sem BSÍ stóð fyrir myndi slá í gegn (samt var lítil rúta hífð uppá skyggnið á umferðarmiðstöðinni og gott ef Sykurmolarnir tóku ekki lagið líka) en svo mættu 10.000 manns á staðinn af því það voru ókeypis pulsur og ehv. fleira. Lengi á eftir spurði ég alla sem ég hitti hvort þeir hefðu mætt á rútudaginn en enginn vildi kannast við það. Þarna held ég að sé kominn hulduher fólks (úr Breiðholti, Rimahverfi og víðar) sem einmitt mætir á viðburði og skemmtanir sem flestir vita varla af. Reyndar er Laddi svo undantekning því sá Íslendingur sem ekki þekkir hann og dáir er varla til. Nema jú sá sem heldur úti þessu bloggsvæði.

fimmtudagur, 19 júlí, 2007  
Blogger Jói Ben said...

Ég hristist af hlátri þegar ég las þessa frásögn af ,,rútudeginum". Hvernig datt þeim þetta í hug? Og að hífa upp litla rútu á skyggnið fyrir framan BSÍ, svona rétt aðeins til þess að gefa fólki forsmekkinn að því sem koma skyldi, er einhver lélegasti ,,teaser" sem ég hef heyrt um.

Ég held að þú hafir hitt naglann nokkuð vel á höfuðið. Þetta er akkúrat fólkið sem ég var að tala um; Ormafólkið svo kallaða.

Annað: Hefurðu ekki séð í sjoppuhillu súkkulaði sem var vinsælt í gamla daga og heitir Toffee? Sama gildir um Leo. Ég þekki engan sem borðar þannig, en samt selst það. - Enn ein vísbendingin um tilvist þessa óútreiknanlega flokks huldumanna.

föstudagur, 20 júlí, 2007  

Skrifa ummæli

<< Home