þriðjudagur

Skrílslæti á Íslandi

Hópur, sem nefnir sig Aðgerð Aðgerð, ruddist inn í Alþingishúsið í dag og var með skrílslæti. Ég er ansi hræddur um að þarna sé kominn hópur flóna sem gæti reynst erfitt að hemja, ekkert ósvipað þeim sem stóðu að skærum við Kárahnjúkasvæðið. Eða uppsteytið í Ráðhúsinu, þegar einhver kallaði að Ólafi F: „Þú ert ekki fokkings borgarstjóri!“ Ákaflega vönduð mótmæli.

Þetta vafalaust sami hópurinn og var að pukrast við Arnarhól í morgun, sá sem
vefritið Smugan sagði að myndi beita „öðruvísi aðgerðum“. Hópurinn tvístraðist þegar hvítur sendibíll keyrði framhjá, en þá þótti fullvíst að víkingasveitin hefði komist á snoðir um leynimakkið.

Ég efa það stórlega, að hópurinn sé samsettur af fórnarlömbum kreppunnar. Og ef ég ætti að giska, myndi ég segja að hópurinn samanstandi af áhrifagjörnum menntaskólakrökkum. Þeir eiga það sameiginlegt að sækja í hlutverk fórnarlambsins, svona ef því verður við komið - eins brjóstumkennanlegt og það nú er.

Ástæðan fyrir mótmælum krakkanna, er að sjálfsögðu sú að þeir eru (eða telja sér trú um að þeir séu) fórnarlömb kreppunnar. En ástæðan fyrir því að þeir lenda í stappi við löggæslumenn, er sú að þeir vilja vera beittir ranglæti. Þeir nærast á því. Draumurinn er að vera leiddur í járnum út úr Alþingishúsinu.

Vörubílstjórnarnir voru sumir hverjir drifnir áfram af sömu hvötum. Allir heilvita menn hefðu stungið af, þegar lögreglan byrjaði að úða piparúða. En það var ekki að sjá á bílstjórunum að þeir forðuðu sér. Sumir virtust meira að segja sækja í „gasið“. Ég sé það fyrir mér, hvernig þeir hafa notið þess að heyra félagana vorkenna sér daginn eftir. Þeir voru fórnarlömb gærdagsins og hetjur dagsins í dag.

En aftur að atburðum dagsins. Hópurinn, Aðgerð Aðgerð, lýsti yfir ábyrgð, að erlendri fyrirmynd, á áhlaupinu á Alþingishúsið. Í tilkynningunni sagði
„...að fólk á hans vegum hafi farið inn í Alþingishúsið í þeim tilgangi að stöðva starfsemi þingsins. Ástæðan sé sú að Alþingi, eins og það er rekið í dag sé ónýt stofnun. Segist hópurinn jafnframt lýsa vantrausti á ríkisstjórnina og krefjast þess að hún víki. “
Jáhá, það er ekkert annað.

Ég er orðinn þreyttur á þessu liði. Það þarf að herða löggæsluna. Það þýðir ekki að fólk komist upp með það, að ráðast inn í Alþingi Íslendinga og láta eins og skríll án þess að hljóta refsingu. Sama gildir um þá sem réðust inn í lögreglustöðina. Það þarf að draga línuna einhvers staðar.

6 Comments:

Blogger Guðmundur Jón said...

"Það þýðir ekki að fólk komist upp með það, að ráðast inn í Alþingi Íslendinga og láta eins og skríll án þess að hljóta refsingu."

Þetta hlýtur einnig að eiga við um þingmenn og ríkisstjórn, eða hvað?

Annars mæli ég með því að þú sleppir því að skrifa svona moggablogg, það er eins og að bera í bakkafullan lækinn.

þriðjudagur, 09 desember, 2008  
Anonymous Nafnlaus said...

Hahaha, moggabloggsdiss!

þriðjudagur, 09 desember, 2008  
Blogger Jói Ben said...

Sammála dissinu. Næst segi ég frá uppfinningunni sem á eftir að gera mig ríkan.

miðvikudagur, 10 desember, 2008  
Anonymous Nafnlaus said...

Ég bíða spennt... kannski verður hugmyndin þín eins og músin! Hver veit!
kv. steinunn

- ertu búinn að jafna þig eftir símabásinn :) hlakka til að sjá þig eftir nokkra daga

miðvikudagur, 10 desember, 2008  
Anonymous Nafnlaus said...

Góður punktur. Mig hefur lengi dreymt um að vera leiddur inn í lögreglubíl í járnum. Það er alltaf gaman þegar ranglæti og ógæfa knýr dyra hjá manni. Fær blóðið á hreyfingu. Veitir manni tilgang í lífinu.

Unnar

miðvikudagur, 10 desember, 2008  
Blogger Jói Ben said...

Einmitt! Ég vissi að þú myndir skylja þessa tilfinningu.

föstudagur, 12 desember, 2008  

Skrifa ummæli

<< Home