fimmtudagur


Ég var að horfa á Kastljósið í gær þar sem DV-málið var tekið fyrir.
Rætt var við ritstjóra DV, Jónas Kristjánsson, þar sem hann útskýrði sitt mál og varði stefnu blaðsins. Ég get ekki annað séð en að þessi maður sé hið versta fúlmenni og með öllu siðblindur; hann sýndi enga iðrun og ég gat ekki betur séð en að hann ætlaði sér að rökstyðja mál sitt næstu dögum. Þ.e. að sanna það, að maðurinn sem var að svipta sig lífi, hafi verið í raun verið barnaníðingur og þ.a.l. hafi DV gert rétt að fjalla um hann eins og gert var.

Þannig á ekki að fjalla um nýlátinn mann. En, sjáum hvað setur. Kannski gerir hann það ekki.

Ég skrifaði smápistil um það hver ber ábyrgðina í þessu máli. Blogger-kerfið getur ekki tekið við skrifum sem eru svo og svo löng, þannig að ég set þau í kommenta-kerfið.

3 Comments:

Blogger Jói Ben said...

Um DV-málið: Hver ber ábyrgðina?

Í gær svipti maður sig lífi, eftir að DV hafði flennt því upp á forsíðu að hann væri sagður nauðga piltum. Við hliðina á fyrirsögninni var mynd af manninum.

Ég hef heyrt fjóra kallaða til ábyrgðar:

Manninn sjálfan. Rökin eru, að hann hafi fallið fyrir eigin hendi og því beri hann einn ábyrgð. Þetta finnst mér léleg rök, því það er alveg ljóst að hann sviptir sig lífi í kjölfar greinaskrifa DV. Þetta er bein afleiðing blaðaskrifanna og án þeirra hefði hann líklega aldrei gert þetta.

Blaðamanninn sem skrifaði greinina. Ég er ósammála. Blaðamaðurinn er í raun bara peð sem fer þangað sem því er leikið. Ef hann hefði ekki skrifað þessa grein, hefði einhver annar verið látinn gera það.

Ritstjórar DV. Þeir bera mikla ábyrgð. Þeir taka ákvörðunina um hvort fjalla eigi um mál þessa manns eða ekki. Þetta eru mennirnir sem leika peðunum.

Eigendurnir. Að mínu mati bera þeir mestu ábyrgðina. Þessir menn leggja línurnar fyrir ritstjórann, rétt eins og stjórnarmenn leggja línurnar fyrir forstjórann. Á sínum tíma tók Jón Ásgeir þá ákvörðun, að DV yrði breytt í vægðarlausa slúðurpressu að breskri fyrirmynd. Eigendurnir eru einnig ábyrgur fyrir því að ráða ritstjóra, sem eru tilbúnir að framfylgja svona siðblindri stefnu. Of meyrir ritstjórar yrðu líklega látnir fjúka og aðrir menn fundnir í þeirra stað.

Stjórn Dagsbrúnar (sem á DV) mun funda um málið í kvöld (föstudag). Það verður forvitnilegt að sjá hvort þeir breyti áherslum blaðsins, eins og væri réttast að gera. Annar möguleiki, væri að reka Jónas ritstjóra. Með því að láta einhvern svara til sakar, er stjórnin búin að „axla ábyrgð“ í þessu máli. Mér dettur líka í hug, að DV yrði einfaldlega lagt niður. Því, án þess að vita það, hugsa ég að margir segi blaðinu upp á næstu dögum og auglýsendur skirrist við að auglýsa þar. Ofan á það eykur blaðið ekki beinlínis hróður þeirra sem eiga það. En svo gætu þeir líka sleppt því að aðhafast nokkuð. Því, eins og vor heittelskaði forseti svaraði einhvern tímann, þegar hann var spurður hvernig hann brygðist við gagnrýni: Ég bíð bara. Almenningur er svo fljótur að gleyma. Það fennir yfir þetta. (ekki bein tilvitnun)

fimmtudagur, 12 janúar, 2006  
Anonymous Nafnlaus said...

Já verðu bara nauðgara og morðingja. get a life!

fimmtudagur, 12 janúar, 2006  
Blogger Jói Ben said...

Jáhá! Þetta er almennilegt komment! En, ég ætla samt að reyna að svara.

Þó að ég gagnrýni fréttaflutning DV, þýðir það ekki að ég taki undir með nauðgurum og morðvörgum. Og reyndar, svona þegar ég pæli í því, að þá fyrirlít ég þess háttar kóna.

Ég veit ekki til þess að maðurinn sem svipti sig lífi hafi tilheyrt öðrum hvorum flokknum. Eru menn ekki saklausir uns sekt þeirra er sönnuð? Eða, er það ekki reglan?

Og mér er alveg sama hversu sterk gögn ritstjórar DV hafa undir höndum, það ekki þeirra að ákveða hver er sekur og hver ekki. Til þess eru dómstólar.

Og nú spyr ég þig anonymous: Hvernig veistu, að maðurinn hafi verið nauðgari?

Ég vil reyndar bæta við þetta, að mér finnst skrifin í blaðið í dag vera einstaklega viðbjóðsleg, þar sem DV rökstyður ásakanir sínar um að þessi maður hafi verið kynferðisafbrotamaður. Þeir ráku manninn í gröfina, og samt halda þeir áfram að sparka í hann. Er þeim ekkert heilagt?

Eins og ég sagði áðan, ég veit ekkert hvort maðurinn var sekur eða ekki. En það ég veit, að það er ekki DVs að fella dóm um það.

föstudagur, 13 janúar, 2006  

Skrifa ummæli

<< Home