Herra Ísland 2007
Ég er búinn að ákveða að taka þátt í Herra Ísland 2007. Ég vona að ég vinni.
Í keppninni spyrja þeir mig mig um áhugamál og ég mun svara: „Langstökk. Aðallega langstökk. Kannski þrístökk líka, en aðallega langstökk. Hmm... hvað get ég sagt meira?“ held ég áfram. „Jú, útivera! Ég hef mjög gaman að útiveru - sérstaklega löngum ferðalögum um sléttur Ástralíu. Þau eru æði!“ Svo verð ég rekinn úr keppninni fyrir að hafa sömu áhugamál og kengúra.
Hmm... Ég ætla að byrja aftur:
Hvað ætli gusti um höfuð drengjanna sem taka þátt í Herra Ísland? Þeir klæða sig úr buxunum. Fólkið bíður. Þeir maka sig olíu. Fólkið bíður. Þeir blikka spegilinn í síðasta sinn. Einn, tveir og þrír!
Af stað. Skref fyrir skref feta þeir sýningarpallinn. Stoppa. Pósa. Og áfram. Akkúrat þarna, hvað eru þeir að hugsa?
Mér finnst líklegast að þeir séu ekki að hugsa um neitt. Að það eina sem bærist í brjósti þeirra sé einhvers konar örvænting. Engar hugsanir. Bara þessi hreina tilfinning: Að fá viðurkenningu. Þeir þrá það! Ef þeir fá ekki viðurkenninguna, finna þeir til höfnunar. Og það er svo erfitt fyrir svona voðalega litlar sálir.
Einhvern tímann las ég viðtal við Arnar Grant, fitnessmeistara Íslands. Honum var tíðrætt um heiðurinn sem fylgir því að sigra. Hann talaði um hin og þessi keppnismót, innlend og alþjóðleg, og alltaf talaði hann um heiðurinn. Þetta var mikill heiður. Mikill heiður.
Ok. Það er bara bull. Hann er bara bull. Fattar hann ekki að hann er á nærbuxunum fyrir framan helling af fólki? Svo brosir hann eins og fífl í þokkabót. Þetta er líka svo hégómlegt: Að keppa í því að vera sætur. Þannig gera alvöru strákar ekki.
Frá keppninni Herra Ísland 2006.
Annars langaði mig að taka fram, að ég hef ekkert á móti fegurðarsamkeppnum. Þær gleðja mig.
4 Comments:
Ertu ekki bara øfundsjukur? Thu veist, af thvi ad thu ert svo ljotur.
Djöfull eru þessir gaurar líka með töff og massaleg nöfn. Flex Wheeler er náttúrulega baaaara töff nafn. Arnar Grant hefur líka svona international appeal annað en Kristján Leifsson eða Jóhannes Benediktsson. Við þurfum eitthvað kúl eins og Flex Armstrong eða John Steele.
Dick Steele var nafnið mitt í þýsku myndinni í 6. bekk í MR
Tommi! Hvaða diss er þetta? Manstu ekki eftir 6.Y? Bekknum okkar í MR? Fyrir Faunu-myndina var ég kosinn sætasti strákurinn. Hvar varst þú þá?
Eða. Hmm... Þetta er ekki alveg rétt. Siggi Árna var kosinn sætasti strákurinn. En ég var kroppur bekkjarins (þ.e.a.s. ég hefði alveg örugglega verið það ef Dýri hefði ekki verið í bekknum).
Hmm... Ég er alveg búinn að steingleyma hvaða titil ég fékk. Eða.. Jú, heyrðu. Þetta er rétt hjá þér. Ég var kosinn ljótasti strákurinn. Hvað var málið með það? Af hverju þurfti að útnefna ljótasta strákinn? Það er bara mórall!
En ég man líka vel eftir þínum titli. Þið Ellert háðuð harða rimmu um titilinn besta Whoopi Goldberg eftirherman sem lauk með sigri þínum. Og bara svo þú vitir það: Þessi keppni var ekki töff.
Annars með þessi vaxtarræktarnöfn, þá er þetta góður punktur hjá þér Kristján. Þeir heita allir frekar hörkutólalegum nöfnum. Meira að segja kroppur 6.Y árið 2000. Hann var einfaldlega kallaður Dýrið. Það er nokkuð röff.
Það er kannski þess vegna sem hann var valinn kroppurinn framyfir mig? Já. Þegar ég hugsa um það, hlýtur það eiginlega að vera ástæðan.
Skrifa ummæli
<< Home