mánudagur


Gjörningur Rúrí

Fyrir nokkrum vikum sá ég myndskeið á fréttavef Moggans, hvar listamaður að nafni Rúrí var að fremja gjörning. Hann var einhvern veginn þannig, að listamaðurinn stakk sér til sunds í Drekkingarhyl á Þingvöllum og fann þar á botni nokkrar dularfullar skjóður. Þegar þær voru opnaðar kom í ljós kvenmannsföt og skór, táknrænar líkamsleifar þeirra kvenna sem voru teknar þar af lífi á 17. öld. Að lokum las hún upp nöfn kvennanna. Með gjörningnum vildi hún heiðra minningu þeirra og vonaði að með honum fengju þær uppreisn æru.

Ásetningur Rúrí var fallegur, en ég er ekki ánægður með framgöngu hennar. Ég spyr: Af hverju beitti hún sér ekki öðruvísi? Hún hefði getað skrifað fallega minninga-grein um þessar konur og fengið hana birta í einhverju dagblaði. Þannig er minni fólks yfirleitt haldið á lofti og heiðrað. Eða með því að skora á stjórnvöld að reisa þeim einhvers konar minnisvarða. Til eru fordæmi fyrir því.

En, nei. Ekki Rúrí. Þessi ágæta kona, kaus að heiðra minningu kvennanna, með því að busla þarna í hylnum þar sem þeim var drekkt, og þykjast finna líkamsleifar þeirra. Hvað var hún að spá? Þetta er ekki list/athöfn. Þetta er skrípaleikur og að sama skapi mjög ósmekkleg leið til að heiðra minningu einhvers [1].

Á móti væri hægt að segja, að með gjörningi sínum hafi hún vakið athygli á málstað þessara kvenna. Og það er rétt. Ég hjó eftir þessari frétt og hún hefur dottið inn í hausinn á mér af og til síðan þá. En ekki í eina sekúndu hef ég hugsað um konurnar, sem hún var að heiðra. Neibb. Á engum vakti hún meiri athygli, en sjálfri sér: Listamanninum Rúrí. Hvort það var ætlunin eða ekki, var það engu að síður niðurstaðan: Fullorðin kona buslar í Drekkingarhyl, í nafni listarinnar [2].

Ef hún hefði skrifað fallega grein. Látið hana heita: Konurnar í Drekkingarhyl. Sent á Moggann til birtingar í sunnudagsblaðinu. Rakið sögu þeirra og óréttlætið. Ég hefði lesið hana. Og að öllum líkindum, hefði minning þeirra lifað í hausnum á mér í dágóðan tíma.


[1]

Stundum er heppilegt að heimafæra eitt dæmi upp á aðrar aðstæður og aðrar persónur, til að sýna hversu asnalegt fyrra dæmið var. Hér er dæmi:

Segjum að ég væri dæmdur til dauða, fyrir smávægilegar sakir, grýttur og dysjaður einhvers staðar á Miklatúni. Ok. Eftir 300 ár, stríðir glæpur minn ekki lengur gegn gildum þjóðfélagsins og almennt þykir hann harður og ósanngjarnt. Segjum nú, að listamaður að nafni Xyló vildi taka upp hanskann fyrir mig og sæi þrjár leiðir færar:

1. Að skrifa fallega um mig í Morgunblaðið.

2. Að reisa mér minnisvarða á Miklatúni.

3. Að hann hringdi í alla helstu fjölmiðlana, setti á svið skrípaleik þar sem hann rasaði bjánalega um túnið í leit að einhverju dularfullu. Væri jafnvel með sporhund, eins og um alvöru rannsókn væri að ræða (Rúrí var með kafara). Svo: Aha! Hundurinn fann eitthvað! Nei!? Hvað höfum við hér? Jú, ef þetta eru ekki líkamsleifar Jóa Ben. Leiksýningin heldur áfram og hann lýsir því yfir, að vonandi hafi hann, með þessum gjörningi, reist upp æru mína.

Ég gef grænt ljós á lið eitt og tvö. En liður þjú. Oj! Hvílík smán það yrði fyrir minningu mína, ef Xyló næði að fremja gjörninginn sinn.

[2]
Má gera allt í nafni listarinnar? Hvar eru mörkin dregin? Hefði hún ekki verið handtekin, ef hún hefði gert þetta í frítíma sínum? Ég hef séð menn ávítaða af lögreglunni fyrir að busla í Tjörninni. Mig minnir reyndar að rökin hafi verið: Æ, kommon. Svona gera menn ekki.

Lokapæling: Að fremja gjörning. Það hljómar eins og eitthvað mjög ljótt. Menn fremja glæpi, morð og voðaverk af ýmsu tagi. En gjörning... Ég veit ekki alveg hvort þessir listamenn hafi spáð í þetta. Ætli þeir hafi ekki ákveðið að nota sögnina að fremja vegna þess að það er svo asnalegt að segjast ætla að gera gjörning.

7 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Skemmtileg lesning hjá þér kall

mánudagur, 25 september, 2006  
Blogger Palli said...

Hmm. Það er eitt sem þú gleymir. Eftir 300 ár byrjar all á X. Ekki bara mannanöfn eins og Xyló. Svo að Milatún verður Xorglatox2400 og morgunblaðið verður XD.

mánudagur, 25 september, 2006  
Blogger Jói Ben said...

Já. Þetta er rétt hjá þér Palli. Ég var búinn að gleyma x-pælingunni.

Mér finnst reyndar alveg glatað hvernig þetta verður eftir 400 ár, þegar allir og allt heita bara einhverju númeri. Þá gæti 536.473 framið gjörning á 362.528 og hægt væri að lesa um það í 6.473.251.

Eða eftir 500 ár, þegar allir heita sama nafninu: #89rufdsa8439904m. Það er alveg glatað.

mánudagur, 25 september, 2006  
Anonymous Nafnlaus said...

Ég hélt alltaf að það væri Z fyrir Zorglúbb. Veit ekki með þessa X pælingu fannst nógu slæmt þegar Generation X kom fram á sjónarspilið, lélegasta kynslóð ever!

þriðjudagur, 26 september, 2006  
Blogger Palli said...

Hmm. Ef maður drakk Pepsí var maður GeneratioNext. Feginn að ég drakk aldrei Pepsí.

þriðjudagur, 26 september, 2006  
Anonymous Nafnlaus said...

"Ef hún hefði skrifað fallega grein. Látið hana heita: Konurnar í Drekkingarhyl. Sent á Moggann til birtingar í sunnudagsblaðinu. Rakið sögu þeirra og óréttlætið. Ég hefði lesið hana."

Það eru greinilega fá takmörk sett því sem þú reynir að ljúga upp í opið geðið á fólki.
GJA

þriðjudagur, 26 september, 2006  
Blogger Jói Ben said...

Hvaða hvaða... Ég les yfirleitt Moggann spjaldanna á milli. Ef það kæmi grein með jafn áhugavekjandi nafni og Konurnar í drekkingarhyl yrði ég ekki lengi að tæta hana í mig. Pottþétt.

fimmtudagur, 28 september, 2006  

Skrifa ummæli

<< Home