föstudagur


Árið 2002 byrjaði ég að nota google. Ég man það, vegna þess að ég sá einn kennarann í verkfræðideildinni nota það. Ég hafði ekki mikið álit á þessum manni, hann var gamall og fúll út í lífið. Svo var hann líka lélegur kennari. Algjörlega metnaðarlaus og kalkaður í starfi.

Þetta var í byrjun sumars og ég hafði fengið styrk fyrir verkefnið Vindmælir fyrir húsmæður, og vissi ekkert hvar ég átti að byrja. Því dagaði ég uppi á skrifstofu fúlmennisins. Hann var reyndar ekkert svo slæmur og allur af vilja gerður, og ég sá það strax að ég hafði dæmt hann fullharkalega. Hann gat reyndar ekki hjálpað mér
mikið, en lét mig fá lista af nöfnum sem ég átti að ráðfæra mig við. Svo spurði hann hvort ég væri búinn að leita á netinu. Ég játti því, en hann fór engu að síður inn á google og sló inn: Anonemeter (ísl: vindmælir). Ég hugsaði: Hver notar eiginlega google? Veit hann ekki að altavista og yahoo eru bestu leitarvélarnar?

Núna er google aðalvélin og maður veltir því fyrir sér hvort að henni verði nokkurn tímann velt úr sessi. Það er ekki auðvelt að sjá, en ég ég er með tilgátu. Ég held, að síðunni
Wikipedia.com muni vaxa fiskur um hrygg á næstu misserum. Síðan er að mörgu leyti mun sniðugri en google. Þar getur maður gengið að mjög vandaðri umfjöllun um flest allt sem manni dettur í hug. Það getur google ekki ábyrgst.

Til dæmis, ef ég slæ inn Pol Pot á google fæ ég hrúgu af óvönduðum og vilhöllum greinum um þennan mann. Sumar eru góðar. Aðrar mjög lélegar. Hvað satt er og hvað ekki, hef ég ekki hugmynd um. Eftir 15 mínútna árangurslausa leit, er það eina sem ég veit að þessi maður var vondur og framdi mörg voðaverk. En, kommon! Þetta er ekki svona einfalt.

Hins vegar höfum við wikipediu. Mun skárri kostur. Þar er leitast við að segja söguna á eins sanngjarnan og hlutlausan hátt og hægt er. Á wikipedia kemur skýrt fram, að Pol Pot var mikill harðstjóri og framdi hræðilega glæpi. En þar kemur líka fram, að hann hafði einhverja stefnu. Hann framdi glæpina í nafni einhverrar hugsjónar. Honum gekk gott eitt til. Þannig séð. Hann vissi bara ekki betur.

Jæja. Ég ætlaði bara að negla niður spá mína um sigurgöngu wikipediu: Innan tveggja ára verður hún jafnoki google. Ég held það.

Reyndar ætlaði ég að skrifa um Bono. Ég var að reika um wikipediu og rakst á athyglisverða staðreynd. Bono (eða Bono Vox, eins og hann kallar sig víst) var valinn manneskja ársins árið 2005 hjá Times, ásamt Bill og Melindu Gates. Þeir vita greinilega alveg hvað þeir eru að gera.

Reyndar fór meira í taugarnar á mér við val Times í gegn um tíðina á manni ársins. Árið 2003 var ,,ameríski hermaðurinn" valinn maður ársins. Það er ekki viðeigandi. Fyrir það fyrsta, hefur Íraksstríðið ekki reynt mikið á bandaríska herinn, en ég held að ~3.000 BNA hermenn hafi fallið þar. Samanborið við önnur stríð, er það ekki mikill missir. Það sem mér finnst eiginlega vega þyngra, er ruglið í kring um stríðið sjálft. Eftir að hafa logið til um nauðsyn stríðsreksturs, finnst mér að þessir menn eigi engan heiður skilinn. Þeir eiga helst bara að skammast sín.

Að lokum er það val Times á manni aldarinnar. Þeir völdu Albert Einstein. Ágætt val, þannig séð. En hann er samt ekki maður 20. aldarinnar. Sama hvað hver segir, að þá er Hitler maður 20. aldarinnar. Rétt eins og Napóleon var maður 19. aldarinnar og Jesú maður 1. aldarinnar. Áhrif þessara einstaklinga voru slík, að allur heimurinn var í uppnámi í heilu áratugina vegna gerða þeirra. Allir breyttu þeir heiminum á afgerandi hátt og til frambúðar. Það gerði Albert líka, samt ekki jafnafgerandi og hinir.

Jæja. Þetta er nú meiri textinn. Fullkomlega stefnulaus; úr fúlum kennar í VR2 í ádeilu um val Times á manni ársins. Uss..

11 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

"Hins vegar höfum við wikipediu. Mun skárri kostur. Þar er leitast við að segja söguna á eins sanngjarnan og hlutlausan hátt og hægt er."

Ekki trúa öllu úr Wikipedia eins og það sé heilagur sannleikur úr Mogganum, sem þú ert svo hrifinn af.

Síðan byggir á framlögum lesenda í formi umfjöllunar um hitt og þetta, þ.a. þú veist alveg jafn lítið og á Google hvort hlutirnir séu réttir eða ekki.

föstudagur, 15 september, 2006  
Blogger Jói Ben said...

Í Mogganum fer fram opin umræða um málefni líðandi stundar. Þar heyrast að jafnaði öll sjónarmið án þess að halli á neinn. Fréttirnar eru yfirleitt mjög vandaðar og sanngjarnar.

Eina málið sem mér dettur í hug að Mogginn sé hlutdrægur í, er Palestína/Ísrael deilan. Þar dregur hann oftar en ekki taum Palestínumanna. Svo veður hann stundum á málstaði hægrimanna í smádálkinum Staksteinum. Það finnst mér óþarfi og virðist engöngu vera gert til þess að koma við kauninn á bitrum vinstri mönnum.

Að wikipediu. Þar gildir það sama og hjá Mogganum, öllum er jafnfrjálst að leggja orð í belg. Og þeirra umfjöllun eru jafnvel enn vandaðri en hjá Mogganum. Ef einhver ummæli eru vafasöm eða röng, lifa þau yfirleitt ekki lengi. Þá setur einhver pirraður lesandi inn: citation needed. Og ef ekki er hægt að færa rök fyrir málinu, eru ummælin tekin út.

Þannig er textinn meitlaður í áttina að sanngjarnri umfjöllun, sem allir aðilar geta sætt sig við.

Vefsíðurnar sem google vísar fólki á, hljóta yfirleitt ekki sömu ritskoðun og hjá wikipediu og eru oft litaðar af afstöðu eins manns. Þess vegna finnst mér það töluvert líklegt að umfjöllun wikipediu sé alla jafna vandaðri en gengur og gerist.

föstudagur, 15 september, 2006  
Blogger Jói Ben said...

Eitt í viðbót: Ég hefði gaman að því að sjá dæmi um wikipediu halla máli. Ég fer aðeins fram á eitt dæmi.

föstudagur, 15 september, 2006  
Blogger Baldtur said...

Ég mæli eindregið með þessari umfjöllun (sem inniheldur meðal annars viðtal við wiki-frumherjann). Rökræður um hversu nákvæmar heimildirnar eru, hverjir uppfæra, hversu hratt og margt fleira.

http://www.onpointradio.org/shows/2006/08/20060802_b_main.asp

föstudagur, 15 september, 2006  
Blogger Jói Ben said...

Þetta er mjög góður þáttur. Ég mæli með því að kempan í commenti #1 hlusti á hann.

Líka alltaf gaman að heyra útlendinga nefna Ísland á nafn - en þeir tala um að venjulegar orðabækur, eins og Brittania, geti ekki gert smávægilegur atriðum skil, s.s. eins og Íslam á Íslandi.

Í þættinum eru athyglisverð rök færð fyrir því að nota google frekar en wikipediu. Þeir tala um að á google geti maður alltaf ,,lesið í þann sem skrifaði greinina" og í kjölfarið vegið hana og metið með hjálp frá eigin dómgreind. En þetta geti maður ekki á wikipediu, þar sem allar upplýsingar eru settar fram í skjóli nafnleysis. Mér finnst þetta góður punktur.

Annars fannst stjórnarformaður wikipediu sannfærandi, og mér segir svo hugur að hún muni bara verða áreiðanlegri eftir því sem á líður. Hún er alla vega mitt fyrsta val, þegar ég ætla að nota netið til að glöggva mig á einhverju.

laugardagur, 16 september, 2006  
Anonymous Nafnlaus said...

Það er náttúrulega orsakasamband milli Einstein og kjarnorkusprengjunnar, sem hafði vissulega mikil áhrif á líf fólks um allan heim. Og þá er ég ekki bara að tala um framsókn atómljóðsins.
GJA

sunnudagur, 17 september, 2006  
Anonymous Nafnlaus said...

Skemmtileg staðreynd um þetta val Times er að þeir velja manninn eftir því hve mikil umfjöllun er um hann og hve mikil áhrif hann hefur haft. Árið 2001 vann einmitt Giuliani, borgarstjóri NY, þrátt fyrir góða baráttu frá Bin Laden. Það er bara svo fyndið eitthvað að heyra að svona 'vondir gaurar' vinni Man of the Year hjá þeim.

sunnudagur, 17 september, 2006  
Blogger Jói Ben said...

GJA: Já, vissulega er orsakasamband á milli Einstein og kjarnorkusprengjunnar (og skáldanna). En líka á milli Hitler og sprengjunnar. Án hans hefði hún líklega aldrei sprungið.

KriZ: Það er reyndar mjög töff að vondu gæjarnir geti unnuð. Og þegar út í það er farið, hefði Bin Laden átt að vinna 2001. Frekar en Giuliani. En það hefði samt verið, jahh, rangt.

Annars var Khomeni valinn maður ársins 1979, Stalín árið 1942 og Hitler 1938. Restin er frekar korrekt.

Árið 1982 var ,,tölvan" valin maður ársins. Það er nokkuð töff.

mánudagur, 18 september, 2006  
Anonymous Nafnlaus said...

Það var víst nú nýlega gerður samanburður á wikipedia og Brittania og kom í ljós að það voru svipað margar staðreindavillur í báðum og því wikipedia jafn áræðanleg og Brittania.

Svanhildur.

mánudagur, 18 september, 2006  
Blogger Guro said...

Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.

mánudagur, 18 september, 2006  
Anonymous Nafnlaus said...

Án þess að ætla að fara út í neina sálma , finnst mér ekki nema sanngjarnt að benda Jóhannesi á, að stríð eru aldrei einhverjum einum manni að kenna. Það er bara geðbilun perversjón að halda einhverju slíku fram. Enda löngu sannað hið fornkveðna, sjaldan veldur einn þá tveir deila kökunni.
GJA

mánudagur, 18 september, 2006  

Skrifa ummæli

<< Home