sunnudagur



Einn kaflinn í bókinni Gengið á rekann eftir Kristján Eldjárn segir frá silfri Egils Skallagrímssonar. Honum hafði áskotnast tvær kistur fullar af silfri fyrir hetjulega frammistöðu í bardögum fyrir Aðalstein konung. Agli þótti mjög vænt um silfrið og sat á því eins og ormur á gulli. Eftir því sem hann eltist, fór hann að hrylla við að einhvern tímann myndi silfrið lenda í höndum einhvers annars. Þannig að hann ákvað að fela það. Nokkrar sögur eru til um afdrif silfursins sem ég
nenni ekki að tína til hér. Þó er ein saga sem ber af. Og í rauninni er hún svo sannfærandi og styrkt með svo góðum rökum, að ég er ekki í nokkrum vafa um að hún sé rétt. Hún er þannig:

Jón frá Grunnavík (HKL skrifar um hann í Íslandsklukkunni), hjálparhella Árna Magnússonar handritasafnara, hafði gríðarlegan áhuga á alls konar álfa- og tröllasögum, og skráði niður mikið magn af áhugaverðum munnmælasögum. Einu sinni segir hann frá því, að bróðir sinn hafi einhvern tímann heyrt af þremur silfurpeningum sem skaut fram í
miklum vatnavöxtum í Mosfellsdal. Bróðir Jóns hafði séð einn peninginn og rámaði í að hann hafi borið áletrunina ANSLAFR. Þetta er ritað um miðja 18. öld.

Seinna, líklega um miðja síðustu öld, kemur upp úr krafsinu, að aðeins einu sinni hafi mynt með þessari áletrun verið slegin. En það var einmitt árið áður en Egill barðist fyrir hönd Aðalsteins konungs. Óvinur Aðalsteins (sem ég man ekki hvað hét), lét útbúa silfurpeninga með þessari áletrun fyrir sjálfan sig. Og það er auðvelt að leiða getum að því, að þegar Aðalsteinn bar sigur úr bítum, hafi hann að einhverju leyti deilt herfanginu niður á hermenn sína.

Það er ekki möguleiki að Jón, og hvað þá bróðir hans, hafi vitað af þessari áletrun. Og hefði Jón ætlað ljúga til að gera sögu sína trúlegri, hefði hann líklega sagt að áletrunin væri ADALSTEIN eða eitthvað í þá áttina. Nafnið á óvini Aðalsteins kemur ekki fyrir í Egilssögu. Hann getur ekki fræðilega séð hafa vitað nafnið hans (En aðrar heimildir eru til af þessum bardaga þar sem nafnið kemur fram, þær hafa alveg örugglega ekki legið fyrir á tímum Jóns G). Fyrir mér er þetta ekki einu sinni spurning. Silfrið er til og það er falið einhvers staðar þarna í Mosfellsdalnum. Að öllum líkindum er það fast inni í einhverju rofabarðinu. Alveg pottþétt.

Ég hef skoðað Mosfellsdalinn á korti, og mér sýndist sem svo að þar séu fjögur gil sem komi til greina. Í einu þessara gila er silfrið falið, að öllum líkindum einhvers staðar meðfram farvegi lækjarins. Og það hlýtur að liggja neðarlega, þar sem lækurinn hefur náð nægum krafti til að gets rist í sundur nánasta umhverfi sitt. Þannig að leitarsvæðið hefur verið þrengt niður í, jahh, líklega ~ tveggja kílómetra langan göngutúr með málmleitartæki. Og svo er það annað. Egill hefur alveg örugglega valið stað sem ekki liggur á opnu svæði. Hann hefur náttúrulega viljað fá næði til að grafa það (Eða láta grafa það fyrir sig, en þrælarnir hans sáu um það - svo segir sagan að hann hafi drepið þá til þess að búa einn að leyndarmálinu). Þannig að ég held, að maður geti örugglega útilokað einhver gilin. Þannig að, í rauninni þarf maður bara að leita á ~ hálfs kílómetra svæði.

Þetta er ekki lengur spurning um að finna silfrið, ég er löngu búinn að því. Núna snýst þetta bara um að sækja það.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home