þriðjudagur



Ég las Völuspá í lestinni til og frá Lyngby í dag. Síðan í menntaskóla hef ég lesið hana nokkrum sinnum og finnst hún alltaf verða betri og betri. Uppáhaldskaflinn minn er þegar örlaganornin lýsir ástandinu eins og það er þá stundina, þegar allir eru að vígbúast og á leið til orrustu. Það er alveg magnaður hluti. Í austri rennur ísköld áin Slíður, en í henni fljóta axir og sverð. Í norðri er salur úr gulli, en þar á dvergurinn Sindri heima. Fjarri sólu , nánar tiltekið á Náströndu, er ískaldur salur, hvers veggirnir eru fléttaðir úr lifandi ormum. Þar hírast morðvargar, eiðbrjótar og hjónadjöflar. Þeir þurfa að díla við úlfa og drekann dimma Niðhögg á hverjum degi. Blóð feigra manna litar himinninn rauðan og sól tekur að sortna. Í austri situr glaður Eggþér (líklega einhver húskarl tröllkonu þar) og glamrar á hörpu. Og fagurrauður hani galar í bakgrunn. Æsir vakna við gal Gullinkamba, en í sölum Heljar ræsir sótrauður hani mannskapinn. Allir eru á leið í bardaga.

En það eru líka kaflar sem fara í taugarnar á mér. Til dæmis finnst mér fall Óðins (sem er nú eiginlega aðalmaðurinn) ekki nógu rismikið, miðað við til dæmis fall Þórs. Um Óðinn segir: ...Óðinn fer við úlf [að] vega [...] þá mun Friggjar falla angan (það er, þá mun Óðinn deyja). Á meðan Þór drepur Miðgarðsorminn af miklum móð, gengur níu skerf aftur á bak og hnígur niður, ,,níðs ókvíðinn".

Svo fór endurkoma Baldurs frekar mikið í taugarnar á mér (en hann fékk einhverra hluta vegna að snúa aftur úr Hel eftir að orrustan hafði verið háð og ný kynslóð ása tekin við). Hann, þessi fallega, flekklausa sál; sá sem allir elskuðu, vegna þess að hann var svo fagur; hinn dæmigerði metróhommi. Af hverju gat hann ekki bara dáið? Þetta er pínulítið eins og amerísk bíómynd. Góður endir. Æ, samt. Af hverju þurfti hann endilega að lifa. Af hverju ekki Óðinn eða Þór?

Ég hefði líka viljað vita meira af afdrifum Loka, en hann var hlekkjaður af ásunum eftir dauða Baldurs. Svo, þegar orrustan hófst, losnaði hann og fylkti liði með jötnum gegn ásum. Dó hann í orrustunni, eða gerðist hann einhvers konar skugga-prins? Ég væri alveg til í að þeir myndu finna eitt eintak í viðbót, svona óstytta útgáfu, með viðaukum og öllu, sem myndi svar þessari spurningu, því Loki er án efa einn af athyglisverðurstu karakterum Ásatrúar. Í grunnskóla átti ég einu sinni að leika hann í einhverju leikriti. Ég hlakkaði mikið til og æfði mig að núa saman höndunum, eins og lævísir og undirförlir menn gera yfirleitt. Svo varð mér það á að spyrja kennarann um einhvern óskilgreindan son Þórs, sem mig minnir að hafi heita Ullur eða eitthvað álíka aulalegt. Sem varð náttúrulega til þess að ég þurfti að leika hann í staðinn fyrir Loka. Skíta Ullur! Ég er eiginlega ennþá fúll.

Og að lokum finnst mér alltaf eins og einhver kristinn maður hafi komist í handritið og laumað inn í einu versi (næstsíðasta vísan, nr. 66), en það fjallar um hinn nýja Guð, þann sem öllu ræður í hinum nýja heimi. Kvæðin eru bókfærð einhvern tímann eftir kristnitökuna og það er eitthvað svo heppilegt að segja: Jæja, nú eru öll goðin dáin og nýr gæi kominn í brúna. Og hann heitir Kristur. Jesú Kristur.

Jæja, svo er það Hávamál á morgun.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home