þriðjudagur


Fyrirlestur Gorbatsjovs

Eftir ágætum krókaleiðum nældi ég mér í miða á fyrirlestur Gorbatsjovs nú um daginn. Áður en Gorbatsjov tók til máls, ávarpaði okkar ástkæri forseti, herra Ólafur Ragnar Grímsson, áhorfendur. Hann fullyrti að merkustu menn 20. aldarinnar hafi verið þrír: Winston Churchill, Ronald Reagan og Michail Gorbatsjov.

Hvernig honum datt þessi vitleysa í hug er óljóst. En ef ég ætti að giska, hefur það eitthvað að gera með slæmt mataræði eða ónógt blóðflæði til heilans. Annars hef ég ekki hugmynd.

Svo hélt hann áfram og sagði frá einhverjum vini sínum í MIT, sem hafði víst ágætt álit á leiðtoganum fyrrverandi. Að lokinni ræðu risu áhorfendur úr sætum einn af öðrum og hrópuðu: Bravó! Bravó!

Nei. Það gerðist ekki. Áhorfendur þögðu, holir að innan eftir ræðu forsetans, og biðu eftir næsta ræðumanni.

Dagskráin hélt áfram og Gorbatsjov steig á svið. Fyrirlesturinn var ágætur, en þó illskiljanlegur, þar sem túlkurinn talaði ensku í kross við rússnesku Gorbatsjovs. Að honum loknum var boðið upp á spurningar.

Mér fannst skemmtilegast að heyra, hvað Rússar vissu mikið um Bandaríkjamenn. Þeir öfluðu upplýsinga um innanbúðarmál Bandaríkjanna með „sínum leiðum“.

Blaðamaður frá Fréttablaðinu rændi tíma Gorbatsjovs með óspennandi spurningu um viðhorf hans til rússnesks morðmáls, þar sem fræg blaðakona var myrt. Jújú. Spurning sem „átti rétt á sér“, en það veit Guð að enginn hafði áhuga á skoðun fyrrum leiðtogans á þessu tiltekna máli.

Nokkrar áhugaverðar spurningar fylgdu í kjölfarið, þangað til Guðlaugur Þór biður um orðið. Hann kynnti sig og bar á borð ágætlega metnaðarfulla spurningu. Gorbatsjov svarar í löngu máli. Tíu mínútum síðar, klukkutíma of snemma, yfirgefur Guðlaugur Þór samkomuna, búinn að fá þeirri spurningu svarað sem brann svo heitt í brjósti hans.

En það er bull.

Auðvitað var Guðlaugi sama um svarið. Hann var bara að auglýsa sjálfan sig (og laumaði sér út um leið og hann var búinn að því). Prófkjörið er á næsta leiti og hvert tækifæri gripið til þess að fanga athygli fjöldans. Eins gott að spyrja erfiðrar spurningar til þess að allir sjái hvað hann er klár. Þetta var hallærislegt múv.

Gorbatsjov lauk máli sína á slaginu sjö (sem var reyndar ágætt, umræðurnar hefðu ekki mátt vera lengri) og ég hélt heim á leið. Þrátt fyrir einstaka bakslag, var ég ánægður með fyrirlesturinn. Ég gef honum 9,5 í einkunn.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home