sunnudagur

Ævintýrið um Gosa

Sagan byrjar heima hjá afskaplega einmana trésmiði, sem á sér þá ósk heitasta, að eignast barn. Venjulegir menn myndu reyna að finna sér konu, en klikkhausinn ákvað að smíða sér trédúkku í staðinn. Lítill ljósálfur heyrir óskina og blæs lífsanda í nasir dúkkunnar. Trésmiðurinn kallar dúkkuna Gosa.

Einhvern veginn kemst óprúttinn óþokki yfir Gosa og pínir hann til þess að dansa í brúðuleikhúsinu sínu. Hann kynnir atriði Gosa sem „strengjabrúðu án strengja“. Ok. Það er náttúrulega bara fáránlegt. Hann á lifandi spýtustrák. Af hverju kynnti hann ekki sýninguna á þeim forsendum?

Innskotspæling. Er óprúttinn óþokki það sama og prúttinn þokki? Hvernig er prúttinn maður? E.t.v. dregið af orðinu prúður; sómakær maður með sitt á hreinu? Kannski. En hvað er þá þokki? E.t.v. mjög þokkafullur maður; maður sem ber af sér góðan þokka - sannkallaður þokki.

Önnur pæling. Í gegn um tíðina, hef ég lýst einni og annarri stelpu sem mjög þokkafullri. En gengur þetta ágæta lýsingarorð ekki bara í þá áttina? Gæti maður til dæmis lýst sjálfum sér sem þokkafullum einstaklingi? Í hvers konar hugarástandi þyrfti maður að vera, til þess að

a: Það hljómaði sem rétt lýsing á eigin ástandi.
b: Það hljómaði sem rétt innlegg í samræðuna.

Skal ekki segja..

Aftur að Gosa: Einhvern veginn skolast minningin um ævintýri hans til í höfði mínu. Á einum tímapunkti bjó hann í landi, þar sem allir voru að breytast í asna. Vafalaust hefur verið einhver undirliggjandi boðskapur í þessum hamskiptum, en ég hef verið of ungur til að skilja hann.

Gosi kominn með asnaeyru

Fyrir rest er hann kominn inn í magann á hvali. Af myndunum að dæma, var maginn eyðilegur og fullur af lofti. Eftir á að hyggja, veltir maður því fyrir sér hvernig í ósköpunum dýrið náði að halda sér í kafi. Það hefði náttúrulega bara á að fljóta upp. En jæja. Jæja já.

Sagan endar þannig, að Gosi breytist í alvöru dreng og faðmar trésmiðinn. Þetta er nú meira ævintýrið.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home