miðvikudagur



Ég setti inn
myndir frá því í sumar þar til nýlega.

Vigdís Finnbogadóttir smalaði saman hópi karlmanna til að leysa launamisrétti kvenna. Að því tilefni datt mér í hug að skrifa aðeins um baráttu þeirra. Gef ekki mikið fyrir hana. Konur ættu nú bara að þakka fyrir að hafa fengið kosningaréttinn, þarna árið 1915. Og hvað svo? Á ekki bara að leyfa dýrum að kjósa næst? Og hverju svo? Plöntum? Bílum? Fatnaði?

Nei nei. Smá grín á fimmtudegi. Það eru bestu dagarnir. En ég ætlaði að rabba aðeins um jafnréttisbaráttuna. Konur fá að staðaldri minni laun en karlar og það er staðreynd. Og konur vilja jafna þennan mun. Ekkert sjálfsagðara. Þá er spurningin: Hvar liggur vandinn? Og hvernig er hægt að laga hann?

Þegar talað er um launamun, geri ég ráð fyrir að verið sé að bera saman kynin á sambærilegum starfsvettvangi. Þannig að karlkyns læknar fá e.t.v. 20% meira að staðaldri en kvenkyns læknar. Ok. Það ætti ekki að vera erfitt að tækla launamisrétti í ríkisrekstri. Þar eru stefnumótanir og reglugerðir í höndum pólitíkusa [1]. En í einkageiranum ríkir frumskógarlögmálið. Þar fá einstaklingar borgað eftir getu. Samt eru konur sjónarmuni lægri. Nú er ég ekki að segja að þær séu getuminni en karlanir og líklega eru bæði kynin jafnhæf. Málið er bara, að vinnuveitendur borga launaþegum sínum eins lítið og þeir mögulega geta. Og ef þeir komast upp með að greiða konum lægri laun, að þá gera þeir það. Að sjálfsögðu.

Ég held, að konur séu að benda í vitlausar áttir. Þær virðast alltaf spyrja: Hvar eru gallarnir í kerfinu og hvernig getum við lagað þá? Sjálfsögð spurning. En á frjálsum markaði eru einstaklingar fyrst og fremst metnir að verðleikum eftir hæfni, ekki kyni. Þess vegna er gallinn ekki í kerfinu, heldur í nálgun kvenna á það. Það hlýtur að vera. Þær ættu frekar að spyrja: Hvernig getum við aðlagað okkur betur að kerfinu?

Ég held að svarið felist í áræðni. Með því að vera seigari, brattari, þrjóskari, frekari og ásælnari yxi þeim örugglega fiskur um hrygg. Er það skrýtið að karlar eru í meirihluta í stjórnunarstöðum, þegar flestir umsækjendur eru karlkyns? Og er það skrýtið að karlar eru í meirihluta í raungreinafögum (sem oft borga vel), þegar flestir raungreinanámsmenn
eru karlkyns? Og loks segir mér svo hugur, án þess að hafa kannað það neitt sérstaklega, að karlmenn geri að staðaldri hærri launakröfur en konur. Og ef það reyndist rétt, væri þá skrýtið að þeir fengju hærra borgað? Nei, ég spyr.

Svona að lokum: Ég nenni ekki að fá einhverja sparðatíninga inn á kommentakerfið um kúgun kvenna. Þannig rökræður eru yfirleitt mjög ómálefnalegar og leiðinlegar
. Auk þess er ég ekki að halda neinu fram, og ætti þ.a.l. ekki að þurfa að svara fyrir neitt. Það eina sem ég er að gera, er að velta upp þeirri spurningu hvar konur ættu að leita vandans. Í kerfinu eða eigin ranni?


[1]
Sem eru meðal annarra kosnir af konum (sbr. skandalinn árið 1915)

4 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Grín á fimmtudegi?
Þú veist að það er miðvikudagur í dag :P

Til hamingju með meistaravörnina, vill svo skemmtilega til að ég útskrifaðist degi eftir að þú varðir þitt verkefni, tilviljun...???

...eða er Höfundur lífsins að spila með okkur ???

miðvikudagur, 07 desember, 2005  
Anonymous Nafnlaus said...

Fordómafullur, afturhaldssamur kvenhatari. Svona skrif sýna í hnotskurn blekkingarleik karlmanna. (Fimmtudagsgrín, ákkurat)

miðvikudagur, 07 desember, 2005  
Blogger Jón said...

haha, ég keypti það alveg að það væri fimmtudagur í dag...

miðvikudagur, 07 desember, 2005  
Blogger Jói Ben said...

Miðvikudagur í dag? Þá er þetta bara miðvikudagsgrín í staðinn. Ætti ekki að skipta máli hvar í vikunni maður tekur niður þegar grín er annars vegar. (Samt er laugardagsgrínið best. Þá fer Spaugstofan á stjá og Randver klæðir sig upp í kvenmannsföt með ófyrirsjáanlegum afleiðingum).

miðvikudagur, 07 desember, 2005  

Skrifa ummæli

<< Home