þriðjudagur



Í gær varði ég mastersverkefnið mitt. Ég var fínn í tauinu, í jakkafötum með hatt og eldrauðan mittislynda vafinn um mig þveran. Einhverra hluta vegna hélt ég að það væri sniðugt að hafa spænskan undirtón í fyrirlestrinum, þannig að alltaf þegar ég gat reyndi ég að sletta á spænsku. Er ekki viss um hversu sniðugt það var.

Ég kynnti mig í upphafi fyrir prófdómurunum, sem voru þrír talsins. Olé! Jeg habla senjor Jóhannẽz. Þeir kinkuðu kolli á móti og sögðu fátt. Og ég byrjaði fyrirlesturinn.

Á mínum vegum voru fáir. Ein stelpa og einn strákur. Þau léku hlutverk sín vel, og var stelpan klædd léttúðlega, en strákurinn í teinótt pótintátaföt - var meira að segja með einglyrni og kúluhatt. Vinkona mín flissaði glyðrulega á réttum augnablikum og vinur minn kinkaði kolli þegar ég sagði eitthvað gáfulegt. Þau fá eitt kúlstig frá mér.

Ég talaði hratt og örugglega. Glæru eftir glæru gekk fyrirlesturinn, og spænski hreimurinn virtist vera að virka. En fyrirlesturinn var of langur, og þegar 45 mínútur voru liðnar var mér tilkynnt að nú yrði ég að ljúka máli mínu, ellegar hlyti ég refsingu. Og einn prófdómarinn át þessi orð eftir sessunauti sínum: Refsingu... Líííkamlega refsingu... Og lét skína í putta-yddarann. Ég hrópaði: Æ, Caaaramba! Og lauk máli mínu á stundinni (sem var allt í lagi, því ég var hvort eð er að vera búið).

Eftir kynninguna var kaffi. Ég kvaddi vini mína með tárum og trega, og undirbjó mig fyrir seinni hálfleik: Vörnina sjálfa.

Ég hafði brugðið mér á klósettið og áður en ég kom inn hleraði ég prófdómarana í gegn um hurðina. Þeim lá þungt rómurinn. Einn kvartaði yfir því að putta-yddarinn væri ekki nógu beittur, annar svaraði því til að það væri bara betra. Og þriðji muldraði einhver torkennileg orð, að því er virtist vera á latínu. Þetta leit ekki vel út.

Ég gekk inn.

Spurningarnar voru þungar. Alveg hræðilegar. Dæmi um spurningu frá Jesper: Segðu mér, Jóhannes. Hvað er ég að hugsa... núna? Hvernig er hægt að svara þessu? Ég skaut á túnfífil, en hann sagðist vera að hugsa um fjallasóley, og páraði eitthvað niður í minnisbókina sína. Eftir mikið japl, jaml og fuður barði einn þeirra í borðið. Nú er nóg komið! Komdu með vísifingur! Hann dró fram yddarann. Hinir prófdómararnir, reyndu að róa hann og sögðu sefandi röddu að ég ætti skilið að fá séns, rétt eins og allir aðrir. Að hann mætti ydda mig eftir vörnina, en ekki núna. Hann settist aftur í sætið sitt niður með skeifu á túllanum.

Þá datt mér nokkuð sniðugt í hug. Að svara öllum spurningum sem þeir spurðu, með spurningu. Þannig að í staðinn fyrir að svara, tókst mér að plata þá til að svara öllum spurningunum sjálfir. Til dæmis spurði Lars: Þú segir hér að harðar skorður geri vandamálið að LP-erfiðu vandamáli. Er það rétt? Þá svaraði ég: Já, sko, mig langar að svara þessari spurningu með spurningu. Er rétt, að harðar skorður geri vandamálið LP-erfitt? (notaði spurnartón) Og þá svaraði Lars: Nei! Hvernig spyrðu? Hvílík fásinna! Heldurðu að ég sé algjör bjáni? Ég hristi höfuðið og sagði honum að hann stæði sig vel.

Þessa brellu notaði ég í gegn um alla vörnina, og þegar henni lauk hafði ég svarað öllum spurningunum rétt. Mér var létt þegar ég sá Jesper fjarlægja putta-yddarann. Ég var hólpinn.

Þeir sendu mig út á meðan þeir réðu ráðum sínum. Ég heyrði þá hjala í gegn um hurðina. Eftir þónokkra stund kölluðu þeir á mig. Það var René sem talaði: Þú stóðst þig með sóma. Hér er heiðursmedalía skólans. Lifðu í lukku. Og Lars bætti við í spaugilegum grínaratóni: En ekki í krukku! Og við gerðum okkur upp hlátur. Að svo búnu tókumst við í hendur og kvöddumst.

En þannig var það. Nú er ég orðinn verkfræðingur. Já, skólaárin, ég man eftir þeim eins og gærdeginum. Já, það voru góðir tímar.

Og hvað svo?

7 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Svo er bara að taka doktorsnám í kvaðratrótum. Eða kannski bara gerast trúarleiðtogi...

þriðjudagur, 29 nóvember, 2005  
Anonymous Nafnlaus said...

Til hamingju. Nú skal jólölið teigað og Honkitonkíð spilað.

miðvikudagur, 30 nóvember, 2005  
Blogger T said...

Þar sem ég er meðlimur í sértrúarsöfnuði Palla verð ég bara að óska þér til ham-ham. Til ham-ham Jói.

miðvikudagur, 30 nóvember, 2005  
Anonymous Nafnlaus said...

Já hvað nú???
Til hamingju með þennan áfanga.

Kv. Savnhildur.

miðvikudagur, 30 nóvember, 2005  
Blogger Palli said...

Til ham-ham Jói. Ef þér leiðist með nýju gráðuna máttu ganga í söfnuðinn. Ég krefst aðeins mánaðarlegra smákökufórna og eins eista (til að leika við eistað sem ég fékk frá Tomma).

fimmtudagur, 01 desember, 2005  
Blogger Jói Ben said...

Takk takk. Ég er ekki viss um að mig langi í þennan söfnuð. Eða, jú. Mig langar. En mér finnst þetta frekar dýr fórn. Geturðu ekki bara notað hitt eistað hann Tomma? Geturðu nokkuð spurt hann fyrir mig?

Honkítonk? Ertu kannski að tala um lagið Tonk of the Law? Því það er frekar gott lag. Já, ég skal spila það.

fimmtudagur, 01 desember, 2005  
Blogger Rut said...

til hamingju!
heppinn að losna við puttayddarann, maður!

fimmtudagur, 01 desember, 2005  

Skrifa ummæli

<< Home