Í dag fór ég á mastersvörn hjá ágætum vini mínum. Ég mætti að sjálfsögðu aðeins of seint og í öllum asanum fór ég á stofuvillt. Í þeirri stofu sem ég hafði óvart ratað í var önnur mastersvörn í gangi. Og þar sem ég var á annað borð mættur, og þar að auki of seinn, varð ég náttúrulega að setjast niður eins og að ég hafi ætlað mér að fara á þessa vörn. Strákurinn sem var að verja var stór og luralegur, og hafði óvenju þumbalega rödd. Hann leit reglulega út um gluggann, flóttalegur til augnanna. Ég sá það strax að hann var ekki í góðum málum.
Eftir 20 mínútur af þunglammalegu þöngulhausarausi stoppaði kennarinn hann. Greyið strákurinn vissi upp á sig skömmina og reyndi að forðast beint augnsamband við áhorfendur. Kennarinn tók til máls og var myrkur í máli. Hann sagði að sér þætti leitt að þurfa taka þessa ákvörðun, en að hún hefði engu að síður verið tekin. Það næsta sem gerist, er að kennarinn gengur til mastersnemans með svartan borða í höndunum og bindur fyrir augun á honum. Hinir prófdómararnir rísa á fætur og draga upp byssur. Aðalkennarinn telur niður frá þremur, og aumingja mastersneminn lá steinkaldur á gólfinu. Salurinn þagði á meðan aftöku stóð. Svo pískruðu prófdómararnir eitthvað sín á milli og mér heyrðist þeir vera að deila um hver ætti að fela líkið. Til þess að gera langa sögu stutta, bauðst ég til að fela það fyrir þá. Ég veit ekki afhverju ég gerði það, ætli ég hafi ekki bara gleymt mér í hita leiksins. En jæja. Þeir láta mig fá skóflu og poka og ég kveð samkomuna, með drumbinn í eftirdragi.
Ég gekk framhjá vörn vinar míns og gægðist inn. Honum virtist ganga vel, því prófdómararnir voru að tollera hann. Ég hélt áfram og heyrði sönginn: he's a jolly good fellow and he's a jolly good fellow... að baki mér. Til þess að gera langa sögu stutta aftur, nennti ég ekki að grafa líkið og faldi það inni í sængurverinu hjá einum félaga mínum og fór heim.
Núna er ég pínu stressaður. Jú, ég var búinn að undirbúa mig andlega fyrir líkamlega refsingu. En ekkert í líkingu við þetta. Ég verð bara að leggja enn harðar að mér ef ég á að sleppa við aftöku. Og ætla að byrja.... núna.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home