fimmtudagur



Mér hefur verið tíðrætt um mastersverkefnið mitt undanfarna daga, enda eru áætluð skil eftir viku. Ég á eftir að skrifa mjög mikið á þessum tíma, og er ekki viss um að ég nái deadlæninu. Þess vegna ákvað ég að svindla pínulítið um daginn. Það hefði ég ekki átt að gera.

Þannig var, að ég var á gangi í kínahverfinu hérna á Amager og datt inn á flóamarkað. Þar voru alls konar skransalar að pranga út vörum sínum auk ýmissa listamanna, eins og til dæmis eldgleypir, slöngutemjari og tveir pokémon-þjálfarar að láta dýrin sín slást. Einn listamaðurinn fangaði athygli mína sérstaklega. Töframaðurinn. Hann var í svörtum kjólfötum með pípuhatt og stóð við hliðina á litlum trékistli, sem var alsettur glimmeri. Ég fór til hans og spurði um kassann. Hann svaraði því til að þetta væri töfrakassi sem gæti látið óskir rætast. Maður þyrfti bara að setja einhvern hlut í kassann sem tengdist óskinni, loka honum, loka augunum og óska. Og þegar kassinn er opnaður aftur er óskin búin að rætast. Ég var ekki lengi að láta hann fá smá aur, leggja ritgerðina mína í kassann (eða það sem búið er af henni) og óskaði mér: Ég óska þess að þegar kassinn opnast aftur, verði ritgerðin fullkláruð. En, þá gerðist það. Þegar töframaðurinn opnaði kassann var ritgerðin horfin og kominn blómvöndur í staðinn. Hann rétti mér blómin og sagði að ósk mín hefði verið uppfyllt. Ég varð alveg brjálaður og heimtaði endurgreiðslu, en þá sveiflaði maðurinn einhverjum sprota og breyttist í tíu hvítar dúfur sem flugu hver í sína áttina.

Og nú er ég í pínu klípu. Á ég að byrja aftur að skrifa, eða á ég bara að skila vendinum? Gæti kannski skorað stig út á hugrekki, eins og strákurinn í Harvard sem átti að svara spurningunni um hvað hugrekki væri. Hann skrifaði ,,þetta" og skilaði. Hann fékk tíu. Nei, ég veit ekki. Ég hefði átt að taka afrit.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home