Það er víst hefð hér í DTU, að í upphafi hverrar annar er einum mastersnema fórnað til dýrðar menntagyðjunnar. Athöfnin fer fram í byggingu 101 og eftir hana er fórnarlambið matreitt og kennurum skólans þjónað til borðs. Þetta á víst að tákna, að vegurinn að heiman er vegurinn heim, og að allt sé í heimi hverfult hér. Jæja, hvað um það. Hefðir eru hefðir. Nema hvað, að núna, eftir að ég heyrði af þessari athöfn, er ég byrjaður að sjá leiðbeinendurna mína í nýju ljósi. Þeir eru með einhvern undarlegan glampa í augunum, og ég get svo svarið það að annar þeirra sleikti út um um daginn. Það má vera að þetta sé bara ímyndun, ég á það til að mála skrattann á vegginn. En, samt. Það er eitthvað bogið við þetta. Ég veit ekki.
(Svona til öryggis, ef grunur minn reynist réttur, er ég búinn að koma af stað þeim orðrómi að Torben, feiti strákurinn sem er alltaf að sjúga upp í nefið, sé orðinn þreyttur á lífinu. Kannski verður það til þess að honum verður fórnað þetta árið. Vonandi.)
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home