Um daginn endurnýjaði ég kynni mín við Glám og Skrám [1]. Ég veit ekki hvort ég sé eitthvað ruglaður, en mér fannst þeir bæði mjög fyndnir og svo fannst mér tónlistin líka vera góð. Mjög góð. Í alvöru. Ég mæli með þeim.
Fjaðrafokið í kring um Baugsmiðlana virðist vera að sjatna. Niðurlæging þeirra er alger og ég held að þeir skammist sín bara hálfpartinn. Og það mega þeir líka alveg gera. Ég las það á mbl.is að Baugur vill opinbera rannsókn. Já, hvers vegna ekki? Segi ég. Ef hægt er að smala saman hlutlausum aðilum, er þá ekki tilvalið að fara bara almennilega í saumana á þessu máli. Í tilkynningunni svara þeir líka ásökunum. Mér fannst það frekar þunnt og bara hálf asnalegt. Þeir snúa meðal annars út úr, og segja að Mogginn sé að gagnrýna réttarfar í Bandaríkjunum með því að setja út á einkaspæjarann [2]. Hvílík della. Og hvar eru þungavigtarmennirnir núna? Þeir sem stukku fram á sjónarsviðið um helgina og fögnuðu frumkvæði Fréttablaðsins. Af hverju þegja þeir? Og hvar er vindbelgurinn Ágúst Ólafur? Er hann ennþá í stuði?
Baugsmiðlarnir munu, held ég, smám saman hljóðna. Í fréttum stöðvar 2 var augljóst hvert átti að beina umræðunni. Jónína vildi Jeppa var fyrsta frétt. Íslendingar leiðir á þessu máli önnur frétt. Enginn vandi að komast í tölvupóst hjá öðrum þriðja frétt, en hún er líklega gerð til þess að dreifa umræðunni frá því að um innanhúsmál sé að ræða hjá OgVodafone (annars er það bara ágiskun, þeir hafa örugglega hreinan skjöld) [3].
Ég keypti mér buxur í dag. Einhver myndi segja að ég væri með buxurnar á hælunum þessa dagana. Einhver annar myndi segja að ég væri með hjartað í buxunum. Enn einhver myndi segja að ég væri með hjartað í buxunum og buxurnar á hælunum. Ég klæddi mig í þær í búðinni og gekk heim. Á leiðinni var brosað svo fallega til mín. Það veit á gott. Því eins og segir í gamalli skruddu: Broslaus brók, veit á vá.
Annars er ég búinn að vera sloj undanfarna daga og ekki skilað miklu í vinnu (en hins vegar hef ég fylgst alveg helling með íslenskum fréttum). Í dag varð ég öllu hressari og byrjaði eiginlega upp á nýtt. Maður á bara að hvíla sig þegar maður er veikur, allt sem maður skrifar þá er drasl.
Jæja, þetta er ágætt. Ætla að kyssa gömlu konuna sem sefur undir rúminu mínu góða nótt og detta í háttinn.
[1]
Fyrir þá sem ekki þekkja Glám og Skrám, eru þeir aðalsöguhetjurnar á barnaplötu sem var gefin út líklega einhvern tímann um 1986.
[2]
Ég væri til í að vera einkaspæjari.
[3]
Svo var reyndar frétt um brotthvarf Davíðs Oddsonar úr stjórnmálum. Og sagt að hann hafði kvatt með fjölmiðlafrumvarpið á vörunum, og þarmeð ýjað að því að það hafi haft eitthvað með brotthvarf hans að gera. Frekar ósmekklegt, svona í ljósi þess að þetta á bara að vera létt frétt. Það hefði ekki kostað þá neitt að segja bara að hann hafi hætt með bros á vör. Ég meina, hann var forsætisráðherra í 14 ár. Er ekki rétt að klappa honum aðeins á bakið fyrir það?
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home