sunnudagur



Jæja, nú ætla ég að skrifa um eitthvað annað en mastersritgerðina mína.

Í menntaskóla átti ég alltaf frekar erfitt með að skrifa ritgerðir. Ég held að fyrst um sinn hafi ég ekki fattað út á hvað þetta gekk. Ragnheiður heitin Briem sagði á fyrsta tímastílnum mínum að ég væri villimaður sem þyrfti að temja. Ég greip hrottalega í hálsmálið á henni og svaraði því til, að þessi villimaður hér yrði sko ekki taminn - og sérstaklega ekki af einhverri gamalli dollu. Nei. Það er lygi. En, jæja. Ég held að ég hafi ekki fengið skrifvitund fyrr en ég byrjaði í ritstjórn eins skólablaðsins. Þá hætti mér að vera sama hvernig ég reiddi efnið fram. Og eftir það varð ég mun meðvitaðri um eigin skrif og að sama skapi gagnrýnni á þau.

Þó að ég væri kominn með nýtt og betra hugarfar, hélt ég áfram að fá 7,5 fyrir tímastílana mína, en nú var það Ólafur Oddsson sem var dómarinn. Hann hafði líka lúmskan húmor fyrir bullinu í mér. Ég man einhvern tímann þegar hann var að útdeila ritgerðum sem átti að vera um siðferði í vísindum hvernig hann glotti þegar kom að mér. Mín ritgerð fjallaði að mestu leyti um einhvern mann sem hafði breyst í flugu með tilheyrandi siðferðisvangaveltum. Í horninu stóð 7,5 eins og venjulega og þar sem fluguævintýrið byrjaði var hann búinn að gera plús.

Núna... Ohh... núna er þetta ekki alveg svona einfalt. Ég er ekki viss um að prófdómararnir hefðu húmor fyrir mann-flugu nálguninni á The intelligent dial-a-ride verkefnið. Þeir myndu örugglega senda mig einn hring í putta-yddarann ef ég tæki upp óhefðbundinn skrifmáta. Það villtasta sem ég hef þorað að láta út úr mér í þessari guðsvoluðu ritgerð, er eftirfarandi setning: The most insistent questions burning in curious minds, are how TIDAR works and why the customer should use TIDAR. Núna, þegar ég horfi á þessa aumu, aumu setningu, verð ég pínulítið dapur. Ég er kominn í sama mót og allir aðrir. Engar mann-flugur lengur. Bara þurrar staðreyndir og ferkantaðar röksemdafærslur. Það er búið að temja villimanninn. Búhúhúú...

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home