mánudagur



Flestir forsvarsmenn stjórnarandstöðunnar hafa stigið varlega til jarðar og passað sig að vera ekki of fljótir á sér að fella dóma í Baugsmálinu. Í kvöldfréttunum var talað við Steingrím J. um málið. Honum fannst augljóslega ekki leiðinlegt að tala um spillingu og Sjálfsstæðisflokkinn í sömu setningu, en hann steig varlega til jarðar.

Svo horfi ég á
Kastljósið í gær, þar sem Birgir Ármannsson og Ágúst Ólafur Ágústsson takast á um málið. Fyrir þáttinn hafði ég ágætt álit á þeim báðum, en það átti eftir að breytast. Ágúst, varaformaður Samfylkingunnar, kom mér fyrir sjónir sem yfirgangssamur vitleysingur og fauti, sem virtist vaða á bulli og skvetti því í kring um sig með tilheyrandi gassalátum. Hann var frekar illa máli farinn og vafðist oftar en ekki tunga um tönn. Á einhver hátt minnti hann mig á Össur Skarphéðinsson (sem ég hef ágætt álit á, að öllu öðru leyti en sem stjórnmálamanni) eða vorn heittelskaða forseta Ólaf Ragnar, sem bulla og bulla, en tekst oft að fela það á bak við málskrúð og ruglanda. Ágústi tókst ekki að fela það. Hins vega kom Birgir ágætlega út. Hann beitti fyrir sig staðreyndum og lét vitleysuna í Ágústi ekki slá sig út af laginu.

Ágúst segir: Þeir voru þarna á einhverjum mjög skrýtnum plott-fundi, ef svo mætti segja, og það er eins og þeir haldi að Íslendingar viti ekki sínu viti. Og ég tel að firringin í þessu máli sé alveg alger - og við þurfum auðvitað að skoða þetta mjög vel í því samhengi sem þetta mál er. Hvers konar bull er þetta? Sundurlausar setningar með mjög neikvæðum tóni. Hann byrjar á því að slengja fram því sem staðreynd að Styrmir, Jón Steinar og Kjartan hafi hittst á plott-fundi. Þeir hafa nú margsinnis gert grein fyrir efni fundarins, og það var að ræða hæfi Jóns í þessu máli. Það hlýtur að mega. Svo segir hann að þeir haldi að Íslendingar viti ekki sínu viti. Firringin í þessu máli er alger (í mínum eyrum hljómar þetta sem innantómt orðaskrum). Og við þurfum auðvitað að skoða þetta mjög vel í því samhengi sem þetta mál er. Jú, því er ég sammála. En mér sýnist Ágúst ekki gera það sjálfur. Hann drekkur í sig samsæriskenningar í blindni og lítur á þær sem heilagan sannleik.

Jæja jæja. Áfram heldur bullið. Birgir kemur einstaka sinnum inn með góða punkta. Að málið verði sótt og varið á lögfræðilegum forsendum. Að menn hafi talað saman, og bent Sullenberger að leita til lögmanns. Snertir það með einhverjum hætti rannsókn lögreglu? Ágúst skellir skollaeyrunum við því eins og sannur þöngulhaus og hverfur aftur til spýju sinnar. Ég held að Samfylkingin sé ekki vel sett með þennan mann í frontinum.

Og svo er það lausn Ágústs: Setjum þetta bara í opinbera rannsóknarnefnd, setjum þetta í pólitíska nefnd sem stjórnarskráin gerir ráð fyrir og rannsökum þetta. Birgir spyr: Hvað er að rannsaka? Að einhverjir menn hafi hittst og bent manni á góðan lögfræðing? - En Birgir er kaffærður um leið með orðagjálfri og yfirgangi.

Æ, þetta er bara ekki alveg nógu töff.

Updeit: Kenning mín, að um fléttu væri að ræða af hálfu Fréttablaðsins virðist hafa verið rétt, því að í dag koma þeir með nýjar upplýsingar um að Jón Steinar hafi sent Styrmi ritstjóra Morgunblaðsins tölvupóst með gögnum í málinu. Með þessu segja þeir að Jón Steinar hafi brotið ,,Hippókratesareið" lögfræðinga og því eigi að svipta hann lögfræðiréttindum. Já, ég á hreinlega ekki orð núna. Hafi þeir verið ómerkilegir áður, að birta tölvupósta Jónínu, er það ekkert miðað við þetta. Tilgangur þessa nýju uppljóstrana virðist eingöngu vera að vega að Jóni Steinari sem lögmanni. Draga hann í svaðið. Og, já. Hvernig í ósköpunum hefur Fréttablaðið allt í einu aðgang að tölvupóstsendingum á milli Jóns Steinars og Styrmis? Má þetta? Hnýsast í bréf annarra og birta þau á síðum blaðanna. Er þeim ekkert heilagt? Það verður gaman að sjá hvernig þeir gera grein fyrir þessu. Annars, ef rétt reynist, lítur þetta ekki vel út fyrir Jón Steinar. Ég held samt að það hljóti að vera eðlileg skýring á þessu, sem Fréttablaðið hefur kosið að líta framhjá.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home