þriðjudagur

Fyrstu dagarnir í Berlín

Nú er ég búinn að vera í Berlín í eina viku. Langar til þess að rita nokkrar línur um borgina. Ég skipti hugrenningunum upp í nokkra flokka til þess að auðvelda frásögnina.

Fyrstu kynni
Ég vissi eiginlega ekkert hvað tæki við, þegar ég flutti út. Til öryggis, hafði ég meðferðis nýjustu bók Þorgríms Þráinssonar, Hvernig gerirðu konuna þína hamingjusama, ef ske kynni að örlögin skyldu leiða mig á bókbrennu. En svo var ekki, því miður. Ég kveikti engu að síður í bókinni, en það er önnur saga.

Fyrstu andartökin ollu vonbrigðum. Berlín var kaldari en ég hafði gert ráð fyrir. Hafði ég tekið ranga ákvörðun með því að flytja út? Nokkur andartök liðu í angist og pínu. Þá skyndilega stoppaði gullfalleg stelpa hjólið sitt og býðst til að segja mér til vegar. Ég tók Berlín í sátt á staðnum.

Þetta atvik finnst mér samt lýsa Þjóðverjum nokkuð vel. Þeir eru allir af vilja gerðir og vinalegir.

Húsnæði
Fyrstu fjóra dagana var ég í góðu yfirlæti hjá Stebba og Rut og litla skæruliðanum þeirra, honum Úlfi. Á fimmta degi hentu þau mér öfugum út um gluggann, en þá var ég búinn að borða allan matinn úr ísskápnum þeirra og eyða öllu sparifénu þeirra í kaup á leikfangaþyrlum handa sjálfum mér.

Næst (fyrir þremur dögum) flutti ég inn til ~35 ára kólombískrar listakonu. Voða indæl og þægileg í umgengni. Íbúðin er á 5. hæð í blokk og upp í hana liggjur 66 þrepa hringstigi, þ.e. hann akkúrat nógu langur til þess að ringla mann.

Fyrsta daginn minn í íbúðinni ræddum við fyrirkomulagið. Eina vikuna þrífur hún og ég þá næstu. – Hljómaði sanngjarnt, ég samþykkti. Næst benti hún mér réttilega á, að hún hefði sjálf þrifið íbúðina fyrir viku síðan og því ætti ég að þrífa íbúðina næst. Helst á morgun. Nú stóð aðeins á samþykkinu hjá mér og ég held að hún hafi skynjað það, því að, af mikilli fórnfýsi, bauðst hún til að taka að sér næstu þrif líka. Ég þakkaði henni fyrir, auðmjúkur á brá og brún, en hugsaði: Ísland 1 – Kólombía 0.

Annars líst mér ágætlega á þessa íbúð. Hún er í góðu hverfi og nálægt greiðum samgöngum.

Næstu skref
Furðulega einföld sannindi ljómuðust upp fyrir mér um daginn: Lykilinn að þjóðfélaginu, er tungumálið. Ef ég læri þýsku, opnast allar dyr. Það er ekki flóknara en það. Þess vegna er ég búinn að skrá mig í þýskunám hérna úti, fjórir tímar á dag í tíu vikur. Þetta er átakanlega langbesti leikurinn í stöðunni.

Svo er ég með fleiri járn í eldinum, sem ég mun segja frá á næstunni. Ég ætlaði að hafa þetta aðeins lengra, en núna er kominn háttatími.

9 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Stiginn akkúrat nógu langur til að ná að ringla mann. Classic. Ég yrði nú örugglega líka bara móður að labba upp fimm hæðir.

þriðjudagur, 23 september, 2008  
Anonymous Nafnlaus said...

Stiginn akkúrat nógu langur til að ná að ringla mann. Classic. Ég yrði nú örugglega líka bara móður að labba upp fimm hæðir.

þriðjudagur, 23 september, 2008  
Anonymous Nafnlaus said...

Stiginn akkúrat nógu langur til að ná að ringla mann. Classic. Ég yrði nú örugglega líka bara móður að labba upp fimm hæðir. Knús, Bíbí

þriðjudagur, 23 september, 2008  
Blogger Guðmundur Jón said...

Stiginn akkúrat nógu langur til að ná að ringla mann. Classic. Ég yrði nú örugglega líka bara (m)óður að labba upp fimm hæðir.
Kel, GJA

miðvikudagur, 24 september, 2008  
Blogger Helgi said...

nú yrði mannStiginn örugglega bara nógu langur til að ná að ringla móður . . . Classic Ég að labba akkúrat upp fimm hæðir líka

Slef,
helgi

Ps. gott að heyra að vel gengur.

fimmtudagur, 25 september, 2008  
Blogger Thor said...

Gangi þér vel í nýju Íbúðinni þinni.
Er ekki við hæfi að skrifa öll Nafnorð með stórum Staf!

Slef, Kel, Knús, Bíbí

Bjarni

fimmtudagur, 25 september, 2008  
Blogger Unknown said...

Treysti að það sé gestaherbergi þarna hjá þessari Kólombísku, við Kriz mætum geðveikir í helgarferð eftir áramót þegar þú ert búinn að átta þig á skemmtanalífinu þarna úti. Þá verður Ísland 3 - Þýskaland 0.

sunnudagur, 28 september, 2008  
Blogger Jói Ben said...

Stiginn akkúrat nógu langur til að ná að ringla agúrku. Classic. Ég yrði nú örugglega líka bara eins og móðir Theresa að labba upp fimm hæðir. Faðm, JB

P.s.
Örvar: Þetta er gott plan.

sunnudagur, 28 september, 2008  
Anonymous Nafnlaus said...

Já, svo þú ert fluttur út. Ekki vitlaus hugmynd.

Vanti þig annað eintak af bók Þorgríms Þráinssonar er ekki lokum fyrir það skotið að ég geti bjargað þér. Því ekki vill maður lenda í því að vera utangátta; líkt og 15 ára gemlingur án landa í trylltu unglingapartíi. Slíkt væri vart til frásagnar.


Þrándur

miðvikudagur, 15 október, 2008  

Skrifa ummæli

<< Home