mánudagur

Ath! Þeir sem ekki hafa áhuga á íslensku máli, geta sleppt því að lesa þennan texta.


Einhvern tímann var Jón Ólafsson, hljómborðsleikari Nýrrar danskrar, með sjónvarpsþátt þar sem hann rabbaði við þekkta íslenska poppara. Þetta var mjög áhugaverður þáttur, þar sem farið var yfir feril viðkomandi í bland við skemmtilegt spjall um ekki neitt.

Í einum þættinum kom Björn Jörundur, söngvari/lagasmiður Nýrrar danskrar, í heimsókn. Jón Ólafsson tók honum eins og hverjum öðrum gesti og fór yfir helstu afrekin. Ég man hvað Jón dáðist að því, hvað Björn var flinkur að semja texta og spurði sérstaklega út í það ferli. Björn svaraði spurningunum af fullri alvöru og lét eins og þessar vangaveltur Jóns kæmu honum ekkert á óvart; hann virtist fullkomlega meðvitaður um eigið ágæti þegar textasmíði var annars vegar. Og aðrir virðast vera á sama máli. Maðurinn er snillingur.

Samt ekki.

Ok. Hann getur samið grípandi melódíur og flott lög. Textinn hittir í mark á þann hátt, að það er auðvelt að syngja og muna hann. En hann er samt drasl. Algjört drasl. Og nú tek ég dæmi. Mörg gítarpartý byrja svona:

Börn!
Og aðrir minna þroskaðir me-enn.
Fór'að grams'í mínum einkamálum,
þegar ég var óharðnaður e-enn.
„Og aðrir minna þroskaðir menn.“ Hvaða aðrir eru þetta? Hann var að tala um börn. Rökréttara væri að segja:

Börn!
Og önnur minna þroskuð börn.

Eða:

Menn!
Og aðrir minna þroskaðir menn.

Eða bara:

Börn!
Og menn sem eru minna þroskaðir en þau.
Þetta er kannski ekki mikill glæpur, en það sem fer í taugarnar á mér er þegar hann byrjar að rembast. Velur þung orð, sem heyrast ekki oft í daglegu tali manna, og skeytir saman í setningu. Og, jú. Setningin virðist vera til vitnis um dýpt skáldsins. Svo djúpt, ó svo djúpt, hann hugsar! En, bíðum hæg. Þetta meikar engan sens.

Dæmi:

Bölmóðssýki og brestir,
bera vott um styggð.
Lymskufullir lestir
útiloka dyggð.
Getur einhver sagt mér hvað Björn Jörundur er að reyna að segja með þessum orðum? Hann lætur þetta hljóma eins og einhverja speki. En þetta er bara drasl. Drasl! Eina ástæðan fyrir því að „styggð“ er notað, hlýtur að vera af því að það rýmar við „dyggð“. Og að hverju beinist styggðin? Hvað er það, sem styggir einstaklinginn? Nei, ég spyr. Og hvernig - í andskotanum - ber sjúklegur bölmóður (svartsýni) og brestir (væntanlega karakterbrestir) vott um styggð? Það er ekki beint orsakasamhengi þarna á milli. Þetta er bara bull. Og næsta lína: „Lymskufullir lestir“. Þ.e. lævísir lestir. Hvernig geta lestir veri lævísir? Og hvers vegna í ósköpunum ættu lestir (sama af hvaða tagi þeir eru), að útiloka dyggð. Það er ekkert sem beinlínis útilokar dyggð. Æ, æ, æ! Mig verkjar í hausinn, þetta er svo rembingslegt! Það er bara kjánalegt að kryfja þennan texta frekar.

Jæja, ég nenni þessu ekki lengur. Því enda þessi skrif hér.

12 Comments:

Blogger T said...

Já, það var nú eitthvað annað þegar 6.Y yrkti um konung nokkurn.

þriðjudagur, 04 apríl, 2006  
Blogger Arni said...

Þú hittir naglann á höfuðið. Lagahöfundar á borð við Björn Jörund hafa ekki unnið heimavinnu sína hvað textagerð varðar og þá eiga þeir ekki að miða of hátt í þeim efnum. Kappinn er vel fær um að semja góðar laglínur enda hafði hann eflaust plokkað gítarinn nokkuð lengi þegar þessar lagasmíðar með rembingstextunum hans litu dagsins ljós. Margir lagahöfundar eru oft ekki mennirnir til að leysa lífsgátuna sem þeir eru að reyna að leysa.
Of háfleygur texti sem rembist getur eyðilagt ágætis lag. Ef laglínan er góð er hægt að leita til fagmanns í textagerð, Hljómar og Trúbrot vissu þetta. Ekki að þeirra textar séu djúpir, en þeir áttu ekki að vera það. Í poppi finnst mér orðin vera frekari áherslur til að magna jafnvel upp stemmingu lagsins. Textinn þarf ekki að vera djúpur. Ég hlustaði á lag með hljómsveitinni Ég um daginn, Bambino El Oro. Fannst lagið gott en heyrði varla hvað verið var að syngja um, heyrði stöku orð og það er einhver stemming yfir laginu.
Textar Pink Floyd eru háfleygir og virka ágætlega þótt kannski vanti samhengið. Þeir myndu e.t.v. ekki virka við lakari lög, þeir standa ekki einir og óstuddur undir sér.

þriðjudagur, 04 apríl, 2006  
Anonymous Nafnlaus said...

Í sambandi við fyrri pælinguna með aðra minna þroskaða menn, þá er hann ekkert endilega að bera þá saman við börnin heldur gæti hann kannski bara verið að bera þá saman við sjálfan sig...

þriðjudagur, 04 apríl, 2006  
Blogger Jói Ben said...

Tommi: Orti 6.Y einhvern tímann um konung? Hvern? Við hvaða tilefni? Og hvernig var þetta ljóð? Ég man ekkert eftir þessu. - Ekki nema þú sért að tala um starfssemi leyniklúbbsins? Ohh... Ég hataði leyniklúbbinn! Þið voruð alltaf eitthvað að pískra og hlæja, en snarþögnuðuð svo þegar ég nálgaðist. Ekki ertu að tala um það? Ef svo er, að þá var frekar fyndinn misskilningur í gangi; ég hélt nefnilega alltaf að þið væruð að tala um mig.. En hugsa sér, svo voruð þið bara að yrkja. Hahaha... en fyndið!

Árni: Mikið er ég glaður að fá jákvætt fídbakk frá slíkum andans manni sem þú ert. Og þú tekur Hljóma og Trúbrot sem dæmi um menn sem miða ekkert of hátt. Því er ég sammála. En það skiptir engu máli hve hátt þeir miða, þeir gera þetta vel. Og á vissan hátt er einfaldur og heilsteyptur texti mun dýpri en ,,djúpur" og illskiljanlegur texti. Léttan textann skilur maður fullkomlega og nær þ.a.l. ákveðinni tengingu við hann. Og svo sér ímyndunaraflið oft um að fylla inn í eyðurnar, setur lagið jafnvel í samhengi við eigin reynslur, og skyndilega er það orðið mjög djúpt og þrungið merkingu.

Annars hef ég alltaf tekið Birni með fyrirvara. Hann gefur sig út fyrir að vera töffari, en það hefur alltaf farið öfugt ofan í mig. Ég sé bara ósköp venjulegan mann rembast og rembast í einhverri kjánalegri sjálfsblekkingu. Hann er ekki nógu sannur. Hvernig getur fólk ekki séð í gegn um hann? En það er kannski lítið að marka mig, ég hef sömu tilfinningu fyrir Halldóri Laxness og hann fékk Nóbelinn (hvernig gat sænska akademían ekki séð í gegn um þennan rembing?).

Kriz: Þetta er góður punktur hjá þér. En, æ, ég veit ekki. Ég tengi þetta orð aðrir samt við börnin. Og ef við prófum að sleppa börnunum, segjum að lagið byrjaði svona:

Aðrir minna þroskaðir menn, vor'að grams'í mínum einkamálum.

Samt næ ég ekki að tengja aðrir við söngvarann. Æ, ég veit ekki. Þetta er samt alveg rétt hjá þér. Það má alveg verja þennan leirburð eins og þú gerir.

miðvikudagur, 05 apríl, 2006  
Anonymous Nafnlaus said...

Ljóð um konung hljóta að hafa verið ort uppi á háalofti útskriftarferð 6.Y í sumarbústaðnum mínum. Það voru að vísu aðallega einhvern níð um Ölla, ef ég man rétt...

miðvikudagur, 05 apríl, 2006  
Blogger T said...

J: Já, auðvitað er ég að tala um leyniklúbbinn, lúðinn þinn. Hahaha... Jói Lúði... muniði eftir því strákar? Hahahahahaha...

K: Ég man samt ekki betur en að Ölli hafi verið kóngur í öllum ljóðunum.

miðvikudagur, 05 apríl, 2006  
Blogger Jói Ben said...

Níð um Ölla? Ölla, vin minn...? Nei þessu trúi ég ekki. Mér finnst líklegra að þetta hafi verið einhvers konar lofkvæði, þar sem Ölli er hafður í líki kóngs til þess að undirstrika göfuglyndi hans og gæsku.


Annars hef ég verið að fást mikið við hækur undanfarin misseri. Læt eina flakka hér:

Hvar er þitt hirðfífl,
Ölli kóngur?

fimmtudagur, 06 apríl, 2006  
Blogger Geir said...

Ég hef mikinn áhuga á íslensku máli en las færsluna samt ekki. Aha!

föstudagur, 07 apríl, 2006  
Blogger Jói Ben said...

Þú ert nú meiri karlinn! Maður veit aldrei hverju þú tekur upp á næst. Geir, Geir, Geir...

sunnudagur, 09 apríl, 2006  
Anonymous Nafnlaus said...

Björn Jörundur er kókhaus kókhaus!

-Heiða

fimmtudagur, 27 apríl, 2006  
Anonymous Nafnlaus said...

Jói, mér þikir gæta öfundar hjá þér í þessum skrifum.

Björn er jú hornsteinn nýdanskrar sem er jú hornsteinn íslenskrar dægurtónlistar.

þú ert að misskilja textann. ef þú hlustar betur á lögin, þá nærðu heildarmindinni.

fínn pistill samt. Dálítið bitur, en samt krúttlegur.

Björn Jr.

fimmtudagur, 27 apríl, 2006  
Anonymous Nafnlaus said...

Börn eru líka menn (manneskjur). Yfirleitt eru þau minna þroskaðar manneskjur (menn) en þær sem eldri eru. Þó eru ekki allir þeir sem eru fullorðnir jafn þroskaðir - sumir eru nefnilega minna þroskaðir en meðalmaðurinn (manneskjan). Því er í lagi að segja: "Börn, og aðrir minna þroskaðir menn". Einnig mætti segja: "Björn, og aðrir minna þroskaðir menn"...........

sunnudagur, 30 apríl, 2006  

Skrifa ummæli

<< Home