fimmtudagur


Datt maður ekki inn í íslenskt þjóðfélag á frekar óheppilegum tíma? Íbúðarverð fór til fjandans, rétt áður en ég flutti heim frá Danmörku. Og í Mogganum segir, að skuldir Reykvíkinga séu 1.050.000 á mann. Þetta er ekkert ósvipað erfðasyndinni. Maður geldur fyrir skuldasöfnun forfeðra sinna. Uss suss suss... Þetta er ekki alveg nógu gott.

Það er líka gaman að fylgjast með stjórnmálaflokkunum núna, svona þegar þeir eru að læðast af stað í kosningabaráttuna. Exbé (Framsókn) vill byggja flugvöll á Lönguskerjum. Svo spyrja þeir ögrandi: Ertu með? Dagur og félagar í Samfylkingunni vilja leggja Sundabraut í jarðgöng. Já, hvers vegna ekki?

Æ, ég skal ekki segja. Báðar hugmyndirnar hljóma eins og mjög dýrt ævintýri. Loforð sem eru búin til og gefin af fávitum, fyrir fávita. Svo getur líka verið að þeir ætli sér aldrei að efna þessi loforð. Rétt eins og þegar Framsóknarflokkurinn lofaði eiturlyfjalausu Íslandi árið 2000. Hvernig er hægt að lofa þessu?

Nú bíð ég eftir útspili Sjálfstæðisflokksins. Hvernig ætla þeir að fanga ævintýramennina? Þeir gætu til dæmis lofað því, að breikka götur borgarinnar þannig að svifnökkvar geti flotið á þeim (það væri reyndar svoldið töff). Eða kynna til sögunnar nýja ofur-lögregluþjóna sem nota svifnökkva til að fanga glæpamenn. Þessir ofur-lögregluþjónar væru líka vélmenni (sem er reyndar líka frekar töff). Nei, bara hugmynd.

Jæja, hvað sem verða vill, held ég að ég kjósi þann flokk sem lofar minnstum ævintýrum. Ég vil frekar að peningurinn fari í eitthvað annað sem skiptir mig máli. Til dæmis í mig.